tröllriðna landGrein birt í Morgunblaðinu 28. júlí 2012

Fyrr á árinu spurði ég mann með mikil umsvif um afstöðu hans til Evrópusambandsaðildar. Hann svaraði hreinskilnislega að það væri skárra að una við spillinguna í nærumhverfinu á Íslandi en að verða fyrir barðinu á henni frá Brussel.

 Spilling, hvort sem hún ræður ríkjum hér eða í Brussel, er óviðunandi. Henni má líkja við það ástand sem fékk Matthías Jochumson til að yrkja Volaða land 1887 eftir að hafa jarðsett föður fjögurra barna sem hafði dáið úr hungri. Ísinn var landfastur og ekki hægt að róa út. Árferðið var ægilegt og þúsundir flúðu landið. Matthías gerði sig að skotmarki sinnar tíðar með því að verja fátæklingana sem fóru. Nú, 2012, flýja auðmenn landið – margir þeirra sem högnuðust á bólunni fyrir hrun hlaupa í skjól á tímum þar sem mörg ríki Evrópu eru á bjargbrún gjaldþrots. Mikil auðæfi eru falin í skattaskjólum og milljarðar afskrifaðir hjá flokksgæðingum á meðan aðrir berjast í bökkum, einstaklingar, fyrirtæki, heilsugæsla og velferðarþjónusta.

Evrópa – ein mínúta til miðnættis

Í þýska Spiegel er grein um það hve ástandið er orðið alvarlegt í Evrópu; almenningur fljóti sofandi að feigðarósi nú þegar klukkuna vantar eina mínútu í miðnætti. Evrópusambandið er komið út á bjargbrúnina; Grikkland á barmi gjaldþrots, Spánn, Portúgal og Írland skjögrandi með bankakerfið í öndunarvél og efnahagshorfur Þjóðverja, Hollendinga og Lúxemborgara eru ekki lengur stöðugar heldur neikvæðar. Ástandið í sautján ríkjum evrusvæðisins hefur áhrif á útflutning þeirra ríkja sem eiga þar í viðskiptum, þar á meðal Ísland í ofanálag við slæma skuldastöðu. Hrynji evrusvæðið gætir afleiðinganna í efnhagskerfinu á heimsvísu.

Evrópusambandið var sett á laggirnar á sjötta áratug síðustu aldar til að koma í veg fyrir að hörmungar síðari heimsstyrjaldar endurtækju sig. Erfiðleikarnir stigmagnast og stjórnvöld standa ráðþrota frammi fyrir hinum stóra vanda. Hagfræðingar kalla eftir róttækri endurskipulagningu til að koma í veg fyrir efnahagslegt afhroð og pólitíska upplausn. Um leið er varað við því að afleiðingar af þeirri fjármálapólitík sem leiddi til hrunsins verði settar á herðar almennings.

Mörgum verður tíðrætt um ástandið í Weimarlýðveldinu og hvernig bankakreppan í upphafi fjórða áratugar leiddi til uppgangs fasisma í Evrópu. Ýmis teikn eru á lofti; atvinnuleysi er gífurlegt, gjáin milli þinga og þjóða dýpkar og kröfur verða háværari um bjargvætti í gervi sterkra leiðtoga. Spurt er hve lýðræðisleg samfélög þoli mikinn ójöfnuð og varað er við pólitískum afleiðingum hans og upplausn samfélaga.

Nýafstaðnar forsetakosningar endurspegla á vissan hátt þennan tíðaranda. Turnarnir tveir voru annars vegar framboð stjórnarandstöðu sem höfðaði til þeirra óöruggu sem töldu sitjandi forseta mótvægi við ríkisstjórnina og hins vegar framboð fyrirhruns-aflanna í Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki sem vilja sporna gegn því að forsetaembættið verði valdameira.

Er sterkur leiðtogi svarið?

Umræður um beitingu málskotsréttarins og ummæli um að Bessastaðir yrðu síðasta stoppistöðin gegn yfirgangi þingsins minna á umræður í Weimar-lýðveldinu um þörfina á sterkum leiðtoga á síðustu dögum þingræðis. Einn helsti stjórnmála- og lögspekingur í Weimar-lýðveldinu var Carl Schmitt. Hann tók sér stöðu með íhaldsöflunum og skrifaði ritgerð um að foringinn gætti réttarins (Der Führer schutzt das Recht) þar sem hann lagði fræðilegan grundvöll að hugmyndum um raunverulegan lýðræðissinnaðan einvald til leysa úr því öngþveiti sem ríkti í Weimar-lýðveldinu. Schmitt taldi að slíkur leiðtogi gæti sameinað og beint hagsmunum þjóðarinnar í farveg fyrir ákvarðanatöku og ef þjóðin (das Volk) fylkti sér að baki honum væri árangurinn tryggður.

Þegar Schmitt setti hugmyndir sínar fram var hann ekki með Hitler og uppgang plebeískra öfgaafla í huga. Hann gekk þó til liðs við Nasistaflokkinn eins og heimspekingurinn Martin Heidegger. Hvorugur þreifst þó vitsmunalega í þeim félagsskap. Nú kallast þýski stjórnmálaprófessorinn Herfried Münkler á við kenningar Schmitt. Hann hefur undanfarin ár haldið þeirri skoðun á lofti að lýðræðið sé ekki svarið í þeim efnahagsþrengingum og stöðu sem upp er komin í Evrópu. Hann heldur því fram að lýðræðislegar stofnanir séu gengnar sér til húðar og í raun búi ríki ekki við lýðræði heldur flokksræði miðstéttarinnar sem gangi ekki upp. Hann bendir á vantraust ungu kynslóðarinnar á stjórnmálastéttinni enda hafi hún ekki reynst vandanum vaxin.

Á sama tíma og Alþingi Íslendinga nýtur innan við 10 prósent trausts skammtar þingheimur sér sjálfur hlunnindi og bíður svo eftir tillögum um nýja stjórnarskrá þar sem völd þingsins á kostnað Bessastaða-stoppistöðvarinnar verði tryggð.

Ástandið er ekki bara tragískt, það er líka farsakennt – hér og þar. Hvað er til ráða? spyr Münkler. Að losa sig við þá sem eru við völd og kjósa aðra í þeirra stað. Hverju breytir það? Kosningar tryggja ekki að við fáum hæfa ríkisstjórn. Munkler skefur ekki af hlutunum og segir að við þær félagslegu, efnahagslegu og pólitísku aðstæður sem eru uppi nú geti lýðræði ekki þrifist. Herfried Münkler er virtur fræðimaður í Þýskalandi og óttast margir að þessi viðhorf hans endurspegli þá þróun sem stjórnkerfi víða eru að sigla í átt að.

Münkler hefur rétt fyrir sér að því leyti til að stjórnmálamenning er á lágu stigi eins og hjá okkur »fyrir« hrun. Almenningur var andvaralaus og lýsing Matthísar viðeigandi: – »þorskhausa land – kviðflatta kútmagastía«.

Lýðræði er alltaf svarið!

Það er einnig rétt að flokksræði miðstéttarinnar er ekki lausn á vandanum. En það gengur ekki upp að kasta hugmyndinni um lýðræði og mannréttindi fyrir róða og afhenda fámennum valdakjarna örlög þjóða. En bíddu við! Hvar eru völdin í dag? Þau eru hjá fámennum fjármálaklíkum. Þar liggur hundurinn grafinn en ekki í þeirri staðreynd að flokksræði miðstéttarinnar er orðið hrákasmíð. Af hverju minnist prófessor Herfried Münkler ekki á það?

Lýðræði þrífst ekki við ákveðnar efnahagslegar og pólitískar aðstæður – þar sem tengslin milli peningaafla, fjölmiðla og stjórnvalda ógna grundvallarmannréttindum. Aðstæður sem ala af sér stjórnmálamenningu »þorskhausa« eru ekki jarðvegur fyrir lýðræðislega ákvarðanatöku. Eina von Evrópu í dag er ekki blóðug bylting, ekki samþjöppun valds í sterkum leiðtoga heldur almenn vitundarvakning. Allt annað er afturför.

 

Höfundur er lögmaður og sérfræðingur á sviði mannréttinda

 

Sjá nýja grein í Spiegel (6. ágúst 2012) þar sem Mario Monti forsætisráðherra Ítalíu, hefur valdið uppnámi meðal þýskra stjórnmálamanna þar sem hann hvetur til þess að þjóðþing ríkja á evrusvæðinu afsali sér valdi til að auðveldara verði að veita einstökum evru-ríkjum neyðaraðstoð. Hann hvetur til þess að ríkisstjórnir geti aðhafst án aðkomu þjóðþinganna og þykja tillögur hans  ólýðræðislegar. Í greininni hér fyrir ofan sem birtist í Morgunblaðinu fyrir rúmri viku benti ég á að þessi sjónarmið Monti, sem hafa nú valdið miklu uppnámi, eru fyrir þó nokkru farin að láta á sér kræla sbr. skrif prófessors Herfried Münkler  – en ég bendi einnig á í þessari grein að þessar hugmyndir eiga rætur að rekja til kenninga eins helsta lögspekings Weimar lýðveldisins, Carl Schmitt en nasistar tóku hann upp á arma sína.

 

(Grein sem birtist í Morgunblaðinu á miðopnu þann 28. júlí 2012).