Internetið (veraldarvefurinn) er eign okkar allra. Fjarskiptayfirvöld í Bandaríkjunum (FCC) munu hafa uppi áform um að varpa reglum um svonefnt nethlutleysi (net neutrality) fyrir róða. Samskipti sem fara um internetið sendast á milli staða í gegnum netbúnað internetfyrirtækja (e. internet service provider, skammstafað ISP). Þessi netbúnaður er eins konar æðakerfi internetsins og sér hann um að senda alla umferð á milli notenda á sinn stað. Núgildandi reglur í Bandaríkjunum skylda internetfyrirtæki til að þess að tryggja jafnan aðgang allra að efni á internetinu og í því felst net-hlutleysið. Ef slakað er á þessum reglum fá stórfyrirtæki á fjarskiptamarkaði völd til að beina umferð notenda internetsins í þann farveg sem þjónar þeirra hagsmunum.
Þetta er stórhættuleg þróun fyrir borgara í lýðræðislegu samfélagi. Völd stórfyrirtækja og alþjóðlegs fjármagns eru nú þegar yfirgengileg. Því skýtur það skökku við að á sama tíma og áform eru uppi um að varpa nethlutleysi fyrir róða eru bandarísk stjórnvöld að reyna að koma í veg fyrir samruna AT&T og Time Warner, einmitt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir einokun á fjölmiðlamarkaði.
Internetið á að vera galopið og aðgengilegt öllum. Rúmlegar þrír milljarðar jarðarbúa reiða sig á notkun þess. Stórfyrirtæki eiga ekki að vera í hlutverki dyravarða sem hafa þá hagsmuni helsta að vinna neytendur á band auglýsenda en hundsa mikilvægi þess að borgarar geti átt samskipti á netinu og ekki síst til að eiga í lýðræðislegum skoðanaskiptum. Ef nethlutleysi er afnumið fá þessi internetfyrirtæki að stjórna umferðahraðanum um netið í þágu fárra stórra aðila og útiloka t.d. öndverðar skoðanir og eðlileg skoðanaskipti.
Segja má að sigur hafi unnist í þágu nethlutleysis í aðildarríkjum Evrópusambandsins þrátt fyrir tilraunir fjarskiptafyrirtækja til að ná sínu fram. BEREC (Body of European Regulators for Electronic Communications), samstarfsvettvangur evrópskra eftirlitsstofnana á sviði fjarskipta sendi frá sér í ágúst 2016 leiðbeiningarreglur um það hvernig hrinda eigi reglugerð um nethlutleysi í framkvæmd, sem samþykkt hafði verið í apríl 2016. Búið er að taka reglugerðina upp í EES-samninginn og mun hún taka gildi hér þegar Alþingi hefur gert viðeigandi breytingar á lögum um fjarskipti.
Markmið reglnanna er að skylda internetfyrirtæki að stjórna umferð um netið á grundvelli jafnræðis og hampa engum umfram annan. Talsmenn nethlutleysis voru fljótir að átta sig á því að stórfyrirtæki á fjarskiptamarkaði höfðu verið með fingurna í samningu reglugerðarinnar þar sem ákvæði voru óskýrt orðuð og buðu hættunni á misnotkun heim. Þessi ákvæði voru útfærð með nýju leiðbeiningarreglunum og því fullyrða helstu talsmenn nethlutleysis á þingi Evrópusambandsins að með þessu móti hafi sigur unnist í baráttunni við stórfyrirtæki á fjarskiptamarkaði sem höfðu beitt miklu fjármagni í hefðbundinn lobbýisma til að ná fram sínum hagsmunum.
Einn af helstu baráttumönnum fyrir nethlutleysi er sir Tim Berners Lee, sem fann upp veraldarvefinn. Hann hvatti almenning í Evrópu í opnu bréfi sem hann skrifaði ásamt tveimur lagaprófessorum í fyrra að berjast fyrir opnu interneti og koma í veg fyrir að stórfyrirtæki kæmu upp hraðbrautum á internetinu; banna ætti ,,zero-rating”, þ.e. þegar þessir örfáu risar á fjarskipamarkaði geta krafið ný fyrirtæki um að greiða aðgangseyri til að tryggja aðgang að efni þeirra með sama hraða og annarra sem fyrir eru (mjög erfitt fyrir sprota fyrirtæki og lítil fyrirtæki sem reiða sig á netið); koma í veg fyrir mismunun og vernda jafnt aðgengi allra að internetinu.
Internetið hefur gerbreytt heiminum og opnaði almenningi nýja leið til áhrifa. Sá hinn sami almenningur er einn fær um að standa vörð um að þessi vettvangur sé áfram opinn í allra þágu.