Grískur tímaritaútgefandi og blaðamaður, Kostas Vaxevanis, skrifar grein í New York Times á þrettándanum undir heitinu – Rotna gríska fámennisklíkan (Greece’s Rotten Oligarchy). Þar segir hann gríska lýðræðið í molum. Eftir fall herforingjastjórnarinnar 1974 varð til einhverskonar bastarður af útþynntu lýðræði þar sem fólk hafði kosningarétt og rétt til að mótmæla á opinberum vettvangi. Fámenn klíka hafði hins vegar áfram tögl og hagldir.
“Hin fámenna klíka manna í viðskiptum sem gætu ekki þrifist án fyrirgreiðslu stjórnvalda en þykjast vera sjálfstæðir frumkvöðlar í ólgusjó markaðsaflanna . . .”
Hann segir að þrátt fyrir mikla umfjöllun um ömurlegt ástand grísku þrenginganna liggi margt ósagt. Kreppan hafi kallað fram átök um hagsmuni og hugmyndafræði þar sem tekist sé á um hið opinbera og velferðarkerfið. Já, í Grikklandi er hið opinbera kerfi í lamasessi, segir greinarhöfundur, af því að undanfarna áratugi hafa stjórnvöld mannað opinbera geirann með stuðningsmönnum alveg óháð hæfni þeirra. Aðalvandinn varðandi stjórnkerfið er þó hin fámenna klíka manna í viðskiptum sem gætu ekki þrifist án fyrirgreiðslu stjórnvalda en þykjast vera sjálfstæðir frumkvöðlar í ólgusjó markaðsaflanna. Þessir aðilar „múta“ stjórnvöldum (lesist: greiða í kosningasjóði) og uppskera feita fyrirgreiðslu. Þeir hinir sömu eru að jafnaði með sterk ítök í fjölmiðlum og geta því þaggað niður umfjöllun um hátterni sitt. Sumir hafa keypt fótboltalið til að tryggja sér almennar vinsældir og slá ryki í augu fjöldans til að fela „hvítflibbaglæpina“ sína.
“Almenningur er ekki upplýstur um það hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni þar sem sjónvarpsstöðvum, dagblöðum og fjölmiðlum á netinu er stjórnað af þessari klíku úr viðskiptum og pólitík . . .”
Greinarhöfundur tekur dæmi af spillingunni. Árið 2011 hafi þáverandi fjármálaráðherra og núverandi formaður jafnaðarmannaflokksins, Pasok, átt frumkvæði að nýjum lögum um eignaskatt, sem þjóni hagsmunum auðugasta hluta þjóðarinnar. Þessi sami stjórnmálamaður átti einnig frumkvæði að lögum sem drógu úr ráðherraábyrgð.
Svona spilling hefur viðgengist í Grikklandi um langt árabil, segir greinarhöfundur. Almenningur er ekki upplýstur um það hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni þar sem sjónvarpsstöðvum, dagblöðum og fjölmiðlum á netinu er stjórnað af þessari klíku úr viðskiptum og pólitík.
“Eina vonin í stöðunni er að almenningur rísi upp gegn sjónhverfingum og spillingu . . .”
Greinarhöfundur rifjar einnig upp annað dæmi um spillingu, sem ég hef minnst á hér áður, en það er svokallaður Lagarde-listi. Árið 2010 afhenti þáverandi fjármálaráðherra Frakka og nú yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðins, Christine Lagarde, grískum stjórnvöldum lista með nöfnum tvö þúsund grískra ríkisborgara sem áttu innistæður í svissneskum bönkum. Þetta gerði Lagarde til að auðvelda grískum stjórnvöldum að koma upp um skattsvik. Grísk stjórnvöld aðhöfðust hins vegar ekki. Tveir fyrrum fjármálaráðherrar lýstu því m.a. yfir í gríska þinginu að þeim væri ekki kunnugt um þennan lista. Í millitíðinni fóru ýmsir fjölmiðlar offari „í smjörklípum“ með því að draga fram nöfn nokkurra einstaklinga til að fela hinn ljóta veruleika að stór hópur auðugra Grikkja reyndi að komast hjá því að greiða skatta á meðan örvæntingarfullir fátæklingar rótuðu í ruslinu eftir fæði.
“Afhverju þögðu fjölmiðlar?”
Þegar greinarhöfundur birti Lagarde-listann í tímaritinu Hot Doc, sem hann gefur út, í október sl. var hann handtekinn og ákærður fyrir brot á friðhelgi einkalífs. Valdhafar urðu ekki ánægðir þegar hann var sýknaður – svo nú hefur honum verið birt önnur ákæra á öðrum en óljósum forsendum, segir hann í greininni. Þá segir hann að aðrir grískir fjölmiðlar hafi þagað um allt ferlið – Lagarde-listann, birtinguna í Hot Doc, handtöku hans og sýknu. Fjölmiðlar utan Grikklands fjölluðu um málið sem stórfrétt.
Afhverju þögðu fjölmiðlar í Grikklandi? Jú, segir greinarhöfundur, vegna þess að Lagarde-nafnalistinn afhjúpaði þá staðreynd að spillt klíka, sem þykist heita „lýðræðislegir valdhafar“ og aðilar með umsvif í skattaskjólum, vinir og skyldmenni pólitíkusa, bankamenn og fjölmiðlaeigendur, sem athafna sig á svörtum markaði, gefa lítið fyrir lýðræðishugsjónina.
“Ný smjörklípa, einum karli fórnað til að bjarga og viðhalda hinu spillta kerfi . . .”
Eftir að útgefandinn hugrakki birti Lagarde-listann í tímaritinu sínu brugðust stjórnvöld á engan hátt við. Fjármálaráðherrann sem yfirgaf embætti sitt nokkrum mánuðum áður hafði tekið CD diskinn með nöfnunum með sér þegar hann gekk út úr ráðuneytinu og skilaði honum ekki aftur fyrr en sú pínlega staða kom upp að eftirmaður hans í embætti þurfti að svara fyrirspurn New York Times um listann í október s.l. og sagðist aldrei hafa séð hann. Ráðherrann sem hafði stungið diskinum í vasann var ekki látinn svara fyrir það né fór mál hans fyrir rannsóknarnefnd þingsins.
Listinn var síðan birtur í nýrri útfærslu, segir greinarhöfundur, og var þá búið að fjarlægja nöfn skyldmenna fyrrum fjármálaráðherra frá 2009-2011 af listanum. Sá ráðherra hefur verið rekinn úr jafnaðarmannaflokknum og þarf nú að svara rannsóknarnefnd þingsins. Það vofir jafnvel yfir honum að vera sviptur þinghelgi og ákærður. Ný smjörklípa, segir höfundur, einum karli fórnað til að bjarga og viðhalda hinu spillta kerfi.
“Blaðamenn verða að sporna gegn sjálfs-ritskoðun og endurheimta þá hugdirfsku sem þarf til að sinna skyldum varðhundar almennings . . .”
Greinarhöfundur segir að betur og betur sé að koma í ljós hvað margt er rotið í Grikklandi á barmi gjaldþrots, sem grísk stjórnvöld reyna að forða með aukinni skattpíningu hinna efnaminni. Helmingur ungra Grikkja er atvinnulaus og hagkerfið er sem lamað. Fólk er jafnvel svangt og nýnasistaflokknum, Gullinni dögun vex ásmegin þar eð örvæntingarfull alþýða þarf útrás fyrir reiði sína í garð þeirra sem hafa ráðið för.
Greinarhöfundur segir að eina vonin í stöðunni sé sú að almenningur rísi upp gegn sjónhverfingum og spillingu. Blaðamenn verða að sporna gegn sjálfs-ritskoðun og endurheimta þá hugdirfsku sem þarf til að sinna skyldum varðhundar almennings. Stjórnvöld verði að endurlífga hina forn-grísku lýðræðishugmynd í stað þess að reyna að jarða þá lifandi, sem segja sannleikann.
Finnst ykkur þetta hljóma kunnuglega?