lous brandeisÉg er ekki ein um það að líta á nokkra dómara í sögu Hæstaréttar Bandaríkjanna sem framúrskarandi hugsuði. Enda varði ég mörgum árum í að bera saman dóma Hæstaréttar Bandaríkjanna á sviði tjáningarfrelsis og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.  Louis Brandeis varð mér innblástur í löngu ferli vegna djúphugsaðra og vel skrifaðra sérálita á sviði tjáningarfrelsis.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur mikla sérstöðu sakir stöðu sinnar í stjórnskipuninni. Hann hefur lokaorðið um alla lagasetningu sem og um túlkun stjórnarskrárinnar. Vald hans er engu að síður takmarkað af þingi og framkvæmdavaldi en forsetinn tilnefnir dómara í réttinn hverju sinni og þeir eru skipaðir ævilangt. Nú þegar til stendur að skipa nýjan dómara í stað Antonin Scalia sem lést nýverið stendur styr um það hvort forsetinn geti á lokasprettinum tilnefnt dómara sem öldungadeildin muni samþykkja. Það er stjórnskipuleg ábyrgð forsetans að ganga í málið strax en hann hefur a.m.k. átta mánuði til stefnu en kosningarnar fara fram í nóvember þótt nýr forseti taki ekki við fyrr en í janúar á næsta ári.

Það skiptir miklu máli hver verður skipaður í réttinn nú þegar lýðræði og borgaralegum réttindum stafar ógn af aukinni samþjöppun valds og auðs þar sem stórfyrirtæki hafa tögl og hagldir í samfélaginu; sex stór fyrirtæki ráða 90 prósent af fjölmiðlamarkaði í Bandaríkjunum; þau hafa her lögfræðinga á sínum snærum til að hafa áhrif á lagasetningu; þau ráða því beinlínis hverjir eru kjörnir til valda með ótakmörkuðu fjármagni og þau hafa líka áhrif á það hver er skipaður í hæstarétt. Áhrifum fjármálaafla, sem enginn hefur kosið til forystu, eru engin takmörk sett, hvorki innanríkis né á alþjóðavettvangi.

Einn sá dómari sem hefur með skrifum sínum verið mér stöðugur innblástur í rannsóknum á sviði mannréttinda er Louis Brandeis. Hann var skipaður dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna fyrir nákvæmlega 100 árum, í janúar 1916. Það tók 125 daga fyrir öldungadeildina að samþykkja skipan hans þar sem hann var Gyðingur en þó aðallega vegna þess að hann var þekktur baráttumaður fyrir mannréttindum og félagslegu réttlæti. Valdhöfum stóð ógn af Louis Brandeis, ekki eingöngu vegna gáfna hans og hugrekkis heldur vegna þess að það orðspor fór af honum að hann væri “óspillanlegur”. Þetta sagði annar dómari við réttinn löngu síðar.

Louis Brandeis var ekki maður sem sætti sig við status quo – kyrrstöðu í eilífri baráttu fyrir frelsi einstaklings til skoðana og tjáningar. Hann var hugsjónamaður. Hann skrifaði mörg sérálit þegar hann sat í hæstarétti, ekki síst í dómum varðandi tjáningarfrelsi. Þau skrif eru eins og fegursti prósi. Brandeis leit svo á að sérhverjum borgara væri skylt að vera meðvitaður um gang mála en til þess þyrftu upplýsingar að vera til staðar. Forheimskað fólk væri hættulegt lýðræðinu.

Brandeis, eins og flestir samtímamenn hans í Bandaríkjunum var hlynntur samkeppni og frjálsum markaði en sá hættuna sem lýðræðinu stafaði af auðjöfrum þess tíma (rubber barons). Sú hætta er ekki minni nú einni öld síðar.

Það er viðurkennd staðreynd nú að fjármagnsöflin hafa í bandalagi við pólitíkusa  mengað allar vistarverur ríkisvaldsins og aðrar valdamiklar stofnanir samfélagsins eins og fjölmiðla og akademíu. Þetta ástand er fjarri því að vera einskorðað við Bandaríkin því þessarar þróunnar gætir alls staðar í heiminum. Áhrif þessarar þróunnar gætir ekki síst á sviði á tjáningarfrelsis, hvort sem er innan fjölmiðla eða á almennum vettvangi þar sem fólk er hræddara en áður að tjá sig.

Sjálfstætt þenkjandi einstaklingar eru ekki þóknanlegir þeim sem vilja viðhalda því ástandi sem er til staðar. Óspillanlegir einstaklingar í lykilstöðum kunna því að vera útópískur draumur.

Ekkert er þó samfélaginu mikilvægara í dag (og jafn fjarri sanni, myndu einhverjir segja) en að í lykilstöður veljist fólk sem sér stóru myndina. Sagt var um Antonin Scalia sem þótti óhemju íhaldssamur að sýn hans á lögin hafi verið mótuð af trú hans og siðferðilegum gildum. Allir vissu hvar hann stóð. Louis Brandeis bar að sjálfsögðu virðingu fyrir lögunum en sá þau einnig í ljósi æðri viðmiða sem voru lýðræði og einstaklingsfrelsi. Hann varaði við yfirgangi manna sem kunna að vera vel meinandi en skortir skilning. Í bók minni um tjáningarfrelsi sem kom út 2005 (hluti hennar virðist kominn á netið) tengdi ég þetta bandalag fjármálaaflana sem öllu ráða nú – og á ólýðræðislegum forsendum – við skilningsleysið, sem  breiðist út í forheimskandi fjölmiðlun og skorti á upplýsingum sem settar eru í samhengi. Mesta ógnin er  fólgin í sjálfs-ritskoðun fólks sem vill ekki tjá sig af ótta um afkomu sína og atvinnuöryggi. Lái þessu fólki hver sem vill. Hitt er annað mál, eins og Brandeis benti á, hugrekki er kjarni frelsins.