by Herdís Þorgeirsdóttir | 13.05.2012 | Mannréttindi & pólitík

Fyrir framan verk Jóns Óskars í vinnustofu hans og Huldu Hákon í Vestmannaeyjum.
Hulda Hákon var leiðsögumaður minn en hún og Jón Óskar eru með vinnuaðstöðu og íbúð í Skvísusundi en svo er sund eitt kallað þar sem strákar hittu stúlkur eftir böll á árum áður. Þarna hafa þau haft aðstöðu í sextán ár og Hulda þekkir nánast allt og alla í Eyjum.
Við hófum daginn á heimsókn í Godthaab í Nöf, sem var stofnað 15. október 2001. Var þá hafin vinna við að gera upp húsnæði félagsins en þar hafði áður verið starfrækt saltfisk og skreiðarverkun til að gera allt klárt fyrir matvælaframleiðslu. Starfsmenn voru í upphafi um 20 en eru nú að nálgast 100 og unnið er úr 4000 tonnum af hráefni á ári. Harðfiskurinn sem þær framleiða er afar góður. Við ræddum við tvo af eigendunum Einar Bjarnason og Jón Svavarsson sem sýndu okkur fyrirtækið. Áttum síðan góða stund með starfsfólki í kaffihléi.

Með starfsstúlku í Godthaab í Nöf.
Hvar sem við fórum í Vestmanneyjum skynjar maður kraftinn, sjálfsbjargarviðleitnina og lífsgleðina. Pólskur starfsmaður á kaffihúsi sagði okkur að honum fyndist veturinn erfiður en svo lifnaði allt við þegar voraði.
Við fengum okkur kaffi í Skýlinu og hlustuðum á kliðinn í fýlnum sem er löngu sestur upp í klettinn. Skýlið er hlýlegur kaffistaður við höfnina þar sem N1 rekur bensínstöð. Eigandinn smyr sjálf samlokurnar og afgreiðir alla með bros á vör. En þarna koma margir á morgnana til að ræða landsins gagn og nauðsynjar. Sá sem er með myndavélina er félagi í mótórhjólasamtökum Vestmanneyinga, Drullusokkunum.

Við hittum fyrir nokkra reynda sjómenn fyrir utan Klett.
Það var gaman að heimsækja Skipalyftuna við höfnina en það blómlega fyrirtæki er fyrst og fremst plötusmiðja og véla- og renniverkstæði auk þess að halda úti lager og verslun með vörum tengdum sjósókn og veiðum. Hittum fyrir marga hressa starfsmenn og fengum hjá þeim kaffi.
Við gengum meðfram sjávarsíðunni í morgunsólinni á föstudag og skoðuðum minnismerkið á Þrælaeiði en árið 1904 komust Vestmannaeyjar í símasamband við umheiminn. Það er til marks um dugnað og sjálfsbjargarviðleitni Eyjamanna þegar Rit- og talsímafélag Vestmannaeyja dró þar sæstreng á land aðeins fimm árum eftir að Ísland tengdist umheiminum.

Herdís við bátinn Blátind VE 21 frá 1947
Við skoðuðum einnig bátinn Blátind VE 21 sem var smíðaður í Vestmannaeyjum 1947. Hann er smíðaður úr eik og nokkrir áhugamenn í Vestmananeyjum sem vilja varðveita gömul skip og báta hafa í hyggju að gera upp þennan fallega, gamla bát.
Það er mikilfenglegt að sjá stóru gámaskipin í höfninni og ljóst að það er mikill kraftur í Vestmannaeyjum. Við heimsóttum mörg fyrirtæki og verslanir í bænum og mættum alls staðar góðu og hlýlegu viðmóti.

Starfsmenn Skipalyftunnar.
Við fórum í sundlaugina í Brimhólalaut þar sem er búið að fjölga mjög heitu pottunum frá því að ég kom þarna síðast með strákinn minn á handboltamót. Þá heimsóttum við starfsfólk í Sparisjóðnum, endurskoðunarskrifstofu Deloitte, við fórum í Vöruval, sem er í skemmtilegu kúluhúsi og skoðuðum frábæra ljósmyndasýningu af Eyjum fyrir gos í kaffihúsinu Vinaminni.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 9.05.2012 | Mannréttindi & pólitík
9. maí, 2012 herdis.is Í dag ákallaði GRECO, hópur 46 ríkja innan Evrópuráðsins sem berst gegn spillingu aðildarríki að tryggja gagnsæi varðandi fjárframlög í kosningabaráttu. Íslandi sem er aðili að Evrópuráðinu síðan 1950 er einnig þátttkandi í GRECO.
Þrátt fyrir að ríki haf
i sett lög og reglur um fjárframlög eru ýmsar gloppur á slíku regluverki og auðvelt að komast í kringum þau. Varað er við alls konar gjöfum, gjöldum fyrir þá sem eru stuðningsmenn að framboðum, lánum og styrkjum. Upplýsingar um fjárframlög eru hvorki nógu aðgengilegar né birtast þær tímanlega. Þá skortir sjálfstætt og óháð eftirlit með því hverjir styrkja framboð og með hvaða hætti. Þá eru oft væg viðurlög við brotum og brögð á því að ekkert sé aðhafst.
Gagnsæi á að sporna gegn spillingu og auka traust almennings á þeim sem eru kjörnir til valda.
Í Bretlandi voru settar reglur um fjárframlög í kosningabaráttu 1883 og þær hafa stöðugt verið hertar. Um líkt leyti sagði bandarískur þingmaður: “Það er tvennt sem skiptir máli í pólitík, peningar og . . . ég man ekki hvað hitt var“.
Nú er almennt viðurkennt að miklir peningar í pólitík séu nokkuð eitruð blanda – og ekki holl lýðræðinu.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 8.05.2012 | Mannréttindi & pólitík
8. maí 2012 herdis.is
Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins (með 47 ríki innan sinna vébanda og yfir 800 milljónir íbúa en Ísland varð aðili 1950) varaði við því þann 2. maí s.l. að fjársterkir aðilar hefðu orðið slík ítök í fjölmiðlum að þeir væru komnir með tak á kjörnum stjórnvöldum.
Hann benti á að almenningur er ekki meðvitaður um þessi tengsl fjármála, fjölmiðla og stjórnmála. Það eru fjármála- og hagsmunaöflin sem stjórna ferðinni ekki þeir sem almenningur hefur kosið til þess.
Óvissuástandið í efnahagsmálum er áhyggjuefni. En það er ekki síður áhyggjuefni að fólk sér ekki lýðskrumið og það hrun sem hefur orðið á þeim gildum sem við viljum byggja samfélag okkar á.
Fólk vantreystir stjórnmálamönnum. Eingöngu með því að rjúfa tengslin á milli hagsmunaðila og kjörinna stjórnvalda getum við byggt upp heilbrigt lýðræði.
Lýðræðið er í hættu. Þeir einu sem geta komið því til bjargar eru almennir borgarar. En almennir borgarar geta líka átt þátt í því að tortíma lýðræðinu með því að kjósa yfir sig öfl sem eru ekki bundin verðleikum heldur hagsmunum.
Þeir sem gleyma fortíðinni endurtaka mistökin.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 6.05.2012 | Mannréttindi & pólitík
(06.05.2012 herdis.is) Páll Skúlason prófessor í heimspeki hvetur til umræðu um forsetaembættið á vefsíðu Egils Helgasonar í dag. Hann segir m.a. um forsetann:
„Ef forsetinn nýtur ekki trausts alls þorra þjóðarinnar getur hann ekki gegnt hlutverki sínu með þeim hætti sem hlutverkið krefst. Þá sameinar hann okkur hvorki inn á við né út á við . . .“
Af þessu tilefni vil ég taka fram örstutt:
Á meðan við búum við óbreytta stjórnskipun og Alþingi Íslendinga nýtur ekki trausts nema hjá broti af þjóðinni (þingmaður lýsir ástandinu þar sem „helsjúku“) þá er embætti forseta Íslands hvorki úrelt né óþarft. Það er nauðsynlegt að það embætti skipi manneskja, sem er hvorki hluti af flokkakerfinu né tengd hagsmunaöflum í samfélaginu. Eingöngu slíkur einstaklingur getur notið trausts meðal þjóðarinnar. Eingöngu slíkur einstaklingur getur notið trúnaðar alls Alþingis en ekki aðeins hluta þess. Gagnvart stríðandi öflum í samfélaginu gildir hið sama.
Meira síðar.
Kær kveðja,
Herdís Þorgeirsdóttir
by Herdís Þorgeirsdóttir | 4.05.2012 | Mannréttindi & pólitík
Erindi Herdísar Þorgeirsdóttur á Lagadegi 2012 á Hótel Nordica – aðalmálstofa kl. 12.00
Í fyrradag – á alþjóðlegum degi fjölmiðlafrelsis – 2. maí – vakti aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Thorbjörn Jägland, athygli á þeirri hættu sem lýðræðissamfélögum stafar af fjársterkum aðilum þegar þeir beita fjölmiðlum til að hafa áhrif á stjórnvöld. Hann benti á það hvernig þeir nota ítök sín í fjölmiðlum til framdráttar fjárhagslegum hagsmunum sínum og að almenningur hafi yfirleitt enga vitneskju um það hvernig þessum tengslum– milli fjársterkra aðila – fjölmiðla – og stjórnvalda er háttað.

Íslenskir sjómenn við störf. Umræðu í fjölmiðlum um fiskveiðistjórnunarkerfið má ekki vera stjórnað af fjársterkum hagsmunaaðilum.

Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Thorbjörn Jägland, varar við því að fjársterkir aðilar noti fjölmiðla til að hafa áhrif á stjórnvöld. Ísland hefur verið aðili að Evrópuráðinu síðan 1950 og Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur verið lögfestur hér á landi.
Þar sem tjáningarfrelsið er grundvallarréttur og sjálfstæðir fjölmiðlar lífsnauðsynlegir lýðræðinu benti aðalframkvæmdastjórinn á það að kjörnum valdhöfum beri skylda til að tryggja að blaðamenn geti sinnt starfi sínu án ótta við utanaðkomandi þrýsting.
Þennan sama dag – sagði Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari Alþingis að hún væri ósátt við að Landsdómur hefði ekki sakfellt Geir Haarde fyrir brot á 141. gr. almennra hegningarlaga þar sem dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að sannað teldist að stórfelld hætta hafi steðjað að íslenskum fjármálastofnunum og heill ríkisins frá 7. febrúar 2008 og að Geir Haarde hafi hlotið að vera sú hætta ljós. Á honum hafi hvílt athafnaskylda og í ljósi þess skyldi hún ekki hvers vegna dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að þáverandi forsætisráðherra hafi bakað sér refsiábyrgð.
Fjölmiðlar eru hins vegar ekki taldir bera ábyrgð að lögum hafi þeir deilt þessari vitneskju með stjórnvöldum á þessum tíma. Hverju hefði það breytt ef íslenskir fjölmiðlar hefðu í apríl 2008 hafið öfluga umræðu um ástandið og knúið stjórnvöld til svara og þar með hugsanlega til aðgerða?
Á fjölmiðlum hvílir einnig athafnaskylda á grundvelli 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins. En þeirri spurningu er sjaldnast svarað hvað fjölmiðlar láti ósagt – og hverjar eru afleiðingar þess fyrir lýðræði, mannréttindi og réttarríki.
Það er algengara að spurt sé hvort þeir megi fara yfir strikið eins og til dæmis í umfjöllun um dómsmál sem skaðað geta traust almennings á dómstólum – en að spurt sé hvort þeir gangi nógu langt í að upplýsa almenning. Um það sem þagað er um er ekki spurt.

Dustin Hoffman og Robert Redford í myndinni um blaðamennina sem komu upp um Watergate hneykslið. Uppljóstrarinn í myndinni gekk undir nafninu Deep Throat. Hann sagði við þá: "Follow the Money" - rekið slóð peningana.
Fjölmiðar eiga að heita varðhundar almennings. Í máli Sunday Times gegn Bretlandi 1979 reyndi á það sem á ensku er kallað „contempt of court“ (óvirðing við réttinn). Sú reglar vísar til þess að fjölmiðlar geti með umfjöllun haft áhrif á meðferð mála fyrir dómstólum, þeir geti haft áhrif á dómara, vitni eða jafnvel afstöðu almennings til annars málsaðila áður en niðurstaða er fengin í málið. Skiptir þar engu hvort það sem sagt er sé rétt. Réttarhöld eiga samkvæmt þessari reglu ekki að eiga sér stað í fjölmiðlum.
Ef nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi til að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla er heimilt að setja tjáningarfrelsi fjölmiðla skorður.
Í mati á því hvort brýna nauðsyn hafi borið til að setja lögbann á umfjöllun Sunday Times í þessu máli kynnti Mannréttindadómstóll Evrópu til sögunnar þau viðmið sem síðan hafi orðið að meginreglum um tjáningarfrelsi fjölmiðla:
– Þar sem tjáningarfrelsið er hornsteinn lýðræðisins nær vernd þess einnig til upplýsinga og hugmynda sem valda usla, móðga og koma fólki í uppnám.
Þessi regla er mikilvæg þegar fjölmiðlar eiga í hlut og hún er einnig mikilvæg varðandi réttláta málsmeðferð sem þjónar hagsmunum samfélagsins í heild og byggir á því að almenningur sé rétt upplýstur og treysti dómstólum en þeir geta ekki frekar en aðrar stofnanir samfélagsins starfað í tómarúmi. Það er ekki hægt að gera kröfu um það að engin umræða eigi sér stað um mál fyrir dómi.
– Fjölmiðlar mega ekki fara yfir strikið í umfjöllun um dómsmál en þeim ber skylda til að miðla áfram til almennings upplýsingum og hugmyndum um mál sem eru til meðferðar hjá dómstólum rétt eins og á öðrum sviðum samfélags sem hafa áhrifa á almannahagsmuni. Það er ekki aðeins skylda fjölmiðla að miðla áfram upplýsingum og hugmyndum heldur er það einnig réttur almennings að móttaka slíkt.

Mannréttindadómstóll Evrópu.
Í þessum dómi var lagður grundvöllur að þeirri athafnaskyldu sem Mannréttindadómstóll Evrópu telur hvíla á stjórnvöldum til að tryggja sjálfstæða og óháða fjölmiðlun í þágu lýðræðisins.
Mikilvægast er að tryggja á hverjum tíma öfluga umræðu um þjóðfélagsmál – sem vísað er í sem „pólitíska umræðu“ –þar með talin mál á vettvangi dómstóla – enda er það sjónarhorn orðið ráðandi í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Upplýst umræða, þótt gagnrýnin sé, er frekar til þess fallin að auka traust á dómstólum en að rýra það.
Feneyjarnefnd Evrópuráðins hefur í nýrri skýrslu um réttarríkið greint helstu undirstöðuþætti réttarríkisins en þeir eru:
- Lögmæti þar með gagnsætt, ábyrgt og lýðræðislegt ferli lagasetningar;
- Að lögin séu skýr og aðgengileg;
- Bann við gerræðislegri beitingu valds;
- Réttur til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum og þar með endurskoðun dómstóla á stjórnsýsluathöfnum;
- Virðing fyrir mannréttindum;
- Jafnræði fyrir lögum.
Feneyjarnefndin telur brýnt að þegar undirstaða réttarríkisins er skilgreind verði sviðið víkkað vegna breyttra valdahlutfalla í nútímasamfélögum – áhrif einkaaðila eru orðin slík fyrir tilstuðlan einkavæðingar víða og í krafti mikils auðs – að koma verður í veg fyrir að þeir geti skert grundvallarmannréttindi með sama hætti og stjórnvöld – enda má ekki á milli sjá hvor eru valdameiri stjórnvöld eða fjársterkir aðilar í viðskiptalífinu. Þess vegna leggur Feneyjarnefndin áherslu á mikilvægi öflugrar pólitískrar umræðu fyrir réttarríkið.

Vinnuhópur skilaði skýrslu um siðferði í viðskiptum sagði að vald í krafti auðs hefði safnast á fárra hendur.
Vinnuhópur um siðferði, sem skilaði skýrslu eftir hrun og birt var sem viðauki við Rannsóknarskýrslu Alþingis sagði íslenska stjórnmálamenningu „vanþroskaða og andvaraleysi ríkjandi gagnvart því hvernig vald í krafti auðs hefði safnast á fárra hendur og ógnað lýðræðislegum stjórnarháttum“. Skýrslan greinir frá auknum þrýstingi viðskiptalífsins í að hafa áhrif á stefnumótun og lagasetningu, ekki síst í kjölfar einkavæðingar. Einnig eru staðfest afskipti stórfyrirtækja og stjórnvalda af fjölmiðlum en fjölmiðlamenn veigruðu sér við að fara út í einstök mál, samkvæmt skýrsluhöfundum, af ótta við starfsmissi.
Í samfélögum sem er stjórnað í krafti auðs – er eignarhald á helstu fjölmiðlum gjarnan í höndum örfárra. Þar sem flestir fjölmiðlar eiga erfitt uppdráttar á eigin viðskiptaforsendum eru þeir auðveld bráð fyrir fjársterka aðila.
Þeir hinir sömu geta því stjórnað vettvangi hinnar pólitísku umræðu – útilokað gagnrýni og krefjandi spurningar – og stjórnað því hverjir fá aðgang að svokölluðu „markaðstorgi hugmyndanna“.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í slíku samhengi vísað í Hæstarétt Bandaríkjanna um samlíkinguna við „þorpið sem er í eigu fyrirtækisins“ – ef um er að ræða fjölmiðlaumhverfi þar sem aðgengi og úrræði til að ná til fjöldans í gegnum fjölmiðla er takmarkað vegna þröngs eignarhalds.
Samkvæmt dómstólnum hvílir athafnaskylda á ríkinu að grípa til aðgerða til að tryggja fjölmiðlaumhverfi þar sem ríkir fjölræði og fjölbreytni og þar sem þátttaka í umræðu um mikilvæg mál er opin öllum hlutaðeigandi og að þeir geti tjáð skoðanir og hugmyndir – án ótta. Athafnaskylda ríkisins nær einnig til þess að tryggja tjáningarfrelsi í samskiptum einkaaðila samkvæmt nýjum dómi þar sem einkafyrirtæki sagði upp starfsmönnum sem höfðu haft uppi gagnrýnin skrif.

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest mikilvægi öflugrar pólitískrar umræðu.
Hæstiréttur Íslands staðfesti nýlega mikilvægi pólitískrar umræðu í dómi þar sem þekktur knattspyrnumaður hafði stefnt DV vegna umfjöllunar um fjármál hans. Þar taldi Hæstiréttur tjáningarfrelsið ganga framar friðhelgi einkalífs enda umræðan tengd áhættusækni fjárfesta í aðdraganda hrunsins en afleiðingar þess hefðu haft víðtæk áhrif á almannahagsmuni.
Pólitísk umræða er háheilög í túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu. Engin bönd má leggja á hana nema brýna lýðræðislega nauðsyn beri til. Engu að síður er þessi umræða oft í fjötrum – þar sem jafnvel nokkrir einstaklingar hafa fjöregg lýðræðisins í höndum sér.
Sem dæmi um mál sem kallar á öfluga pólitíska umræðu í íslensku samfélagi er fiskveiðistjórnunarkerfið. Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands heldur því fram að núverandi ríkisstjórn geti ekki fylgt eigin stjórnarsáttmála undir yfirskriftinni „þjóðareign og mannréttindi“ þegar kemur að fiskveiðistjórnuarkerfinu vegna valds hagsmunaðila. Vert er í því samhengi að spyrja um tengsl fjölmiðla við hagsmuni á þeim vettvangi.

Fólk vottar hinni myrtu blaðakonu, Önnu Politkovskaya virðingu sína, áður en hún var jarðsett í Moskvu.
Ef vald í krafti auðs stýrir umræðunni, eins og aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins varaði við í fyrradag – er lýðræðinu ógnað, mannréttindum og réttarríkinu sjálfu. Í Rússlandi Pútins ráða oligarkar ferðinni; blaðamenn sem hafa gagnrýnt spillingu hafa verið myrtir og borgaraleg og stjórnmáleg réttindi eru oft fótum troðin. Á Íslandi fyrir hrun ríkti andvaraleysi gagnvart valdi í kafti auðs sem ógnaði lýðræðislegum stjórnarháttum eins og getið er í viðauka við Rannsóknarskýrslu Alþingis. Spyrja má hvort það andvaraleysi ríki enn? Og hvert það muni þá leiða.
Watergatehneykslið er eitt frægasta dæmið um rannsóknarblaðamennsku sem þekkt er – þar urðu tveir ungir blaðamenn til þess að forseti Bandaríkjanna þurfti að segja af sér vegna fjármálahneykslis. Merkilegur er þáttur uppljóstrarans í því máli en hann benti blaðamönnunum á að rekja slóð peningana. Sú ábending á enn við ef pólitísk umræða á vettvangi fjölmiðla á að þjóna lýðræðinu.
Reykjavík, 4. maí 2012
Herdís Þorgeirsdóttir