Stefnir í hatramma og pólitíska baráttu um Bessastaði
Herdís í Útvarpi Sögu
Frambjóðandinn í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni
Innlent | mbl | 20.5.2012 | 10:49 | Uppfært 12:57
Hefur ekki áhyggjur af skoðanakönnunum
Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi segist fjarri því að gefast upp þótt skoðanakannanir bendi til að hún njóti lítils fylgis. Herdís var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í Sprengisandi í morgun og sagði m.a. að hún teldi tíma Ólafs Ragnars liðinn, 20 ár séu allt of langur tími í embætti.
„Fjarri því,” sagði Herdís þegar Sigurjón spurði hana hvort niðurstöður skoðanakannanna hefðu ekki áhrif á hana. Hún sagðist hafa lesið í Njálu í gærkvöldi og hugsað til þess „að hetjurnar í Njálu eru þær sem eru lagðar í einelti og jafnvel drepnar í lokin, ekki sigurvegararnir. Og ég held ótrauð áfram.” Herdís sagði jafnframt að skoðanakannanir væru ekki fyllilega marktækar. Búið væri að stilla upp tveimur turnum eins og einu valkostunum, en margir ættu eftir að gera upp hug sinn.
Ríkisútvarpið ekki hlutlaust
Herdís gagnrýndi jafnframt umfjöllun fjölmiðla um forsetaslaginn, ekki síst Rúv. Lýsti hún þeirri skoðun sinni að Páll Magnússon útvarpsstjóri hefði átt að taka Þóru Arnórsdóttur af skjánum strax í janúar þegar hún var fyrst nefnd sem hugsanlegur frambjóðandi. „Við erum ósátt [við framgöngu Rúv]. Þetta er spurning um hvort ríkisútvarpið virðist vera hlutlaust og okkur finnst að það sé ekki,” sagði Herdís. „Ég tel að þetta sé mjög alvarlegt mál, vegna þess að fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í kosningum.”
Herdís sagði að enn ættu eftir að eiga sér stað umræður um afstöðu frambjóðenda til málefnanna. „Önnur málefni hafa borið hæst, málefni einkalífsins […] Því miður er dagskrá ríkisútvarpsins ekki þannig að það verði miklar umræður, ekki eins miklar og ég hefði viljað að færu fram til að fólk geti gert upp hug sinn.”
Fjögur kjörtímabil nóg
Aðspurð um málskotsrétt forseta og hvernig Ólafur Ragnar Grímsson hefur beitt honum í sinni forsetatíð sagði Herdís að hún hefði sjálf beitt honum til þess að vísa fyrri Icesave samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og Ólafur Ragnar gerði. Með Icesave tvö og fjölmiðlafrumvarpið hefði hún verið í meiri vafa, sagði hún. „En ég skil að hann hafi gert það, enda finnst mér að lýðræði sé alltaf svarið og ég sé ekki að það sé stórhættulegt að vísa málum til þjóðarinnar því hennar er valdið.”
Herdís sagðist bera virðingu fyrir Ólafi Ragnari, hann væri gamli prófessorinn hennar. „En hans tími er að mínu mati kominn. Hann er búinn að vera fjögur kjörtímabil, og 20 ár eru allt of langur tími.“