Pressan.is

Dr. Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor og forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga, segir að fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld taka lög almennt ekki nógu alvarlega, sniðgangi þau meðvitað eða ómeðvitað enda eru grundvallarreglurnar þverbrotnar eins og best sést á viðvarandi launamun kynjanna.

Herdís segir í samtali við Pressuna að það sé illt í efni ef konur sem heild eru nánast útilokaðar frá stjórn samfélagsins, opinberum stofnunum, fjölmiðlum og fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt rannsókn Creditinfo fer konum í stjórnum íslenskra fyrirtækja fækkandi og eru nú 14% stjórnarmanna. Hún segir karla ráðandi í efstu lögum samfélagsins og að jafnréttislögin eigi að jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum. Herdís stendur fyrir kvennaráðstefnunni Tengslaneti í vikunni.

Ég hef sagt það áður að það er álit mitt að fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld taka lögin almennt ekki nógu alvarlega, sniðgangi þau meðvitað eða ómeðvitað enda eru grundvallarreglurnar þverbrotnar eins og best sést á viðvarandi launamun kynjanna.

Herdís segir að margar konur segi samfélagið andlega samkynhneigt þar sem karlar eru annars vegar, þeir sjái ekki konur sem stjórnendur eða raunverulega ákvarðanatökuaðila í mikilvægum málum.

Þetta er afleitt vegna þess að konur eiga að koma slíkri ákvarðanatöku ekki eingöngu á grundvelli eigin réttinda heldur vegna hagsmuna heildarinnar. Þegar harðnar á dalnum þjappa karlarnir sem fyrir eru í valdastöðum sér saman og hleypa kannski einni konu upp til málamynda. Til að vinda ofan af þessari þróun verða konur að snúa bökum saman – ekki gegn körlunum heldur vegna þeirra hagsmuna sem í húfi eru.

Herdís segir að markmið jafnréttislaganna þar sem segir að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna sé að útfæra jafnræðisregluna með ítarlegum hætti og þá ekki síst í tengslum við konur sem sérstök hætta þykir á að geti sætt mismunun. Hún telur ákvæði um kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja ekki afgerandi, ekki frekar en ályktun sem Evrópusamtök kvenlögfræðinga (EWLA) sendu frá sér þar sem þing ESB og framkvæmdastjórn eru hvött til að leggja að stjórnvöldum að ýta undir gagnsæi um upplýsingar um samsetningu stjórna í skráðum hlutafélögum.

Herdís er jafnframt forsprakki kvennaráðstefnunnar Tengslanets sem haldin verður á Bifröst síðar í vikunni. Þar verða m.a. umræður um mikilvægi þess að jafna hlut kynja í stjórnum fyrirtækjanna. Ein framsögukvennanna, Brynja Guðmundsdóttir, heldur því fram að nú sé lag fyrir konur að kaupa fyrirtækin.

Ég held að konur geti ekkert beðið eftir því að misáhugasamir karlstjórnendur leiðrétti kjör þeirra eða ýti undir áhrif þeirra innan fyrirtækja, stofnana eða í samfélaginu. Konur verða sjálfar að stíga fram; eiga frumkvæði og taka til sinna ráða. Lögin eru ekki nógu afgerandi og eftirfylgni með framkvæmd jafnréttislaga þaðan af síður.

Herdís segir að þegar hafi á þriðjað hundrað kvenna skráð sig á ráðstefnuna en skráning stendur enn yfir.

Það merkilega við tengslanetið er að það er enginn einn hópur meira áberandi en annar. Þátttakendur koma víða að úr samfélaginu. Margbreytileikinn einkennir einnig framsögukonur. Aðalfyrirlesarinn er bandarískur metsöluhöfundur sem þekkir kjör kvenna vel og ekki síst þeirra lakar settu. Þetta verður rætt enda er ein framsögukvenna formaður Mæðrastyrksnefndar í Reykjavíkur og aðrar framsögukonur þekkja innviði kerfisins og samfélagsins frá mörgum sjónarhornum. Flestar eiga þó það sameiginlegt að vita af eigin raun að samstaða kvenna er ekki bara gildi í sjálfu sér heldur eina leiðin til að ná árangri í þeirri mannréttindabaráttu sem jafnrétti kynjanna er.