Ávarp við opnun Tengslanets-ráðstefnu II – Völd til kvenna

Ávarp Dr. Herdísar Þorgeirsdóttur prófessors við setningu ráðstefnunnar Tengslanet – II: Völd til kvenna: Fjármál, frami, fjölskyldur – 27. maí, 2005. © “Mein Herz brennt” Velkomnar á aðra tengslanets-ráðstefnu sem haldin er á Íslandi á 21. öldinni– frábært að hitta ykkur aftur og sumar í fyrsta sinn en vonandi ekki það síðasta. Tengslanetið er í raun og veru staðfesting á því að konur eru að gera sér betur og betur grein fyrir því að það færir okkur enginn völdin – VIÐ VERÐUM AÐ TAKA VÖLDIN SJÁLFAR. Maureen Reagan (dóttir Ronalds Reagan forseta Bandaríkjanna) sem kom til Íslands fyrir mörgum árum og sat fund með íslenskum konum um jafnréttismál sagði: “Mér finnst jafnrétti vera náð þegar konur eru komnar til valda sem eru eins vonlausar og margir karlar sem eru þar fyrir!” Fyrsta tengslanets-ráðstefnan sendi frá sér ályktun þar sem skorað var á stjórnendur íslenskra fyrirtækja að taka þegar til við að leiðrétta rýran hlut kvenna í stjórnum og æðstu stjórnunarstöðum innan fyrirtækjanna enda hafi konur aflað sér menntunar og reynslu sem atvinnulífið hefur ekki efni á að vannýta með þeim hætti sem nú er gert. Þó að við höfum ekki beitt okkur fyrir því að upplýsingar um árangur einstakra fyrirtækja yrði birtur opinberlega, eins og til stóð, er ljóst að ýmislegt hefur gerst á síðasta ári sem er vísbending um breytingar. Kraftmikil femínísk umræðu í þjóðfélaginu – í háskólum – félagasamtökum og meðal kvenna í öllum aldurshópum og á hinum fjölbreyttustu sviðum samfélagsins – hefur örugglega átt þátt í því að í fyrsta sinn er kona rektor Háskóla Íslands; kona sem er fyrirlesari hér í dag er Þjóðleikhússtjóri; konur hafa nýlega verið ráðnar forstjórar stórfyrirtækja og hér er kona sem situr í stjórn nokkurra stórfyrirtækja –– hér er líka kona sem vann mál fyrir hæstarétti sem markar tímamót í baráttu gegn launamuni – og hér eru margar fleiri sem hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir störf sín en eðli máls samkvæmt eru hér einnig hugsanlega of margar konur, sem hafa ekki fengið þá umbun og virðingu sem þær eiga skilda. Loks má ekki gleyma því að einn fyrirlesari frá því á fyrsta tengslanetinu er nýkjörin formaður annars stærsta stjórnmálaafls landsins – þungavigt í heimi karlanna eins og þeir segja með lotningu sjálfir. Harvardprófessorinn og ofurhippinn Timothy Leary sagði: “Konur sem sækjast eftir jafnrétti við karlmenn skortir metnað!” Ég veit ekki hvort hann hefur öðlast þess sýn 2 á sýru-trippi en hann var eins og kunnugt er ötull talsmaður LSD – eða hvort hann hefur bara verið gæddur miklu innsæi. En það sem mest er um vert – við erum komnar hingað saman – til að halda áfram baráttunni því hana heyr enginn annar fyrir okkur! Svona ráðstefna er stökk í baráttunni sem öðru jöfnu er skref fyrir skref barátta: tvö áfram og eitt aftur á bak. Það er samt breyttur tónn í þjóðfélaginu. Jafnréttismál eru í tísku, þau eru ekki afgreidd sem eitthvert “kerlingavæl” en félagsmálaráðherra sagði mér að hann hefði verið kallaður “kellingakjaftur” upp á færeysku þegar hann var í Færeyjum að ræða íslensku fæðingarorlofs-lögin í vetur. Jafnréttismál eru ekki mjúk mál heldur dauðans alvara sem varða alla – frelsi konu er frelsi manns og það hvernig konum reiðir af hefur úrslitaáhrif á hvernig börnum reiðir af og því hvernig þjóðfélaginu reiðir af sem og heiminum öllum. En fordómarnir eru víða. Skáldkonan Margaret Atwood setti fram þessa spurningu: “Er femínisti brussuleg, óaðlaðandi og hávær kona eða sú/sá sem trúir því að konur séu líka manneskjur? Ég fylki mér í flokk þeirra sem taka undir síðari kostinn,” sagði hún og ég tek undir með henni. Baráttan um völd til kvenna er mannréttindabarátta sem skilar sér ef árangur næst til barna og allra annarra í samfélaginu. Og hver eru verkefnin sem bíða okkar núna út næstu öld? Þau eru að halda áfram baráttunni á grundvelli hins lagalega ramma, jafnréttislaga, evrópskra tilskipana, stjórnarskrár og almennra mannréttinda – og skapa konum enn betri vígstöðu til að ná rétti sínum. Mörg af þeim málum sem eru mikilvæg verða rædd hér í dag svo sem launajafnrétti og samræming fjölskyldulífs og hinnar hörðu samkeppni á vinnumarkaði. Þessi mál brenna á konum en maður heyrir aldrei karlmenn örvænta yfir því hvernig þeir eigi að samræma vinnuna og fjölskyldulífið. Við skulum ekki láta málamyndajafnræði villa okkur sýn eins og útlenda blaðamanninum, sem kom til Burma og tók eftir því konurnar gengu allar á undan körlunum – eftir aldalanga undirokun. Hann spurðist náttúrulega fyrir um þetta og fékk svarið: “Þetta er jarðsprengjusvæði frá því í stríðinu!” Það er ekkert fengið með lögum sem stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði þegar konur axla enn þá hitann og þungan af barnauppeldi og heimili. Það eru önnur mál og ekki síður brýn! Eitt er að berjast gegn klámvæðingu, sem tröllríður vestrænum samfélögum. Hvorki klám, hatursfull orðræða né misbeiting fjár til 3 að kæfa raddir annarra voru þau markmið sem tjáningarfrelsinu var ætlað að tryggja. Gloria Steinem sagði að klám fyrir konur væri eins og áróður nasista fyrir Gyðinga. Konum – og börnum líka – stafar jafn mikil ógn af því að klámvæðing sé álitin eðlilegur þáttur í samfélaginu á sama hátt og konum í ríkjum íslam af bókstafshyggju þeirrar trúar. Baráttan gegn mansali er eitt stærsta mannréttindamál samtímans – tugir þúsundir kvenna og barna eru fórnarlömb þessa nútíma þrælahalds. Jafnréttismál eru mannréttindi en mannréttindi eru ekki einhver útkjálki á einhverri hugmyndafræði heldur grundvöllur þess að hægt sé að stuðla að betra og réttlátara samfélagi og því eitthvað sem allir geta sameinast um – eða ættu að geta sameinast um. Þessi ógnvekjandi vandamál sem hér hafa verið nefnd koma okkur öllum við – samþætting jafnréttissjónarmiða, baráttan fyrir launajafnrétti og jafnri stöðu almennt hangir saman við alla baráttu á sviði mannréttinda þar sem jafnrétti er grundvallaratriði. Þeir sem berjast fyrir jafnrétti snúa aldrei baki við lýðræðislegri baráttu gegn hvers kyns harðstjórn og valdníðslu hvar sem hún er og hvernig sem hún birtist – hvort sem það er kynbundið ofbeldi, umskurður stúlkubarna, barnaklám, heimilisofbeldi – eða ofbeldi yfir höfuð. Sagan sýnir okkur að í raunverulegri mannréttindabarráttu er meira um fórnir en um sigra. Og þótt við gleðjumst yfir velgengni þeirra sem ná frama er ástandið í jafnréttismálum mælt út frá stöðu þess stóra hóps sem enn líður og enn bíður – þreyir þorrann án umbunar – jafnvel í vonleysi. Þegar sá hópur minnkar þá er hægt að tala um raunverulegan árangur. Þegar örlög stúlkna eins og Lilju heyra sögunni til en hún var fátæk stúlka úr uppflosnuðu sovésku samfélagi, sem stökk af brúnni yfir hraðbrautinni í Malmö eftir að hafa verið hneppt í kynlífsánauð. Það var karlmaður sem gerði um hana ógleymanlega kvikmynd um sem bar nafnið Lilja Forever. Ég var aðeins í hálftíma fjarlægð frá þessari brú þar sem hún skildi eftir litla máða passamynd af brúarhandriðinu sem hún stökk af. Sænski leiksstjórinn Lukas Moodysson lýsti ömurlegum veruleika kynlífsánauðarinnar með því að beina linsunni stöðugt að andliti þeirra sem voru að níðast á henni og í bland við tryllta tónlist þýsku hljómsveitarinnar Rammstein með laginu “hjarta mitt brennur” – er kynt undir allt litróf tilfinningaskalans. Karlkyns kollegar gefa gjarnan það ráð að maður eigi aldrei að biðjast afsökunar. Ég er ekki alveg sammála því en samt ætla ég ekki nú að biðja ykkur afsökunar á því að minnast á Lilju forever – sem er nokkurs konar nútíma útgáfa af litlu stúlkunni með 4 eldspýturnar – og verri útgáfa – hjarta mitt brennur þegar ég hugsa um myndina á baksíðu Sydsvenskunnar kaldan vetrardag – ljósmynd af fótsporum Lilju í moldinni í keri á himinhárri brúnni þaðan sem hún stökk. Hún skildi eftir litla mynd til þess að við myndum ekki gleyma – saga hennar er ekki afmörkuð í tíma eða rúmi – fremur en ranglætið sjálft. Og ranglætið er ekki einn afkimi í einhverjum sálarkytrum út í heimi – heldur hluti af tilverunni sem þrífst við kringumstæður sem við getum bæði mótað og breytt – og aðstæður sem eru oft nær okkur en mætti ætla – og láta ekki meira yfir sér en lítil, máð passamynd – sem aldrei nær á breiðtjaldið. Það er okkar að varpa ljósi á þennan veruleika. Styrkur okkar í jafnréttisbaráttunni – felst ekki í því hvað við gerum heldur hvað við ákveðum að gera. Ég set hér með ráðstefnuna Tengslanet –II völd til kvenna – megi hún verða næsta skref okkar í göngu til réttlátara samfélags.

Ferilskrá Herdísar

Ferilskrá Herdísar

Dr. Juris Herdís Þorgeirsdóttir er lögmaður í Reykjavík. Hún hefur víðtæka reynslu úr akademíu og atvinnulífi, starfar bæði hér og á alþjóðavettvangi. Hún var skipuð fyrsti prófessorinn við lagadeild háskólans á Bifröst 2004 og hefur einnig kennt við háskóla erlendis. Herdís lauk doktorsprófi í lögum með dr. juris gráðu (frá lagadeild Lundarháskóla 2003). Sérsvið hennar…

Curriculum vitae

Dr Herdís Thorgeirsdóttir is an attorney at law in Reykjavík. She was appointed professor of constitutional law and human rights at the Faculty of Law, Bifrost University in 2004. She is First Vice President of the Venice Commission (the Council of Europe Commission for Democracy through Law) since 2017. Since 2003 she has been a…