NOIR BLANCHelga grunnur in process Tónlistarmenn og vinir Helgu Þórarinsdóttur víóluleikara halda tónleika henni til styrktar í Norðurljósasal Hörpu sunnudagskvöldið 11. október kl. 20.

Helga var leiðari víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í fjölda ára allt þar til að hún í nóvember 2012 lenti í slysi og varð fyrir mænuskaða. Einnig spilaði hún víða sóló, kammertónlist og fleira ásamt því að sinna kennslu. Helga getur ekki lengur leikið á víóluna en heldur áfram að kenna ungu fólki, sækja tónleika og aðra menningarviðburði eins og henni er unnt. Hjólastóllinn er hennar nýi ferðamáti og stjórnar því hvert hún kemst. Tónleikarnir, sem vinir Helgu með aðstoð starfsfólks Sinfóníunnar standa að, eru ætlaðir til að styrkja hana til að kaupa sérútbúna bifreið. Slík bifreið er afar dýr en myndi stórauka ferðafrelsi Helgu.

Boðið er upp á fjölbreytta efnisskrá með þekktum listamönnum:
Sigrún Eðvaldsdóttir mætir með strengjasveit úr S.Í., Ásgeir Steingrímsson og félagar með gyllta lúðra, Bryndís Halla Gylfadóttir með tangótríó, Laufey Sigurðardóttir, Einar Jóhannesson og fleiri með salonmúsík, Snorri Sigfús Birgisson með eigin tónsmíð. Einnig koma fram 8 selló og Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran, Voces Thules, Hundur í óskilum, Edda Þórarinsdóttir, Egill Ólafsson og að auki stýrir Helga Þórarinsdóttir tónlistaratriði. Kynnir verður Pétur Grétarsson.

Myndskreytingin er eftir listakonuna Helgu Björnsson.

http://harpa.is/dagskra/samhljomur-helga-thorarins-violuleikari