Search Results for: rss

Katla Margrét og Magnús Diðrik Baldursson

Halda uppi stemningunni í kosningamiðstöðinni á Laugavegi

Katla Margrét og Magnús Diðrik 24 júní 2012

Vandaðsta ársskýrslan

ásmundarsafn

Verðlaunaafhending fyrir Ársskýrslu ársins 2005 kl. 17 í Ásmundarsal. Stjórnvísi og Kauphöll Íslands standa að verðlaununum. Fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen veitti verðlaunin.  Herdís Þorgeirsdóttir prófessor stjórnaði atburðinum og tilkynnti að Glitnir hlyti  verðlaunin í ár. Halldór J. Kristjánssonbankastjóri Landsbankans flutti erindi um það umrót sem verið hefur í íslensku efnahagslífi í tengslum við skýrslur erlendra greiningaraðila.

Kaupþing banki hlaut verðlaunin fyrir ársskýrsluna 2004 en þátttakendur eru öll fyrirtæki, sem skráð eru í Kauphöll Íslands hverju sinni. Viðmið við veitingu verðlauna eru vandaðar upplýsingar um félagið og rekstur þess, markmið og áherslur, samkeppnisaðila, stjórnarhætti, launakjör og fleira. Sjá grein eftirÞorkel Sigurlaugsson, einn þriggja dómnefndarmanna, um atburðinn í Viðskiptablaðinu 13. sept.

Herdís Tryggvadóttir 29. janúar 1928 – 15. ágúst 2019

Minningarorð flutt í Hallgrímskirkju 23. ágúst 2019

Herdís Tryggvadóttir kveður í lok sumars á 92. aldursári eftir að hafa verið rúmföst í nokkrar vikur. Barnabarn spurði nokkru áður: Hvernig líður þér amma? Ég er í toppstandi, svaraði amma Herdís. Bandarísk hjón sem hittu í fyrsta sinn þessa háöldruðu konu þar sem hún sat í hjólastól á Grund pössuðu sig á því að tala nógu hægt og skýrt þannig að hún skildi þau nú örugglega. Þau hrukku í kút við svar hennar á hnitmiðaðri ensku þar sem geislandi bros fylgdi í kjölfarið. Þeir sem þekktu Herdísi vissu af þessum eiginleika hennar – í framkomu fór hún ekki troðnar slóðir. Hún snart fólk með óvenjulegum og skemmtilegum tilsvörum.  Frjálsleg í framkomu, laus við tilgerð og einlæg.  Hún lét sér ekki nægja að fá hláturskast sem ung kona heldur valt hún líka úr stólnum – hún hló svo mikið. Hún sáldraði gleði þar sem hún fór, gaf af sérog gaf frá sér – það sem hún átti, jafnvel allt sem hún átti. Fátækleg ung kona gekk fram hjá húsi hennar á köldum vetrardegi fyrir ótal mörgum árum í þunnum jakka, skjálfandi af kulda. Herdís stóð á tröppunum í nýrri kápu en vatt sér að konunni og lagði nýju kápuna yfir axlir hennar.  Til eru sögur af henni af æskuheimilinu þegar maður barði að dyrum sem átti ekkert og baðst ölmusu. Þá hljóp hún inn í eldhús og náði í sunnudagslærið sem átti að steikja og færði manninum. Fyrstu launin sem hún fékk eftir að hún fór að vinna lét hún renna til Mæðrastyrksnefndar og hún hélt áfram að gefa allt sitt líf, til hjálparstofnana og í þágu mannúðarmála.

Herdís Tryggvadóttir leit svo á að kærleikur, fyrirgefning og það að hugsa ekki aðeins um eigin hag – væru inntak kristinnar trúar, sem var haldreipi hennar í gegnum lífið.

 

Hún var fædd á Vesturgötu 32 í svokölluðu Kapteinshúsi sem afi hennar Ásgeir Þorsteinsson skútuskiptstjóri sem lést aðeins þrítugur og kona hans Rannveig Sigurðardóttur höfðu reist. Í húsinu ólst upp heimasætan, Herdís Ásgeirsdóttir, fædd 1895. Seinni maður Rannveigar, Páll Matthíasson skipstjóri sem dó úr spænsku veikinni 1918 kynnti fyrir Herdísi Ásgeirsdóttur ungan mann, sem hann sagði þann efnilegasta sem hann hefði fyrir hitt en það var Tryggvi Ófeigsson þá í Stýrimannaskólanum, síðar skipstjóri og útgerðarmaður. Herdísi hafði dreymt fyrir þessum manni – en hún var draumspök eins og ætt hennar og síðar dóttir hennar Herdís, sem var fjórða í röðinni af fimm börnum þeirra Tryggva. Elstur var Páll Ásgeir, síðan Jóhanna, Rannveig, þá Herdís og yngst Anna, sú eina sem lifir af þessum myndarlega systkinahóp sem frá 1935 ólst upp í húsinu á Hávallagötu 9 – við Landakotstúnið þar sem Herdís lék sér ásamt Rönnu systur sinni, Möbbu Thors, Þorbjörgu Péturs, Clausen-bræðrum, Steingrími Hermanns og Matta Jó. Síðustu dagana sem Herdís lifði rifjaði hún upp minningar af Landakotstúninu og Ferdínand munki sem reyndi reka krakkana af túninu sem þá tilheyrði kirkjunni. Obba vinkona Herdísar minnist þess þegar hún sá þær Heddý og Rönnu fyrst nýfluttar á Hávallagötu, önnur í blárri kápu með hatt og hin í rauðri. Þær systur Hanna, Ranna, Heddý og Anna deildu svokölluðu systraherbergi á Hávallagötu 9. Ranna fylgdi yngri systur sinni ef hún þurfti að fara fram úr á nóttunni því Heddý var myrkfælin. Þær voru miklar og nánar vinkonur alla tíð og saman útskrifuðust þær stúdentar frá Verslunarskóla Íslands vorið 1950. Herdís hafði mestan áhuga á ensku og enskum bókmenntum, sem hún síðar lagði stund á við Háskóla Íslands. Eftir að seinni heimsstyrjöld lauk var Herdís í tæpt ár í Svíþjóð. Hún fór með móður sinni Herdísi til Stokkhólms en varð síðan eftir á húsmæðraskóla sem var staðsettur í sögufrægum kastala sem heitir Skarhult og er á Skáni. Þar lærði hún meðal annars að matreiða fisk í hlaupi, baka marsipantertur og að vefa – en hún fékk bestan vitnisburð af öllum stúlkunum í skólanum fyrir kurteislega og fallega framkomu en síðar sem móðir var hún nokkuð ströng í uppeldinu þegar kom að borðsiðum, því að sýna þakklæti, eldra fólki virðingu og heilsa brosandi.

 

Þegar heim var komið hóf hún nám í Verslunarskólanum þar sem hún var vinsæl meðal bekkjarsystkina og kom engum á óvart að hún skyldi kjörin fegurðardrottning skólans – þessi fallega og glæsilega stúlka. Sjálf var hún alla tíð lítt meðvituð um útlit sitt – þótt hún hefði auga fyrir fegurð og fallegri hönnun –  náðu slík fyrirbæri aldrei að njörva hana niður –  til þess var hún of frjáls andi og of leitandi sál . . . hún sótti innblástur í rómantíska sýn á lífið, hetjur Íslendingasagna – ekki síst útlagana – tragískar Shakespearpersónur – trúarleiðtoga – andlega jöfra og fórnfúsar manneskjur. Innst inni dreymdi hana unga um að verða hjúkrunarkona einhvers staðar þar sem neyðin væri mest en einnig stóð hugur hennar til leiklistar – og hún var í leiklistarskóla hjá Lárusi Pálssyni sem taldi hana mikið efni í grínleikkonu.  Föður hennar leist ekki á það að hún færi í nám í leiklist til Bretlands en hún var þá starfandi á skrifstofu útgerðarfyrirtækis hans, Júpiter og Mars í Aðalstræti 4.  Á þeim tíma kynntist hún ungum laganema, Þorgeiri Þorsteinssyni. Þau gengu í hjónaband 7. nóvember 1953 en þá var Herdís komin nokkra mánuði leið með frumburð þeirra.  Ungu hjónin bjuggu til að byrja með á Hávallagötu 9. Þau voru stórglæsilegt par – hann dökkur yfirlitum og hún ljós –  bakgrunnur þeirra var nokkuð svipaður og á milli foreldra þeirra ríkti vinsemd. Sumarið 1954 fóru foreldrar Herdísar, systkini og makar  í heimsókn austur á firði til foreldra Þorgeirs, Þorsteins Jónssonar kaupfélagsstjóra og Sigríðar Þorvarðardóttur Kjerúlf í Hermes á Reyðarfirði og ættarbólsins á Egilsstöðum. Þorsteinn tengdafaðir hennar sýndi Herdísi sláturhús kaupfélagsins en dýravinurinn Herdís – neytti aldrei kjöts eftir þá heimsókn.

 

Herdís og Þorgeir eignuðust fjögur börn. Elst er Herdís mannréttindalögfræðingur, fædd 18. febrúar 1954; hún var gift Stefáni Erlendssyni og átti með honum dótturina Herdísi. Með síðari eiginmanni Braga Gunnarssyni en þau skildu – eignaðist hún Maríu Elísabetu, Gunnar Þorgeir og Hörð Tryggva. Næstur er Þorsteinn hagfræðingur, fæddur 17. september 1955, kvæntur Ástu Karen Rafnsdóttur og eiga þau þrjú börn: Ástu Sólhildi, Ásgeir Þór og Herdísi Athenu; þriðja er Sigríður prófessor, fædd 22. febrúar 1958 gift Magnúsi Diðrik Baldurssyni og eiga þau eina dóttur, Elísabetu. Yngstur er Ófeigur Tryggvi læknir, fæddur 17. júlí 1960. Hann er kvæntur Maríu Heimisdóttur og eiga þau synina Tryggva og Gísla. Barnabarnabörnin þrjú – öll fædd 2018 – eru: Hekla Lúísa fædd á níræðis afmælisdegi langömmu sinnar, Tryggvi Veturliði og Ísold Aurelia.

 

Herdís og Þorgeir bjuggu fyrstu árin á Þórsgötu, síðan í Sigtúni 23 þar til Þorgeir var ráðinn fulltrúi lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli 1959. Þá fluttu þau í Grænásinn sem var innan vallarmarka – þrjár lágreistar blokkir þar sem íslenskir ríkisstarfsmenn bjuggu. Herdísi leist ekki á blikuna í fyrstu en árin í Grænási þar sem þau bjuggu fram til ársins 1967 voru í minningu hennar góð ár – hún átti góðar nágrannakonur, var kjörin formaður sóknarnefndar Grænássafnaðar og börnin gengu í barnaskóla Njarðvíkur. Herdís hlýddi þeim vel yfir lexíur og þau voru öll framúrskarandi í námi.  

 

Hún lagði mikið upp úr því að þau lærðu skólaljóðin utanað og læsu þau upp hátt og skýrt. Hún dró upp fyrirmyndir úr fortíðinni, glæddi þær lífi, vitnaði í Shakespeare eða aðra – til að brýna þau áfram – húsverkin og praktískir hlutir máttu sitja á hakanum. Hún í Sjálfstæðisflokknum og Þorgeir genetískur framsóknarmaður þráttuðu um pólitík en nöfn úr heimi alþjóðastjórnmála voru fleyg á heimilinu og börnunum jafn tamt að hlusta á sögur um Gilitrutt, Grímsævintýri, De Gaulle, Kúbudeiluna og Kennedy.

 

Úr Grænási flutti fjölskyldan í Garðabæinn í ágúst 1967. Herdís og Þorgeir skildu tveimur árum síðar – þótt ekki yrði af lögskilnaði fyrr en  nokkuð löngu síðar.  Erfið ár voru framundan – hún var ein með fjögur börn – engan sérstakan starfsferil og á brattann að sækja. Aðmírall á Keflavíkurflugvelli sem Þorgeir starfs síns vegna hafði mikið samneyti hafði sagt um Herdísi konu hans að svo flott væri hún – að hún væri eins og kvenhetja úr Íslendingasögunum. Sjálf var Herdís lúmskt hrifnust af útlögum eins og Gretti Ásmundssyni. Eitthvað í karakter hennar kallaðist á við þá sem stóðu einir og í mótbyr. Það var stórsjór inni í henni eins og í pabba hennar skipstjóranum sem fleytti henni á hærri öldufalda þar sem sýnin var víðari. Það var líka viðkvæmni í henni sem var alveg hennar eigin, en byggði á kristilegri sýn móður hennar.

Hún skar sig á suman hátt úr, að því er börnunum fannst.  Hún hló hátt, eins og reyndar þær systur allar, og hún söng í kirkjunni, eins og enginn hlustaði. Það var lífskraftur þarna og gleði sem voru í senn smitandi og svolítið vandræðaleg fyrir unglinga en gerði þá líka næmari á berskjöldun og ósvikna tjáningu. Hún var hrifnæm stemningsmanneskja. Þegar börn hennar sögðu henni frá velgengni í starfi eða námi þá var gleði hennar slík að hún varð að halda sér í eitthvað veggfast, að eigin sögn, svo ekki liði yfir hana.

Hún afvopnaði fólk með framkomu sinni af því að hún tók sig ekki alvarlega,  gerði stanslaust grín að eigin göllum. ,,Tveir mínusar gera plús” var viðkvæði þeirra Þorgeirs beggja í gleði yfir þessum plúsum, börnunum fjórum, sem þeim voru gefin.

 

Á þessum árum beitti hún sér innan samtaka um Herferð gegn hungri en börnin minnast þess að hún tók þátt í hungurvöku yfir heila helgi sem var til að minna á hungur í Afríku og hvetja til söfnunar, en tómlegt var í kæliskápnum heima. Rannveig systir hennar lét sig  þá ekki muna um að bæta fjórum krökkum við matarborðið þar sem fyrir sátu hennar fimm. Herdís átti einnig þátt í stofnun friðarsveita Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og sinnti fleiri mannúðarmálum.

 

Hún var alla tíð mikill dýravinur; villikettir leituðu skjóls hjá henni í vetrarhörkum; hún eignaðist þrjá hunda sem fylgdu henni síðustu fjóra áratugina. Það var samkennd innra með henni með hrjáðum og smáðum. Þessi samkennd lá djúpt í sál hennar og kannski hafði það eitthvað með eigin reynslu að gera. Hún fékk kíghósta sem barn og m.a.s. pabbi hennar tók sér frí af sjónum til að vera í landi og halda á barninu við opinn gluggann sem hóstaði svo að lá við köfnun. Hún átti erfitt í upphafi skólagöngu, lenti á kennara sem sló hana með reglustiku á hendina þar sem henni fannst Herdís ekki standa sig nógu vel. Móðir hennar átti við heilsuleysi að stríða og var fjarri á köflum fyrstu árin og börnin í umsjá vinnustúlkna á heimilinu, en faðirinn skipstjórinn úti á sjó. Síðar í lífinu fékk hún sinn skammt af vonbrigðum í sambandi við ástina en þráin bjó með henni fram á hinsta dag. Þegar annar sona hennar spurði hana hvort hana vantaði eitthvað þar sem hún lá rúmliggjandi á Grund kom svarið að bragði: Kannski kall!

 

Með tíð og tíma varð Herdís ættmóðirin í stórfjölskyldunni – Heddý frænka með stóra brosið, hlýja hjartað og heimboðin þar sem hún hafði bakað stórar og skrautlegar tertur sem sprengdu alla skala og ýmist voru kallaðar ,,flugslys“ eða ,,drottningar“ og enginn var skilinn útundan. – Eftir skilnaðinn eignaðist Þorgeir barn með annarri konu og umfaðmaði Herdís þá stúlku, Kötlu Margréti, alla tíð. Á milli Herdísar og Þorgeirs ríkti gagnkvæm virðing og síðustu árin sem bæði lifðu hittist fjölskyldan reglulega og borðaði saman.

 

Merkilegasti kapítulinn var kannski sá síðasti þar sem Amma Herdís var í aðalhlutverki og brilleraði. Hún hélt uppteknum hætti og hringdi, stundum oft á dag í barnabörnin rétt eins og hún hafði hringt í börnin sín, jafnvel vini þeirra líka.

 

Hún mátti óska sér ferðar í 75 ára afmælisgjöf og kaus að fara í pílagrímsferð til kraftaverkastaðarins Lourdes þar sem María birtist Bernadette, ungri, fátækri stúlku. Herdís sagði helgidóminn birtast hinum smæstu, sem eiga um sárast að binda, eins og Bernadette. Það var inntakið í lífssýn hennar. Hún tengdi við þetta viðkvæmasta blóm, sem býr í okkur öllum og ræktaði þessi tengsl með bænalífi sínu sem var snar þáttur í daglegri tilvist hennar. Hún bað fyrir öllum, og var meðlimur í bænahópi fyrir sjúka til margra ára hér í Hallgrímskirkju.

 

Ein uppáhaldssaga hennar var Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson, um Fjalla-Bensa,  sem leggur allt of mikið í sölurnar til að bjarga nokkrum skjátum í vetrarstormum. Hún fékk að lesa þessa sögu í útvarp þar sem hún var henni svo hjartfólgin. Það var því ekki tilviljun að presturinn sem kom og hélt bænastund með henni og afkomendum síðasta daginn sem hún lifði, leggði út af 23. Davíðssálmi um góða hirðinn. Herdís gat ekki lengur tjáð sig þegar hér var komið, en andlitið lýsti upp þegar farið var með þennan sálm.

 

Herdís hló að efasemdum um eilíft líf. Til hvers væri þá verið að dragnast áfram í hálf tilgangslausri jarðvist, spurði hún börn sín og barnabörn? ,,Haldið þið að þetta sé til einskis?“ Hún lifði lífinu í ljósi þessarar trúar. Kannski þess vegna lýsti af henni. Það stirndi ekki á gólfin hjá henni en það var fallegt í kringum hana. Hún skóp rými fyrir aðrar víddir en þær praktísku. Hún hringdi til að segja frá draumum sem henni fannst boða gott – og líka til að vara við – og hún var óspör á hrósyrði í viðleitni að gleðja aðra. Þannig lifir hún áfram með okkur – elsku ljósberi kærleikans, Herdís Tryggvadóttir.

 

 

Minningargreinar sem birtustu í Morgunblaðinu frá 23. ágúst 2019 – 29. ágúst 2019

  1. ágúst 2019| Minningargreinar | 2363 orð | 1 mynd

Herdís Tryggvadóttir

Herdís Tryggvadóttir fæddist í Reykjavík 29. janúar 1928. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 15. ágúst 2019. 

Foreldrar hennar voru Herdís Ásgeirsdóttir, f. 1895, d. 1982, og Tryggvi Ófeigsson, f. 1896, d. 1987, útgerðarmaður. Systkini Herdísar: Páll Ásgeir, f. 1922, d. 2011; Jóhanna f. 1925, d. 2011; Rannveig, f. 1926, d. 2015; og Anna, f. 1935, sem er nú ein eftirlifandi þeirra systkina.

Herdís gekk í hjónaband 7. nóvember 1953 með Þorgeiri Þorsteinssyni, sýslumanni og lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, f. 28. ágúst 1929, d. 27.11. 2013. Þau skildu. Foreldrar hans: Sigríður Þorvarðardóttir Kjerúlf, f. 1891, d. 1973, og Þorsteinn Jónsson, kaupfélagstjóri KHB, f. 1889, d. 1976. Börn Herdísar og Þorgeirs eru: A) Herdís, mannréttindalögfræðingur, f. 1954. Barn Herdísar og fyrri eiginmanns, Stefáns Erlendssonar: i) Herdís, f. 1987. Hennar maður: Dustin O’Halloran; barn þeirra: Ísold Aurelia, f. 2018. Börn Herdísar og síðari eiginmanns, Braga Gunnarssonar, þau skildu: ii) María Elísabet, f. 1993, iii) Gunnar Þorgeir, f. 1994, iv) Hörður Tryggvi, f. 1997. B) Þorsteinn, hagfræðingur, f. 1955. Maki: Ásta Karen Rafnsdóttir. Börn þeirra: i) Ásta Sólhildur, f. 1991. Hennar maður: Kristján Skúli Skúlason; barn þeirra: Tryggvi Veturliði, f. 2018, ii) Ásgeir Þór, f. 1994, Herdís Athena, f. 1996. C) Sigríður, prófessor, f. 1958. Maki: Magnús Diðrik Baldursson. Barn þeirra: Elísabet, f. 1986. Maki: Christoph Buller; barn þeirra: Hekla Lúísa, f. 2018. D) Ófeigur Tryggvi, læknir, f. 1960. Maki: María Heimisdóttir. Synir þeirra: i) Tryggvi, f. 1991, ii) Gísli, f. 1998.

Herdís ólst upp í Reykjavík, bjó fyrst á Vesturgötu 32, á Hávallagötu 9, og næstum síðustu 40 ár ævinnar á Laugarásvegi 17a. Herdís var við nám í húsmæðraskóla Skarhult í Svíþjóð eftir seinni heimsstyrjöldina og lærði um skeið leiklist í skóla Lárusar Pálssonar. Herdís lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands og varð stúdent þaðan vorið 1950. Hún lagði síðar stund á ensku við Háskóla Íslands. Hún vann á skrifstofu Júpíters og Mars en var heimavinnandi eftir það, fyrir utan nokkur ár sem hún vann hjá Loftleiðum. 

Herdís vann alla tíð að mannúðarmálum, ekki síst tengdum kirkjunni, málefnum kvenna og náttúru- og dýravernd. Hún studdi heilsugæsluverkefni á vegum Kristniboðssambandsins í Afríku, var stofnaðili að friðarsveitum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, beitti sér innan samtakanna Herferð gegn hungri og átti þátt í stofnun samtaka gegn limlestingu á kynfærum kvenna, svo eitthvað sé nefnt. Herdís tók þátt í starfi bænahóps fyrir sjúka í Hallgrímskirkju um langt árabil. Hún tók virkan þátt í náttúruverndarbaráttu í upphafi þessarar aldar og birti fjölda blaðagreina um hugðarefni sín, þ.ám. um dýravernd, en hún neytti ekki kjöts frá unga aldri.

Útför hennar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 23. ágúst 2019, klukkan 15.

Við kveðjum í dag Herdísi Tryggvadóttur. Með Herdísi er gengin einstök kona sem átti engan sinn líka. Hún var hugsjónakona sem barðist fyrir öllu og öllum sem eru óréttlæti beittir eða standa höllum fæti; mönnum, dýrum, náttúrunni. Baráttuþrek sitt sótti Herdís ekki síst í sannfæringu trúarinnar. En hún prédikaði ekki trú sína í orði heldur lifði hana og sýndi í verki. Þannig var Herdís öllum sem henni kynntust lýsandi fyrirmynd.

Herdís var góða sálin í fjölskyldunni. Hún var kærleiksrík móðir, tengdamóðir, amma og langamma. Hún reyndist okkur fjölskyldunni alla tíð einstaklega vel, var hjálpsöm, ástrík, nærgætin og örlát. Herdís skildi eftir sig mikinn auð með afkomendum sínum og gaf þeim skilyrðislausa ást og umhyggju. Hún var ætíð hvetjandi og styðjandi og vék aldrei styggðaryrði að nokkrum manni heldur sá það besta í öllum.

Herdís var falleg ytra sem innra og í henni sló gullhjarta. Það var mikil gjöf að fá að verða samferða henni í 35 ár. Með hverju árinu sem leið dýpkaði vinátta okkar. Hún hafði skoðanir en var lærdómsfús, ævinlega opin fyrir nýjum hugmyndum og til í að ræða um hvað sem var. Og hún var skemmtileg og fyndin – smitandi hlátur hennar ómótstæðilegur. Allir sem umgengust Herdísi komu betri manneskjur af hverjum fundi við hana.

Ég kveð Herdísi Tryggvadóttur tengdamóður mína með söknuði, þakklæti og djúpri virðingu. Minning hennar mun lifa.

Magnús Diðrik Baldursson.

 

 

Elsku amma mín Herdís. Nú þegar ég kveð þig með trega í hjarta í hinsta sinn, elsku amma mín, finnst mér ég þurfa að kveðja svo miklu meira en bara þig sem manneskju. Ég þarf endanlega að kveðja æsku mína sem þú stóðst vörð um eins og klettur með óþreytandi jákvæðni, uppörvun, áhyggjum um hvort mér væri kalt eða ég þreytt, með ást og þolinmæði. Ömmur og afar eru verndarar barnsins innra með okkur og það er ein mesta gjöf lífs míns að hafa fengið að njóta þess fram á fullorðinsaldur að eiga eins merkilega manneskju að og amma mín Herdís var.

Það voru átök og áskoranir í lífi ömmu Herdísar sem við barnabörnin urðum aldrei vör við í æsku en hún ræddi svo fallega opinskátt um þegar við eltumst. Þegar ég hef sjálf þurft á að halda var hún alltaf traustur vinur, talaði í mig kjark, dæmdi aldrei, var hreinskilin og sýndi mér einlæga og mannlega hlið á sér. Hún kenndi mér að líta á erfiðleikana sem eðlilega kafla lífsins. Ég er ekki viss um að það sé til manneskja í þessari veröld sem var jafn full af gleði og þakklæti og hún – fram á síðustu ævidaga sína. Amma Herdís eltist og lést með einstakri reisn án þess að tapa nokkru sinni bjartsýni sinni eða fegurð.

Amma Herdís sagðist hafa getað hugsað sér að verða leikkona eða hjúkrunarfræðingur ef hún hefði farið í frekara nám, en í stað þess að fyllast eftirsjá lifði hún gildi þessara starfsstétta; var geislandi skemmtikraftur og húmoristi, umhyggjusöm við þá sem voru hjálparþurfi, gaf sig alla í umönnun fjölskyldu sinnar, var örlátari en flestir og sparaði aldrei hrós. Hún kynnti mig fyrir Albert Schweizer og hugmyndum sínum um hjálparstarf þegar ég var lítil stelpa sem gaf mér kjark til að ferðast á framandi slóðir og velja mér framtíðarstarf.

Heimsóknir mínar til Íslands síðastliðinn áratug hafa einkennst af því að fá að eyða sem mestum tíma með ömmu Herdísi; að fara saman í laugarnar þar sem hún flaut á bakinu í pottinum eins og svífandi engill, drekka 50:50-blöndu af neskaffi á tröppunum á Laugarásveginum, á Dalbraut og svo Grund, læra öll lög Sound of Music utan að, hafa hana sem heiðursgest í brúðkaupinu mínu, tala um guðinn hennar og lífið og allt það sem skiptir mestu máli, hlæja saman og skynja léttleika lífsins í samskiptum við hana. Enginn hafði jafn smitandi hlátur, eins og allir sem hana þekktu vita. Amma sýndi mér að það er í senn hægt að vera djúpvitur og bæði einlæg og sjálfstæð í hugsun – t.d. með því að hafa mynd af Línu langsokk á afmælistertunni í áttræðisafmæli sínu – og kenndi mér að í raun sé það einn og sami hluturinn.

Heimferðirnar munu aldrei verða samar héðan í frá en Reykjavík verður eins og þakin blómabreiðu úr minningum um ömmu sama hvert ég lít.

Ég hefði aldrei orðið að þeirri manneskju sem ég er í dag ef ekki hefði verið fyrir þig, elsku amma mín. Þú hefur mótað mig svo miklu meira sem persónu en þig gæti órað fyrir. Það er ein stærsta gjöfin í lífi mínu að hafa fengið að verið barnabarn þitt.

Þakklætið er óendanlegt.

Elísabet Magnúsdóttir Sigríðardóttir.

 

 

Amma mín var tímalaus kona. Hún lét sér hreyfingar mínútuvísisins í léttu rúmi liggja og ég sá hana aldrei drífa sig. Hún var líka tímalaus því hún hélt alltaf í barnið í sér, lífsglöð og forvitin til hinsta dags. Því þótti mér aldrei erfitt að ímynda mér hana á ólíkum æviskeiðum. Sem myrkfælið og draumlynt barn sem fletti hugfangið sögunni af Örkinni hans Nóa, sem ungling sem keyrði bíl föður síns próflaust, sem rúmlega tvítuga konu sem heimsótti sláturhús með tengdaföður sínum og borðaði aldrei kjöt framar. Hún var falleg og trúuð.

Amma mín var hugsjónakona. Hún klippti út allar greinar sem tengdust velferð dýra. Hvort sem umfjöllunarefnið var aðbúnaður selanna í Húsdýragarðinum eða siðferðileg hugvekja um kjötiðnaðinn. Lengi var það henni kappsmál að fá Kobba, roskna páfagaukinn í Blómavali, færðan yfir í stærra búr.

Húsið hennar var ævintýralegt eins og hún sjálf. Það var dulmagnaður og yndislegur staður. Veggirnir voru klæddir þykkri furu. Á efri hæðinni var japanskt vaxblóm, risavaxin hengiplanta með ljósbleikum og hvítum blómaklösum sem minntu á útskorið kertavax. Fíngerðir og mjúkir stilkar héngu yfir flöskugrænt handrið og slúttu niður á neðri hæð. Þar voru stórblómóttar gardínur fyrir gluggum, svo síðar að faldurinn lá í konunglegum fellingum á gólfinu. Hún bakaði súkkulaðiköku og bræddi suðusúkkulaði yfir, steikti pönnukökur með mörgum eggjum, samt brotnuðu þær þegar maður reyndi að rúlla þeim. Við sátum á heitri stétt fyrir utan útihurðina, með ullarteppi og sængur undir okkur. Ég með valinn hatt úr safni ömmu á kollinum. Amma sjálf svo kulsæl að hún var með alpahúfu og íklædd tveimur ullarpeysum í sólinni. Nágrannastrákurinn sló grasið og amma bað hann að sneiða framhjá fíflunum því henni fannst þeir svo fallegir.

Amma mín eignaðist vini hvert sem hún fór. Hún hafði einstaka útgeislun og sterka nærveru sem var uppfull af gleði og samkennd. Ég get ekki séð fyrir mér andlitið hennar öðruvísi en brosandi. „Þú þarft mikið að tala, Maja,“ sagði hún við mig þegar ég var barn. Hrifning hennar á allri einlægri tjáningarþörf var fölskvalaus. Mér fannst ég geta sagt ömmu allt og hún hlustaði á mig vaða elginn. „Ég var aldrei mikið fyrir skóla, ég var alltaf meira fyrir lífið,“ sagði hún glettin. „Og kannski verð ég fyrsta konan á Íslandi til að deyja úr leti,“ sagði hún líka enda hafði hún mikinn húmor fyrir sjálfri sér.

Sannleikurinn er sá að amma mín var frjáls andi. Viðjar kerfisins höfðu aldrei roð við henni. Hún var flugmælsk og þegar ég varð eldri skrifaði ég oft niður eftir henni. Í vor sagði amma við mig orðrétt: „Lífið er ekki að renna sér eftir sléttu skautasvelli. Það getur enginn verið blómaskraut kyrrt í vasa sem enginn snertir. Lífið tekur í mann og tuskar mann til. En útkoman er oft ágæt.“

Hjartans amma, kvik og ung sál, frjór hugur og viturt hjarta. Ég er Guði þakklát fyrir að hafa átt hana sem ömmu. Ég gleðst yfir lífi hennar, að hafa fengið að elska hana og þiggja allar hennar gjafir. Það er í hennar anda. Guð blessi ömmu.

María Elisabet Bragadóttir.

 

 

Elsku Heddý frænka, minningar streyma fram um góðar stundir þar sem fjölskyldur okkar nutu hvítu sandstrandanna á Flórída og æskuminningar frá flotastöðinni í Keflavík á meðan faðir minn, flug-skurðlæknir, var staðsettur þar með Önnu systur þinni og móður minni. Man eftir móanum og hrauninu sem var leikvöllur okkar frændsystkina og okkur að búa til flugvélar úr dagblöðum og að bralla ýmislegt. Og hvað pabbi minn hafði gaman af því að stríða þér, bara til að heyra hlátur þinn og sjá bros þitt! Hvað tíminn hefur liðið hratt! Man eftir húsinu þínu í Garðabænum þegar ég var orðinn aðeins stærri og okkur frændsystkinum, krökkunum þínum, að leika í kríuvarpi í grenndinni. Þá brosi ég við tilhugsunina um klikkaða hundinn þinn á heimili þínu á Laugarásvegi, nálægt stóru sundlauginni. Dásamlegir hádegisverðir og kvöldverðir á æskuheimili þínu á Hávallagötunni, skemmtilegar máltíðir á Hótel Sögu, sem í minningunni eru sérstakar, ekki síst vegna nærveru þinnar, glampans í augunum og brossins þíns sem var „bjart eins og nýsleginn túskildingur“. Hláturinn smitaði alla viðstadda. Við munum sakna þín sárt og erum öll betri manneskjur fyrir að hafa átt þig að í lífi okkar. Ég er einfaldlega þakklátur afa Tryggva Ófeigssyni og ömmu Herdísi Ásgeirsdóttur fyrir að koma til manns því afbragðsfólki sem ég kalla með stolti móðursystur: Heddý, Rönnu, Hönnu og Pál móðurbróður. Alveg er ég viss um að þau brosa breitt, með hlýju í hjarta og faðminn opinn þar sem þau bjóða þig nú velkomna heim. Guð hraði för þinni og blessi þig elsku Heddý.

Tryggvi McDonald.

 

 

Það var mikil gæfa að fá að vera samferða Heddý frænku og hennar fólki alla tíð. Hún og móðir mín, Rannveig, voru systur og aldursmunurinn var aðeins 14 mánuðir. Afar kært var með þeim og áttu þær margt sameiginlegt. Ég held ég megi segja að stuðningur þeirra hvorrar við aðra hafi verið ómetanlegur en þær urðu báðar einstæðar mæður, önnur með fjögur ung börn og hin fimm. Þetta var á tímum þegar skilnaðir voru fátíðir og öryggisnetið ekki eins þéttriðið og nú er.

Heimili Heddýjar stóð okkur systkinunum ávallt opið og var alltaf gaman að koma þangað. Ekki síst þar sem ég var svo heppinn að eiga þar jafnaldra og vin, Ófeig Tryggva, en mæður okkar fæddu okkur með fimm daga millibili.

Elskusemi Heddýjar og umhyggja fyrir öðrum, ásamt glaðværð og kímni, var afar einkennandi fyrir hana og ekki síður hversu vítt og breitt þessir eiginleikar teygðu sig. Allir nutu jafnt, hvort heldur fjölskylda, menn eða málleysingjar, vinir eða vandalausir.

Lýsandi dæmi um þetta er þegar nágranni hennar stóð í framkvæmdum við heimili sitt og bað um leyfi til að staðsetja kaffistofugám á heimreið Heddýjar um nokkurra mánaða skeið. Var það auðsótt mál, en hún bætti um betur og bakaði reglulega kökur ofan í vinnumennina og færði þeim með sínu breiða brosi.

Einhverju sinni er ég var u.þ.b. 13 ára ætlaði Heddý sér að hringja í móður mína en ég svaraði í símann. Furðaði hún sig á því að ég væri heima en ekki í skólanum. Ég svaraði sem var, að skólasystkinin væru í skíðaferðalagi, ég ætti ekki skíði og væri því heima. Henni fannst það afleitt og sagðist myndu sækja mig eftir hálftíma, sem hún og gerði. Því næst fórum við í Útilíf og þar gerði hún mig að stoltum skíðaeiganda. Fyrir þetta og svo margt annað er ég henni eilíflega þakklátur. Ekki síst umhyggjusemina gagnvart börnunum mínum.

Við Þuríður sendum öllum aðstandendum og vinum Herdísar Tryggvadóttur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ég get ekki skilið við þessi orð án þess að geta þess hversu trúuð hún var, í fallegustu merkingu þess orðs.

Guð blessi þig Heddý mín og takk fyrir allt.

Tryggvi Hallvarðsson.

 

 

HINSTA KVEÐJA
Sólargeislinn Heddý frænka passaði mig í nokkra mánuði þegar ég var tveggja ára. Hún var með foreldrum mínum í Stokkhólmi þar sem faðir minn var í utanríkisþjónustunni. Sambandið sem myndaðist þá á milli mín og föðursystur minnar hélst alla tíð.
Takk, elsku Heddý frænka, fyrir skilyrðislausa ást og vináttu. Samúðarkveðjur frá okkur Þórhalli til fjölskyldunnar. Guð blessi þig.

Herdís Pálsdóttir.

 

✝ Herdís Tryggvadóttir

fæddist 29. janúar 1928. Hún lést 15. ágúst 2019.

Útför hennar fór fram 23. ágúst 2019.

Móðursystir mín,
Herdís Tryggva-
dóttir, gekk alltaf
undir gælunafninu
Heddí frænka hjá okkur börnum Rannveigar, systur hennar. Syst- urnar voru fjórar, Hanna, Ranna, Heddí og Anna, auk elsta bróð- urins Páls. Það var rúmt ár á milli móður okkar og Heddíar, og ákaflega kært með þeim systrum. Stóra systirin Ranna fylgdi Heddí, litlu systur, fram á nótt- unni með glöðu geði og þegar þær áttu að fá nýja svefnbekki um 9- 10 ára aldurinn var fenginn tví- breiður bekkur handa þessum samrýndu systrum. Seinna á lífs- leiðinni, fráskildar konur með stóran barnahóp, styrktu þær áfram hvor aðra með ráðum og dáð. Það er minnisstætt þegar Heddí taldi ekki eftir sér að hafa okkur systkinin í gistingu í Græn- ásnum í um vikutíma eitt sumarið – við fimm bættust við hennar fjögur – en allt gekk vel. Fjögur systkini í hvorum hóp áttu sér jafnaldra í hinum systkinahópn- um, og öll þekktumst við mjög vel.

Heddí frænku var gefin létta lundin sem hafði einkennt móð- urömmu okkar, Herdísi Ásgeirs- dóttur. Þeirrar lyndiseinkunnar frænku okkar nutu allir sem í kringum hana voru, því hún var einkar lagin við að gleðja aðra. Það var aldrei falskur tónn í hrós- inu sem hún var örlát á. Hennar eigin uppspretta gleðinnar var einlæg trú, sem hún lærði af móð- ur sinni og naut alla ævi.

Glettnin var aldrei langt undan hjá Heddí. Skemmtilegar at- hugasemdir gátu náð manni fljótt niður á jörðina. Í einu stórafmæli mínu tók ég svo til orða að mér fyndist ég alls ekki orðin gömul, og benti á hressar móður- og föð- ursystur því til sönnunar. Heddí spurði mig kímin hvort henni hefði bara verið boðið til þess að sýna hversu ungt afmælisbarnið væri miðað við hana.

Hún náði einnig vel til næstu kynslóðar á eftir. Börnin mín minnast jákvæðninnar og smit- andi gleði, og stinga upp á „hrós- degi“ í minningu hennar.

Þegar Rannveig móðir mín dó fyrir fjórum árum hafði Heddí frænka á orði að nú yrði gleði í himnaríki. Mér finnst gott að minnast þeirra orða nú þegar Heddí frænka er öll. Það ríkir ábyggilega gleði og kátína í himnaríki þegar lífskúnstnerinn Herdís Tryggvadóttir bætist þar í hópinn.

Innilegar samúðarkveðjur til Herdísar, Þorsteins, Sigríðar og Ófeigs og fjölskyldna þeirra, svo og Kötlu Margrétar og allra ætt- ingja og vina. Góð kona er gengin.

Eva Hallvarðsdóttir.

 

Orð mega sín lítils þegar elsku Heddí frænka, eins og hún var

ávallt kölluð, er kvödd. Brosið henn- ar fallega sem lýsti upp umhverfið, dill- andi hláturinn, glettnin og sú mikla væntumþykja sem hún sýndi alla tíð var einstök og ég er mjög þakklát fyrir það. Hitti ég hana var eins víst að ég væri ausin lofi – ég

væri alltaf að fríkka og liti svo vel út. Hvernig þetta myndi eigin- lega enda! Maður einhvern veg- inn efldist allur því ekki var ann- að hægt en að trúa henni örstutta stund, og síðan var hlegið.

Hún sýndi væntumþykju með spurningum um það hvernig öll- um liði og hvort ekki væri allt gott að frétta. Ef einhver átti erf- itt bað hún fyrir viðkomandi, en trú hennar var sterk alla tíð. Hún fylgdist grannt með og spurði frétta. Þegar henni voru sagðar jákvæðar fréttir samgladdist hún á þann hátt að einlægnin skein í gegn og maður trúði því að allt færi á besta veg.

Ég er henni óendanlega þakk- lát fyrir hjálpsemina sem hún sýndi mér þegar ég glímdi við veikindi mánuðum saman. Óbeð- in kom hún daglega til mín og hjálpaði með börnin.

Heddí var mér sem önnur móðir en mikill samgangur var milli þeirra systra Heddíjar og Rönnu þegar barnahópurinn var ungur. Ég dvaldi talsvert hjá henni á æskuárum og á góðar minningar frá Grænásnum og Garðaflötinni.

Umhyggja hennar var mikil og sem dæmi um það var okkur Siggu dóttur hennar ekki hleypt út í sundbol á góðviðrisdögum nema vera í lopaundirfötum. Það mátti ekki slá að okkur.

Hún mátti ekkert aumt sjá og dýr áttu sér ávallt griðastað hjá henni líkt og villikisurnar sem fengu skjól og mat undir úti- tröppunum. Hún var svo mikill dýravinur að hún lét ekki kjöt inn fyrir varir sínar frá því hún var ung.

Þegar ég kveð elsku frænku mína ætla ég að gera orðin sem hún lét falla við dánarbeð kærrar systur sinnar að mínum: „Ég samgleðst elsku Rönnu minni því ég er svo þakklát fyrir að hún fékk loksins að kveðja.“ Nú eru þær systur sameinaðar að nýju á góðum stað.

Rannveig Hallvarðsdóttir.

 

Orð virðast fátækleg þegar ég reyni að skrifa örfáar línur til að lýsa uppáhaldsfrænku minni henni Heddý, konu sem var hold- gervingur þess að lifa guðlegu lífi; lífi samkenndar, skilnings, kærleika og ómælds hláturs. Þar sem ég ólst upp í Bandaríkjunum þá voru heimsóknir mínar fátíð- ari en ella en þær höfðu engu minni áhrif en hefði ég búið á Ís- landi. Það skipti engu máli hversu oft ég bað hana að elda handa mér fiskibollur, uppá- haldsrétt barnæsku minnar, þá brosti hún bara og var óðara rok- in inn í eldhúsið. Gómsætir réttir og dásamlegar kökur voru gerð af sama barmafulla og skilyrðis- lausa kærleika og allt annað sem hún tók sér fyrir hendur. Ég var alltaf full eftirvæntingar þegar ég var á leið í heimsókn til hennar, og ég fór þaðan með þá tilfinn- ingu að vera elskuð, lífsglöð og með bros á vör. Og við Heddý vil ég segja þetta: Ég get ekki þakk- að þér nógsamlega fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, en mest þakka ég þér fyrir það sem þú hafðir ekki hugmynd um að hafa gert. Endalausar sögur af föður mínum sem lést árið 1983 hafa hjálpað mér að að halda minningu

hans lifandi, bæði í hug og hjarta. Þú varst fyrirmynd í samkennd, gjafmildi og mikilvægi hlátur- mildi sem hefur ævinlega hjálpað mér að minna sjálfa mig á hvað raunverulega skiptir máli í lífinu. Sterk trú þín hefur verið mér inn- blástur og öllum í kringum þig til eftirbreytni, og ég finn til friðar í hjartanu vitandi að þú ert í örm- um Guðs núna, í eilífri sælu og hlæjandi á himni.

Mér hefur lærst að fólk mun gleyma því sem þú sagðir, fólk mun gleyma því sem þú gerðir, en fólk mun aldrei gleyma hvernig þú lést því líða.

(Maya Angelou)

Mary Beth Loftus.

 

Ég minnist vinkonu minnar Herdísar Tryggvadóttur sem ég hef þekkt frá barnæsku úr Kópa- voginum.

Þegar við vorum litlar stelpur lékum við okkur við Kópavogs- lækinn ásamt Rannveigu systur Herdísar sem var vinkona mín alla tíð. Þar busluðum við þrjár saman í læknum sem þá var tær í sveitinni. Á þessum árum var Kópavogurinn alvöru sveit, börn voru gjarnan send í sveit í Kópa- voginn á sumrin. Foreldrar okkar voru þarna með sumarbústaði og áttum við Herdís og Rannveig þarna góðar stundir. Þar voru berjalautirnar upp um alla móa og lækurinn tær. Á sumrin var heyskapur á bæjunum Fífu- hvammi, Digranesi og einnig á bænum Breiðholti sem var aðeins lengra frá okkur.

Þórunn var bóndi á Fífu- hvammi og átti hún þrjá syni og eina dóttur. Einn þeirra, Guð- mundur, var mjög mikið ljúf- menni og var mikill vinur allra barna í dalnum. Hann var ávallt að passa upp á að börnin færu sér ekki að voða í læknum, berjamó eða hvar þau voru niðurkomin í sveitinni. Herdís sagði mér að hjúkrunarfræðingurinn sem bjó um hann eftir andlátið hefði sagt hann hafa verið eins og engill þegar hann lést. Herdís var trúuð kona og trúði þessu en hún hélt mikið upp á þennan mann og tal- aði mikið um hann í seinni tíð.

Herdís var mikil hugsjónakona og vann talsvert að mannúðar- málum. Hún var vel gefin, ein- staklega falleg og var hún kosin fegurðardrottning í Verslunar- skólanum, þar sem hún tók stúd- entspróf.

Leiðir okkur Herdísar lágu aftur saman þegar hún flutti á Dalbrautina. Það gladdi mig að fá Herdísi í húsið, þessa glæsilegu góðu konu sem vildi alltaf láta gott af sér leiða. Herdís var hrók- ur alls fagnaðar alls staðar sem hún kom. Oft hittumst við saman í matsalnum í hádeginu og svo áttum við líka gleðistundir saman með kaffibollann á morgnana.

Herdís mín, ég er þakklát fyrir gleðistundirnar á Dalbrautinni, þær komu sér vel.

Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Sendi fjölskyldu Herdísar innilegar samúðarkveðjur.

Hólmfríður Bjarnadóttir.

 

„En hvað þú ert með fallegt nef, Sólveig mín“ heyrðist kallað frá fjarlægari enda borðsins á Grillinu á Sögu. Stórfjölskyldan leit upp frá diskunum og virti kaf- rjóðan stelpukrakkann fyrir sér. Stelpan fálmaði yfir nefið í von- lausri tilraun til að fela vaxandi bólu og gaut augunum á svipmik- inn ættföðurinn við borðsendann. „Nei, ekki Fjallsættarnefið“, sagði Heddý frænka, „þitt er enn glæsilegra, grískt eins og á Afró- dítu.“

Hvort unglingsnefið stóð undir þessari stórbrotnu lýsingu skipt- ir minnstu máli því sagan lýsir

föðursystur minni ákaflega vel. Hún kunni að hrósa fólki, löngu áður en slíkt komst í tísku. Heddý frænka var einstaklega jákvæð og gefandi manneskja en jafn- framt hreinskilin og laus við væmni. Eiginleikar sem styrkt- ust með aldrinum. Eins og Páll Ásgeir, bróðir hennar og faðir minn, hafði hún glettnisglampa í augum og létta lund. „Mikið er gott að hlæja með þér,“ sagði hún þegar við höfðum dottið í hressi- legt hláturskast þar sem hún lá enn, mörgum vikum eftir fótbrot, föst inni á spítala fyrir nokkrum árum. „Það eru allir svo voðalega alvarlegir hérna.“

Heddý frænku var alltaf kalt og hafði sífelldar áhyggjur af að öðrum væri líka kalt. „Það er örugglega gallað í mér systemið,“ sagði hún við mig og Herdísi syst- ur mína þar sem hún sat kapp- dúðuð inni á Grund tíu dögum áð- ur en hún kvaddi þennan heim. Svo hló hún og kærri minningu skaut upp í huga mér. Á ættar- móti á Húnavöllum, tuttugu og átta árum fyrr, birtist hún við tjaldið þar sem við fjölskyldan reyndum að sofa. Það var komið fram yfir miðnætti, dæturnar tvær voru loks sofnaðar en það yngsta, ársgamall gutti, hrökk sí- fellt upp af svefninum og grét sáran. Klædd minkapelsi yfir ull- arpeysu og náttkjól og með hlýja húfu á höfði tók hún ekki annað í mál en að ég kæmi með barnið inn á hótelherbergi til hennar. Ég fór inn með drenginn en hann náði ekki að festa þar svefn. Loks brugðum við á það ráð að pakka honum niður í barnavagn og fram undir morgun þessa hlýju sum- arnótt gengum við frænkur með lítinn Pál Ásgeir eftir sveitaveg- um Húnavatnssýslu. Þessari samstöðu með ungri móður mun ég aldrei gleyma.

Herdís var, eins og Anna, sem nú er ein eftir af systkinunum fimm, ákaflega trúuð. Trú hennar var lifandi, björt og iðkuð í verki. Þegar á hefur bjátað hjá mér og mínum hefur Heddý beðið fyrir okkur sem aldrei fyrr. Fyrir það þakka ég, efasemdarkonan, og grunar að bænahiti þeirra systra hafi átt sinn þátt í að allt hefur farið á besta veg.

Aldrei heyrði ég Heddý tala illa um nokkurn mann en hún var engu að síður raunsæ og hrein- skilin kona. Hún var félagslynd og hélt fjölmennar veislur á með- an hún bjó enn í Laugarásnum því henni var í mun að ættingjar og vinir ættu góðar samveru- stundir. Börn hennar og barna- börn bera ættmóðurinni fagurt vitni, gott fólk og ættrækið.

Nefið á mér er hvorki glæsi- legt né grískt, heldur ósköp venjulegt íslenskt nef sem hefur dugað mér ágætlega en ég verð Heddý frænku ævinlega þakklát fyrir allt hrósið, væntumþykjuna og skemmtilegheitin. Dýrmæt minningin lifir.

Sólveig Pálsdóttir.

 

Hitti Herdísi í síðasta sinn í garðveislu í afmæli Magnúsar tengdasonar hennar í lok júlí. Þetta var fallegur dagur. Hún sat úti og ég spurði hvernig hún hefði það. Og hún svaraði: „Ég heyri fuglasöng og sólin skín.“ Og svo kom stóra brosið.

Það var gæfuspor að kynnast Herdísi Tryggvadóttur. Sigga dóttir hennar og ég erum æsku- vinkonur, kynntumst níu ára í Barnaskóla Garðahrepps og upp frá því var ég heimagangur hjá Herdísi og þangað var gott að koma og vera.

Ég fór í mína fyrstu utanlands- ferð með Herdísi, Siggu og Ófa bróður hennar til Spánar 14 ára. Ég var ekki beint að biðja um fræðslu en þannig var að Herdís sagði mér til á mjög eftirminni- legan hátt og tvinnaði þar saman mörgum helstu mikilmennum og hugsuðum heimsins og aldrei gleymi ég Albert Schweitzer. Herdís kunni að fræða og ala upp á þann hátt sem virkaði. Ekki var

síður eftirminnilegt úr þessari Spánarferð hversu mikla athygli Herdís vakti hvar sem hún fór, svo glæsileg, fögur og brosti mót öllum. Svo bættist dillandi hlát- urinn við. Hún fór ekki framhjá neinum.

Annað gæfuspor í lífi mínu tengist einnig Herdísi en í 75 ára afmæli hennar hitti ég eiginmann minn og má því segja að Herdís hafi þarna, eins og áður, verið ör- lagavaldur í lífi mínu. Þegar ég nefndi þetta við hana fyrir nokkr- um árrum, hló hún ánægð við.

Það sýnir göfuglyndi Herdísar og stórhug að hún gaf hátt í þús- und plöntur til gróðursetningar til minningar um fyrrverandi eig- inmann sinn og barnsföður þó að þau hafi skilið á miðjum aldri. Þannig var Herdís í öllu.

Ég kveð þig, elsku Herdís, með ljóði Þorsteins Erlingssonar, Sólskríkjan:

Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,

sem hljómaði til mín úr dálitlum runni. Hún sat þar um nætur og söng þar á grein

svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni.

Og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein –

ó, ef að þú vissir, hvað mikið hún kunni.

Petrína Sæunn Úlfarsdóttir.

 

Eitt af því sem kemur strax upp í hugann þegar ég minnist Herdísar Tryggvadóttur, fyrr- verandi tengdamóður minnar, er hvellur og smitandi hláturinn. Ég minnist þess líka hvað hún tók mér vel við fyrstu kynni. „Komdu sæll og blessaður, og velkominn,“ sagði hún með bros á vör þar sem ég stóð úti fyrir dyrum á Laug- arásveginum. Þegar inn var kom- ið spurði hún mig spjörunum úr eins og títt er um fólk af hennar kynslóð. Mikið ertu með fallegt hár, sagði hún svo upp úr eins manns hljóði, og hló. Það er eins og ljónsmakki og þín höfuðprýði. Þessu gleymi ég seint.

Herdís Tryggvadóttir fór sínar eigin leiðir og datt ýmislegt skondið og skemmtilegt í hug. Hana hafði til dæmis lengi dreymt um að búa í svissneskum fjallakofa. En Sviss var víðsfjarri. Hún dó samt ekki ráðalaus og innréttaði neðri hæðina hjá sér í fjallakofastíl. Á sama tíma fékk hún þá flugu í höfuðið að það hlyti að vera draumi líkast að sofa í vatnsrúmi. Það varð einnig að veruleika.

Svona var Herdís Tryggvadóttir. Hún lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna.

Herdís var löngu skilin þegar leiðir okkar lágu saman og bjó ein. En hún átti hundinn Pedró, sem henni þótti afar vænt um. Hann var iðulega með í för á tíðum gönguferðum hennar um hverfið. Peddi minn, sagði hún jafnan við hundinn, sem hlýddi engu, og afsakaði hann síðan í bak og fyrir.

Svo fæddist Herdís dóttir mín. Hún kom eins og sólargeisli inn í líf ömmu sinnar. Herdís Tryggvadóttir sá ekki sólina fyrir dótturdóttur sinni og nöfnu. Passaði hana frá fæðingu og var vakin og sofin yfir velferð hennar alla tíð. Dóttir mín ólst upp við mikið ástríki ömmu sinnar og samband þeirra langmæðgna var yndislegt. Herdís Stefánsdóttir fer með ómetanlegt veganesti út í lífið úr ranni ömmu sinnar.

Þótt ég hyrfi úr fjölskyldu Herdísar Tryggvadóttur slitnaði þráðurinn aldrei á milli okkar. Herdís dóttir mín batt okkur saman órjúfanlegum böndum. Lengi framan af bauð hún okkur feðginum reglulega í mat til sín. Undir það síðasta tók ég við kefl- inu og sá um matarboðin. Þetta voru ánægjulegar stundir.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Herdísi Tryggvadóttur. Það stafaði birtu frá henni og ég dáðist að æðru- leysi hennar, jafnaðargeði og glaðlyndi. Hún var með stórt hjarta og kenndi mér dýrmæta lexíu. Kynni okkar gerðu mig að betri manni.

Fjölskyldu hennar votta ég mína dýpstu samúð.

Stefán Erlendsson.

 

Ég myndi heldur vilja vera í Reykjavík núna en skrifa um Herdísi úr fjarlægð. En ég reyni að vera með í anda þegar hún er kvödd.

Herdís siglir nú til síns áfanga- staðar. Hún þarf samt ekki að ferðast langt til síns næsta him- neska íverustaðar – hún var næstum komin þangað í lifanda lífi. Og hún mun ekki villast í víð- áttuauðnum alheimsins vegna þess að hún er vön hæstu hæðum í bænum og hugleiðslu. Hún er heldur ekki ókunnug þeim sem búa og byggja himnana. Þeir þekkja hana – hún varð ein af þeim með því að gera jarðneska hluti sem má segja vera him- neska – kraftaverk – með því að hugsa um aðra í vanda, þá sem voru niðurbrotnir, týndir, hrakt- ir, kúgaðir eða auðmýktir.

Læknar geta læknað fólk með því að meðhöndla markvisst veik- indi og sjúkdóma. Heilarar horfa heildrænt á manneskjuna og örva viðnámskraftana. Hæfnin til þess að heila og veita hjálpræði er ekki eins og verkfæri á skurðstofu- bakka sem er beitt vélrænt eftir þörfum. Þessi hæfni er einungis á færi staðfastrar persónu sem ein- setur sér að bjarga lífi og neitar að gefast upp þrátt fyrir mikið andstreymi – með því að biðja af einurð og þrákelkni og stefna að markinu á persónulegan hátt þótt allt standi og mæli gegn því. Svona eins og Benedikt í Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson, uppá- haldsbók Herdísar. Hann gerði kraftaverk þegar hann fann kind- urnar sem voru týndar í snjóbyl og kom þeim í skjól. Herdís gerði kraftaverk með því að neita því að láta líf mitt verða banvænum sjúkdómi að bráð. Óbifanlegur styrkur bæna hennar, staða hennar með mér í hjarta sínu, og með því að næra sál mína með himneskum „afurðum“ – náð, kærleika, fyrirgefningu og skiln- ingi – gerði mér kleift að lifa af. Þannig var máttur vonar hennar og trúar og ég er lifandi vitnis- burður um takmarkalausa mögu- leika þeirra.

Herdís breytti mér einhvern veginn og mitt nýja sjálf fékk ekki einungis aukahæfni til þess að lifa, heldur einnig til að sjá eðli hlutanna, að umgangast sérhvert líf af meiri nærgætni, líkt og það væri í hættu, og að koma auga á sjónarhorn sjálfuppljómunar í fólki. Í raun var þetta hagnýt lexía í kristilegri kenningu um ummyndunina. Munið þið þegar Kristur birti sitt sanna guðlega eðli frammi fyrir postulunum og lærisveinunum að þá varð hann að geislandi ljósi sem lýsti að ofan í allar áttir? Þetta var ekki bara venjulegt ljós sem með því að lýsa upp eina hlið hlutar skyggir hina. Þetta var hið guðlega ljós frá Ta- bor-fjalli sem lýsir upp eðli hlut- anna svo þeir verði frumglæði ljóss. Með öðrum orðum, ef mað- ur fær það verkefni að leiða sann- leika hlutanna í ljós getur maður séð að það er ljós í öllum mönn- um, dýrum og öðru í náttúrunni, þ.e. öll náttúruleg fyrirbæri eru í grundvallaratriðum samsett úr orku. Það gefur til kynna djúp- stæða einingu allra náttúrulegra fyrirbæra og tengir kristilega vit- und og umhverfisvitund í huga Herdísar. Sem er enn eitt undra- vert einkenni hennar. En það er fyrir kynslóðir framtíðar að íhuga.

Með djúpri virðingu og þakklæti mun ég varðveita minningu Herdísar svo lengi sem ég lifi.

Lydia Voronina.

􏰁 Fleiri minningargreinar um Herdísi Tryggvadótt-
ur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

✝ Herdís Tryggvadóttir

fæddist 29. janúar 1928. Hún lést 15. ágúst 2019. Útför hennar fór fram 23. ágúst 2019.

Herdís Tryggvadóttir var gæðakona, í sjón og reynd. Hennar er nú minnst með hlýju og virðingu en umfram allt gleði. Við fyrstu kynni afvopnaði hún okkur, menntaskólavini barna hennar, á sinn fallega og einlæga hátt. Þess vegna þótti okkur öllum vænt um hana. Hún var öðruvísi jarðtengd en hinar mömmurnar; kannski var hún af annarri jörð?

Við vissum að hún hafði verið alin upp við góð efni en þegar við tókum að knýja hjá henni dyra var hún fyrir löngu búin að konvertera úr verðgildum yfir í manngildi – og átti digra sjóði í þeim gjaldmiðli. Umburðarlyndi hennar gagnvart sperriþörf okkar var án fyrirvara og móttökurnar ávallt eins og höfðingja bæri að garði, þó ekki væri fylgt ströngum etikettum um heimsóknartíma. Og kraftaverk mátti það heita að varðhundurinn Pedró skyldi ekki hafa sent okkur nema einu sinni upp á slysavarðstofu í stífkrampasprautu.

Þegar tíminn var kominn á stjórnlaust flug og árin þotin út í buskann – þá náði maður alltaf andanum þegar fundum bar saman á förnum vegi. Þá var hún alveg til í að leyfa manni að þykjast svolítið ennþá – en átti nú oftast sjálf pönslínuna sem gerði þessa stuttu samfundi svo skemmtilega. Og maður skynjaði ávallt hversu stolt hún var – réttilega – af öllu sínu fólki og þakklát fyrir það sem henni var trúað fyrir.

Ögmundur Skarphéðinsson.

Herdís Tryggvadóttir var trúkona um leið og hún var baráttukona. Hún er ekki ein um það. Ef hún sá einhvers staðar óréttlæti vildi hún beita sér fyr ir breytingum. Eitt þeirra mála sem hún vann að var bann við limlestingum á kynfærum kvenna sem milljónir kvenna víða um heim hafa mátt þola og þola enn. Sameinuðu þjóðirnar og ýmis alþjóðleg kvennasam- tök höfðu um árabil vakið at- hygli á þessari hryllilegu ómenningu en hér á landi var skilningur lítill framan af. Menn sögðu: þetta kemur okk- ur ekkert við. Það var nú öðru nær. Herdís hóaði saman kon- um úr kvennabaráttunni, kon- um sem höfðu unnið í Afríku og öðrum áhugasömum. Við hófum störf, skrifuðum greinar, héld- um fundi, sýndum heimilda- myndir og herjuðum á þing- menn. Það var Kolbrún Halldórsdóttir sem tók upp málið á þingi en það tók nokkur ár að koma því í gegn. Loks var samþykkt breyting á hegning- arlögum vorið 2005 við mikinn fögnuð okkar sem höfðum þrýst á málið. Ekki veit ég hvort reynt hefur á lögin en það væri fróðlegt að vita. Það sem skipti miklu máli var að fyrirbyggja og að senda skilaboð út í heim- inn.

Á Íslandi eru limlestingar á kynfærum kvenna bannaðar. Herdís átti stóran hlut að máli og ber að þakka henni fyrir það. Blessuð sé minning Herdísar.

Kristín Ástgeirsdóttir.

 

Látin er kær vinkona mín, Herdís Tryggvadóttir. Vinátta okkar hófst fyrir rúmlega 80 ár- um og hefur enzt fram á þenn- an dag. Mér er minnisstætt þegar við Margrét Thors sáum þessar fallegu stelpur, Heddý og Rönnu, að leik á Landakots- túninu, svo fínar og fallegar. Við eignuðumst þarna vinkonur, og sú vinátta hefur staðið með- an þær lifðu, en ég er ein eftir og syrgi þær allar. Heddý var bæði falleg, glaðlynd og einlæg- ur vinur, sem aldrei brást. Hún valdist alls staðar til forystu þar sem hún kom. Ég minnist fjölskyldunnar á Hávallagötu 9 með því góða fólki sem þar bjó. Frú Herdís, móðir Heddýjar, var yndisleg kona. Hún kom oft inn til okkar stelpnanna til að spjalla við okkur og gefa okkur góð ráð. Mér þótti líka vænt um Tryggva föður hennar sem var mér afar góður alla tíð.

Fyrir vináttuna við Heddý og hennar góðu fjölskyldu verð ég ævinlega þakklát. Guð blessi hana Heddý mína og þakkir fyrir að hafa átt hana fyrir vin- konu. Fjölskyldu hennar sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Þorbjörg Pétursdóttir.

 

Mér finnst ég mjög gæfusöm að hafa fengið tækifæri til að kynnast Herdísi Tryggvadóttur. Það gerði ég í gegnum ömmu- barn hennar, Maríu Elísabetu. Mig langar til að skrifa nokkur orð um hana sem þakklætisvott fyrir allar fallegu stundirnar sem ég átti með henni og Mar- íu.

Þegar ég var 10 ára heyrði ég hana segja: „Hver er munurinn á því að deyða manneskju og að láta hana deyja?“ Þessi setning hafði djúpstæð áhrif á mig og ég flýtti mér að skrifa hana í dagbók til að gleyma henni aldrei. Mér fannst Herdís alla tíð og allt til enda óend- anlega vitur. Það var alltaf eins og hún vissi aðeins meira um lífsins ráðgátur en annað fólk.

Ég held að hún hafi viljað að við María skildum að það væri ekkert vit í því að taka lífið of alvarlega. Um leið vildi hún að við bærum virðingu fyrir lífinu og fyrir náttúrunni allri, allt frá hinu smæsta til hins stærsta.

Elsku amma Herdís, alltaf uppfull af húmor og hlýju. Ég gleymi aldrei hnausþykku súkkulaðikökunni, hattasafninu og göngutúrum í Laugardaln- um. Allt þetta geymi ég í minni mínu eins og fjársjóð. Ég veit að núna er hún komin á stað sem hún hefur aldrei nokkru sinni óttast. Allir sem kynntust henni eru ríkari fyrir vikið og í sannleika sagt get ég ekki hugsað mér fallegri ævi en hennar.

Kristín Halla.

 

Nú hefur elsku Herdís kvatt. Þessi hlýja og hugrakka manneskja sem gaf svo mikið.

Sem lítil stelpa var ég tíður gestur á heimili hennar á Laugarásveginum. Þessar heimsóknir voru alltaf tilhlökkunarefni enda var ekki hægt að hugsa sér meira dekur, fyrir utan hvað Herdís var kát og skemmtileg. Svo mikill húmor- isti.

Ég sé hana fyrir mér á dyrapallinum, skælbrosandi með útbreiddan faðminn.

Maður var svo innilega velkominn. Svo var undantekningarlaust rölt niður í búð og keypt eitthvert góðgæti. Heimilis- hundurinn Pedró fylgdi með, ekkert sérlega spenntur fyrir gestinum, enda vanur óskertri athygli Herdísar. Í göngutúrun- um rákumst við á hina og þessa úr hverfinu. Alltaf gaf Herdís sér tíma til að spjalla. Svo ein- læg og áhugasöm að ekki var annað hægt en stökkva um borð.

Mér fannst þetta stundum dálítið mikið spjall en seinna áttaði ég mig á gjöfunum. Herdís gladdi fólk. Nærði það með hlýju sinni.

Þær voru margar gönguferðirnar með Pedró. Oft var ullarfatnaður dreginn fram. Manni mátti ekki verða kalt. Á kvöldin beið manns uppábúið bambus- rúm, hlaðið dúnsængum og gjarnan þykkt rúmteppi yfir. Kvöldstundirnar voru notaleg- ar. Þá spjölluðum við um alla heima og geima. Malt og suðu- súkkulaði á náttborðinu. Svo voru lesin ævintýri eða dæmi- sögur þar til svefninn sigraði. Um morguninn var ennþá malt og súkkulaði á náttborðinu og það mátti fá sér að vild, að ógleymdu heita kakóinu. Þetta kunni undirrituð að meta.

Stundum kíktum við í bæinn. Þá var rölt milli búða og sest inn á kaffihús. Herdís brosmild, að sjálfsögðu og heilsaði fólki. Breytti engu hvort hún þekkti til eða ekki. Alltaf svo gaman í bæjarferðunum. Hlý höndin sem leiddi. Handtakið öruggt. Fullur poki af nammi og dóti þegar heim var snúið.

Nú þegar hún er farin verða minningarnar svo dýrmætar. Gæska hennar og tryggð gleymist aldrei. Hvernig hún hlustaði og hjálpaði. Djúpvitur.

Verð henni þakklát alla tíð.

Elsku Herdís, Steini, Ásta, Sigga, Magnús, Ófi, María og börn. Missirinn er mikill. Megi allt sem Herdís gaf lifa áfram í hjarta okkar.

Katla Margrét

 

 

Samhljómur: Helga Þórarins víóluleikari

NOIR BLANCHelga grunnur in process Tónlistarmenn og vinir Helgu Þórarinsdóttur víóluleikara halda tónleika henni til styrktar í Norðurljósasal Hörpu sunnudagskvöldið 11. október kl. 20.

Helga var leiðari víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í fjölda ára allt þar til að hún í nóvember 2012 lenti í slysi og varð fyrir mænuskaða. Einnig spilaði hún víða sóló, kammertónlist og fleira ásamt því að sinna kennslu. Helga getur ekki lengur leikið á víóluna en heldur áfram að kenna ungu fólki, sækja tónleika og aðra menningarviðburði eins og henni er unnt. Hjólastóllinn er hennar nýi ferðamáti og stjórnar því hvert hún kemst. Tónleikarnir, sem vinir Helgu með aðstoð starfsfólks Sinfóníunnar standa að, eru ætlaðir til að styrkja hana til að kaupa sérútbúna bifreið. Slík bifreið er afar dýr en myndi stórauka ferðafrelsi Helgu.

Boðið er upp á fjölbreytta efnisskrá með þekktum listamönnum:
Sigrún Eðvaldsdóttir mætir með strengjasveit úr S.Í., Ásgeir Steingrímsson og félagar með gyllta lúðra, Bryndís Halla Gylfadóttir með tangótríó, Laufey Sigurðardóttir, Einar Jóhannesson og fleiri með salonmúsík, Snorri Sigfús Birgisson með eigin tónsmíð. Einnig koma fram 8 selló og Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran, Voces Thules, Hundur í óskilum, Edda Þórarinsdóttir, Egill Ólafsson og að auki stýrir Helga Þórarinsdóttir tónlistaratriði. Kynnir verður Pétur Grétarsson.

Myndskreytingin er eftir listakonuna Helgu Björnsson.

http://harpa.is/dagskra/samhljomur-helga-thorarins-violuleikari

Önnur konan í rúm 60 ár

Anne Brasseur nýr forseti PACEÞingkonan, Anne Brasseur frá Luxembourg hefur verið kjörin forseti þingmannasamkundu Evrópuráðsins í Strasbourg.  Hún er kjörin til eins árs í senn og er önnur konan til að vera kjörin forseti þingsins frá 1949. Hún tekur við af Jean-Claude Mignon sem er í hópi 25 karla sem hafa verið forsetar þingsins. Í gær voru liðin 69 ár frá því að útrýmingarbúðum nasista í Auswitz var lokað og minntist Brasseur þess í þakkarræðu sinni eftir úrslit lágu fyrir. Öll 47 ríki Evrópuráðsins eiga fulltrúa á þingmannasamkundunni í Strassborg. Hér má sjá fulltrúa Íslands á þingmannasamkundu Evrópuráðsins í Strassbourg (skammstafað PACE) en fyrir hópnum fer Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokks.

Minningargreinar um föður minn

Andlátstilkynning

Þorgeir Þorsteinsson 

Þorgeir Þorsteinsson, fyrrverandi sýslumaður og lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli, fæddist í Hermes á Búðareyri við Reyðarfjörð 28. ágúst 1929. Hann lést 27. nóvember 2013.

Foreldrar hans voru Þorsteinn Jónsson, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Héraðsbúa, sonur Jóns Bergssonar, bónda á Egilsstöðum, og Margrétar Pétursdóttur, og Sigríður Þorvarðardóttir Kjerúlf húsfreyja, dóttir Þorvarðar Kjerúlf, læknis og alþingismanns, og Guðríðar Ólafsdóttur Hjaltested.

Systkini Þorgeirs: Þorvarður Kjerúlf, fv. bæjarfógeti og sýslumaður á Ísafirði (látinn), Margrét húsfreyja (látin); Jón, fv. yfirlæknir. Fósturbróðir: Ólafur H. Bjarnason (látinn).

Þorgeir lauk cand. juris-prófi frá Háskóla Íslands 1956. Hann var fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 1956-1959. Hann var aðalfulltrúi hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli frá 1959-1974 er hann var skipaður lögreglustjóri og svo sýslumaður frá 1992. Hann sinnti einnig dómarastörfum áður en aðgreint var á milli framkvæmdar- og dómsvalds við slík embætti. Þorgeir starfaði við lögreglustjóra- og síðar sýslumannsembættið á þeim tíma sem bandarískt herlið var á Keflavíkurflugvelli.

Þorgeir hlaut viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal Officer of the British Empire og sambærilega orðu frá Þýskalandi.

Þorgeir var virkur í uppbyggingu golfíþróttarinnar og einn af stofnfélögum Golfklúbbs Suðurnesja. Hann tók virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins eins og hann átti ættir til.

Þorgeir var tvíkvæntur. Fyrri eiginkona hans var Herdís Tryggvadóttir, f. 1928, dóttir Tryggva Ófeigssonar útgerðarmanns og Herdísar Ásgeirsdóttur. Börn þeirra eru: 1) Herdís, lögfræðingur, f. 1954. Fyrri eiginmaður: Stefán Erlendsson, dóttir þeirra: Herdís, f. 1987. Seinni eiginmaður: Bragi Gunnarsson. Þau skildu. Börn þeirra: María Elísabet, f. 1993, Gunnar Þorgeir, f. 1994, og Hörður Tryggvi, f. 1997. 2) Þorsteinn, hagfræðingur, f. 1955. Eiginkona hans er Ásta Karen Rafnsdóttir og börn þeirra: Ásta Sólhildur, f. 1991, Ásgeir Þór, f. 1994, og Herdís Aþena, f. 1996. 3) Sigríður heimspekingur, f. 1958. Eiginmaður hennar er Magnús Diðrik Baldursson. Dóttir þeirra: Elísabet, f. 1986. 4) Ófeigur Tryggvi læknir, f. 1960. Eiginkona hans er María Heimisdóttir. Synir þeirra: Tryggvi, f. 1991, og Gísli, f. 1998.

Dóttir Þorgeirs og Jóhönnu Andreu Lúðvígsdóttur er Katla Margrét leikkona, f. 1970. Eiginmaður hennar er Jón Ragnar Jónsson. Synir þeirra: Bergur Hrafn, f. 1997, og Egill Árni, f. 2008.

Seinni kona Þorgeirs var Kristín Sveinbjörnsdóttir en þau skildu. Stjúpsonur hans,sonur Kristínar og Magnúsar Blöndals Jóhannssonar tónskálds, frænda Þorgeirs, er Marínó Már lögreglumaður, f. 1971. Eiginkona hans er Sonja Kristín Sverrisdóttir og börn þeirra: Kristján Jökull, f. 2002, og Laufey Kristín, f. 2004. Dóttir Sonju Kristínar og stjúpdóttir Marínós: Elísa Ósk, f. 1991.

Útför Þorgeirs Þorsteinssonar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 12. desember 2013, og hefst kl. 13.

 

Þorgeir tengdafaðir minn var eftirminnilegur maður. Hann var mikill á velli, glæsimenni með ljúfa en virðulega framkomu. Hann átti ákaflega farsælan starfsferil hjá sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli, fyrst sem fulltrúi, síðar sem lögreglustjóri og sýslumaður. Börnin hans og barnabörnin voru þó það sem hann var stoltastur af í sínu lífi.

Í löngu starfi sem lögreglustjóri og sýslumaður tókst hann á við mörg erfið og viðkvæm mál af festu og myndugleik en jafnframt af ljúfmennsku og lítillæti. Hann hampaði aldrei sínum þætti á þessu sviði enda hógvær maður. Hann var ófeiminn við að taka afstöðu og standa með sinni sannfæringu þó það gæti vissulega tekið á. Umhyggja hans fyrir starfsmönnum sínum hélst í hendur við faglegan metnað hans fyrir hönd embættisins og hlutverks þess í samskiptum við almenning og varnarliðið. Fyrir störf sín hlaut hann ýmsar viðurkenningar, m.a. nafnbótina »Officer of the British Empire«. Björgun lítils drengs frá drukknun í Njarðvíkurhöfn á sjöunda áratugnum var afrek sem hann talaði lítið um en gladdist yfir, líklega meira en flestu öðru.

Þorgeir var glaðlyndur og hlýr maður sem naut þess að vera umkringdur börnum, barnabörnum, frændum og vinum. Hann var ákaflega fróður um eigin ætt og lagði sig fram um að kynna sér ættir annarra. Hann var frændrækinn og fylgdist alltaf vel með sínu fólki hvar sem það var statt hverju sinni.

Þorgeir las mikið meðan sjónin entist og hafði sérstakan áhuga á sögu Evrópu og Bandaríkjanna, svo og á sögu heimsstyrjaldarinnar síðari enda var honum herseta bandamanna á Reyðarfirði í barnsminni. Hann hafði oft ferðast um Frakkland og hélt sérstaklega upp á franska sögu og menningu og raunar allt sem franskt var. De Gaulle var hans maður og Renault hans bíll, alveg þangað til hann keypti sér Benz. Um þau skipti mátti helst ekki ræða. Hann fylgdist vel með pólitík innanlands og utan og Framsóknarflokkurinn var hans flokkur fram á síðasta dag. Þorgeir var einn af stofnendum Golfklúbbs Suðurnesja. Hann spilaði golf meðan heilsan leyfði og naut þar góðs félagsskapar ekki síður en íþróttarinnar sjálfrar.

Það voru forréttindi að fá að ferðast með Þorgeiri, jafnt heima á Íslandi sem erlendis. Ég fékk að njóta þessara forréttinda næstum á hverju sumri frá því við kynntumst fyrst fyrir aldarfjórðungi. Hann var einstaklega fróður um staðhætti og sögu landsins alls, en Austfirðir áttu alltaf sérstakan sess í hans huga. Hann gat rakið ábúendur á hverjum bæ í marga ættliði, þekkti hvern stein og kunni ógrynni af sögum af svæðinu. Þar átti hann líka marga góða frændur og vini sem hann ræktaði samband sitt við alla tíð. Það var eins og hann ætti alltaf heima þar þó hann hefði flutt þaðan sem unglingur. »Nú fer ég í mannheima« sagði Þorgeir þegar hann ætlaði austur á firði. Þetta orðalag lýsir Þorgeiri vel – hann lagði ekki illt til nokkurs manns og vildi hvers manns götu greiða.

Ég þakka Þorgeiri ljúf kynni. Blessuð sé minning góðs manns.

María Heimisdóttir.

Ég man ljóslifandi þegar þú birtist í dyragættinni, hávaxinn í ljósum frakka, mjög tignarlegur með virðuleg brún augun. Ég stökk upp um háls þér og sagði »Þorgeir.« Viðbrögð mín komu þér á óvart en þú tókst þessu með bros á vör og faðmaðir mig að þér. Þar með var ísinn brotinn. Þetta var árið 1976 og þarna hittumst við í fyrsta sinn. Ég var 5 ára gamall. Ekki leið á löngu þar til við mamma fluttum til þín í Grænásinn og ég kallaði þig pabba Þorgeir í fyrsta sinn. Ég man hvað þér þótti vænt um það.

Það streymdi mikil hlýja frá þér til mín og mömmu og þú varst óþreytandi við að fræða okkur um ýmsa veraldlega hluti. Þú varst mjög stoltur af uppruna þínum enda varstu Austfirðingur og framsóknarmaður í húð og hár. Ekki má gleyma þeim gríðarlega áhuga þú hafðir á öllu því sem tengdist Frakklandi og franskri menningu. Stundum þegar vel lá á þér kyrjaðir þú fyrir mig franska þjóðsönginn. Ég man ekki hvort mér fannst vandræðalegra framburðurinn eða söngröddin en það skipti ekki máli. Þú varst mjög stoltur og hátíðlegur og mér datt ekki í hug að skemma augnablikið.

Þú kynntir okkur mömmu fyrir golfíþróttinni og fyrir það verð ég þér ævinlega þakklátur. Það voru forréttindi að alast upp í Leirunni þar sem mér var skutlað á morgnana með skrínukost og kakómalt í brúsa og svo sóttur fyrir kvöldfréttirnar.

Við áttum margar góðar stundir fyrir framan sjónvarpið í Grænásnum þar sem við tefldum kvöld eftir kvöld og oftar en ekki vannst þú. En ég man að einu sinni hafði ég sigur og þér var alls ekki skemmt. Þetta var óvænt heimaskítsmát. Þú misstir einbeitinguna eitt augnablik og ég gekk á lagið. Ég var gríðarlega ánægður með sjálfan mig þá og mamma sem var stödd inni í eldhúsi hrökk til við fagnaðarlætin í mér.

Svo liðu árin og fórum við að eiga okkar innbyrðis rimmur. Ástæðan var fyrst og fremst bara ein. Bakkus félagi þinn var farinn að taka stóran toll af heimilislífinu og hafa djúpstæð áhrif á samband ykkar mömmu. Á unglingsárum mínum reyndi ég að leiða sjúkdóm þinn hjá mér en það var ekki alltaf auðvelt. Okkur var þó oftast vel til vina.

Það var svo rétt eftir áramótin 1993 að þú spurðir mig hvort ég hefði ekki áhuga á að koma og starfa í lögreglunni um sumarið. Ég lét tilleiðast og þar hef ég verið síðan. Við það kynntist ég alveg nýrri hlið á þér. Þú varst orðinn yfirmaður minn og það var mér ómetanleg og holl reynsla í alla staði. Ég tók strax eftir því hversu mikið traust þú barst til þinna manna og mjög einbeittur að vilja liði þínu allt hið besta.

Nú seinni árin hittumst við því miður sjaldan og ekki voru mörg samtölin okkar á milli, nú eða heimsóknir. Þú ítrekaðir við mig margoft að þú værir lítið fyrir að eiga frumkvæði og taka upp símtól og það, vinur minn, áttum við sameiginlegt.

Síðasta skiptið sem ég hitti þig heimsótti ég þig á Dalbrautina. Þú varst þar að spila við félaga þína og náðum við ekki að spjalla mikið saman þá. En ég man að ég bara settist við hliðina á þér og horfði lengi vel á þig og sá að þér leið vel. Það var nóg fyrir mig. Ég kyssti þig á ennið og kvaddi.

Kæri pabbi Þorgeir, ég kveð þig með söknuði og þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Ég á þér mikið að þakka.

Þinn

Marinó Már Magnússon (Mási).

Þorgeir föðurbróðir minn var yngstur fimm systkina sem ólust upp í Hermes, hinu mannmarga heimili foreldra hans á Reyðarfirði. Meðal minna fyrstu bernskuminninga er þegar ég var sendur reglulega úr Reykjavík til sumardvalar austur á Reyðarfjörð til afa og ömmu í Hermes, á árunum eftir stríð og uppúr 1950. Afi var með töluverðan búskap meðfram erilsömu starfi kaupfélagsstjóra auk þess að vera iðulega oddviti á þessum árum. Þorgeir var þá einn sinna systkina sem enn voru í heimahúsum á sumrin, en hann stundaði laganám á vetrum. Mörg sumur ók hann vörubíl hjá kaupfélaginu, sem var draumur allra ungra manna á Reyðarfirði í þá daga, við flutning á varningi til bænda á Héraði. Einnig þurfti að sinna heyskap og öðrum bústörfum. Var þá oft mikið líf í tuskunum ekki síst þegar frændsystkini komu í heimsókn eða til sumardvalar. Þorgeir var mjög góður í fótbolta og var hann stundaður öll kvöld. Hann gerði mikið að því að þjálfa okkur unglingana í hlaupum og öðrum íþróttum og sérstaklega hafði hann gaman af því að etja okkur strákunum saman að reyna krafta okkar.

Þorgeir var 12 ára gamall þegar breski herinn gekk á land á Reyðarfirði 1. júní 1941 og setti þar niður aðalbækistöðvar sínar á Austurlandi. Voru þar hátt á annað þúsund hermenn þegar mest var. Hér urðu meiri og sneggri umskipti í lífi íbúanna en annars staðar á landinu á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Má jafnvel fullyrða að þessi innrás hafi umturnað meir lífi fólks hér en önnur innrás sem varð 60 árum síðar við byggingu álversins. Nærvera og samskipti við herinn hafði gríðarleg áhrif á íbúana og ekki hvað síst á unglingana sem voru alltaf að sniglast í kringum hermennina og voru margir fljótir að ná tökum á enskunni. Herinn var í 2-3 ár, fyrsta árið breskur og síðan amerískur. Vera má að þessi reynsla Þorgeirs hafi haft áhrif á að eftir nám varð hann fulltrúi og síðar lögreglustjóri á Keflavíkurvelli og átti allan sinn starfsaldur í samskiptum við varnarliðið og ameríska herinn. Þorgeir kom nánast á hverju ári austur og alltaf varð hann að fara á Reyðarfjörð og æskustöðvarnar. Fjörðinn sem hann dáði svo mjög með sín tignarlegu og fjölbreyttu fjöll, varð að finna nálægð þeirra og kraftinn sem þeim fylgir og hamrabeltunum og þykku blágrýtislögunum sem einkenna fjöllin hér líklega með öflugri og skýrari hætti en annars staðar á landinu. Hitta frændur, vini og kunningja og rifja upp fyrri tíð og fylgjast með þeirri stórkostlegu uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað á síðustu árum.

Þorgeir kom í sumar á ættarmót Egilsstaðaættarinnar sem haldið var á Héraði. Þá skrapp ég með hann í heimsókn á Reyðarfjörð. Við sátum í veðurblíðunni með ölglas í hendi og nutum í síðasta sinn saman útsýnisins, rifjuðum upp örnefni og heiti á fjöllunum og dásömuðum fegurð fjallahringsins. Varð mér þá hugsað til þess er segir í fornu kvæði að »römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til« og hve sérstaklega vel það átti við Þorgeir frænda minn.

Blessuð sé minning hans.

Einar Þorvarðarson.

Vinur minn og frændi Þorgeir Þorsteinsson, fv. sýslumaður og lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli, er látinn.

Með Þorgeiri er genginn góður drengur, sérstæður og skemmtilegur persónuleiki.

Þorgeir var fæddur á Reyðarfirði 28. ágúst 1929, sonur hjónanna Þorsteins Jónssonar kaupfélagsstjóra á Reyðarfirði og konu hans Sigríðar Þorvarðardóttur Kjerúlf, yngstur fjögurra barna þeirra.

Við Þorgeir vorum bræðrasynir og höfum þekkst og verið nánir félagar frá bernsku.

Mér er það ennþá sérstaklega minnisstætt þegar ég sem lítill strákur kom fyrst á Reyðarfjörð og hitti Þorgeir. Hann stjórnaði þar stórum hópi stráka á mismunandi aldri í ýmsum leikjum og framkvæmdum af mikilli snilld en þó af hæversku sem sannkallaður foringi. Allir leituðu eftir og hlýddu leiðsögn hans, jafnvel þeir sem voru talsvert eldri. Hann kom einnig oft og dvaldi á Egilsstöðum á sumrin og brölluðum við þá ýmislegt ásamt frænda okkar Jóni Péturssyni, síðar héraðsdýralækni á Egilsstöðum.

Haustið þegar Þorgeir var 13 ára og ég 14 hófum við nám í Menntaskólanum á Akureyri. Við leigðum okkur herbergi saman í Ægisgötu, neðst á Oddeyrinni, þaðan var langur gangur upp í skóla og þurftum við að hlaupa upp kirkjutröppurnar oft á dag. Við sáum um okkur sjálfir að öllu leyti og þóttumst orðnir fullorðnir menn. Þetta var samt ekki tekið gilt af öllum, m.a. þótti okkur ótækt hve margar bíómyndir voru bannaðar innan 16 ára. Þorgeir dó þó ekki ráðalaus, hann brást við þessum vanda í skyndi, keypti sér frakka og »Battersbý«-hatt og leit þá út eins og Hollywood-leikari þess tíma og það dugði stundum til.

Þorgeir var strax mikill heimsborgari, fylgdist með öllu, fréttum og dagblöðum, stefnum og stjórnmálum, var ákaflega minnugur og fróður, las mikið, allt nema námsbækurnar, honum dugði að fylgjast með í tímum og lesa fyrir próf.

Hann var gamansamur og skemmtilegur og varð því mjög vinmargur, og var það fram á síðustu stund. Þorgeir hafði gaman af að spjalla og rökræða um allt milli himins og jarðar, m.a. pólitík og var dyggur samvinnu- og framsóknarmaður alla sína tíð.

Þorgeir var mjög ættrækinn og lagði sig fram um að halda sambandi við frændfólk sitt, einnig við bernskustöðvarnar, Reyðarfjörð, og fólkið þar eða íbúa þaðan sem fluttir voru á höfuðborgarsvæðið. Eftir menntaskóla skildi leiðir okkar Þorgeirs um hríð. Ég fór til útlanda til náms en hann í Háskóla Íslands og lauk þaðan cand. juris-prófi 1956. Síðan varð hann fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 1956-1959 og var aðalfulltrúi hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli frá 1959-1974 er hann var skipaður lögreglustjóri og síðan sýslumaður frá 1992 og gegndi því starfi til starfsloka með reisn og sæmd.

Börnum og fjölskyldu Þorgeirs votta eg samúð mína.

Blessuð sé minning þín, vinur.

Ingimar Sveinsson.

Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Frændur og frænkur hverfa á braut við hið hinsta kall en eftir sitja minningar sem eftirlifendur geyma og verða um leið hluti af okkur. Minningin um Þorgeir Þorsteinsson frá Hermes á Reyðarfirði, föðurbróður okkar, mun lifa skær og hlý.

Austfirðingur, framsóknarmaður, lögfræðingur, lögreglustjóri og Kjerúlf. Ef Þorgeir hefði átt að lýsa sér sjálfur hefði upptalningin verið á þessa leið. Kaupfélagsstjórasonur að austan, fæddur í upphafi kreppunnar miklu þegar samvinnuhugsjónin sannaði gildi sitt, hlaut að verða liðsmaður þeirra Hermanns og Eysteins. Annar heimanmundur Þorgeirs, góðar gáfur og námshæfileikar, leiddu hann í MA og síðan í laganám við Háskóla Íslands. Fyrsta starf eftir embættispróf í lögum setur iðulega kúrsinn í starfsferlinum. Þorgeir byrjaði sem fulltrúi hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 1956 og við tók rúmlega 40 ára ferill með þeim starfsframa sem »lög gera ráð fyrir« þegar í hlut á jafnhæfur og glæsilegur maður eins og Þorgeir var en hann varð lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli 45 ára að aldri. Lögsagan var hið sameiginlega yfirráðasvæði íslenska ríkisins og mesta herveldis heimsins, varnarsvæðið á Miðnesheiði með íbúafjölda á við stóran kaupstað. Telja verður að Þorgeir hafi verið einstaklega vel í stakk búinn til að gegna þessu ábyrgðarmikla starfi. Samskipti við herinn og framkvæmd íslenskra laga og réttargæsla íslenskra þegna gagnvart stórveldinu krafðist í senn lipurðar og myndugleika svo reisnar Íslands væri gætt með sæmd. Hér kom austfirski uppruninn sér vel þar sem lotning fyrir orðum og borðum hefur aldrei keyrt um þverbak.

Í takt við tíðarandann fluttu börnin úr Hermes suður til mennta og starfa og bjuggu þau flest um tíma og oft samtímis á Þórsgötu 5. Húsið hafði Sigríður Kjerúlf, yndisleg amma okkar og móðir Þorgeirs, fengið í arf eftir móður sína Maddömu Guðríði, seinni konu séra Magnúsar Blöndal langafa okkar sem jafnframt var fósturfaðir Sigríðar. Húsið varð því nokkurs konar útibú frá Hermes fyrir sunnan. Þorgeir og Herdís fluttu í íbúðina á móti foreldrum okkar 1954, þá nýgift. Eins og margir lýstu því þá var það »brúðkaup aldarinnar«. Þar hallaðist ekki á gjörvileikann. Næsta víst er að sambýlið á Þórsgötunni á árunum 1943-1955 á sinn þátt í því hve tengsl systkinanna úr Hermes urðu náin á lífsleiðinni. Þorgeir ávarpaði aldrei móður okkar öðru vísi en með orðunum »Begga mín«. Við þóttumst líka eiga hlut í Þorgeiri og öll ungmennin í fjölskyldunni löðuðust að þessum glæsilega, glaðværa og skemmtilega frænda. Vinsældir hans meðal okkar bræðra og systur okkar voru slíkar að foreldrar okkar gátu á tímabili ekki farið út að skemmta sér nema Doddi passaði. Í upprifjun þessara æskuminninga ber aldrei skugga á nafn Þorgeirs Þorsteinssonar.

Þorgeir hafði til að bera austfirska reisn og höfðingslund og skilur við lífið rétt eins og hann lifði því, með reisn. Við kveðjum kæran frænda með virðingu og söknuði.

Eggert, Guttormur og Þorsteinn Ólafssynir.

Hjónabandi Herdísar föðursystur minnar og Þorgeirs Þorsteinssonar lauk um það leyti sem ég fór að muna eftir mér að ráði. Engu að síður hefur nálægð hans ætíð verið sterk og ég vil minnast hans í örfáum orðum. Þorgeir var glæsimenni, skemmtilegur og skarpgreindur með »glimt í øjet« eins og faðir minn heitinn hefði orðað það en pabba var alltaf hlýtt til fyrrum mágs síns. Seinni árin hitti ég Þorgeir eingöngu við stór tímamót í lífi barna hans eða barnabarna. Nú síðast í vor þegar tvær dótturdætur hans fögnuðu námsáföngum og stolt afans leyndi sér ekki. Þrátt fyrir nokkur þreytumerki vegna Elli kerlingar sýndi hann áhuga á högum mínum og minntist góðra stunda.

Fyrir nokkru hittumst við, börn systkinanna af Hávallagötu, og skoðuðum saman gamlar myndir. Þar á meðal voru einstaklega fallegar myndir sem teknar voru af ömmu Herdísi og afa Tryggva, börnum þeirra og tengdabörnum á sumarferðalagi um Hérað og Reyðarfjörð upp úr miðri síðustu öld. Veðrið er eins og best gerist á þessum slóðum, steikjandi hiti og glampandi sól. Það fer ekki á milli mála af hve mikilli gleði og reisn Þorgeir kynnir sveitina sína fyrir tengdafjölskyldu sinni né hve myndarlegt æskuheimili hans var. Þorgeir var af kynslóð foreldra minna. Kynslóð sem nú er óðum að hverfa. Hann var maður sem ég hef einhvern veginn alltaf þekkt en þekkti þó aldrei í raun. Börnum hans og fjölskyldum þeirra sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Sólveig Pálsdóttir.

Sýslumaðurinn hefur kvatt. Vinur minn, Þorgeir Þorsteinsson, hefur lokið jarðvist sinni eftir skammvin veikindi. Þorgeir var um árabil mjög þekkt nafn í íslenskri stjórnsýslu vegna umfangsmikilla og mikilvægra embættisstarfa á Varnarsvæðinu á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvelli, þar á meðal sem innlent yfirvald gagnvart herliði Bandaríkjanna á svæðinu. Yfirmenn hersins báru mikla virðingu fyrir Þorgeiri og var hann ætíð ávarpaður af þeim sem »Mr. Judge«.

Þorgeir kunni vel að meta hið góða og fagra í lífinu, ekki síst glæsilegar konur. Hann áleit sig vera gæfumann í einkalífi, þrátt fyrir tvo hjónaskilnaði. »Sá sem á heilbrigða og dugandi afkomendur – hann er sannarlega gæfumaður« sagði hann, og átti þar við sjálfan sig. Hafði ég eitt sinn orð á því við hann að hans afkomendur væru ekkert venjulega glæsilegir og framúrskarandi í þjóðfélaginu. Þá svaraði vinur minn: »Ég hef líklega verið góður til undaneldis.«

Síðustu árin þyngdist gangan í lífi Þorgeirs, ekki síst vegna hrakandi sjónar. Eru nokkur ár frá því að hann var úrskurðaður »lögblindur«, en þó hafði hann áfram bærilega ratsjón. Af þeirri ástæðu gat hann ekki um árabil notið afþreyingar við lestur eða sjónvarp. Meðal annars af þeirri ástæðu leitaði hann eftir dægradvöl og félagsskap síðdegis með spjallvinum á völdum veitingastöðum. Var hann gjarnan einn þekktasti og virtasti fastagesturinn og var sannarlega litið á hann sem »Grand old man«. Af mörgum þessara félaga hans var hann gjarnan nefndur Sýslumaðurinn – með stóru essi.

Þorgeir hélt reisn sinni og sjálfstæði til æviloka, og skildi við lífið án langvarandi sjúkralegu. Þannig slapp hann við þau örlög, sem hefðu ekki verið honum að skapi, að verða ósjálfbjarga og veslast upp í löngu veikindastríði. Það er þakkarvert. »Farðu með gát vinur« var ætíð kveðja hans til mín. Sannur höfðingi er horfinn af sviðinu, sem skilur eftir sig góðar og dýrmætar minningar. Blessuð sé minning Þorgeirs Þorsteinssonar.

Hermann Sveinbjörnsson.

Það er með miklum trega sem ég skrifa þessi minningarorð um vin minn, velgjörðamann og fyrrum yfirmann Þorgeir Þorsteinsson sem lést eftir stutta legu 84 ára að aldri. Fundum okkar Þorgeirs bar fyrst saman er ég sótti um starf við embætti hans á Keflavíkurflugvelli á tíunda áratugnum. Þorgeir er ógleymanlegur öllum sem honum kynntust. Mikill á velli. Mikill í lund, þó hann færi vel með það þann tíma sem við þekktumst. Undir yfirborðinu sem hann reyndi stundum að hafa hrjúft sló heitt og stórt hjarta. Þorgeir var heimsmaður, embættismaður af gamla skólanum, karlremba með auga fyrir kvenlegri fegurð. Hann var lífsnautnamaður, naut sín vel við góða máltíð eða með vín á skál. Það var nánast fastur liður að bera saman hádegismatseðilinn í Flugstöðinni og á Varnarsvæðinu. Síðan var valið á milli þess að fara uppí Stöð eða í Ástandið eins og hann orðaði það. Ef Flugstöðin varð fyrir valinu var ævinlega endað á því að »flaðra upp um Tollinn«. Hann sagði mér einhvern tíma að líklega væri hann villimaður því honum þætti betra að snæða austan Rínar þar sem skammtarnir væru almennilegir. Ég sagðist vera samskonar villimaður. Þorgeir var ævinlega vel til fara, klæddur eins og enskur Lord. Hann lagði einnig nokkuð uppúr því að menn væru vel til fara í starfi hvort sem þeir voru einkennisklæddir eður ei. Skömmu eftir að hann lét af störfum kom hann við í Grænásnum og hitti undirritaðan þar fyrir klæddan í jakkaföt en í bol nokkuð fínum. Hann spurði þá: »Eruð þið hættir að hafa um hálsinn hér?« Eftir að hafa hlustað á útskýringar um hversu þægilegur klæðnaður þetta væri lét hann sér fátt um finnast og sagði við þriðja mann sem stóð við hliðina á okkur: »Hann hefði nú ekki komist upp með þetta hjá mér.«

Það fór ævinlega vel á með okkur sem kannski sést best á því að við vorum sammála um að við hefðum viljað að samstarf okkar hefði hafist fyrr og staðið lengur. Það var vandi okkar að spila á spil í hádeginu og skiptast á skoðunum um hvorir væru merkilegri Eskfirðingar eða Reyðfirðingar. Honum var í nöp við tölvur og vildi frekar skrifa handrit að bréfum sínum. Hann hélt þétt um fjárhag embættisins og var lítt gefið um lausatök. Sagði þá gjarnan ef menn heimtuðu óvænt útgjöld: »Það er auðvelt að vera örlátur á annarra manna fé.« Þorgeir var fjölgreindur, talaði m.a. frönsku þegar þörf krafði. Hann var hafsjór af fróðleik um mannkynssögu. Þekkti vel sögu Napóleons og Bismarcks og vitnaði í báða. Tilsvörin voru stundum ótrúlega skemmtileg og eftirminnileg. Það eiga allir sem kynntust Þorgeiri að minnsta kosti eina góða sögu um leiftrandi tilsvör og hvernig hann lét enga eiga hjá sér hvorki háa né lága. Ég er þakklátur fyrir kynni mín af Þorgeiri, velvilja hans í minn garð og vináttuna sem við áttum. Síðasta spjallið áttum við í sumar eftir kosningarnar. Hann gladdist yfir árangrinum og átti ekkert nema góðar óskir mér til handa. Ég votta fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð og bið vini mínum blessunar á nýjum vegum.

Þorsteinn Sæmundsson.

Þorgeir Þorsteinsson, lögreglustjóri og sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, er látinn, 84 ára gamall. Leiðir okkar lágu fyrst saman vorið 1972 er ég hóf störf í ríkislögreglunni á Keflavíkurflugvelli, en Þorgeir var þá aðalfulltrúi Björns Ingvarssonar lögreglustjóra. Árið 1974 var Þorgeir skipaður lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli, en stuttu áður hafði ég hafið störf í lögreglunni í Keflavík. Í janúar árið 1990 lágu leiðir okkar Þorgeirs saman á ný, en þá var ég skipaður yfirlögregluþjónn í rannsóknardeild lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og starfaði með Þorgeiri allt þar til hann fór á eftirlaun haustið 1999.

Þorgeir var vandaður embættismaður á sérstökum og fjölmennum vinnustað, en embættið var stofnað vegna komu Bandaríska varnarliðsins til Íslands 1951. Þorgeir var lengi vel allt í senn sakadómari, tollstjóri og lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli og heyrði embættið undir utanríkisráðuneytið.

Ég minnist Þorgeirs með virðingu og hlýhug. Hann gat verið hrjúfur á yfirborðinu, eins og oft var með embættismenn á þessum tíma, en Þorgeir var hjartahlýr og góður drengur og sýndi það gjarnan þegar einhverjir áttu í erfiðleikum.

Oft er sagt að feigum verður ekki forðað, né ófeigum í hel komið. Hér er lítið dæmi um slíkt. Þorgeiri var boðið að fara ásamt yfirmönnum varnarliðsins með þyrlu til Hvalfjarðar. Hvorki Björn Ingvarsson, þáverandi lögreglustjóri, né Þorgeir sem var staðgengill hans komust í þessa ferð. Fyrst hafði Birni verið boðið, en hann komst ekki og þá hafi verið leitað til Þorgeirs en hann komist ekki heldur. Þann 1. maí 1965 hrapaði þessi þyrla sunnan við Kúagerði upp af Landakoti á Vatnsleysuströnd. Fimm varnarliðsmenn voru um borð og fórust allir.

Þorgeir var mikill framsóknarmaður. Hann fylgdist mjög vel með öllum stjórnmálum, bæði innlendum og erlendum. Hann var vel lesinn og fróður um menn og málefni. Þær voru oft fjörugar umræðurnar á kaffistofunni þegar menn tókust á um hin ýmsu álitamál. Þorgeir hafði mikinn áhuga á Frakklandi og var mjög vel að sér í franskri menningu.

Þorgeir var mikill áhugamaður um golfíþróttina og var einn af stofnendum Golfklúbbs Suðurnesja árið 1964 og lék sjálfur golf fram yfir sjötugt. Þorgeir var góður golfari, beinn á braut og baneitraður í stutta spilinu. Til marks um hæfileika hans þá var hann lengi með um 7 í forgjöf, þrátt fyrir að hafa ekki byrjað að leika golf fyrr en eftir þrítugt.

Eðli máls samkvæmt myndast sérstök tengsl milli lögreglustjóra og yfirlögregluþjóns í lögregluliði eins og á Keflavíkurflugvelli. Það komu oft upp erfið mál, bæði lögreglumál og ekki síður starfsmannamál. Flest þessara mála leysti Þorgeir farsællega. Ég er lánsamur að hafa hitt Þorgeir á þessum árum og notið handleiðslu hans og ekki síður fyrir að hafa kynnst þessum skemmtilega og fróða manni.

Við hjónin sendum börnum Þorgeirs, aðstandendum og vinum hans, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Óskar H. Þórmundsson, yfirlögregluþjónn.

Meðal þess farareyris sem skólavist unglingsárnna fær okkur í hendur eru þau vináttubönd sem knýtast millum skólasystkina og verða mörg hver að þeim gildum sem eru okkur einna dýrmætust og birtugjafar til hinsta dags. Þorgeir Þorsteinsson sem nú er kvaddur var skólabróðir okkar um árabil við Menntaskólann á Akureyri og samstúdent vorið 1949. Nemendur við MA komu hvaðanæva af landinu og tengdust því hver öðrum með ýmsum hætti fremur en bæjarbúum sem þó voru viðmótsgóðir gagnvart þessum aðkomnu unglingum þótt þeir þyrftu stundum að sýna þeim umburðarlyndi.

Þorgeir var upprunninn á Búðareyri við Reyðarfjörð þar sem hann ól bernsku sína hjá upplýstum foreldrum, sem voru frammámenn í héraði og góðum systkinum. Framsóknarflokkurinn var á þessum árum nær einráður um pólitíska hugmyndafræði í byggðarlögum þar eystra og fór Þorgeir ekki varhluta af þeirri hreyfingu, var hann óbilandi fylgismaður flokksins alla ævi. Í dagfari Þorgeirs ríkti mikið jafnaðargeð en væri efast um ágæti framsóknarmanna mátti búast við gneistaflugi og vildu menn síður verða fyrir þeirri hrinu.

Þorgeir samlagaðist skólastarfinu vel og bar virðingu fyrir kennurum MA og anda skólans. Rækt var lögð við hinar klassísku námsbrautir menntaskólanna en Sigurður Guðmundsson og Þórarinn Björnsson fylgdu eftir stefnu móðurmálsverndar og upphafinni heiðursmannahugsjón. Þorgeir var næmur á þessa leiðarvísa skólameistaranna, hann átti létt með nám og þurfti ekki að leggja hart að sér. Fas hans og viðmót aflaði honum velvildar kennara og nemenda og væntumþykju margra. Við sem fylltum þann hóp sem mest var í fylgd með Þorgeiri áttum margar glaðar stundir og urðum ekki uppiskroppa með umræðuefni því Þorgeir var vel heima á mörgum sviðum. Hann var afar vel að sér í sögu en einnig í landafræði og lagði hann okkur til margan molann úr þessum fræðum. Það kom engum á óvart að Þorgeir, sem var maður rökfastur, skyldi leggja fyrir sig lögfræði í háskóla. Hann gat sér gott orð sem sýslumaður og lögreglustjóri á Suðurnesjum og kom honum þá einnig til góða hið farsæla brjóstvit sem mótaði alla hans framgöngu. Dómar hans þóttu vel grundaðir og var ekki hrundið á æðri dómstigum. Þorgeir blandaði geði við samferðamenn einkum við spilaborð og á golfvelli. Hann náði góðri leikni í þessum íþróttum einsog flestu því sem hann tók sér fyrir hendur.

Seinni árin var Þorgeir einbúi og virtist kunna því allvel, hann hélt sambandi við kunningja og vini við spilaborðin og lengi vel gerði hann sér ferð á einhvern grasvöllinn þar sem menn leika golf. Þegar við nú sjáum á bak skólabróður og vini syrtir að. Þorgeir var með gjörvulegustu mönnum og okkur öllum hugþekkur í hvívetna, hann er nú farinn til fundar við þau mörgu skólasystkin sem gengin eru, við hin sitjum eftir hljóð. Afkomendur Þorgeirs mega vel við una að eiga auð hugstæðra minninga. Börn hans vel menntuð og rík að hæfileikum litast nú um í föðurtúni, þau hafa hlotið þar arf sem mölur og ryð fá ei grandað.

Emil Als og Birgir J. Jóhannsson.

Þorgeir Þorsteinsson varði lunganum úr starfsævi sinni í gæslu laga og réttar á Keflavíkurflugvelli. Hann hóf þar störf 1959 þrítugur að aldri sem aðalfulltrúi lögreglustjórans, varð sjálfur lögreglustjóri 1974 og sýslumaður 1992 og gegndi svo sýslumannsembættinu allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 1999.

Keflavíkurflugvöllur var á þessum árum innan skilgreindra varnarsvæða samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna en þau lutu lengst af yfirstjórn utanríkisráðherra. Lögreglustjóraembættið og seinna sýslumannsembættið heyrðu því undir utanríkisráðuneytið og átti Þorgeir því um áratugaskeið mikið og náið samstarf við varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins.

Flotastöðin í Miðnesheiði var á sinni tíð eitt af stærstu sveitarfélögum landsins þar sem ýmsar áskoranir risu í samskiptum íslenskra starfsmanna á flugvallarsvæðinu við varnarliðsmenn og skyldulið þeirra. Þorgeir lagði ávallt áherslu á lipra og greiða úrlausn allra mála og á örugglega stóran þátt í hversu vandræðalítið sambýlið við varnarliðið yfirleitt var.

Eftir því sem árin liðu jókst umfang borgaralegs flugs um Keflavíkurflugvöll og 1987 náðist loks sá langþráði áfangi að skilja það að umtalsverðu leyti frá starfsemi varnarliðsins með opnun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Undir forystu Þorgeirs gegndu lögreglustjóraembættið og síðar sýslumannsembættið mikilvægu hlutverki í að skapa íslensku millilandaflugi nútímastarfsskilyrði.

Samskipti ráðuneytisins við Þorgeir voru alltaf í föstum skorðum eins og ég kynntist sjálfur þegar ég hóf störf á varnarmálaskrifstofu fyrir bráðum 17 árum. Hlutunum var komið fyrir með einföldum en skilvirkum hætti. Sjálfsagt hefur það borið við að stundum væru skiptar skoðanir um skipulag og verklag en sjaldnast riðu menn feitum hesti frá því að reyna ráðskast með sýslumann. Gat þá stundum hvesst en eftirmál voru engin og ávallt jafngott að sækja Þorgeir heim á skrifstofuna í Grænási.

Að leiðarlokum þakkar utanríkisráðuneytið Þorgeiri Þorsteinssyni, lögreglustjóra og sýslumanni, fyrir áratugalangt samstarf og happadrjúg samskipti og vottar fjölskyldu hans hina dýpstu samúð.

Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri.

Þorgeir Þorsteinsson, lengst af lögreglustjóri og sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, var um margt merkilegur maður. Þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir og ég tók við af honum átti hann stundum erfitt með að sleppa takinu af gamla starfinu. Ég lagði mig því fram um að bjóða hann velkominn í heimsóknir á gömlu starfsstöðina sína, sem hann þáði, og eyddum við löngum stundum í spjall og kynntumst nokkuð vel.

Starfsævi Þorgeirs var samofin miklum breytingatímum í íslensku þjóðfélagi og það embætti sem hann stýrði lengstum var einskonar »ríki í ríkinu«. Stjórnsýsla Varnarsvæðanna var mjög sérstök og heyrði sem kunnugt er undir utanríkisráðuneytið. Þótt sambúðin við Varnarliðið hafi verið góð á yfirborðinu voru minniháttar árekstrar milli þessara tveggja menningarheima sem mættust á Varnarsvæðunum algengari en margir hugðu. Ör skipti yfirmanna hjá Bandaríkjamönnum þýddu að stöðugt þurfti að »skóla þá til« en það gat verið þolinmæðisverk. Þar naut Þorgeir sín vel. Hann var stoltur maður og hafði sinn stíl á því hvernig átti að »eiga við Kanana«. Það hlýtur að vera góður vitnisburður um hans embættisverk að sjaldan spurðist þessi núningur við Varnarliðið út. Hann hafði ýmis ráð við að róa Bandaríkjamennina ef honum fannst þeir æsa sig um of. Eitt þeirra var að senda þeim langt og flókið bréf á íslensku með mörgum lagatilvitnunum. Hann vissi að það tók þá tíma að þýða bréfið og átta sig á efnisinnihaldinu. Þessi tími nægði oft til að róa málið og »deilan« leystist farsællega.

Þorgeir var embættismaður af gamla skólanum og óhætt að segja að hann hafi haft sinn sjálfstæða stíl. Það er ekki víst að embættismenn í dag hafi sama svigrúm og hann hafði við sínar embættisfærslur. Hann var skarpgreindur, það fór ekki milli mála, og hafði hlýja og góða nærveru.

Það veitti mér oft mikla ánægju að lesa gömul skjöl og sjá efnistök hans. Margir þættir samskipta Íslands við Varnarliðið hafa verið lítt skráðir. Þar er frá mörgu að segja og eiga eflaust góðar sögur af Þorgeiri og hans embættisverkum eftir að eignast framhaldslíf þegar sú saga verður skráð.

Ég votta fjölskyldu Þorgeirs samúð og óska þeim Guðs blessunar.

Jóhann R. Benediktsson.

http://www.minningargrein.is/2013/12/14/thorgeir-thorsteinsson-minningargreinar/

Endalaus barátta fyrir réttlæti –

Lúthersk afstaða (birtist m.a. í Passíusálmunum): hlýðni við réttlátt yfirvald, óhlýðni við óréttlátt vald! Hallgrímur Pétursson var ekki eingöngu trúarskáld. Hann var svarinn andstæðingur valdníðslu og hroka.

hallgrímur péturssonFyrir rúmu ári flutti Obama ræðu í minningu Martin Luther King og talaði í anda hans um réttlæti andspænis græðgi og óeðlilegum völdum stórfyrirtækja í samfélögum sem vilja kenna sig við lýðræði . . . “Those with power and privilege will often decry any call for change as divisive. They’ll say any challenge to the existing arrangements are unwise and destabilizing. Dr. King understood that peace without justice was no peace at all.”

 

kingJafnvel eftir að Martin Luther King hafði fengið friðarverðlaun Nóbels var hann ofsóttur; rægður af aftaníossum valdsins. Rógurinn hafði áhrif á hans eigið fólk; fátækt blökkufólk sem átti allt undir breytingum, eins og Obama bendir á í ræðunni.

Án réttlætis er enginn friður – sjá ræðu hér.

Passíusálmarnir (27. sálmur (5))

Vei þeim dómara, er veit og sér,víst hvað um málið réttast er,vinnur það þó fyrir vinskap manns að víkja af götu sannleikans.

Lok hringferðar

Er að nálgast Skaftafell í glampandi kvöldsólinni og mistur yfir fjöllunum. Ferðin hringinn um landið hefur verið mjög áhugaverð. Á Akureyri hófst miðvikudagurinn í heita pottinum þar sem ég spjallaði við sundlaugargesti. Heimsótti ég nokkur fyrirtæki, m.a. Slippinn og Samherja, stofnanir í Gamla Alþýðuhúsinu og átti góðan fund með stuðningsmönnum.  Um kvöldið var ég boðin á Möðruvellil til að samfagna með nýkjörnum vígslubiskupi á Hólum, Solveigu Láru Guðmundsdóttur. Á Húsavík fór ég í sund í glampandi sól, hitti margt hresst fólk sem var að fá sér morgunmat í bakaríinu, átti sérlega skemmtilegt spjall við starfsmenn Víkurrafs, heimsótti ritstjóra Skerpis auk þess sem ég ávarpaði eldri borgara i Hvammi.

Á Seyðisfirði hitti ég starfsmenn Síldarvinnslunnar og átti gott spjall við þá á kaffistofunni. Skiptar skoðanir voru um ýmis mál í þeirra hópi. Kaffistofan þeirra er með gamaldags sniði en allt rusl vandlega flokkað sem gerir hana nútímalegri en mörg önnur fyrirtæki. Þeir leystu mig út með kaffi sem er kennt við Sólardaginn á Seyðisfirði,  18. febrúar. Kíkti við á bensínstöðinni, Samkaupum og hjá handverkstæði Láru. Á Eskifirði varð ég fyrir skemmtilegri reynslu þegar ég spurði ungling til vegar. Hann stökk af reiðhjólinu sínu og sagði strax: „Ég stend með þér!“ Pilturinn heitir Esjar og fljótlega bar að fleiri félaga hans, sem gaman var að spjalla við. Í Neskaupsstað heimsótti ég Síldarvinnsluna og var leidd um þetta myndarlega fyrirtæki af Hákoni og Margréti.

Á Egilstöðum átti ég fund með frændfólki og nokkrumn vinum á Gistihúsinu á Egilsstöðum. Hóf föstudaginn á ferð í sund eins og annars staðar, heimsótti síðan Kleinuna sem hýsir ýmsir stofnanir og skrifstofur, heimsótti fyrirtækið Brúnás sem framleiðir glæsilegar innréttingar og spjallaði við starfsmenn og fór í leiksskólann Skógarland þar sem eru 130 börn. Svo lá leiðin yfir Fagradal til Reyðarfjarðar þar sem ég heimsótti aðra af tveimur starfsstöðvum Vélsmiðju Hjalta Einarssonar (VHE) áður en ég átti fund með nokkur hundruð starfsmönnum Fjarðaráls og fékk nokkrar áhugaverðar fyrirspurnir þar. Fór síðan í Molann og heimsótti bæjarskrifstofur og Íslandsbanka.

Næst lá leiðin til Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar, Breiðdalsvíkur og Djúpavogs. Í einu plássi hitti ég mann sem var að mála niður við höfn. Sólin glampaði á spegilsléttan sjóinn og ég dáðist að fjallasýninni. „Þeir gátu ekki tekið fjöllin“, sagði þessi maður og var reiður þeim sem fóru með kvótann úr byggðalaginu.

Þegar ég kom til Hafnar í Hornafirði stóð þar yfir Humarhátíð og  var þar múgur og margmenni.  Á Kirkjubæjarklaustri ræddi ég við gesti og gangandi, m.a. lögregluþjóna staðarins.

Kolaportið og kosningamiðstöðin

(09. júní 2011)

Kolaportið var frábært í dag. Það er ekki möguleiki á því að fylgið okkar sé aðeins 2,6% eins og gamla Capacent Gallup könnunin sem gerð var aðallega 31. maí segir – en birt okkur svo eftirminnilega á RÚV þann 7. júní eins og um glænýja frétt væri að ræða. Fjórði hver maður/kona sem ég hitti segist undrast hvað fylgið er lítið samkvæmt skoðanakönnunum; hrósar framgöngu í nýlegum sjónvarpsþáttum og virðist hlynnt/ur þessu framboði.

Fékk mörg hlý bros og uppbyggilegar athugasemdir frá fólki á öllum aldri og báðum kynjum. Ætla aftur í Kolaportið við fyrstu hentugleika – frábært að hafa Huldu Hákon (Hulda Hákon) með. Við keyptum harðfisk af glæsilega tattóveruðum náungum og settumst síðan niður með Gústa Gronvold (Gusti Gronvold) og drukkum kaffi. Hann er að athuga með heimsókn fyrir okkur í Rafveituna. Hitti fjölskyldu frá Filippseyjum, nokkra hressa náunga frá Seyðisfirði og einn sagði mér skemmtilega sögu af því þegar hann hitti afa minn á Reyðarfirði sem barn. Ég hitti unga stúlku sem heldur með mér og hún var með ömmu sinni sem er búsett í Bandaríkjunum. Sigurlaug Ragnarsdóttir sat eins og drottning á sínum stað umkringd dýrmætu plötusafni; sá strák kaupa gylltan satínfrakka á þúsund krónur og lopapeysurnar sem eru seldar á móti „súkkulaði og lakkrísbásnum“ eru ótrúlega fallegar. Hún prjónar þær hún Hildur, sem er með básinn. Kolaportið er ævintýraveröld!

Klukkan 14.30 fórum við á kosningamiðstöðina. Þar var mikið fjör, Eirikur Gudjonsson Wulcan stóð eins og Gerard Depardieu og bakaði vöfflur; Jörgína Elínbjörg Jónsdóttir var umkringd karlkyns kjósendum; Fanny Ingvarsdottir gekk um og tók ljósmyndir. Þarna voru Thorsteinn Thorgeirsson, Ásta Karen Rafnsdóttir, Ásgeir Þór, Óttar Ottósson; pabbi Herdísar, ungir menn frá Vodafone; lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu og fylgilið hans í steggjapartýi, stelpur sem voru í gæsapartýi, dyravörðurinn tryggi sem er bæði í Þjóðkirkjunni og Sjálfstæðisflokknum; íslensk kona búsett í Egyptalandi og múslimatrúar, fullorðinn maður sem hefur miklar áhyggjur af því að aukinn hagvöxtur gangi þannig á auðlindir jarðar að það þurfi 21 jarðkúlu til; maður sem kom og sagði að Herdís skoraði næst hæst á Útvarpi Sögu, nágrannakona af Blómvallagötu og Sigurður Sævarr myndlistarmaður, virðuleg eldri hjón og önnur virðuleg eldri hjón, ung móðir með barn í vagni og fleiri og fleiri. Við erum sólarmegin á Laugaveginum og það spillti ekki fyrir þegar Katla Margrét Þorgeirsdóttir Katla og Barmahlíðakórinn ásamt flautuleikara tóku nokkur lög.

Við erum sólarmegin í þessari kosningabaráttu og ég fullyrði að fylgið er mun meira en 2.6% – áhyggjur mínar af skoðanakönnum eru þær að birting talna hefur áhrif á skoðanir fólks og margir eru þeirrar skoðunar að til að losna við þann sem er efstur þurfi þeir að kjósa þann sem er næst efstur í skoðanakönnunum og öfugt. Ég vildi óska þess að fólk hugsaði fyrst og fremst um það að það er að kjósa forseta til næstu fjögurra ára og verður að vanda valið.

Umfjöllun Eyjunnar um bréf til RÚV

Herdís i Vín með glerauguHerdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi vill að utanaðkomandi einstaklingar verði fengnir til að stýra kosningaumfjöllum Ríkisútvarpsins til að tryggja það að hún verði hlutlaus. Dögg Pálsdóttir, hæstaréttarlögmaður, skrifaði á dögunum varafréttastjóra RÚV bréf fyrir hönd Herdísar þar sem þess er óskað að RÚV upplýsi hvernig stofnunin hyggist tryggja hlutlausa kosningaumfjöllun.

Þann 9. maí skrifaði Dögg bréf til Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, varafréttastjóra RÚV, í framhaldi af samtali þeirra Herdísar og Sigríðar. Tilefni bréfsins var sú staðreynd að…:

…einn frambjóðenda til embættis forseta Íslands er einstaklingur sem fram til 4. apríl sl. var nánast daglegur gestur á heimilum landsmanna vegna starfa sinna hjá Ríkisútvarpinu sem aðstoðarritstjóri í fréttaþættinum Kastljósi og annar tveggja spyrla í spurningaþættinum Útsvar.

Er þarna verið að vísa í Þóru Arnórsdóttur. Í bréfinu er vitnað til ummæla sem Þóra lét hafa eftir sér í viðtali við Pressuna þann 5. janúar þar sem fram kemur að hún útilokaði ekki framboð og hún geti ekki annað en brugðist við áskorunum af fullri virðingu.

Þrátt fyrir þessa frétt á víðlesnum netmiðli verður ekki séð að Ríkisútvarpið hafi gripið til ráðstafana gagnvart áframhaldandi störfum umrædds einstaklings á skjánum. Viðkomandi hélt áfram að koma fram í viku hverri í Kastljósi og Útsvari,

segir í bréfinu. Enn fremur er fundið að því að í frétt RÚV þann 4. apríl, daginn sem Þóra tilkynnti um framboð, hafi hvergi komið fram hvenær hún hafi látið af störfum hjá RÚV, en fram kom að eiginmaður hennar Svavar Halldórsson hafi fengið leyfi frá störfum frá og með þeim degi. Enn fremur, þá voru þau Þóra og Svavar enn á lista yfir starfsmenn RÚV á heimasíðu stofnunarinnar og hvergi tilgreint að þau séu í leyfi, daginn sem bréfið var skrifað.

Það vekur furðu að Ríkisútvarpið virðist engar reglur hafa um það hvað gildir í tilvikum sem þessum. Í þrjá mánuði var umræddur starfsmaður áfram oft í viku gestur á skjám landsmanna þrátt fyrir yfirlýsinguna um að forsetaframboð væri líklegt. Starfsmaðurinn gaf þann möguleika aldrei frá sér eftir að frétt um efnið birtist hinn 5. janúar sl.

Í bréfinu segir að framangreindar staðreyndir séu „mikið umhugsunarefni“ og geri fátt til að vekja traust á því að RÚV sé eða geti verið hlutlaust í umfjöllun sinni um frambjóðendur í komandi kosningum.

Sú skekkja sem framangreint hefur valdið hlýtur að kalla á að Ríkisútvarpið geri það sem í þess valdi stendur til að leiðrétta ójafna stöðu frambjóðenda. Þá hlýtur Ríkisútvarpið að þurfa að tryggja það að engir samstarfsmenn umrædds frambjóðanda komi nálægt þáttagerð vegna forsetakosninga. Til þess eru þeir vanhæfir. Aðrir forsetaframbjóðendur geta ekki treyst því að þeir njóti hlutleysis eða sanngjarnrar umfjöllunar í þeirri kosningaumfjöllun sem framundan er nema að þeirri vinnu komi af hálfu Ríkisútvarpsins aðrir en samstarfsmenn eins forsetaframbjóðandans.

Loks er þess óskað að RÚV upplýsi um eftirfarandi atriði:

Hvernig Ríkisútvarpið hyggst kynna aðra forsetaframbjóðendur til að gera það sem hægt er að tryggja það að þeir sitji við sama borð og starfsmaður Ríkisútvarpsins, sem var að störfum á skjánum nánast fram að þeim degi sem framboði var lýst.

Hvernig Ríkisútvarpið hyggst tryggja hlutlausa kosningaumfjöllun og hvaða utanaðkomandi einstaklingar hafi verið fengnir til þess verks að annast hana af hálfu þess.

 

Ferilskrá Herdísar

Ferilskrá Herdísar

Dr. Juris Herdís Þorgeirsdóttir er lögmaður í Reykjavík. Hún hefur víðtæka reynslu úr akademíu og atvinnulífi, starfar bæði hér og á alþjóðavettvangi. Hún var skipuð fyrsti prófessorinn við lagadeild háskólans á Bifröst 2004 og hefur einnig kennt við háskóla erlendis. Herdís lauk doktorsprófi í lögum með dr. juris gráðu (frá lagadeild Lundarháskóla 2003). Sérsvið hennar…

Curriculum vitae

Dr Herdís Thorgeirsdóttir is an attorney at law in Reykjavík. She was appointed professor of constitutional law and human rights at the Faculty of Law, Bifrost University in 2004. She is First Vice President of the Venice Commission (the Council of Europe Commission for Democracy through Law) since 2017. Since 2003 she has been a…