Herdís vinnur stöðugt á

Herdís vinnur stöðugt á

forsetakosningar 2012Axel Jóhann Axelsson skrifar: Herdís Þorgeirsdóttir verður sífellt álitlegra forsetaefni, því nær sem dregur kosningum, enda loksins farið að gefa henni gaum í fjölmiðlum og þar með hefur henni gefist kostur á að sýna hvað hún hefur fram að færa, án þess að hengja sjálfa sig á ævilangan skuldaklafa vegna auglýsinga og annars kostnaðar sem kosningamaskínur stjórnmálaflokka virðast greiða fyrir einstaka frambjóðanda.

Herdís virðist vera hrein og bein, kemur vel fyrir og er vel menntuð og með mikla og góða starfsreynslu, innanlands og utan og ekki annað að sjá en að hún hafi allt til að bera til að geta orðið góður forseti til næstu tólf til sextán ára.

Kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar hefur verið á fremur rólegum nótum fram að þessu, en hefur þó verið að harðna síðustu dagana og mun sjálfsagt verða þeim mun óvægnari eftir því sem nær dregur kjördegi og línur fara að skýrast milli frambjóðenda, en vafalaust á fylgi Herdísar eftir að vaxa mikið á þeim tveim vikum sem eftir lifa fram að kosningunum.

Persónulegt skítkast er farið að vera talsvert áberandi og virðist helst mega rekja til herbúða Þóru Arnórsdóttur og verður að láta þá von í ljósi að slíku linni og baráttan síðustu dagana verði málefnaleg og heiðarleg.

Því verður ekki trúað að persónulegt skítkast verði nokkrum frambjóðanda til framdráttar og hvað þá að nokkur kjósandi byggi afstöðu sína á slíkum óþverra.

Kolaportið og kosningamiðstöðin

(09. júní 2011)

Kolaportið var frábært í dag. Það er ekki möguleiki á því að fylgið okkar sé aðeins 2,6% eins og gamla Capacent Gallup könnunin sem gerð var aðallega 31. maí segir – en birt okkur svo eftirminnilega á RÚV þann 7. júní eins og um glænýja frétt væri að ræða. Fjórði hver maður/kona sem ég hitti segist undrast hvað fylgið er lítið samkvæmt skoðanakönnunum; hrósar framgöngu í nýlegum sjónvarpsþáttum og virðist hlynnt/ur þessu framboði.

Fékk mörg hlý bros og uppbyggilegar athugasemdir frá fólki á öllum aldri og báðum kynjum. Ætla aftur í Kolaportið við fyrstu hentugleika – frábært að hafa Huldu Hákon (Hulda Hákon) með. Við keyptum harðfisk af glæsilega tattóveruðum náungum og settumst síðan niður með Gústa Gronvold (Gusti Gronvold) og drukkum kaffi. Hann er að athuga með heimsókn fyrir okkur í Rafveituna. Hitti fjölskyldu frá Filippseyjum, nokkra hressa náunga frá Seyðisfirði og einn sagði mér skemmtilega sögu af því þegar hann hitti afa minn á Reyðarfirði sem barn. Ég hitti unga stúlku sem heldur með mér og hún var með ömmu sinni sem er búsett í Bandaríkjunum. Sigurlaug Ragnarsdóttir sat eins og drottning á sínum stað umkringd dýrmætu plötusafni; sá strák kaupa gylltan satínfrakka á þúsund krónur og lopapeysurnar sem eru seldar á móti „súkkulaði og lakkrísbásnum“ eru ótrúlega fallegar. Hún prjónar þær hún Hildur, sem er með básinn. Kolaportið er ævintýraveröld!

Klukkan 14.30 fórum við á kosningamiðstöðina. Þar var mikið fjör, Eirikur Gudjonsson Wulcan stóð eins og Gerard Depardieu og bakaði vöfflur; Jörgína Elínbjörg Jónsdóttir var umkringd karlkyns kjósendum; Fanny Ingvarsdottir gekk um og tók ljósmyndir. Þarna voru Thorsteinn Thorgeirsson, Ásta Karen Rafnsdóttir, Ásgeir Þór, Óttar Ottósson; pabbi Herdísar, ungir menn frá Vodafone; lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu og fylgilið hans í steggjapartýi, stelpur sem voru í gæsapartýi, dyravörðurinn tryggi sem er bæði í Þjóðkirkjunni og Sjálfstæðisflokknum; íslensk kona búsett í Egyptalandi og múslimatrúar, fullorðinn maður sem hefur miklar áhyggjur af því að aukinn hagvöxtur gangi þannig á auðlindir jarðar að það þurfi 21 jarðkúlu til; maður sem kom og sagði að Herdís skoraði næst hæst á Útvarpi Sögu, nágrannakona af Blómvallagötu og Sigurður Sævarr myndlistarmaður, virðuleg eldri hjón og önnur virðuleg eldri hjón, ung móðir með barn í vagni og fleiri og fleiri. Við erum sólarmegin á Laugaveginum og það spillti ekki fyrir þegar Katla Margrét Þorgeirsdóttir Katla og Barmahlíðakórinn ásamt flautuleikara tóku nokkur lög.

Við erum sólarmegin í þessari kosningabaráttu og ég fullyrði að fylgið er mun meira en 2.6% – áhyggjur mínar af skoðanakönnum eru þær að birting talna hefur áhrif á skoðanir fólks og margir eru þeirrar skoðunar að til að losna við þann sem er efstur þurfi þeir að kjósa þann sem er næst efstur í skoðanakönnunum og öfugt. Ég vildi óska þess að fólk hugsaði fyrst og fremst um það að það er að kjósa forseta til næstu fjögurra ára og verður að vanda valið.

Grein eftir Ólínu Þóru Friðriksdóttur

Grein eftir Ólínu Þóru Friðriksdóttur

Það er mikilvægt að í embætti forseta Íslands veljist manneskja sem er traust og heiðarleg. Manneskja sem leiðir þjóðina frá siðleysi, vantrausti og vonbrigðum hrunsins. Manneskja sem byggir lífssýn sína og vinnu á þeim grundvallar gildum sem nú og alltaf eru okkur svo gríðarlega mikilvæg. Mannréttindum og lýðræði. Þessar grunnstoðir þarf stöðugt að styðja og styrkja.

Herdís Þorgeirsdóttir er sá frambjóðandi sem ég vil sjá í embætti forseta Íslands á næsta kjörtímabili.

Herdísi upplifi ég sem sterka manneskju. Hún er ákveðin og kröfuhörð, vitur, hugsandi, hefur heilbrigða dómgreind og örugga framkomu.

Ég var nemandi Herdísar í Viðskiptaháskólanum á Bifröst, sat hjá henni kúrs um viðskipti og mannréttindi. Herdís var afar áhugasöm um efnið og hafði á því mikla þekkingu. Meðal annars var fjallað um tengsl viðskipta og mannréttindabrota í alþjóðaviðskiptum. Minn hugur opnaðist fyrir þeim raunveruleika að víðsvegar um heiminn misbeita alþjóðafyrirtæki gróflega því valdi sem fjármagnið veitir þeim og maka krókinn á kostnað fólks og náttúru. Hvar sem þau komast upp með það. Frelsi og lýðræði er ekki sjálfgefið, því þarf að sinna og viðhalda. Umræða og upplýsing um þessi mál í tímunum hjá Herdísi hafði áhrif á mig.

Einnig var ég, ásamt fleirum, Herdísi til aðstoðar við undirbúning fyrstu ráðstefnunnar sem haldin var undir yfirskriftinni „Tengslanet – Völd til kvenna” sem hún setti upp á Bifröst vorið 2004. Þar kom greinilega fram kjarkur hennar, elja og trú á það sem hún tekur sér fyrir hendur.

Þessi kynni mín af Herdísi urðu til þess að þegar hún bauð sig fram til forseta nú í vor, þá hikaði ég ekki við að lýsa yfir stuðningi við hennar framboð.

Það er einmitt manneskja með hennar kraft og eiginleika sem við þurfum í embætti forseta Íslands núna.
X-Herdís.

Ávarp Herdísar við opnun kosningamiðstöðvar 2. júní, 2012

Ávarp Herdísar við opnun kosningamiðstöðvar 2. júní, 2012

 

Herdís flytur ávarp

 

Benedikt Erlingsson leikstjóri var fundarstjóri

 

Kæru vinir,

Í upphafi þessarar baráttu – lagði ég áherslu á að ég væri að fara fram á eigin verðleikum en ekki sem fulltrúi sterkra peningaafla eða valdablokka. Ég sagðist myndu treysta á fólkið í landinu til að styðja þetta framboð.

Einhverjir kusu að túlka orð mín þannig að ég væri að fara fram gegn fjármálaöflunum. Framboð mitt beinist ekki gegn fyrirtækjum í landinu og það beinist ekki út af fyrir sig gegn fjármálaöflunum – það beinist gegn því að þau eigi alfarið að ráða því hverjir eru kjörnir til áhrifa í íslensku samfélagi.

Nú þegar fjórar vikur eru í kosningar er ljóst að forsendur mínar voru réttar. Það er mun meiri ástæða til mótframboðs gegn valdablokkum en einstaklingum.  Alveg óháð þeim sem hér eru í kjöri er ljóst að leikurinn er ójafn en það er ekki vegna 90 % yfirburða þeirra sem skoðanakannanir sýna hæsta – heldur vegna þess að valdablokkir sjá sér hag í því að hampa tveimur frambjóðendum nógu mikið til að tryggja þau í sessi í skoðanakönnunum sem framkvæmdar eru á vegum þessara sömu aðila.

Afhverju er ég að bjóða mig fram og fyrir hvað stend ég? Mannréttindi og lýðræði.  Finnst mér þá ekki mikilvægt að setja forsetaembættinu siðareglur nái ég kjöri. Það er eins og að gera samning við bókaútgefanda og læra síðan að skrifa af því að ég held að það þurfi miklu fremur að setja siðareglur um það hvernig maður verður forseti heldur en hvernig forseti maður verður.

Ég hef reyndar komið að því að semja leiðbeiningarreglur  fyrir Evrópuráðið um það hvernig fjölmiðlar eiga að haga sér í aðdraganda kosninga til að gæta að hlutleysi og jafnræði vegna þess að kjósendur eiga rétt á því áður en þeir gera upp hug sinn að fá upplýsingar um frambjóðendur. —  Kannski ætti ég að þýða þessar leiðbeiningarreglur yfir á íslensku til að dreifa á fjölmiðlana.

Veit að blaðamönnum er vandi á höndum sem og stjórnmálamönnum og jafnvel frambjóðendum – öll virðumst við háð því að fjársterkir aðilar sjái sér hag í því að styðja okkur –  nema ef vera skyldi að fólkið í landinu ætlaði að kjósa okkur – en þá þarf það líka að heyra rödd okkar og til þess þurfum við að komast í fjölmiðla.

Og hver er sú rödd og hvaða framtíð talar hún fyrir. Framtíð mannréttinda og lýðræðis sem segir:

— Ég vil að litlu stelpurnar sem ég sá á gangstétt í Innri Njarðvík í gær með allt ljós heimsins í augunum geti boðið sig fram til opinberra starfa þegar þar að kemur án þess að það kosti mörg hundruð milljónir;
— að vinnandi fólk beri ekki stöðugan kvíðboga fyrir framtíðinni af ótta um hvort það haldi vinnu;

 — að fólk geti treyst því að stjórnmálamenn séu í raun og veru að leita lausna og að þeir gefi öðrum tækifæri til þess  þegar þeir hafa setið í átta ár;

— að það sem vísindamenn segi byggi á raunverulegum niðurstöðum rannsókna;

— að blaðamenn séu í raun að leita sannleikans þegar þeir koma við kaunin á einhverjum;

— að þeir sem auðgast og verða ríkir séu það vegna þess að þeir hafi verið duglegir og heiðarlegir;

— að hinir betur settu í þjóðfélaginu vilji frekar hjálpa byggðalaginu sínu, leiksskólunum, gamla fólkinu og sjúklingunum heldur en að skemmta sér;

— að hinir ríku verði ekki svo ríkir og valdamiklir að þeir eigi allt, landið, miðin, blaðamennina, stjórnmálamennina og skoðanir fólksins í samfélaginu;

— að stjórnmálamenn taki alltaf upp hanskann fyrir þá sem minna mega sín– og þoli ekki órétt!

—að fólk fari vel með landið og uppgötvi á nýjan leik dyggðina – af því að þegar höfundar vestrænnar stjórnskipunar voru að hverfa frá kóngum og klíkum – yfir í lýðræði lögðu þeir áherslu á að dyggðin er móðir frelsins. Frelsi án dyggða og ábyrgðar leiðir til andhverfu sinnar – þar sem frelsið tilheyrir örfáum – hinir verða undir;

— að sá sem er kjörinn forseti Íslands geti talað kjark í þjóð sem er langþreytt á sérhagsmunagæslu og sjálfhverfu þeirra sem ráða í stjórnmálum, viðskiptum og fjölmiðlum;

— að fólk átti sig á því að hugrekki er forsenda frelsis; að spilling er leiðin til ánauðar og að við viljum búa í samfélagi þar sem fólk má hafa hugsjónir án þess að óttast um afkomu sína;

— að við búum í samfélagi þar sem einstaklingar fá að blómstra í stað þess að litið sé á þá sem tannhjól í vel smurðri vél – slíkt samfélag verður aldrei að neinu.

Við værum ekki hér í dag nema vegna þess að formæður okkar og forfeður – höfðu hugrekki til að halda áfram í landi þar sem lífsbaráttan hefur verið hörð og erfiðleikarnir oft virst óyfirstíganlegir.

Við höldum áfram og höfum að leiðarljósi að almennur skilningur á mannréttindum og varðveisla þeirra er grundvöllur framtíðar okkar og frelsis.

(Ávarp flutt við opnun kosningamiðstöðvar Herdísar að Laugavegi 87 - kl. 13.00 laugardaginn, 2. júní, 2012).