Myndir Huldu gætu reynst Herdísi erfiðar

Nafnlaus grein í Viðskiptablaðinu

Herdís Þorgeirsdóttir hefur birt lista yfir stuðningsmenn sína og framlög. Hún fékk 100 myndir sem seljast á 50 þúsund stykkið.

Herdís Þorgeirsdóttir hefur haft gott úthald í kosningabaráttunni um embætti forseta Íslands. Í liðinni viku birti hún skannað reikningsyfirlit framboðsfélags síns þar sem sjá mátti sundurliðað hverjir hefðu styrkt hana í baráttunni, hvenær og um hve háa upphæð.

Herdís hefur sagt að engir „fjársterkir peningamenn“ drífi framboðið áfram. Og það mátti svo sem sjá á yfirlitinu.

Síminn var eina fyrirtækið sem styrkti Herdísi um heilar 23 þúsund krónur.

Hins vegar kom ekki fram hve miklir peningar söfnuðust á föstudag þegar selja átti myndir Huldu Hákonar til styrktar framboðinu. Hún gaf 100 myndir sem átti að selja á 50 þúsund krónur stykkið. Eins gott að Hulda sé ekki „fjársterkur peningamaður“ og vonandi fyrir Herdísi að markaðsvirði myndanna sé lágt. Annars væri hún í vondum málum vegna laga um fjárframlög til frambjóðenda.

http://vb.is/frettir/myndir-huldu-gaetu-reynst-herdisi-erfidar/73902/

Opið bókhald (fyrst birt 18. júní 2012)

Opið bókhald (fyrst birt 18. júní 2012)

 (Velkomin þið sem viljið líta við í kaffi í hádeginu í dag – 25. júní – að Laugavegi 87. Verð þar milli kl. 12 og 13)

Í kosningabaráttunni hef ég lagt áherslu á að ég er óháð peningaöflum og hagsmunahópum. Gagnsæi í fjárframlögum í kosningabaráttu er forsenda þess að kjósendur geti treyst því að frambjóðandi gangi ekki “erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins,” eins og segir í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

Ég rak fyrirtæki í tæpan áratug,  hef skilning á lögmálum atvinnulífsins og finnst eðilegt að framtakssemi og frumkvæði fylgi fjárhagslegur ávinningur. Peningaöfl eiga hins vegar ekki að ráða því hverjir eru kjörnir til áhrifa í lýðræðislegu samfélagi. Það er ekki unnt að kalla peningaöfl til ábyrgðar. Ég hef  því ákveðið að þiggja ekki styrki frá fyrirtækjum.

Lög um fjármál frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra (nr. 162/2006) tryggja ekki nægilegt gagnsæi framboða þar eð frambjóðendum er í sjálfsvald sett hvort þeir gefa upp framlög frá einstaklingum sem eru undir 200.000 krónum. Þessi lög voru sett fyrir hrun.

Ég hef opnað bókhald mitt sem er öllum aðgengilegt á vefsíðu minni herdis.is og skora  á aðra frambjóðendur til embættis forseta Íslands að sýna íslensku þjóðinni þá virðingu að opna bókhald sitt strax svo að kjósendur séu upplýstir um það hvaðan peningar að baki framboðunum koma áður en þeir ganga að kjörborðinu þann 30. júní næstkomandi.

Það er forsenda þess að við getum unnið okkur út úr þeirri spillingu sem sett hefur mark sitt á íslenskt samfélag að hafa opið bókhald. Algert gagnsæi varðandi fjárframlög í kosningabaráttu er forsenda þess að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvern þeir vilja kjósa til æðsta embættis þjóðarinnar.

Skoða bókhald

Skoða bókhald

Opið bókhald Herdísar í fréttum

Mbl.

RÚV

Smugan

Saga

DV

 

Lok hringferðar

Er að nálgast Skaftafell í glampandi kvöldsólinni og mistur yfir fjöllunum. Ferðin hringinn um landið hefur verið mjög áhugaverð. Á Akureyri hófst miðvikudagurinn í heita pottinum þar sem ég spjallaði við sundlaugargesti. Heimsótti ég nokkur fyrirtæki, m.a. Slippinn og Samherja, stofnanir í Gamla Alþýðuhúsinu og átti góðan fund með stuðningsmönnum.  Um kvöldið var ég boðin á Möðruvellil til að samfagna með nýkjörnum vígslubiskupi á Hólum, Solveigu Láru Guðmundsdóttur. Á Húsavík fór ég í sund í glampandi sól, hitti margt hresst fólk sem var að fá sér morgunmat í bakaríinu, átti sérlega skemmtilegt spjall við starfsmenn Víkurrafs, heimsótti ritstjóra Skerpis auk þess sem ég ávarpaði eldri borgara i Hvammi.

Á Seyðisfirði hitti ég starfsmenn Síldarvinnslunnar og átti gott spjall við þá á kaffistofunni. Skiptar skoðanir voru um ýmis mál í þeirra hópi. Kaffistofan þeirra er með gamaldags sniði en allt rusl vandlega flokkað sem gerir hana nútímalegri en mörg önnur fyrirtæki. Þeir leystu mig út með kaffi sem er kennt við Sólardaginn á Seyðisfirði,  18. febrúar. Kíkti við á bensínstöðinni, Samkaupum og hjá handverkstæði Láru. Á Eskifirði varð ég fyrir skemmtilegri reynslu þegar ég spurði ungling til vegar. Hann stökk af reiðhjólinu sínu og sagði strax: „Ég stend með þér!“ Pilturinn heitir Esjar og fljótlega bar að fleiri félaga hans, sem gaman var að spjalla við. Í Neskaupsstað heimsótti ég Síldarvinnsluna og var leidd um þetta myndarlega fyrirtæki af Hákoni og Margréti.

Á Egilstöðum átti ég fund með frændfólki og nokkrumn vinum á Gistihúsinu á Egilsstöðum. Hóf föstudaginn á ferð í sund eins og annars staðar, heimsótti síðan Kleinuna sem hýsir ýmsir stofnanir og skrifstofur, heimsótti fyrirtækið Brúnás sem framleiðir glæsilegar innréttingar og spjallaði við starfsmenn og fór í leiksskólann Skógarland þar sem eru 130 börn. Svo lá leiðin yfir Fagradal til Reyðarfjarðar þar sem ég heimsótti aðra af tveimur starfsstöðvum Vélsmiðju Hjalta Einarssonar (VHE) áður en ég átti fund með nokkur hundruð starfsmönnum Fjarðaráls og fékk nokkrar áhugaverðar fyrirspurnir þar. Fór síðan í Molann og heimsótti bæjarskrifstofur og Íslandsbanka.

Næst lá leiðin til Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar, Breiðdalsvíkur og Djúpavogs. Í einu plássi hitti ég mann sem var að mála niður við höfn. Sólin glampaði á spegilsléttan sjóinn og ég dáðist að fjallasýninni. „Þeir gátu ekki tekið fjöllin“, sagði þessi maður og var reiður þeim sem fóru með kvótann úr byggðalaginu.

Þegar ég kom til Hafnar í Hornafirði stóð þar yfir Humarhátíð og  var þar múgur og margmenni.  Á Kirkjubæjarklaustri ræddi ég við gesti og gangandi, m.a. lögregluþjóna staðarins.

Ungt fólk og forsetinn

Forsetinn 2012: Herdís Þorgeirsdóttir

Sýn forsetaframbjóðenda á ungt fólk; Pistill og upptökur af framsögu forsetaframbjóðenda á fundinum Ungt fólk og forsetinn

Herdís um ungt fólk og forsetann:

Hvernig getur forseti Íslands náð til ungs fólks og virkjað lýðræðisvitund þess?

Þetta er mjög mikilvæg spurning að mínu mati og áhugaverð.  Hún er mikilvæg vegna þess að ef lýðræðisvitund ungs fólks er ekki til staðar, þá á heilbrigt lýðræðislegt samfélag sér ekki framtíð.

Í aðdraganda hrunsins – eins og kemur fram í Rannsóknarskýrslu alþingis – einkenndist stjórnmálamenningin – þ.e. afstaða fólks til stjórnmála  og samfélagsins af doða og andvaraleysi.  Öll skoðanamótun virtist miða að því að ala upp neytendur fremur en borgara. Neysluhyggjan var í algleymi og metnaðurinn virtist snúast um það að velja sér lífsstarf – sem gæfi mikið í aðra hönd. Það er gott og gilt út af fyrir sig að vilja búa vel í haginn fyrir framtíðina en það er í raun og veru fátæklegt líf ef það gengur eingöngu út á það að vera neytandi en ekki borgari.

Ein stærsta lexía hrunsins er sú að doði og andvaraleysi fullorðins fólks er mikil ógn við lýðræðið. Okkur varð ljóst – eða átti að verða ljóst að við berum sjálf ábyrgð á því hvort samfélagið þróast í lýðræðisátt eða hvort það hrynur undan þunga eigin spillingar.

Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að virkja lýðræðisvitund ungs fólks.  Þegar þið kjósið eru þið að virkja grundvallarréttinn í lýðræðisríki – þið eruð að velja ykkur forystu. Vonandi  ræður upplýst sannfæring ykkar hvern þið kjósið en ekki auglýsingar og áróður.

Forseti Íslands getur beint ungu fólki inn á þá braut að verða ábyrgir borgarar en ekki bara neytendur. Hann getur gengið á undan með góðu fordæmi með því að leggja áherslu á það að náttúran býður ekki upp á endalausan hagvöxt. Ef forseti gengur á undan og hampar þeim sem lifa ríkulega – sækist eftir félagsskap fólks sem flýgur á einkaþotum og á mikila peninga í stað þess að hampa þeim gildum sem eru okkur lífsnauðsyn eftir hrunið – það er heiðarleika, ábyrgð, hófsemi – þá er forsetinn að hvetja ungt fólk til neyslu – í stað þess að hvetja ungt fólk til að vera virkt í að efla lýðræðið og bjarga samfélaginu.

Umhverfið er ungu fólki ekki endilega hagstætt – fjölmiðlaumfjöllun  og markaðspólitík ganga út á það að ala upp neytendur.  Neysluhyggjan er forheimskandi. Ef hún nær yfirhöndinni í samfélaginu hrynur það – aftur og aftur og aftur.

Við stöndum á tímamótum í margvíslegum skilningi – efnahagsástandið víða um heim er ískyggilegt – atvinnuhorfur og þar af leiðandi framtíðarhorfur ungs fólks eru víða slæmar – og því er þörf meir en nokkru sinni fyrr að hvetja ungt fólk til að taka málin í sínar hendur – að sýna borgaralegt hugrekki og stíga út úr þeim fasa að gera eða vera eins og allir aðrir.

Hvað getur forsetinn gert fyrir ungt fólk?

Svarið við þeirri spurningu er í beinu framhaldi af þessu –  ef ég næði kjöri myndi ég vilja virkja ungt fólk til meiri þátttöku með því að virkja áhuga þess á mikilvægi þess að virða og efla mannréttindi og lýðræðið fyrir samfélagið og fyrir líf þess og framtíð. Ef þið fáið meiri áhuga á því að sinna stjórnmálum og samfélagsmálum heldur en bara til að svala eigin metnaði –  getið þið orðið mjög öflugir borgarar – og við þurfum meir en nokkru sinni áður á slíku fólki að halda. Nú þegar peningaöflin hafa undirtökin alls staðar – þarf mikið hugrekki til að gagnrýna  þau – alveg eins og það krafðist mikils hugrekkis að gagnrýna konungsveldi áður og síðar kjörna forystumenn í lýðveldinu.

Það sem samfélagið þarf nú er heiðarleiki og ábyrgð.  Við þurfum ekki að mennta lögfræðinga til að læra að sniðganga skattana eða endurskoðendur sem geta reddað bókhaldinu.

Við þurfum ungt fólk til að hjálpa íslensku samfélagi – og forsetinn á að virkja þetta unga fólk. Hann á að ganga undan með góðu fordæmi. Hið nýja hugvit er hugvit heiðarleika, hófsemi, dyggða og velvilja.

Það þarf að virkja þessa eiginleika og nota þá.

Einu sinni sagði frægur forseti í Bandaríkjunum ekki spyrja hvað samfélagið eða valdastofnanir þess geta gert fyrir ykkur – heldur hvað þið getið gert fyrir samfélagið. Þessi spurning er sígild.  Það besta sem maður getur gert fyrir ungt fólk er að vekja áhuga þess á samfélaginu og trú þess á því.

Hvert og eitt ykkar getið með ykkar framlagi skipt sköpum fyrir samfélagið.