Fjölmiðlajöfurinn Rubert Murdoch íhugar að styðja Boris Johnson [borgarstjóra í Lundúnum] til að taka við af David Cameron [forsætisráðherra Breta] sem formaður Íhaldsflokksins. Þannig hefst frétt í breska blaðinu Guardian í gær, 2. ágúst.
Ég minni á að Tony Blair, þáverandi formaður Verkamannaflokksins, komst til valda sem forsætisráðherra Breta vorið 1997 fyrir tilstuðlan Ruberts Murdoch, sem beitti blaði sínu the Sun gegn því að Tony Blair myndi ekki láta verða af lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum sem til stóð þá vegna vaxandi uggs um áhrif fjölmiðlajöfra á pólitíska umræðu og almenna skoðanamótun. Um þessi tengsl vissu ýmsir um strax í upphafi (sjá bók mína Journalism Worthy of the Name (útg. 2005), bls. 352 – en þau eru fyrst núna að vekja almenna athygli samanber umfjöllun Guardian. Enda var það lengi vel illa þokkað að hafa orð á ítökum fjársterkra aðila í fjölmiðlum og stjórnmálum – og er enn, því miður!
Lance Price fyrrum almannatengill Blair kallar Rubert Murdoch 24. ráðherrann í ríkisstjórn Blair. (Guardian 28. maí 2012).
Alastair Campell sem var blaðafulltrúi Tony Blair frá 1997 til 2003 segir í dagbókarskrifum sínum að Rubert Murdoch hafi gengið í lið með bandarískum stjórnvöldum til að hraða þátttöku Breta í Írakstríðinu en hann hafi beitt Tony Blair miklum þrýstingi viku áður en breska þingið samþykkti að senda herlið til Írak í mars 2003 (Guardian 15. júní 2012).
Enn eitt dæmið um ógnvænleg áhrif sem fjársterkir aðilar hafa á stjórnvöld í gegnum fjölmiðla – en slík valdbeiting var rauði þráðurinn í doktorsritgerð minni 2003 og bók sem kom út hjá Kluwer Law International 2005.