Erindi Herdísar Þorgeirsdóttur á Lagadegi 2012 á Hótel Nordica
Í fyrradag – á alþjóðlegum degi fjölmiðlafrelsis – 2. maí – vakti aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Thorbjörn Jägland, athygli á þeirri hættu sem lýðræðissamfélögum stafar af fjársterkum aðilum þegar þeir beita fjölmiðlum til að hafa áhrif á stjórnvöld. Hann benti á það hvernig þeir nota ítök sín í fjölmiðlum til framdráttar fjárhagslegum hagsmunum sínum og að almenningur hafi yfirleitt enga vitneskju um það hvernig þessum tengslum– milli fjársterkra aðila – fjölmiðla – og stjórnvalda er háttað.
Þar sem tjáningarfrelsið er grundvallarréttur og sjálfstæðir fjölmiðlar lífsnauðsynlegir lýðræðinu benti aðalframkvæmdastjórinn á það að kjörnum valdhöfum beri skylda til að tryggja að blaðamenn geti sinnt starfi sínu án ótta við utanaðkomandi þrýsting.
Þennan sama dag ¬– sagði Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari Alþingis að hún væri ósátt við að Landsdómur hefði ekki sakfellt Geir Haarde fyrir brot á 141. gr. almennra hegningarlaga þar sem dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að sannað teldist að stórfelld hætta hafi steðjað að íslenskum fjármálastofnunum og heill ríkisins frá 7. febrúar 2008 og að Geir Haarde hafi hlotið að vera sú hætta ljós. Á honum hafi hvílt athafnaskylda og í ljósi þess skyldi hún ekki hvers vegna dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að þáverandi forsætisráðherra hafi bakað sér refsiábyrgð.
Fjölmiðlar eru hins vegar ekki taldir bera ábyrgð að lögum hafi þeir deilt þessari vitneskju með stjórnvöldum á þessum tíma. Hverju hefði það breytt ef íslenskir fjölmiðlar hefðu í apríl 2008 hafið öfluga umræðu um ástandið og knúið stjórnvöld til svara og þar með hugsanlega til aðgerða?
Á fjölmiðlum hvílir einnig athafnaskylda á grundvelli 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins. En þeirri spurningu er sjaldnast svarað hvað fjölmiðlar láti ósagt – og hverjar eru afleiðingar þess fyrir lýðræði, mannréttindi og réttarríki.
Það er algengara að spurt sé hvort þeir megi fara yfir strikið eins og til dæmis í umfjöllun um dómsmál sem skaðað geta traust almennings á dómstólum – en að spurt sé hvort þeir gangi nógu langt í að upplýsa almenning. Um það sem þagað er um er ekki spurt.
Fjölmiðar eiga að heita varðhundar almennings. Í máli Sunday Times gegn Bretlandi 1979 reyndi á það sem á ensku er kallað „contempt of court“. Sú reglar vísar til þess að fjölmiðlar geti með umfjöllun haft áhrif á meðferð mála fyrir dómstólum, þeir geti haft áhrif á dómara, vitni eða jafnvel afstöðu almennings til annars málsaðila áður en niðurstaða er fengin í málið. Skiptir þar engu hvort það sem sagt er sé rétt. Réttarhöld eiga samkvæmt þessari reglu ekki að eiga sér stað í fjölmiðlum.
Ef nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi til að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla er heimilt að setja tjáningarfrelsi fjölmiðla skorður.
Í mati á því hvort brýna nauðsyn hafi borið til að setja lögbann á umfjöllun Sunday Times í þessu máli kynnti Mannréttindadómstóll Evrópu til sögunnar þau viðmið sem síðan hafi orðið að meginreglum um tjáningarfrelsi fjölmiðla:
– Þar sem tjáningarfrelsið er hornsteinn lýðræðisins nær vernd þess einnig til upplýsinga og hugmynda sem valda usla, móðga og koma fólki í uppnám. Þessi regla er mikilvæg þegar fjölmiðlar eiga í hlut og hún er einnig mikilvæg varðandi réttláta málsmeðferð sem þjónar hagsmunum samfélagsins í heild og byggir á því að almenningur sé rétt upplýstur og treysti dómstólum en þeir geta ekki frekar en aðrar stofnanir samfélagsins starfað í tómarúmi. Það er ekki hægt að gera kröfu um það að engin umræða eigi sér stað um mál fyrir dómi.
– Fjölmiðlar mega ekki fara yfir strikið í umfjöllun um dómsmál en þeim ber skylda til að miðla áfram til almennings upplýsingum og hugmyndum um mál sem eru til meðferðar hjá dómstólum rétt eins og á öðrum sviðum samfélags sem hafa áhrifa á almannahagsmuni. Það er ekki aðeins skylda fjölmiðla að miðla áfram upplýsingum og hugmyndum heldur er það einnig réttur almennings að móttaka slíkt. Mannréttindadómstóll Evrópu.
Í þessum dómi var lagður grundvöllur að þeirri athafnaskyldu sem Mannréttindadómstóll Evrópu telur hvíla á stjórnvöldum til að tryggja sjálfstæða og óháða fjölmiðlun í þágu lýðræðisins.
Mikilvægast er að tryggja á hverjum tíma öfluga umræðu um þjóðfélagsmál – sem vísað er í sem „pólitíska umræðu“ –þar með talin mál á vettvangi dómstóla – enda er það sjónarhorn orðið ráðandi í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Upplýst umræða, þótt gagnrýnin sé, er frekar til þess fallin að auka traust á dómstólum en að rýra það.
Feneyjarnefnd Evrópuráðins hefur í nýrri skýrslu um réttarríkið greint helstu undirstöðuþætti réttarríkisins en þeir eru: 1. Lögmæti þar með gagnsætt, ábyrgt og lýðræðislegt ferli lagasetningar; 2. Að lögin séu skýr og aðgengileg; 3. Bann við gerræðislegri beitingu valds; 4. Réttur til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum og þar með endurskoðun dómstóla á stjórnsýsluathöfnum; 5. Virðing fyrir mannréttindum; 6. Jafnræði fyrir lögum.
Feneyjarnefndin telur brýnt að þegar undirstaða réttarríkisins er skilgreind verði sviðið víkkað vegna breyttra valdahlutfalla í nútímasamfélögum – áhrif einkaaðila eru orðin slík fyrir tilstuðlan einkavæðingar víða og í krafti mikils auðs – að koma verður í veg fyrir að þeir geti skert grundvallarmannréttindi með sama hætti og stjórnvöld – enda má ekki á milli sjá hvor eru valdameiri stjórnvöld eða fjársterkir aðilar í viðskiptalífinu. Þess vegna leggur Feneyjarnefndin áherslu á mikilvægi öflugrar pólitískrar umræðu fyrir réttarríkið.
Vinnuhópur um siðferði, sem skilaði skýrslu eftir hrun og birt var sem viðauki við Rannsóknarskýrslu Alþingis sagði íslenska stjórnmálamenningu „vanþroskaða og andvaraleysi ríkjandi gagnvart því hvernig vald í krafti auðs hefði safnast á fárra hendur og ógnað lýðræðislegum stjórnarháttum“. Skýrslan greinir frá auknum þrýstingi viðskiptalífsins í að hafa áhrif á stefnumótun og lagasetningu, ekki síst í kjölfar einkavæðingar. Einnig eru staðfest afskipti stórfyrirtækja og stjórnvalda af fjölmiðlum en fjölmiðlamenn veigruðu sér við að fara út í einstök mál, samkvæmt skýrsluhöfundum, af ótta við starfsmissi.
Í samfélögum sem er stjórnað í krafti auðs – er eignarhald á helstu fjölmiðlum gjarnan í höndum örfárra. Þar sem flestir fjölmiðlar eiga erfitt uppdráttar á eigin viðskiptaforsendum eru þeir auðveld bráð fyrir fjársterka aðila.
Þeir hinir sömu geta því stjórnað vettvangi hinnar pólitísku umræðu – útilokað gagnrýni og krefjandi spurningar – og stjórnað því hverjir fá aðgang að svokölluðu „markaðstorgi hugmyndanna“.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í slíku samhengi vísað í Hæstarétt Bandaríkjanna um samlíkinguna við „þorpið sem er í eigu fyrirtækisins“ – ef um er að ræða fjölmiðlaumhverfi þar sem aðgengi og úrræði til að ná til fjöldans í gegnum fjölmiðla er takmarkað vegna þröngs eignarhalds.
Samkvæmt dómstólnum hvílir athafnaskylda á ríkinu að grípa til aðgerða til að tryggja fjölmiðlaumhverfi þar sem ríkir fjölræði og fjölbreytni og þar sem þátttaka í umræðu um mikilvæg mál er opin öllum hlutaðeigandi og að þeir geti tjáð skoðanir og hugmyndir – án ótta. Athafnaskylda ríkisins nær einnig til þess að tryggja tjáningarfrelsi í samskiptum einkaaðila samkvæmt nýjum dómi þar sem einkafyrirtæki sagði upp starfsmönnum sem höfðu haft uppi gagnrýnin skrif.
Hæstiréttur Íslands staðfesti nýlega mikilvægi pólitískrar umræðu í dómi þar sem þekktur knattspyrnumaður hafði stefnt DV vegna umfjöllunar um fjármál hans. Þar taldi Hæstiréttur tjáningarfrelsið ganga framar friðhelgi einkalífs enda umræðan tengd áhættusækni fjárfesta í aðdraganda hrunsins en afleiðingar þess hefðu haft víðtæk áhrif á almannahagsmuni.
Pólitísk umræða er háheilög í túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu. Engin bönd má leggja á hana nema brýna lýðræðislega nauðsyn beri til. Engu að síður er þessi umræða oft í fjötrum – þar sem jafnvel nokkrir einstaklingar hafa fjöregg lýðræðisins í höndum sér. Sem dæmi um mál sem kallar á öfluga pólitíska umræðu í íslensku samfélagi er fiskveiðistjórnunarkerfið. Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands heldur því fram að núverandi ríkisstjórn geti ekki fylgt eigin stjórnarsáttmála undir yfirskriftinni „þjóðareign og mannréttindi“ þegar kemur að fiskveiðistjórnuarkerfinu vegna valds hagsmunaðila. Vert er í því samhengi að spyrja um tengsl fjölmiðla við hagsmuni á þeim vettvangi.
Ef vald í krafti auðs stýrir umræðunni, eins og aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins varaði við í fyrradag – er lýðræðinu ógnað, mannréttindum og réttarríkinu sjálfu. Í Rússlandi Pútins ráða oligarkar ferðinni; blaðamenn sem hafa gagnrýnt spillingu hafa verið myrtir og borgaraleg og stjórnmáleg réttindi eru oft fótum troðin. Á Íslandi fyrir hrun ríkti andvaraleysi gagnvart valdi í kafti auðs sem ógnaði lýðræðislegum stjórnarháttum eins og getið er í viðauka við Rannsóknarskýrslu Alþingis. Spyrja má hvort það andvaraleysi ríki enn? Og hvert það muni þá leiða.
Watergatehneykslið er eitt frægasta dæmið um rannsóknarblaðamennsku sem þekkt er – þar urðu tveir ungir blaðamenn til þess að forseti Bandaríkjanna þurfti að segja af sér vegna fjármálahneykslis. Merkilegur er þáttur uppljóstrarans í því máli en hann benti blaðamönnunum á að rekja slóð peningana. Sú ábending á enn við ef pólitísk umræða á vettvangi fjölmiðla á að þjóna lýðræðinu.
Reykjavík, 4. maí 2012
Herdís Þorgeirsdóttir
– See more at: http://smugan.is/2012/05/um-skyldur-og-abyrgd-fjolmidla-i-lydraedi-og-rettarriki/#sthash.2lUkxQcj.dpuf