Frá Herdísi Þorgeirsdóttur:
Kæru vinir,
Vegna anna í störfum næstu daga er ég ekki komin á fullt í baráttuna. Hún hefst fyrir alvöru eftir rúma viku. Er að undirbúa andmæli við doktorsvörn í Svíþjóð og fyrirlestur sem ég flyt í Reykjavík í næstu viku auk þess sem ég er að binda enda á lausa hnúta vegna kosningabaráttunnar framundan.
Fyrir þá sem hafa áhyggjur af viðhorfskönnunum netmiðla bendi ég á grein Egils Helgasonar á Eyjunni um „vonda blaðamennsku“. Viðhorfskannanir á netmiðlum segja að sjálfsögðu ýmislegt um aflið sem býr að baki frambjóðendum með aðgang að mörgum tökkum og tölvum – en þær segja ekkert um stefnumál eða burði frambjóðenda.
Ég er sama sinnis og Abraham Lincoln sem sagði (í óbeinni þýðingu): Við eigum að trúa því að réttlátur málstaður sé afl í sjálfu sér, og í þeirri trú, allt til enda, eigum við hafa hugrekki til að fylgja þeim málstað samkvæmt skilningi okkar.
Herdís Þorgeirsdóttir