2. júní, 2012

Kæru vinir;

Í upphafi þessarar baráttu – lagði ég áherslu á að ég væri að fara fram á eigin verðleikum en ekki sem fulltrúi sterkra peningaafla eða valdablokka. Ég sagðist myndu treysta á fólkið í landinu til að styðja þetta framboð.

Einhverjir kusu að túlka orð mín þannig að ég væri að fara fram gegn fjármálaöflunum. Framboð mitt beinist EKKI gegn fyrirtækjum í landinu og það beinist ekki út af fyrir sig GEGN fjármálaöflunum – það beinist gegn því að þau eigi að alfarið að ráða því hverjir eru kjörnir til áhrifa í íslensku samfélagi.

Nú þegar fjórar vikur eru í kosningar er ljóst að forsendur mínar voru réttar. Það er mun meiri ástæða til mótframboðs gegn valdablokkum en einstaklingum.  Alveg óháð þeim sem hér eru í kjöri er ljóst að leikurinn er ekki ójafn vegna 90 % yfirburða þeirra sem skoðanakannanir sýna hæsta – heldur vegna þess að valdablokkir sjá sér hag í því að hampa tveimur frambjóðendum nógu mikið til að tryggja þau í sessi í skoðanakönnunum sem framkvæmdar eru á vegum þessara sömu aðila.

Afhverju er ég að bjóða mig fram og fyrir hvað stend ég? Mannréttindi og lýðræði.  Finnst mér þá ekki mikilvægt að setja forsetaembættinu siðareglur nái ég kjöri. Það er eins og að gera samning við bókaútgefanda og læra síðan að skrifa af því að ég held að það þurfi þarf miklu fremur að setja siðareglur um það hvernig maður verður forseti heldur en hvernig forseti maður verður.

Ég hef reyndar komið að því að semja leiðbeiningarreglur  fyrir Evrópuráðið um það hvernig fjölmiðlar eiga að haga sér í aðdraganda kosninga til að gæta að hlutleysi og jafnræði vegna þess að kjósendur eiga rétt á því áður en þeir gera upp hug sinn að fá upplýsingar um frambjóðendur. —  Kannski ætti ég að þýða þessar leiðbeiningarreglur yfir á íslensku til að dreifa á fjölmiðlana.

Veit að blaðamönnum er vandi á höndum sem og stjórnmálamönnum og jafnvel frambjóðendum – öll virðumst við háð því að fjársterkir aðilar sjái sér hag í því að styðja okkur –  nema ef vera skyldi að fólkið í landinu ætlaði að kjósa okkur – en þá þarf það líka að heyra rödd okkar og til þess þurfum við að komast í fjölmiðla.

Og hver er sú rödd og hvaða framtíð talar hún fyrir. Framtíð mannréttinda og lýðræðis sem segir:

Ég vil að litlu stelpurnar sem ég sá á gangstétt í Innri Njarðvík í gær með allt ljós heimsins í augunum geti boðið sig fram til opinberra starfa þegar þar að kemur án þess að það kosti mörg hundruð milljónir;

að vinnandi fólk beri ekki stöðugan kvíðboga fyrir framtíðinni af ótta um hvort það haldi vinnu;

að fólk geti treyst því að stjórnmálamenn séu í raun og veru að leita lausna og að þeir gefi öðrum tækifæri til þess  þegar þeir hafa setið í átta ár;

að það sem vísindamenn segi byggi á raunverulegum niðurstöðum rannsókna;

að blaðamenn séu í raun að leita sannleikans þegar þeir koma við kaunin á einhverjum;

að þeir sem auðgast og verða ríkir séu það vegna þess að þeir hafi verið duglegir og heiðarlegir.

að hinir betur settu í þjóðfélaginu vilji frekar hjálpa byggðalaginu sínu, leiksskólunum, gamla fólkinu og sjúklingunum heldur en að skemmta sér;

að hinir ríku verði ekki svo ríkir og valdamiklir að þeir eigi allt, landið, miðin, blaðamennina, stjórnmálamennina og skoðanir fólksins í samfélaginu;

að stjórnmálamenn taki alltaf upp hanskann fyrir þá sem minna mega sín– og þoli ekki órétt!

að fólk fari vel með landið og uppgötvi á nýjan leik dyggðina – af því að þegar höfundar vestrænnar stjórnskipunar voru að hverfa frá kóngum og klíkum – yfir í lýðræði lögðu þeir áherslu á að dyggðin er móðir frelsins. Frelsi án dyggða og ábyrgðar leiðir til andhverfu sinnar – þar sem frelsið tilheyrir örfáum – hinir verða undir;

að sá sem er kjörinn forseti Íslands geti talað kjark í þjóð sem er langþreytt á sérhagsmunagæslu og sjálfhverfu þeirra sem ráða í stjórnmálum, viðskiptum og fjölmiðlum;

að fólk átti sig á því að hugrekki er forsenda frelsis; að spilling er leiðin til ánauðar og að við viljum búa í samfélagi þar sem fólk má hafa hugsjónir án þess að óttast um afkomu sína;

að við búum í samfélagi þar sem einstaklingar fá að blómstra í stað þess að litið sé á þá sem tannhjól í vel smurðri vél – slíkt samfélag verður aldrei merkilegt.

Við værum ekki hér í dag nema vegna þess að formæður okkar og forfeður – höfðu hugrekki til að halda áfram í landi þar sem lífsbaráttan hefur verið hörð og erfiðleikarnir oft virst óyfirstíganlegir.

Við höldum áfram og höfum að leiðarljósi að almennur skilningur á mannréttindum og varðveisla þeirra er grundvöllur framtíðar okkar og frelsis.