©  Dr. Herdís Þorgeirsdóttir

 

Um lagasetningu á fjölmiðla – vandann og veruleikann

 

 

Ég var beðin að ræða vanda og veruleika íslenskra fjölmiðla og þá veltir maður ósjálfrátt upp spurningunni um hvort það þurfi lög á fjölmiðla –

Svar mitt er  já – en ég hef líka ýmsar efasemdir í ljósi þess vanda sem við er að glíma. Hér á Íslandi sem mjög víða annars staðar hefur átt sér stað gífurleg samþjöppun á fjölmiðlamarkaðinum –

 

Þegar við ræðum um lög um fjölmiðla erum við öðrum þræði að tala um að koma böndum á stórfyrirtæki, fyrirtækjasamsteypur í gífurlega flóknu viðskiptalegu, pólitísku og lagalegu samhengi. Við erum að ræða um einn stærsta og viðamesta vanda nútímans: Stórfyrirtæki og mannréttindi og tengslin þar á milli. Lengst af hefur það ekki verið álitið á ábyrgð stórfyrirtækja að tryggja mannréttindi en það er hins vegar á ábyrgð ríkja sbr. þjóðréttarlegar skuldbindingar þeirra. Kjarni málsins er h.v sá að  kjörin stjórnvöld eru ekki lengur eini aðilinn sem getur hlutast til um mannréttindi – troðið á þeim eða tryggt þau. Né getur markaðurinn einn og sér tryggt framgang tjáningarfrelsis fjölmiðla – við skulum hafa í huga fræga skilgreiningu heimspekingsins Isaiah Berlin í neikvætt og jákvætt frelsi –  en fyrri skilgreiningin á við frelsi einstaklingsins undan ofurvaldi eða íhlutun ríkisins – að þá tók hann það sjálfur fram að oft væri “frelsið” í þessari merkingu notað af þeim stóru, sterku og ófyrirleitnu til þess að traðka á þeim sem minna mega sín. En frelsið sagði Berlín er ekki einskorðað við að vera laus undan óeðlilegum afskiptum ríkisvaldsins – frelsi þýðir frelsi undan öllum þeim sem reyna að fótumtroða mannréttindi – og 17 grein MSE – sem eru íslensk lög  – bannar einstaklingum og fyrirtækjum að misnota þetta frelsi með því að ganga á rétt annarra.[1]

 

 

Þau grunngildi sem Evrópuráðið telur að standa þurfi vörð um sem forsendur evrópskrar samfélagsgerðar eru: Mannréttindi, lýðræði og réttarríki,

Lýðræðið og réttarríkið eru í raun formið sem við viljum vernda og þá er tjáningarfrelsið eitt veigamesta tækið til að ná því markmiði og að standa vörð um það sem og vernd annarra grunnréttinda –

 

Fjölmiðlar gegna þarna lykilhlutverki og því eðlilegt að um þá þurfi að móta opinbera stefnu; að það þurfi sérstök lög um fjölmiðla eins og lög um gildissvið og hlutverk háskóla eða lög um heilbrigðisþjónustu sem tilgreina að allir landsmenn eigi kost á slíkri þjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á  að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Þannig þyrfti lög sem tryggja það að fjölmiðlar geti sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað skvt túlkun í stjórnskipun og í dómaframkvæmd MDE að þeir séu varðhundur almennings og geti óhikið miðlað áfram og sett í samhengi upplýsinga og hugmyndir af öllu tagi, einnig þær sem eru á skjön við viðtekin þankagang, koma róti á hugann og misbjóða mörgum.

 

Það er óhugsandi að láta markaðinum einum eftir að tryggja það að fjölmiðlar standi sig sem varðhundur almennings og blaðamenn geti óhikað sinnt þeirri frumskyldu að miðla áfram upplýsingum af öllu því sem máli skiptir – þótt þeir þurfi að sjálfsögðu að taka tillit til þess að tjáningarfrelsinu eru takmörk sett þegar friðhelgi einkalífs, rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar o.s.frv. skarast á við tjáningarfrelsi þeirra en engu að síður er það einmitt þetta tjáningarfrelsi fjölmiðla, sem nýtur alveg sérstakrar verndar – þó svo að í raun sé sú vernd meiri í orði en borði  – sökum þess að það eru ekki til sérstök lög sem skilgreina réttindi og skyldur fjölmiðla – það eru almenn hgl. sem skilgreina rauða strikið sem ekki má fara yfir og prentlög sem skilgreina ábyrgð ef það er gert – en það eru engin lög sem á grundvelli MDE og stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis sem tryggja að blaðamenn geti óhikað fjallað um mikilvæga þætti í pólitískri og viðskiptalegri atburðarrás samfélaganna án þess að taka áhættu með starfsframa sinn.

 

Í morgunútvarpi ríkisútvarpsins nýlega  fjallaði kanadískur prófessor um ástandið í Nýju Brúnsvík – sjávarhéraði í Kanada – um útbreidda sjálfs ritskoðun fjölmiðla þar sem enginn þyrði að ógna veldi einnar auðfjölskyldu sem öllu réði. Prófessorinn talaði um “katastrópískt blaðamennskusvæði” – þar sem enginn þyrði að bíta í höndina sem fæðir hann – og notaði sömu líkingu og ég hafði gert nokkrum dögum áður í Kastljósi sjónvarpsins til að lýsa því í hvaða vanda fjölmiðlar eru almennt staddir í samfélögum nútímans þar sem stórar viðskiptablokkir eru alls ráðandi og pólitísk öfl á klafa þeirra þannig að spilling grasserar eða eins og það er orðað í nýrri alþjóðlegri skýrslu um hnattvæðingu og spillingu árið 2005:  Viðskiptaöfl beita óréttmætum (unfair) áhrifum í stjórnmálum  og fólki er meinaður aðgangur að upplýsingum.[2]

 

Ófremdarástand í blaðamennsku er hvorki einskorðað í tíma eða rúmi  – eins og segir í ályktun þingmannasamkundu Evr.r v. ástandsins í einokun fjölmiðla á Ítalíu Berlusconis:

 

Það má ekki gera lítið úr þessu ófremdarástandi á þeirri forsendu að það geti hugsanlega skapað hættu á misnotkun fjölmiðla því að lýðræði verður ekki dæmt frá degi til dags heldur á þeim grunnreglum sem það stendur fyrir gagnvart almenningi og í samfélagi þjóðanna og vitnaði þingið í MSE og dómaframkvæmd dómstólsins á grundvelli tjáningarfrelsisákvæðisins þar sem ríki eru skuldbundin af því að standa vörð um frelsið til tjáningar – og grípa til aðgerða þegar slíku frelsi er ógnað. Og þá er ekki átt við frelsi fjölmiðla til sjálfdæmis – heldur frelsi til að vera raunverulegur varðhundur almannahagsmuna – en það er einmitt í ljósi þess grundvallarhlutverks fjölmiðla í lýðræði að ekki er annað hægt en að vera tortrygginn á að þeir geti verið í geðklofa ástandi þ.e. að þjónka við vald viðskipta og stjórnmála – og gagnrýna þá um leið.

 

Það hefur alltaf verið megin markmið þess að tryggja frelsi fjölmiðla að þeir stæðu sig í þessu hlutverki, þ.e. að vera gagnrýnir á valdið – hvar sem það liggur –  tilgangur fjölmiðlafrelsis er að tryggja það að fjölmiðlar séu upplýsingaveita almennings – tæki fólks til skoðanamyndunar og aðferð hins lýðræðislega kerfis til að viðhalda sjálfu sér – kjörnir fulltrúar eiga að endurspegla upplýstan vilja almennings  – frjálsar þjóðir byggja á þekkingu og upplýsingum – annað fyrirkomulag er ávísun á skrípaleik eða harmleik eða hvoru tveggja svo vitnað sé í James Madison.

 

Fólk öðlast h.v. ekki þekkingu á innviðum stjórnmála og viðskipta ef blaðamenn eru bundnir á klafa sjálfs-ritskoðunar – ef þeir óttast um starf sitt og frama fari þeir gegn vilja eigenda og auglýsenda eða stjórnmálamanna. Það er löngu viðurkennt að sjálfs-ritskoðun er víðtækt vandamál, jafnvel reglan fremur en undantekning – þannig missir almenningur sitt helsta vopn til áhrifa sem eru réttar upplýsingar og þekking.

Á sama tíma segja þeir sem stjórna fjölmiðlum að frelsið til skoðanamótunar fylgi eignarréttinum á fjölmiðlinum og innsigla þar með þá kenningu að blaðamenn séu í hlekkjum annarlegra hagsmuna. Ég nota hugtak Max Webers um járnbúr til að lýsa því hvernig viðskiptaöfl í skjóli ákveðinnar hugmyndafræði  geta spornað gegn því að almenningur njóti þess réttar sem hann á lögum samkvæmt, þ.e. að fá upplýsingar og móta sér skoðanir á grundvelli þeirra án þess að aðrir séu að eyða þeim rétti v. eigin hagsmuna. En talandi um járnbúr – þá var það brosleg samlíking þekkts sjónvarpsmanns í Morgunblaðinu fyrir nokkru sem var að fara af einni sjónvarpsstöð yfir á aðra og önnur álíka stjarna í hina áttina – en  hann  líkti vistaskiptunum við fangaskipti og það voru væntanlega ekki Freudísk mismæli – eða hvað?

 

En hvað á ég við með þessari samlíkingu –  skrumskæling hugmyndafræðilegrar stefnu í framkvæmd sést best hjá þeim sem ekki aðhyllast hugmyndafræðina í blindni – eða hver man eftir slíku ?  Bókartitill Marcuse One Dimensional Man sem var gagnrýni á þróuð iðnríki s.hl. 20. aldar og var gagnrýni á það frelsi sem slík samfélög bjóða upp á en snýst upp í andhverfu sína – þegar fákeppni og einokun sem oft og iðulega skapast á markaðinum verður að fjötrum fyrir almenn skoðanaskipti – markaður sem hampar bara hinum einvíða einstaklingi í stað þess að vera markaðstorg öflugra og andstæðra skoðanaskipti – sem er grundvöllur raunverulegrar fjölbreytni, víðsýni og umburðarlyndis – þeirra þátta sem lýðræðið fær ekki þrifist án.

 

Thomas Jeffereson einn af höfundum bandarísku stjórnarskrárinnar varaði við of mikilli samþjöppun auðs á fárra hendur – og hinn mikil andans maður Milton sem einna fyrstur barðist fyrir slíku frelsi – taldi aðeins einn annmarka á því að koma í veg fyrir opinber afskipti og það er ef valdið til útgáfu – þ.e. á nútíma máli stjórn upplýsingaflæðis er komið á of fárra hendur – samþjöppun valds – í formi auðs og pólitískra áhrifa sem ná fullkomnun þegar slíkt vald er raunverulegt vald til að ráða hugarástandi þjóða, skoðanamótun og almennri afstöðu – er ógn við mannréttindi, lýðræði og réttarríki.

 

Í nýlegu máli sem kom fyrir milliríkjadómstól Ameríkuríkja hafði ritstjóri verið  beittur kúgun vegna tilrauna til rannsóknarblaðamennsku í Perú. Dómstóllinn vísaði þá í MDE og Mannréttindanefnd SÞ þegar hann sagði að öflug pólítisk umræða – sem kæmi við kaunin á valdhöfum – væri ekki aðeins réttur fjölmiðla heldur einnig réttur almennings til að fá vitneskju um það sem væri að gerast í kringum hann.

 

Lög um fjölmiðla eru hins vegar vandmeðfarin – þau þurfa að standast mælistiku meðalhófsins – þannig að þau snúist ekki upp í andhverfu sína og verði að fyrirfram tálmunum á grundvallarréttinum allra einstaklinga. Það getur verið réttlætanlegt að takmarka eignarréttinn ef almenningsþörf krefur og setja atvinnufrelsi skorður með lögum krefjist almannahagsmunir þess. Á sama hátt og það getur verið rétt að takmarka tjáningarfrelsið krefjist friðhelgi einkalífins eða rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar þess. Öll þessi réttindi eru hvert öðru háð, innbyrðis tengd og óaðskiljanleg – rétturinn til vinnu og félagslegs öryggis hangir saman við tjáningarfrelsi blaðamanna –

 

En því má heldur ekki gleyma að við erum að með lögum á fjölmiðla erum við að gera kröfur á einkafyrirtæki í fjölmiðlun umfram önnur fyrirtæki[3] – þótt það sé alveg ljóst að stórfyrirtæki í nútímanum hafa orðið meiri áhrif á framgang mannréttinda og mörg þeirra hafa orðið sek um víðtæk mannréttindabrot – sérstaklega í þriðja heiminum – það er h. v. ekki sama sáttin um að þeir sem hafa aðstöðu til að fjárhagslegum völdum sínum í pólitískum tilgangi í gegnum blaðamennsku séu að níðast á grundvallarréttindum annarra – og hvað þá að slíkt brot sé dómtækt eða almenningur geti sótt rétt sinn og kært  fjölmiðla í einkaeigu fyrir að upplýsa þá ekki um gang mála þannig að vilji þeirra í kosningum mótist af innsýn í flókna pólitík og efnahagsmál.

Við þurfum að móta stefnu og við þurfum lög – en við þurfum líka að endurskoða þau lög með vissu millibili – á  þeirri forsendu sem Madison benti á; að menn (þ.e.a.s. Karlmenn sem eru höfundar þeirrar stjórnskipunar sem við búum við og tróna í öllum helstu valdastöðum ) eru engir englar – og það er af því að þeir eru veikgeðja sem gerir það að verkum að það þarf að takmarka völd þeirra” eins og John Adams benti á 1788.

Kannski fáum við lög á fjölmiðla og kannski virka þau og snúast jafnvel tjáningarfrelsinu í óhag og þá kannski kemur dóttir mín eða dóttir einhvers ykkar eftir tvo áratugi eða svo og vitnar í Benjamín Franklín sem sagði að þeir sem gæfu frelsið upp á bátinn fyrir tímabundið öryggi ættu hvorki skilið frelsi né öryggi.