betri valkostNú er rifjað upp í netheimum að í byrjun mars 2012 var sett á laggirnar á Facebooksíða sem hét Betri valkost á Bessastaði; sjá umfjöllun Viðskiptablaðsins hér. Þar er m.a. greint frá því að margir hafi verið skráðir í hópinn á síðunni að þeim forspurðum. Herdís Þorgeirsdóttir var í hópi þeirra sem var skráð þarna inn án þess að leitað væri eftir samþykki hennar en nafn hennar   sem  hugsanlegs frambjóðanda hafði verið  í umræðunni. Á síðunni voru óformlegar vinsældakannanir og margir létu í ljósi skoðanir um mögulega frambjóðendur, oft gáleysislega en einnig á rætinn og lítilsvirðandi hátt. Þarna fengu menn smjörþefinn af því sem koma skyldi ef til framboðs kæmi.   Síðunni um “Betri valkost á Bessastöðum” var lokað um leið og  kosningabaráttan var komin í gang enda kom fljótlega í ljós að hér var stuðningsfólk eins frambjóðanda að verki og stofnun síðunnar virtist liður í fyrirhuguðu framboði. Stjórnendur síðunnar (sjá meðfylgjandi mynd) voru enda yfirlýstir stuðningsmenn framboðs Þóru Arnórsdóttur í kosningunum.

Svala Jónsdóttir einn aðstandenda hópsins um “Betri valkost á Bessastaði”, þá starfsmaður á lögfræðiskrifstofu í Reykjavík,  hafði samband við Herdísi 8.  mars 2012 og sagðist hafa stofnað þennan hóp á Facebook. Hún spurði  hvort Herdís vildi taka þátt í skoðanakönnun þar sem teflt væri fram nöfnum einstaklinga sem höfðu verið í umræðunni í sambandi við hugsanlega forsetaframbjóðendur.  Hún sagðist vera kanna hug þeirra sem mældust hafa fylgi samkvæmt óformlegum skoðanakönnunum á þessari síðu. Enginn yrði hafður með í könnun sem ekki vildi þar vera. Herdís kvaðst ekki vilja vera með í slíkri könnun og hefði það ekkert að gera með áform hennar. Hún vildi einfaldlega ekki taka þátt í könnun á þessu stigi  með þessum aðilum enda borðleggjandi að sá aðili sem  Svala studdi, og kom vel í ljós þegar kosningabarátta var formlega hafin, var með öflugt forskot, landsþekkt vegna stöðu sinnar hjá Ríkissjónvarpinu  í Kastljósinu oft í viku og í þættinum Útsvari á hverjum föstudegi (þar til rúmri viku eða hálfum mánuði áður en framboð hennar var kynnt). Aðstandendur síðunnar notuðu það síðan gegn Herdísi að hafa ekki viljað vera með í skoðunkönnun sem þeir stóðu að. Var þá þegar ljóst að þetta var ekki óvilhallur hópur, enda fór Svala Jónsdóttir, sem og fleiri stjórnendur síðunnar, mikinn á Facabook í aðdraganda kosninganna og voru sum óspör í rætnum athugasemdum í garð framboðs Herdísar, sem þeir virtist standa sérstakur stuggur af þrátt fyrir að fylgi mældist lítið í skoðanakönnunum.

Það var yfirlýst markmið þessa hóps að koma með mótframboð gegn Ólafi Ragnari Grímssyni enda ljóst eins og Egill Helgason bendir hér á að forsetinn átti öfluga andstæðinga í röðum Samfylkingar og Vinstri Grænna í kjölfar þess að hann vísaði í tvígang Icesave samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Herdís var ekki í hópi andstæðinga sitjandi forseta þótt hún færi í framboð. Eins og fram kom í málflutningi hennar í kosningabaráttunni kvað hún hann að ýmsu leyti hafa verið framúrskarandi forseta, ekki síst í ljósi þess að hann virkjaði 26. grein Stjórnarskrárinnar í þágu beins lýðræðis og  stóð sig mjög vel í að verja hagsmuni Íslendinga á alþjóðavettavangi í kjölfar Icesave. Herdís Þorgeirsdóttir var einna fyrst til að vara við samningum um Icesave í grein í Fréttablaðinu 20. júní 2009, löngu áður en málið kom inn á borð Forseta Íslands  enda svaraði hún því aðspurð í kosningabaráttunni að hún myndi einnig hafa vísað Icesave í þjóðaratkvæði.

Forsetakosningarnar 2012 voru hápólítískar kosningar þar sem stjórnmálaflokkar fylktu liði að baki tveimur frambjóðendum; sitjandi forseta annars vegar og Þóru Arnórsdóttur hins vegar. Á þetta benti hinn ágæti fjölmiðlamaður Egill Helgason í skrifum sínum. Hann velti einnig fyrir sér frammistöðu fjölmiðla í þessu samhengi: “Maður hefði haldið að Herdís Þorgeirsdóttir ætti að geta haft meira fylgi, en fjölmiðlarnir hafa að mestu sniðgengið hana. Hún virðist ekki eiga mikið innhlaup þar. En það er greinilega mikil þekking á fjölmiðlum og almannatengslum samankomin í framboði Þóru. Herferðin þar sem undirskriftum var safnað um síðustu helgi bar vott um það – má í rauninni segja að þá hafi aðrir sem voru í framboðshugleiðingum verið hræddir burt”.

Það var nokkuð ljóst frá byrjun að fjölmiðlar voru hlutdrægir í kosningabaráttunni, kom strax í ljós í umfjöllun DV og nærmyndum, sem þeir birtu af frambjóðendum. Í nærmynd um Herdísi var samantekt á neikvæðum ummælum sem höfð voru eftir nafnleysingjum. Þegar Herdís tilkynnti um framboðið sat á fremsta bekk fréttamaður RUV sem var í stuðningsmannaliði eins frambjóðandans ásamt öðrum fréttamanni sem einnig var í sama stuðningsliði. Það var ljóst að baráttan yrði fyrir margra hluta sakir ekki sanngjörn, sér í lagi þar sem aðal keppinautur sitjandi forseta kom beint af vettvangi Ríkisútvarpsins, ein vinsælasta sjónvarpskona landsins, sem naut þess forskots að vera á skjá í sjónvarpi allra landsmanna þar til nokkrum dögum áður en hún kynnti framboð sitt. Hún hafði verið í Kastljósinu, helsta fréttatengda þætti sjónvarpsins og Útsvari. Margir starfsmenn útvarps og sjónvarps lágu ekki á skoðunum sínum og stuðningi við hana. Sakir þessa var ljóst að önnur framboð gátu vart treyst því að umræðan yrði málefnaleg og lýðræðisleg á vettvangi Ríkisútvarpsins. Sjá hér. Í framvindunni var ofangreint sjónarmið staðreynt.

Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi skýrði frá því opinberlega þegar leið á kosningabaráttuna að haft hefði verið samband við hann og hann verið beðinn að draga framboð sitt til baka. Sjálf lét Herdís ógert að segja frá miður ánægjulegu símtali sem aðila nákomnum henni barst í upphafi kosningabaráttunnar eftir að fyrstu skoðanakannanir sýndu lágt fylgi við aðra en sitjandi forseta og framboð Þóru.

Í lok maí fékk Herdís send símaskilaboð frá  manni sem starfar á auglýsingastofu. Herdís svaraði ekki skilaboðum mannsins en taldi að hann myndi hafa samband við kosningastjóra hennar ef erindið væri brýnt. Hann hringdi síðar í aðila henni nákominn, sem hann er kunnugur sjálfur. Benti hann á að Herdís mældist það lág í skoðanakönnunum að best væri fyrir hana að draga framboð sitt til baka ella  yrði henni “stútað” með rógsherferð, (“ef hún hættir núna getur hún komist hjá því að vera stútað“); menn væru á launum og  þetta stefndi í ógeð; (“Betra að hætta núna áður en þetta stefnir í ógeð”); staðan væri “game over” fyrir Herdísi. Þetta sagði hann í símtalinu og var skráð eftir honum. Maður þessi sagði í lok kosningabaráttunnar á FB síðu sinni hinn 29. júní 2012 eftir sjónvarpsþátt með frambjóðendum á RÚV:

Sem einn umsjónaraðili auglýsinga fyrir Þóru Arnórsdóttur vil ég segja: Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar um fjármál framboðsins, umfang auglýsinga og uppruna framlaga til þess eru viðurstyggð. Óhróður, vísvitandi lygi, rógburður og óblandað ógeð. Ég tek fram að ég starfaði við framboð Ólafs Ragnars Grímssonar 1996 og hafði aðgang að gögnum um fjármögnun þess. Þetta er hreinn og óblandaður óheiðarleiki.

þorvaldur sverrisson 2

 

 

 

 

 

 

Hér fjallar Egill Helgason um þessa vefsíðu 10. apríl 2012.

Hér fjallar Egill um að fjölmiðlar hafi sniðgengið Herdísi Þorgeirsdóttur. Hún virðist ekki eiga mikið innhlaup þar.

Hér fjallar Egill Helgason um skoðanakönnun hópsins sem stóð að síðunni um “Betri valkost á Bessastaði”.

Laugardagur 24.03.2012 – 16:01 – Ummæli (32)

Könnun á forsetaefnum

Hópur sem er að leita að frambjóðanda gegn Ólafi Ragnari Grímssyni lét Capacent gera könnun á forsetaefnum fyrir sig. Niðurstðurnar munu vera svohljóðandi.

Ólafur Ragnar trónir langefstur – þó ekki með nema 33,9 prósent.

Í öðru sæti er Þóra Arnórsdóttir, hún er með 14,5 prósent.

Elín Hirst kemur í þriðja sæti með 7,8 prósent

Salvör Nordal er með 7,3 prósent.

Páll Skúlason með 7,0 prósent.

Steán Jón Hafstein með 6 prósent.

Og Þórólfur Árnason með 5,1 prósent og Ari Trausti Guðmundsson með 5 prósent.

Svarhlutfallið var 62,8 prósent – það vekur athygli – en úrtakið var 1346 manns.

http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2012/04/13/fjolmidlaslagur/?fb_comment_id=fbc_10150679636851896_23259852_10150680372331896#f246ffb0f

Egill Helgason 10. apríl 2012

Þriðjudagur 10.04.2012 – 10:09 – Ummæli (197)

Forsetakosningarnar og Samfylkingin

Það er mikið deilt um það núna hvort framboð Þóru Arnórsdóttur sé á vegum Samfylkingarinnar eða Evrópusinna. Einum þeirra sem hefur haldið þessu fram, Páli Vilhjálmssyni, er úthúðað á internetinu eins og hann sé fábjáni eða þaðan af verra. Það lýsir miklu óþoli – og er áhyggjuefni.

Framboðið er ekki á vegum Samfylkingarinnar eða stjórnarflokkanna – en það á upptök sín þar. Fólk úr Samfylkingunni hefur í langan tíma verið í dauðaleit að kandídat sem gæti fellt Ólaf Ragnar, það var mikið þrýst á Rögnu Árnadóttur að fara í framboð, hún kærði sig ekki um það á endanum.  Svo var stofnuð vefsíða þar sem voru tilnefndir kandídatar og loks var efnt til skoðanakönnunar. Niðurstaðan í þessu var að Þóra væri sterkasti kandídatinn.

Að baki þessu ferli stóð fólk sem langflest er í Samfylkingunni og stuðningsliði ríkisstjórnarinnar. Það hefur svo gerst að Þóra hefur víðari tilhöfðun en bara inn í raðir stuðningsmanna stjórnarinnar – sem hvort sem er fer mjög fækkandi. Ef hún liti bara út eins og agent stjórnarflokkanna myndi hún seint geta náð fjöldafylgi.

Það er hins vegar ljóst að Samfylkingarfólk mun telja það mikinn sigur fyrir sig að fella Ólaf Ragnar Grímsson. Það leggur fæð á hann vegna synjunarinnar í Icesavemálinu – það var í raun hún sem gerði út um möguleika stjórnarinnar til að halda trausti og vinsældum. Það sér að mál sem flokkurinn hefur beitt sér sérstaklega fyrir eru að klúðrast, sérstaklega þó ESB aðildin. Það verður viss huggun að fá forseta sem er skaplegri en Ólafur Ragnar – en það vegur varla upp á móti á vonbrigðunum sem felast í því að stjórninni, með fyrsta forsætisráðherra Samfylkingarinnar, er að mistakast að gera þær stóru breytingar á samfélaginu sem kveðið var á um í stjórnarsáttmála, og því að fylgi flokksins er hrunið.

Staðreyndin er nú samt sú að í sögu lýðveldisins hefur skipt frekar litlu máli hver er forseti – nema sá sé tilbúinn að beita valdi sínu eins og Ólafur Ragnar hefur gert. Hann er umdeildur maður, Ólafur, en þó sá forseti sem fær langmest pláss í sögubókunum. Við erum að fara inn í forsetakosningar þar sem við vitum eiginlega ekki hvað við fáum yfir okkur, viljum við forseta sem beitir málskotsréttinum oft, sjaldan eða aldrei?

Og í hvaða málum þá?

Það er stóreinkennileg staða þegar kosið er í slíkt embætti að það velti í raun á geðslagi frambjóðandans hvernig hann beitir valdi sínu.