(09. júní 2011)

Kolaportið var frábært í dag. Það er ekki möguleiki á því að fylgið okkar sé aðeins 2,6% eins og gamla Capacent Gallup könnunin sem gerð var aðallega 31. maí segir – en birt okkur svo eftirminnilega á RÚV þann 7. júní eins og um glænýja frétt væri að ræða. Fjórði hver maður/kona sem ég hitti segist undrast hvað fylgið er lítið samkvæmt skoðanakönnunum; hrósar framgöngu í nýlegum sjónvarpsþáttum og virðist hlynnt/ur þessu framboði.

Fékk mörg hlý bros og uppbyggilegar athugasemdir frá fólki á öllum aldri og báðum kynjum. Ætla aftur í Kolaportið við fyrstu hentugleika – frábært að hafa Huldu Hákon (Hulda Hákon) með. Við keyptum harðfisk af glæsilega tattóveruðum náungum og settumst síðan niður með Gústa Gronvold (Gusti Gronvold) og drukkum kaffi. Hann er að athuga með heimsókn fyrir okkur í Rafveituna. Hitti fjölskyldu frá Filippseyjum, nokkra hressa náunga frá Seyðisfirði og einn sagði mér skemmtilega sögu af því þegar hann hitti afa minn á Reyðarfirði sem barn. Ég hitti unga stúlku sem heldur með mér og hún var með ömmu sinni sem er búsett í Bandaríkjunum. Sigurlaug Ragnarsdóttir sat eins og drottning á sínum stað umkringd dýrmætu plötusafni; sá strák kaupa gylltan satínfrakka á þúsund krónur og lopapeysurnar sem eru seldar á móti „súkkulaði og lakkrísbásnum“ eru ótrúlega fallegar. Hún prjónar þær hún Hildur, sem er með básinn. Kolaportið er ævintýraveröld!

Klukkan 14.30 fórum við á kosningamiðstöðina. Þar var mikið fjör, Eirikur Gudjonsson Wulcan stóð eins og Gerard Depardieu og bakaði vöfflur; Jörgína Elínbjörg Jónsdóttir var umkringd karlkyns kjósendum; Fanny Ingvarsdottir gekk um og tók ljósmyndir. Þarna voru Thorsteinn Thorgeirsson, Ásta Karen Rafnsdóttir, Ásgeir Þór, Óttar Ottósson; pabbi Herdísar, ungir menn frá Vodafone; lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu og fylgilið hans í steggjapartýi, stelpur sem voru í gæsapartýi, dyravörðurinn tryggi sem er bæði í Þjóðkirkjunni og Sjálfstæðisflokknum; íslensk kona búsett í Egyptalandi og múslimatrúar, fullorðinn maður sem hefur miklar áhyggjur af því að aukinn hagvöxtur gangi þannig á auðlindir jarðar að það þurfi 21 jarðkúlu til; maður sem kom og sagði að Herdís skoraði næst hæst á Útvarpi Sögu, nágrannakona af Blómvallagötu og Sigurður Sævarr myndlistarmaður, virðuleg eldri hjón og önnur virðuleg eldri hjón, ung móðir með barn í vagni og fleiri og fleiri. Við erum sólarmegin á Laugaveginum og það spillti ekki fyrir þegar Katla Margrét Þorgeirsdóttir Katla og Barmahlíðakórinn ásamt flautuleikara tóku nokkur lög.

Við erum sólarmegin í þessari kosningabaráttu og ég fullyrði að fylgið er mun meira en 2.6% – áhyggjur mínar af skoðanakönnum eru þær að birting talna hefur áhrif á skoðanir fólks og margir eru þeirrar skoðunar að til að losna við þann sem er efstur þurfi þeir að kjósa þann sem er næst efstur í skoðanakönnunum og öfugt. Ég vildi óska þess að fólk hugsaði fyrst og fremst um það að það er að kjósa forseta til næstu fjögurra ára og verður að vanda valið.