Bandaríski metsölurithöfundurinn Barbara Ehrenreich verður aðalfyrirlesari á Tengslaneti V-Völd til kvenna ráðstefnunni sem haldin er 27 – 28 maí næstkomandi. Ehrenreich þykir einn róttækasti samfélagsgagnrýnandi sem nú er á ritvellinum. Bók hennar Nickel and Dimed var í ár valin ein af tíu bestu bókum síðasta áratugar á sviði rannsóknarblaðamennsku af blaðamannstofnun New York háskóla. Annar aðalfyrirlesara nú er Dr. Sigríður Benediktsdóttir, einn höfunda rannsóknarskýrslunnar, en hún mun leggja út af þema ráðstefnunnar um hugrekki í erindi sínu um aðdraganda og eftirmála hrunsins. Um 30 aðrar konur eru með framsögur á ýmsum sviðum.
Barbara Ehrenreich er þekkt fyrir baráttu sína fyrir réttindum kvenna. Hún skrifaði um árabil í  MS tímarit Gloriu Steinem; er doktor í líffræði en hefur helgað líf sitt ritstörfum. Hún er höfundur margra bóka og greina; er dálkahöfundur í stórblaðinu New York Times, vinsæll gestur í sjónvarpsþáttum; þykir eitursnjall penni, frábær fyrirlesari og Lundúnablaðið Times hefur kalla hana Jonathan Swift samtímans vegna skarprar sýnar hennar á öfgar og óréttlæti. Þegar hún skrifaði Nickel and Dimed gerðist hún sjálf gengilbeina til að kynnast af eigin raun kjörum þeirra sem komast ekki af í Bandaríkjunum. Hún er sjálf hámenntuð en sagði að láglaunastörf ætluð þeim sem enga færni hafa væru í raun störf sem krefðust oft mikillar einbeitingar, úthalds og þess að fólk sé fljótt að hugsa. Hún segir að þessi láglaunastörf séu ekki eingöngu vanmetin heldur einnig miklu erfiðari um margt auk þess sem þeir sem þeim gegni séu oft að fórna miklu. Þá bendir hún á hvernig atvinnurekendur notfæri sér iðulega eymd þessa fólks. Í nýjustu bók sinni Brightsided sem vakið hefur mikla athygli gagnrýnir hún „jákvæðni-iðnaðinn“ sem gengur út á að láta fólk meðtaka hlutskipti sitt eins og brosandi vélmenni í stað þess að vera raunsæir, gagnrýnir borgarar.

Tengslanetsráðstefnan er fjölsóttasta og vinsælasta ráðstefna sem haldin er í íslensku athafnalífi. Dr. Herdís Þorgeirsdóttir prófessor er stofnandi og skipuleggjandi ráðstefnunnar sem var fyrst haldin 2004. Árið 2008 sló ráðstefnan aðsóknarmet en þá sóttu hana 500 konur. Dagskrá ráðstefnunnar er á heimasíðu Bifrastar www.bifrost.is Þar er einnig hægt að skrá sig og fá upplýsingar um gistingu.

Ráðstefnan hefst með göngu á Grábrók á fimmtudagskvöldinu með þátttöku frambjóðenda allra flokka í sveitarstjórnarkosningunum.

Dagskrána má lesa hér.

Vakin er athygli á að unnt er að skrá sig nú þegar á heimasíðu Bifrastar þar sem einnig er að finna upplýsingar um gistingu í nágrenninu (þ.á.m. eru BSBR sumarbústaðir leigðir út á mjög hagstæðu verði).

Gisting

Skráning er á heimasíðu Bifrastar