Það er meir en aldarfjórðungur síðan Hæstiréttur kvað jafnréttislög þýðingarlítil nema meginreglur væru skýrðar svo að veita skyldi konu starf ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin hvað varðar menntun og annað sem máli skiptir og karlmaður sem við hana keppir ef á starfssviðinu eru fáar konur. Í níutíu ára sögu ríkisútvarpsins hefur engin kona gegnt stöðu útvarpsstjóra. Ellefti karlinn var ráðinn útvarpsstjóri í vikunni andspænis flóru fremstu fjölmiðlakvenna landsins.
Þegar staðan var auglýst laus til umsóknar var krafan um konu í stól útvarpsstjóra orðin tifandi tímasprengja. Yrði karl tekinn umfram konu í stöðuna þyrfti hann að hafa augljósa yfirburði á þeim sviðum sem gerð voru að skilyrði.
Margar færustu fjölmiðlakonur landsins sóttu um starfið en engin þeirra komst áfram eftir fyrsta viðtal. Þrír karlar og ein kona rötuðu í lokaúrtakið.
Konur sem eiga að baki áratuga reynslu sem ritstjórar, fréttastjórar, útgefendur, dagskrárgerðamenn, fréttamenn, rithöfundar, fræðimenn og stjórnendur hljóta að spyrja hvað hafi legið til grundvallar valinu í lokaúrtakið því ekki voru það hæfnis- og kynjasjónarmið. Auk þess var krafan um sanngjarnt og gagnsætt ráðningarferli að engu höfð.
Svo virðist sem stjórn ríkisútvarpsins hafi markvisst útilokað þessar konur á lokametrunum til að forðast óhagstæðan samanburð við þann sem ráðinn var í því skyni að hindra jafnréttiskærur.
Eftir stendur ein spurning sem beint er til stjórnar ríkisútvarpsins:
Hvaða umfram hæfnisþættir og yfirburðir réðu ráðningu ellefta karlsins í stöðu útvarpsstjóra?
Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir
______________________________________
Mannréttindalögmaður, fyrrverandi ritstjóri og útgefandi.
Grein þessi birtist í miðopnu Morgunblaðsins laugardaginn 1. febrúar 2019 þegar í kjölfar umdeildrar ráðningar í stöðu útvarpsstjóra hjá ríkisútvarpinu.