older peopleNýlega benti umboðsmaður heilsugæslunnar í Svíþjóð á ýmsa annmarka sem fylgja einkavæðingu stofnana fyrir eldri borgara í kjölfar hneykslismála, sem upp komu vegna slæmrar meðferðar á fullorðnu fólki.

Sænskir fjölmiðlar hafa flutt fréttir af því hvernig fyrirtæki, sem rekur stofnanir fyrir eldri borgara hefur sett gróðann af rekstrinum á oddinn, góð laun og bónusa fyrir stjórnendur í stað þess að sinna þörfum þeirra sem búa á stofnununum.

Benti umboðsmaðurinn á að þessir eldri borgarar væru ekki að njóta áhyggjulauss ævikvölds.  Réttindi þeirra væru brotin með margvíslegum hætti. Þeim væri hvorki sýnd hlýja né virðing og fagmennsku í umönnun þeirra væri stórlega ábótavant.

Flestir vilja verða gamlir en enginn vill vera gamall og alls ekki ef  viðhorfin hér að ofan verða ríkjandi.

Margir af eldri kynslóðinni, hvort sem er hér eða annars staðar, voru aldir upp við það að taka ekki að sér verk nema að geta sinnt þeim sómasamlega. „Yfir litlu varstu trúr og yfir mikið mun ég setja þig“ var boðskapurinn – enginn yrði góður skipstjóri nema að hafa verið góður háseti.

Í græðgis- og neysluvæðingu undafarinna áratuga hefur þessum boðskap verið snúið á hvolf. Menn eru oft og iðulega settir yfir mikið óháð verðleikum. Af hverju skyldi það vera hægt? Vegna þess að aðrir axla ábyrgð af því sem fer úrskeiðis þegar hæfileikalausir eða óábyrgir einstaklingar eru settir i stöður sem þeir valda ekki.

Dæmin blasa alls staðar við. Íslendingar súpa seyðið af vitleysunni í kringum einkavæðingarferli bankanna um ókoma tíð. Nafngiftin andverðleikasamfélagið hefur fest sig í sessi. Menn eru skipaðir út og suður án þess að vera hæfir. Flokksskírteini vegur oft þyngra en prófskírteinið. Engum dytti í hug að skipa landsliðið í fótbolta út frá flokksskírteinum. En þegar tapinu er hvort eð er velt yfir á almenning skipta hæfnissjónarmið minna máli.

Hér hefur þróast það sem ég kalla „fyrirtækja-flokksræði“ – óformlegt bandalag fjársterkra  hagsmunaðila og stjórnmálamanna þar sem ítök í fjölmiðlum skipta miklu. Í samfélagi sem er stýrt með þessum hætti dafna óæskilegir eiginleikar mannlegrar breytni. Þótt fólk skynji órétt og finni lyktina af spillingu þegir það af því að þeir sem ljóstra upp um slíkt eru „jaðraðir“ – settir út á jaðarinn og oft sæta þeir þaðan einelti frá varðhundum kerfisins.  Ungu konurnar í Pussy Riot , sem íslenska „kerfið“ tekur nú upp á arma sína – voru að hrópa út á jaðrinum. Þær voru að andmæla kerfi þar sem pólitískt vald byggir á peningaöflum.

Samkennd, ein af forsendum siðaðs samfélags, blómstrar ekki í „fyrirtækja-flokksræði“. Þeir sem hagnast á því fyrirkomulagi tímabundið verða einhvern tíma gamlir eins og sænsku fórnarlömbin á stofnunum, sem rekin eru af bíræfnum aðilum.  Þeir sem hagnast á vondu kerfi verða fórnarlömb þess síðar. Sama hver á í hlut.