Á aðalfundi Feneyjanefndar daga 2. og 3. júlí voru samþykkt tvö álit sem undirrituð vann að. Annað álitið sneri að því hvort breytingar á ýmsum lögum í Rússlandi varðandi svokallaða “foreign agent” löggjöf stæðist alþjóðleg viðmið og mannréttindasamninga sem rússnesk yfirvöld eru skuldbundin að virða. Þetta er þriðja álitið sem Feneyjanefnd lætur frá sér varðandi þessa löggjöf sem þrengir mjög að rétti félagasamtaka og nú með nú með nýjustu lögunum, rétti fjölmiðla og einstaklinga. Fyrri álitin voru samþykkt 2014 og 2016.

Fyrstu “foreign agent”-lögin voru sett 2012 og síðan hafa verið gerðar frekari breytingar sem miða að því að þrengja frelsi félagasamtaka sem hafa notið fjárframlaga erlendis frá. Þeim var fyrst gert skylt með lagabreytingum 2012 að skrá sig sem erlenda útsendara (foreign agent) – sem er mjög neikvæður stimpill og undirgangast opinbera endurskoðun á reikningshaldi. Síðari breytingar á lögunum sneru að fjölmiðlum sem nutu fjárstuðnings erlendis frá.

Umfjöllun um nýtt álit nefndarinnar sem þingmannasamkunda Evrópuráðs kallaði eftir má sjá hér. Meðhöfundar að þessu áliti eru Veronika Bilkova, Angelika Nussberger og Jan Valaers. Feneyjanefndin varaði sérstaklega við fælingarmætti laganna á borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi einstaklinga, félagasamtaka og fjölmiðla – og hvatti rússnesk stjórnvöld til að afturkalla ákveðna þætti laganna sem snúa að skyldu til að skrá sig sem erlendendan útsendara og frekari kvöðum og að öðrum kosti að endurskoða heildarlöggjöfina með því að þrengja skilgreininguna á “erlendum útsendara” – sem nú er undirorpið svo víðtækri túlkun að átt getur við einstakling sem fær sendan fjárstyrk frá ættingja í öðru landi. Þá er refsiramminn strangur og langt út fyrir meðalhóf í réttarríki.

Hitt álitið sem ég vann að og samþykkt var á fundinum sneri að nýsettum lögum í Tyrklandi sem ætlað er að stemma stigu við fjármögnun hryðjuverka og dreifingu gereyðingavopna. Lögin bitna þó einna helst á félagasamtökum og leiðum þeirra til fjáröflunar. Meðhöfundar að álitinu eru Pieter van Dijk og Cesare Pinelli.

I