(Velkomin þið sem viljið líta við í kaffi í hádeginu í dag – 25. júní – að Laugavegi 87. Verð þar milli kl. 12 og 13)
Í kosningabaráttunni hef ég lagt áherslu á að ég er óháð peningaöflum og hagsmunahópum. Gagnsæi í fjárframlögum í kosningabaráttu er forsenda þess að kjósendur geti treyst því að frambjóðandi gangi ekki “erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins,” eins og segir í Rannsóknarskýrslu Alþingis.
Ég rak fyrirtæki í tæpan áratug, hef skilning á lögmálum atvinnulífsins og finnst eðilegt að framtakssemi og frumkvæði fylgi fjárhagslegur ávinningur. Peningaöfl eiga hins vegar ekki að ráða því hverjir eru kjörnir til áhrifa í lýðræðislegu samfélagi. Það er ekki unnt að kalla peningaöfl til ábyrgðar. Ég hef því ákveðið að þiggja ekki styrki frá fyrirtækjum.
Lög um fjármál frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra (nr. 162/2006) tryggja ekki nægilegt gagnsæi framboða þar eð frambjóðendum er í sjálfsvald sett hvort þeir gefa upp framlög frá einstaklingum sem eru undir 200.000 krónum. Þessi lög voru sett fyrir hrun.
Ég hef opnað bókhald mitt sem er öllum aðgengilegt á vefsíðu minni herdis.is og skora á aðra frambjóðendur til embættis forseta Íslands að sýna íslensku þjóðinni þá virðingu að opna bókhald sitt strax svo að kjósendur séu upplýstir um það hvaðan peningar að baki framboðunum koma áður en þeir ganga að kjörborðinu þann 30. júní næstkomandi.
Það er forsenda þess að við getum unnið okkur út úr þeirri spillingu sem sett hefur mark sitt á íslenskt samfélag að hafa opið bókhald. Algert gagnsæi varðandi fjárframlög í kosningabaráttu er forsenda þess að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvern þeir vilja kjósa til æðsta embættis þjóðarinnar.
Opið bókhald Herdísar í fréttum