Evrópuráðið hefur ákveðið að veita verðlaun kennd við mannvininn Raoul Wallenberg. Raoul Wallenberg verðlaunin (10 þúsund evrur) verða veitt annað hvert ár einstaklingi, hópi fólks eða samtökum sem hafa sýnt framúrskarandi árangur í mannúðarstarfi. Frumkvæðið að þessum verðlaunum eiga sænsk stjórnvöld í samvinnu við þingið í Ungverjalandi, sem vilja halda minningunni um merkan einstakling á lofti. Verðlaunin verða veitt í fyrsta sinn 17. janúar 2014 en á þeim degi var Raoul Wallenberg handtekinn í Búdapest 1945.
Raoul Wallenberg var sænskur diplómat sem notaði stöðu sína þegar hann var við störf í Búdapest í lok síðari heimsstyrjaldar til að bjarga tugum þúsunda Gyðinga frá helförinni. Hann sýndi hvernig hugrekki einnar manneskju sem lætur verkin tala getur skipt sköpum fyrir örlög ótal margra.
Raoul Wallenberg var handtekinn að beiðni æðstu yfirmanna Sovétríkjanna þennan vetrardag í janúar 1945 og hefur aldrei til hans spurst síðan. Hann hefur verið hylltur af stjórnvöldum, bæði Ísraels, Bandaríkjanna og Ungverjalands og Svíar líta á hann sem mikla hetju og mannvin.
Dómnefndin sem velur verðlaunahafan samanstendur af sjö aðilum á sviði mannréttinda og mannúðarstarfa sem aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skipar ásamt sænska utanríkisráðuneytinu, borgaryfirvöldum í Búdapest, Raoul Wallenberg stofnuninni við lagadeild háskólans í Lundi, Rauða Krossinum, flóttamannahjálp S.Þ. og Raoul Wallenberg fjölskyldunni.
Leyfi mér að birta mynd með af bókarkápu minni með andliti Raoul Wallenberg en ég skrifaði doktorsritgerð mína við Raoul Wallenberg-stofnunina við lagadeildina Lundarháskóla.