Þessi gamli bolur hangir saman, grunar mig,  á óskhyggju minni og tilfinningum fremur en efnisþráðum – hann er alveg að detta í sundur því set ég hann á þetta herðatré og tek mynd, þótt það standi alls ekki til að henda honum. Ég geymi þennan bol þar til yfir lýkur og þá sögu sem býr að baki. Við vorum fjölskyldan á leið til Lundar í Svíþjóð með fjögur ung börn.  Nokkuð langt ferðalag og millilent á Kastrup þaðan sem ferjan var tekin yfir til Malmö – þetta var áður en Eyrarsundsbrúin sem tengir Danmörku og Svíþjóð var komin til sögunnar. Það var hiti í lofti á þessu júníkvöldi og enn bjart þótt klukkan væri að ganga níu.  Börnin voru útkeyrð og enn nokkurra tíma ferð eftir.

 

Við vorum nýkomin um borð í ferjunni þegar næst yngsta barnið, þriggja ára sonur, datt og meiddi sig illa á höfði. Það fossblæddi þótt skurðurinn virtist ekki djúpur. Eina ráðið í stöðunni var að grípa það sem var hendi næst, bómullartrefil til að vefja um höfuð drengsins og halda honum þétt að sér. Um leið og við kæmum til Svíþjóðar myndum við geta látið lækni skoða hann.  Um borð voru margir farþegar en flestir fálátir þótt litli drengurinn gréti og reyndar yngri bróðir hans líka sem þá var aðeins nokkurra mánaða gamall. Við vorum öll þreytt. Ég man enn þá eftir svipnum á íslenskri konu sem var þarna um borð í ferjunni ásamt manni sínum og sneri sér önuglynd við og virti grátandi barnið fyrir sér. Aðrir nærstaddir voru fályndir. Hver mínúta var lengi að líða þar sem maður velti fyrir sér hvort barnið hefði fengið  slæmt höfuðhögg enda bómullartrefillinn sem ég hélt um höfuð hans orðinn blóðugur. Þegar ég leit snöggvast upp sá ég tvo unga menn í kringum tvítugt sem stóðu rétt hjá. Augsýnilega bandarískir, með bakpoka, derhúfur, í snjáðum gallabuxum og bómullarbolum. Annar þeirra virtist fylgjast grannt með okkur og það var samúð í svipnum. Allt í einu tók hann af sér bakpokann, fór úr bolnum sínum og rétti mér hann – til að setja utan um um höfuð barnsins í stað blóðugs trefilsins. Ég man að hann var með dökka liði í hárinu og  svo svipfallegur –  fannst mér á þeirri stundu svo hrærð sem ég varð við þetta einstaka tákn samkenndar. Minnug önuga svipsins á íslensku frúnni með burstaklippinguna og afskiptalausra farþega stendur þessi ungi maður, sem rétti mér bolinn sinn, mér enn fyrir hugskotssjónum sem táknmynd kærleikans – þess mikilvægasta í allri veröldinni. Ekki veit ég nafnið hans eða hvar hann er niðurkominn. En ég mun aldrei gleyma honum. Hann vinkaði glaðlega til okkar þegar við stigum frá borði í Malmö þar sem hann gekk í burtu ásamt félaga sínum ber að ofan með bakpokann sinn og derhúfuna. Þegar læknir hafði skoðað barnið gátum við farið heim – og allt var í lagi. Bolinn þvoði ég í fyrsta sinn daginn eftir og síðan hef ég örugglega þvegið hann hundrað sinnum – en nú ekki meir því hann þolir ekki fleiri þvotta. Hann er á góðum stað í fataskápnum mínum en árum saman svaf ég oft í honum ef ég þurfti að minna mig á mátt hins góða í heiminum