Screen Shot 2017-03-16 at 13.16.19Tyrkland stendur á tímamótum, segir Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir, varaforseti Feneyjanefndarinnar. Erdogan forseti hafi náð þvílíkum tökum á stjórnkerfinu að hugsanlega verði ekki aftur snúið. Ef þjóðaratkvæðagreiðslan fari á þann veg að Erdogan fái stóraukin völd sé það náðarhögg fyrir lýðræðið í landinu og réttarríkið. Herdís var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1.

Sagt var frá því í fréttum að stuðningsmenn Erdogans Tyrklandsforseta hafi brotist inn á síður alþjóðlegra mannréttindasamtaka, stórra fjölmiðla og ýmissa frægra manna á samfélagmiðlinum Twitter og komið þar fyrir slagorðum, þar sem stjórnvöld í Þýskalandi og Hollandi eru fordæmd. Við er tengt myndband af Erdogan forseta og vísað til 16. apríl, þegar þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram í Tyrklandi um hvort auka eigi völd forsetans.

Erdogan er viðkvæmur fyrir gagnrýni. Það sannaðist m.a. þegar Feneyjanefndin kynnti þá niðurstöðu sína að með fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskrá landsins fjarlægðust Tyrkir grundvallarreglur lýðræðis og réttarríkis. Jafnframt að aðgerðir gegn fjölmiðlum og blaðamönnum á grundvelli neyðarlaganna, sem sett voru í kjölfar misheppnaðs valdaráns í júlí 2016, færu gegn alþjóðalögum. Feneyjanefndin er ráðgjafarnefnd Evrópuráðsins um stjórnskipunarmál – og hefur starfað frá því eftir að múrinn féll og lýðræðisþróun hófst í Austur-Evrópu. Fyrir þessu áliti Feneyjanefndarinnar talaði varaforseti nefndarinnar Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir, lögmaður. Hún var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1.

Feneyjanefndin
 Mynd: Feneyjanefndin  –  Morgunvaktin
Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir

Erdogan náð tökum á stjórnkerfinu

Herdís segir að Tyrkland standi á tímamótum, þó í landinu hafi ekki ríkt stöðugleiki á síðustu áratugum. Herinn hafi oft hrifsað til sín völdin. En Erdogan forseti hafi nú náð þvílíkum tökum á stjórnkerfinu að hugsanlega verði ekki aftur snúið. Ef þjóðaratkvæðagreiðslan fer á þann veg að Erdogan fái stóraukin völd sé það náðarhögg fyrir lýðræðið í landinu og réttarríkið.

„Það er í raun og veru uggvænlegt að það sé unnt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um gagngerar breytingar á stjórnarskrá landsins. Allt innbyrðis valdajafnvægi er fellt burtu. Forsetinn fær í raun alræðisvald.“

Það sé í raun sé óhugsandi að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu um jafn miklar breytingar á sama tíma og neyðarlög gilda í landinu. Frá því neyðarlögin voru sett á í fyrrasumar hafi Erdogan gefið út 21 neyðartilskipun, sem öðlast lagagildi án tilkomu þingsins.

„Hann er í raun búinn að hneppa allt þjóðfélagið í gíslingu. Þetta er gagnger breyting á stjórnkerfi landsins.“

„Það er búið að lama réttarkerfið“

Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir lýsti því á Morgunvaktinni hvernig Erdogan hefur beitt sér gegn fjölmiðlum í landinu, hvernig málfrelsi hefur í raun verið afnumið og eignir verið gerðar upptækar. Ekki sé hægt að skáka áfram í skjóli meintrar ógnar sem birtist í valdaráninu. Nærri tvöhundruð fjölmiðlafyrirtækjum í Tyrklandi hefur verið lokað fyrirvaralaust án rökstuttra ásakana og hundruð blaðamanna hafa verið fangelsaðir. „Það liggur ekki fyrir neinn dómsúrskurður. Dómstólar hafa ekki staðreynt ásakanirnar. Það er búið að lama réttarkerfið. Búið að brjóta reglur um réttláta málmeðferð. Menn vita ekkert hvaða sakir eru á þá bornar. Þeir hafa ekki hugmynd um það, eru bara hnepptir í gæsluvarðhald.“ En áfram vill Feneyjanefndin reyna að hafa áhrif á tyrknesk stjórnvöld. Herdís segir mikilvægt að halda samtali áfram, en ekki einangra Tyrki frá alþjóðasamfélaginu.

„Ég hef áhyggjur hvernig allt stefnir. Þetta hangir allt saman. Ef Tyrkir fara á vondan stað, þá hefur það víðtæk áhrif. Þetta kemur okkur við. Þetta skiptir okkur máli. Það eru gífurlegir hernaðarlegir, pólitískir, landfræðilegir hagsmunir, sem eru í húfi. En frá mínum sjónarhóli, þá eru það mannréttindin sem mestu skipta, hið almenna stjórnarfar í landinu. Ef þeir hverfa frá lýðræðinu í landinu, þá er ekki eingöngu Tyrkland í hættu.“