Tajikistan_OVER

Tajikistan er land þar sem sítrónurnar eru sætar af sól, rúsínurnar fjólubláar, kryddið í öllum hugsanlegum litum eins og klæðnaður margra kvennana og tindar Pamirfjallana eru með þeim hæstu í veröldinni. Tajikistan er lokað af fjallahring við landamæri Afghanistan í suðri, Uzbekistan í vestri, Kyrgyzstan og Kasaksthan í norðri og Kína í austri. Tungumál, menning og saga er svipuð og Afgana og Persa. Þetta land á sér langa sögu,  var hluti af persneska keisaradæminu um 500 f. Kr. en var löngu síðar innlimað í Sovétríkin –  land þar sem búa nær eingöngu múslimar og fólk af persneskum uppruna.

Orwells-heilkennið (. . . sum dýrin eru jafnari en önnur)

Í sígildu verki Orwells, Dýrabæ, er því lýst hvernig hugsjónir eru sviknar í kjölfar byltinga. Eftir að landið losnaði undan harðstjórn Sovétríkjanna upp úr 1990 geisaði þar  borgarastyrjöld frá 1992-1997 og átök tóku sig aftur upp í júlí sl. með ófyrirséðum afleiðingum. Landið er hið fátækasta af fyrrum Sovétlýðveldum – framleiðir baðmull, ál og úran. Íbúafjöldi er um 7,6 milljónir. Stjórnarfar í landinu á að heita lýðveldi. Kosningar eru haldnar með reglulegu millibili en Lýðræðisflokkur fólksins heldur alltaf meirihluta. Forseti landsins, Emomalii Rahmon, er kjörinn beinum kosningum og er bæði þjóðhöfðingi og skipar ráðherra ríkisstjórnar með samþykki þingsins. Rahmon var fyrst kjörinn forseti 1994. Með breytingum á stjórnskipunarlögum 2003 var heimilað að forseti gæti setið í tvö sjö ára kjörtímabil og taldist fyrra tímabilið hefjast þegar hann var endurkjörinn 2006. Hann má því sækja um endurkjör 2013 fyrir seinna tímabilið og getur því setið til 2020.

Síðastliðið vor bönnuðu tajisk stjórnvöld sýningu á kvikmynd Sacha Baron Cohen, Einræðisherranum á þeirri forsendu að boðskapur hennar ætti ekkert erindi við íbúa Tajikistan. Í höfuðborginni Dushanbe stendur nú glæsileg forsetahöll og þar rétt hjá hæsta flaggstöng veraldar – 165 metrar á hæð en flaggið sjálft er 60 metrar á lengd og 30 metrar á breidd og vegur 350 kíló.

Spilling er landlæg. Vart unnt að tala um réttarríki. Tjáningarfrelsi, trú- og félagafrelsi takmarkað.

– Allt eru þetta staðreyndir sem fólk getur lesið sér til um.

Tajkistan 12 - 15 Nov 2012 039Ég átti þess kost að heimsækja þetta land fyrir skömmu; opna þar ráðstefnu á vegum Evrópuráðsins og flytja fyrirlestur um aðgengi kvenna og þeirra sem minna mega sínu að dómstólum og hitta fyrir tajiska kvenlögfræðinga, sem forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga.

Fyrirlitnir farandverkamenn

Það kom ekki á óvart að fátæktin í Tajikistan er átakanleg. Um 700 þúsund karlmenn á besta aldri eru farandverkamenn í Rússlandi. En það kom á óvart að dómarinn, kona sem tók á móti mér, svartklædd og glæsileg en með sorg í augum, er sjálf gift einum af þessum farandverkamönnum. Hún er með sem samsvarar 3o þúsund krónum í laun á mánuði og hann sendir henni peninga eins og aðrir farandverkamenn sem fara til Rússlands til að afla tekna, til að sjá sér og sinni fjölskyldu farborða í heimalandinu. Sumir þeirra snúa ekki aftur til eiginkvenna og mæðra barna sinna. Þeir ílengjast ef þeir kynnast rússneskum konum og í afskekktum byggðum Tajikistan gráta fátækar konur með marga munna að fæða, komnar upp á tengdafjölskyldu sína sem oft beitir þær harðræði. Sjálfsvíg eru algeng meðal þessarra kvenna. Hlutskipti farandverkamannanna er jafnan ömurlegt af því að í Rússlandi er litið niður á þessa illa klæddu, fátæku farandverkmenn af persneskum  uppruna sem kunna ekki rússnesku. Þeir búa við vondan kost og sæta sjálfir oft á tíðum harðræði en um þúsund lík tajiskra verkamanna eru send aftur til heimalandsins á ári hverju.

Að sætta sig við barsmíðar

Tajkistan 12 - 15 Nov 2012 019Þema ráðstefnunnar í síðustu viku var hvernig tryggja mætti rétt kvenna í Tajikistan en þar er heimilisofbeldi landlægt og afstaðan sú að konur eigi að sætta sig við barsmíðar og aðra vanvirðandi og meiðandi meðferð til að halda uppi heiðri fjölskyldunnar. Þær gera sér ekki endilega grein fyrir að heimilisofbeldi er glæpur eða að fjöldi annarra kvenna er í nákvæmlega sömu stöðu og þær sjálfar. Hvað þá að þær átti sig á því að samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum hafa 59 % kvenna sætt ofbeldi af hálfu nátengdra einhvern tíma á lífsleiðinni. Í Tajikistan er vandamálið þó sérstaklega alvarlegt og þar leggst á eitt atvinnuleysi, vonleysi, áfengisneysla og skortur á virðingu fyrir konum. Konur sem sæta ofbeldi af hálfu eiginmanna eða annarra fjölskyldumeðlima – en þarna býr stórfjölskyldan iðulega undir sama þaki – eru í fjötrum fátæktar og allsleysis. Þær geta ekki yfirgefið heimilið eða börnin sín. Þær eiga í engin önnur hús að venda. Það er erfitt fyrir þær að sækja um skilnað enda oft ekki giftar á pappírum þar eð hjónin hafa oftast verið gefin saman af trúarleiðtoga en eru ekki í hjónabandi samkvæmt lögum. Kæmi til skilnaðar myndu þær mæta fyrirlitningu samfélagsins auk þess sem þær fengju ekki greidd meðlög með börnum sínum. Þá má ekki gleyma því að um 10 % tajiskra karlmanna eru farandverkamenn og eiginkonurnar sem eru heima búa oft undir sama þaki og fjölskylda mannsins og sæta ofbeldi af hennar hálfu.

Að leita réttar síns

tajikistanEiginkonur farandverkamanna og börn þeirra eru þeir hópar meðal íbúa Tajikistan sem eru í sérstökum áhættuhópi að geta ekki leitað réttar síns. Þekking á almennum mannréttindum er lítil sem engin; ólæsi almennt á strjálbýlum svæðum og þótt kostur sé á að leita ódýrrar lögfræðilegar ráðgjafar er þetta fólk svo skínandi fátækt að slík ráðgjöf yrði að vera ókeypis til þess að konur í þessari stöðu nýttu sér hana. Fleiri þættir koma til svo sem sterk staða saksóknara sem ráða alfarið rannsókn mála; lítið sjálfstæði dómara og að heimilisofbeldi sem er kært er ekki meðhöndlað sem sakamál. Þá er spillingin landlæg og kona, sem hefur verið misþyrmt og leitar til lögreglu getur átt á hættu að vera ákærð sjálf.

Að geta leitað réttar síns er einn af grundvallarþáttum réttarríkisins og forsenda þess að mannréttindi séu tryggð í raun. Allir eiga að vera jafnir fyrir lögum og geta borið mál sín undir dómstóla án þess að vera mismunað á grundvelli kynferðis eða bágrar efnahagslegrar stöðu.

Annar þáttur sem tengist réttarríkinu er tjáningarfrelsið – grundvöllur allra annarra mannréttinda. Ef fólk getur ekki tjáð hug sinn; sagt frá ótta sínum; gagnrýnt stjórnvöld; knúið fram breytingar eða kallað á umbætur er hæpið að um virkt réttarríki sé að ræða.

Hvað er til ráða?

Aukin áhrif kvenna eru alls staðar til bóta. En það er ljóst í landi eins og Tajikistan að ómenntuðum, bláfátækum konum virðast allar bjargir bannaðar. “Allir karlmenn á besta aldri eru farandverkamenn í öðrum löndum og enginn hér til að gera byltingu”, sagði kona, sem starfar fyrir svissnesk mannréttindasamtök í Dushanbe, höfuðborg Tajikistan.  Þær konur sem töluðu á ráðstefnunni af hálfu Tajikistan voru vel að sér um ástandið; lagarammann og þörfina á úrbótum. Það sem kom einna mest á óvart var hvað þær voru opinskáar í gagnrýni sinni á aðgerðaleysi stjórnvalda – í ljósi þess að fulltrúar þeirra voru við háborðið. Arfleifð áratuga sovéskrar ritskoðunar er ekki langt undan.

Ein tajisk kona skar sig úr hópnum, fyrrum prófessor í lögum, komin hátt á áttræðisaldur. Hún horfði beint i augu vandans, sem er fátækt almennings. Hún talaði um farandverkamennina og nú konurnar, sem einnig eru farnar að leita út fyrir landsteinana til að reyna að afla fjár eða leiðast út í mansal eða vændi. Hún talaði um þrældóm nútímans.  Í hléi ræddum við saman um nauðsyn þess að skilgreina áhrif einkaðila, yfirþjóðlegra stórfyrirtækja, fjölmiðlasamsteypa og peningaafla í pólitík – áhrif þessara aðila þegar réttarríkið er skilgreint.

Lokaorðin

Í lok ráðstefnu þakkaði fulltrúi forseta landsins framsögumönnum og ég fékk áritaða bók (Rubaiyat) með spakmælum og ljóðum islamska heimspekingsins og ljóðskáldsins Omars Khayyam (1048-1122). Af því við vorum að tala um þrælahald nútímans þá fletti ég upp í bókinni og á bls. 458 stendur þetta vers á rússnesku, persnesku og ensku:

Who framed the lots of quick and dead but Thou

Who turns the troblouds wheel of heaven but hou?

Though we are sinful slaves, is it for Thee

To blame us? Who created us but Thou?

Programme November 2012

Dr. Herdís Thorgeirsdóttir, President of EWLA will be one of the key speakers at a Central Asia – International Conference on women’s rights in November.
The international Conference: “Guaranteeing women’s rights and improving mechanisms of access to justice for vulnerable groups ” will take place on 13-14 November 2012 in Dushanbe, Tajikistan
It is aimed both at legal professionals and the civil society of the five Central Asian states – Kazakhstan, Kyrgyzstan, Tajikistan, Turkmenistan and Uzbekistan. The Conference participants will look at the issues of access to justice for women and other vulnerable groups including victims of domestic violence. They will also discuss the socio-economic rights of women as well as the legal and social mechanisms of guaranteeing women’s rights such as mediation and free legal aid.
This activity is organised in the framework of the project “Equal before law: Access to Justice for vulnerable groups” funded by the Ministry of Foreign Affairs of Finland and implemented by the Venice Commission of the Council of Europe.
Herdís Thorgeirsdóttir will speak on behalf of the European Commission on Democracy through Law but also as President of the European Women Lawyers Association. The local organizers in Tajikistan is the Association of Women Lawyers and they are quite excited to meet with the President of the European Women Lawyers Association and she to meet with them.
Herdís will address the problem of access to justice for vulnerable groups, in particular women who are subject to domestic violence, which is a widespread problem in Tajikistan like many other countries. She will discuss the necessary steps to address or redress domestic violence in accordance with the obligations that the government of Tajikistan has under international law. She will also discuss the importance of legal empowerment of women.