Á safni í Jerevan, höfuðborg Armeníu,  með listaverkum rússnesk/armenska listamannsins og kvikmyndaleikstjórans Sergei Parajanov (1924-1990) hangir klippimynd sem ber heitið ,,Strengjabrúður halda kosningar”.  Á safninu eru um 600 listaverk, klippimyndir o.fl., myndir í þrívídd,  munir af heimili hans, ljósmyndir og aðrar menjar um merkilegt líf þessa listamanns sem hafði hugrekki til fara gegn kerfinu í listsköpun sinni. Myndin ,,Strengjabrúður halda kosningar” er frá Sovét-tímanum en á ekki síður við í nútímanum. Þarna er bent á hvernig önnur öfl halda um taumana en strengjabrúður sem standa kjósendum til boða í kjörklefanum. Sergei Parajanavo var með sinn eiginn sérstaka stíl sem kvikmyndaleikstjóri og féllu hugmyndir hans ekki í geð valdhafa Sovétríkjanna sem voru stífir á því hvernig ríkjandi hugmyndafræði skyldi útfærð. Kvikmyndir hans sem hlutu alþjóðlega frægð voru bannaðar í Sovétríkjunum um langt árabil og yfirvöld fundu leið til að rógbera hann, úthúða  honum og loks koma honum í fangelsi á grundvelli ákæra  um nauðgun, samkynhneigð og fyrir mútuþægni. Hann var fyrst ákærður fyrir samkynhneigð 1948 sem var refsivert athæfi í Sovétríkjunum og dæmdur í 5 ára fangelsi. Margir voru tilbúnar að vitna gegn honum af ótta við yfirvöld. Margir vissu þó að hér var um pólitískar ofsóknar að ræða gegn manni sem þorði að sýna andóf gegn kerfinu. Þegar hann var á ný dæmdur í fangelsi 1973 var hann orðinn alþjóðlega þekktur fyrir kvikmyndir sínar og heimsfrægir listamenn reyndu að koma honum til varnar, þ.á m. Federico Fellini, Andrey Tarkovsky, Yves Saint Lauren, Francoise Sagan, Jean-Luc Godar, Luis Bunuel o.fl.

Í fangelsinu vann hann sleitulaust við list sína, notaði allt tiltækt efni, glerbrot úr ruslinu, sælgætisbréf, klippur úr dagblöðum, gamlar brúður, kaffikönnur og hvað sem til féll. Fangaverðirnir reyndu að koma í veg fyrir að hann gæti týnt rusl til að búa til ný og ný listaverk en skilaboð komu úr efri lögum kerfisins að hér væru mikilir listrænir hæfileikar á ferð sem ekki mætti alfarið stoppa. Afstaða hans var sú að eina leiðin til að mæta harðræði, ranglæti, upplognum sökum og sjúklegum tilburðum þeirra sem kæfa vildu andóf væri kærleikur og sköpunargleði. Parajanov sat í fangelsi árum saman og hann var persona non grata í Sovétríkjunum á milli þess sem hann var laus úr fangelsi, sem voru vinnubúðir í Síberíu. Þegar hann lést árið 1990 höfðu kvikmyndir hans hlotið margvísleg verðlaun á  alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Hann komst á eina þeirra en hafði að sjálfsögðu engin efni til að kaupa sér smóking sem var skylduklæðnaður gesta á hátíðinni. Hann mætti þar í sínum fátæklegu fötum en límdi miða á jakkaboðunginn þar sem stóð “No smoking”.

Þegar hann lést úr lungnakrabba árið 1990 sendu aðrir kvikmyndaleikstjórar og frægt listafólk þau skilaboð til yfirvalda í Sovétríkunum að “heimurinn hefði glatað af töframanni”.