Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp dóm í máli Ludes og fleiri gegn Frakklandi hinn 3. júlí þar sem hann kvað frönsk stjórnvöld ekki hafa gerst sek um brot á tjáningarfrelsi loftslagsaðgerðasinna með skilorðsbundnum sektum. Aðgerðasinnarnir  höfðu með sameiginlegu átaki stolið innrömmuðum ljósmyndum af Macron forseta úr ráðhúsum í mörgum borgum Frakklands. Aðgerðasinnarnir vildu vekja athygli á aðgerðaleysi franskra stjórnvalda  í loftslagsmálum með því að nota myndirnar í mótmælum árið 2019. Mannréttindadómstóllinn benti á að dómstólar í Frakklandi hefðu ekki gengið lengra en þörf krefði þar sem aðgerðasinnarnir hefðu  neitað að skila myndunum aftur. Bent var á að þeir hefðu getað náð sama markmiði með því að taka þær einfaldlega niður af veggjum hinna opinberu bygginga. Hinar skilyrðu sektir voru á bilinu 200 til 500 evrur (30 til 70 þúsund ísl. Kr.) og því hóflegar að mati dómstólsins. Í öllum ráðhúsum Frakklands eru myndir á veggjum af Macron forseta þar sem hann stendur við skrifborð sitt með tvo farsíma fyrir framan sig og mynd af De Gaulle fyrrum Frakklandsforseta og stríðshetju í bakgrunni.