Gleði á kosningamiðstöð og hringur í kringum landið.
Við fylgdumst með skrúðgöngunni fara niður Laugaveginn í dag. Skátarnir og lúðrasveitin standa alltaf fyrir sínu. Katla Margrét, Magnús Diðrik og Ævar ( hljómsveitin Rjómar) tóku nokkur vel valin lög fyrir utan kosningamiðstöðina í dag. Guðrún Ásmundsdóttir leikkona flutti ræðu og minntist þeirra tveggja forseta sem hún átti þátt í að aðstoða þegar á þeirra baráttu stóð: Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur. Guðrún rifjaði upp hvernig stuðningsmenn Kristjáns fylltust eldmóði þegar einn þeirra sagði þeim frá draumi sínum nokkru fyrir kosningar en sá draumur sýndi Kristján fara niður skíðabrekku og bruna upp aftur. Hún rifjaði einnig upp framboð Vigdísar sem var dáður leikhússtjóri og leikararnir fylgdu henni flestir og urðu afar glaðir þegar hún var kosin.
Margir litu við og þáðu kaffibolla og nýbakaðar vöfflur. Meðal þeirra sem kíktu við var Anna Einarsdóttir, dóttir Einars Ásmundssonar fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins og færði hún frambjóðandanum bókina Jón Forseti Allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andliti til samtíðar. Bókin er eftir Pál Björnsson sagnfræðing og kom út 2011. Frambjóðandinn ætlar að lesa bókina á leið sinni vestur á firði sem hefst síðdegis en þá hefst hringferð Herdísar um landið.
Við verðum í stöðugu sambandi við ykkur.
Gleðilega þjóðhátíð!
Það verður mikið um að vera á kosningamiðstöðinni á Laugavegi 87 í dag. Hljómsveit Kötlu Margrétar, Rjómar, verður með tónleika sem hefjast kl. 13.00. Okkar ástsæla leikkona, Guðrún Ásmundsdóttir verður með uppistand. Boðið verður upp á kaffi og nýbakaðar vöfflur með sultu og rjóma.
Allir stuðningsmenn velkomnir.