Schindler í samfélagslegu samhengi

Schindler í samfélagslegu samhengi

Óskarsverðlaunamynd Steven Spielberg (1994) um manninn sem bjargaði 1200 gyðingum frá gasofnum útrýmingarbúðanna er þekktasta kvikmynd sem gerð hefur verið um helförina. Myndin, Listi Schindlers (Schindler‘s List,) sem er þriggja tíma löng er tekin í svart/hvítu að frátaldri einni senu af lítilli telpu sem labbar á vit dauðans í rauðri kápu. Myndin, sem var aftur tekin til sýninga 2018 víðsvegar um veröldina á enn brýnt erindi sökum þess boðskapar sem í henni felst að mannúð trompi fordóma; að manneskjan sé stöðugt útsett fyrir ógnir, ofbeldi og hrylling.

Í kjölfar helfararinnar var evrópsk samvinna innsigluð með stofnun Evrópuráðsins í Strassborg reist á stoðum virðingar fyrir mannréttindum, lýðræði og réttarríki.

Mannréttindasáttmáli Evrópu, sem er samningur unninn að tilstuðlan Evrópuráðsins, er eitt áhrifaríkasta tæki í okkar heimshluta til að tryggja mannréttindi. Ísland gerðist aðildarríki að Evrópuráðinu í mars 1950 og undirritaði við það tækifæri Mannréttindasáttmála Evrópu. Aldrei aftur skyldu atburðir á borð við helförina eiga sér stað; aldrei aftur skildu spillt, forheimskuð og ill öfl ná yfirhöndinni með þeim afleiðingum sem birtust skýrast í útrýmingarbúðum nasista; mannfyrirlitningin alger, mannhelgin engin.

Oskar Schindler var rúmlega þrítugur bisnessmaður, félagi í nasistaflokknum, óprúttinn, ósvífinn og lét ekkert tækifæri ónotað með mútum til yfirmanna í SS til að komast yfir verksmiðjur og fá ódýrt vinnuafl úr hópi Gyðinga. Sögusviðið er á pólsku landssvæði þar sem stærstu útrýmingarbúðirnar voru, Auschwitz, Treblinka og fleiri. Sagan hefst í gettói í Kraká þar sem búið var að stúka Gyðingana af.

Á örskömmum tíma breytist hlutskipti venjulegra borgara frá því að sitja við kvöldverðaborð með fjölskyldunni í það að vera skotin á færi, send í vinnubúðir þar sem ekkert beið þeirra annað en hungur, vosbúð, sjúkdómar og ill meðferð.

Myndin lýsir því hvernig Oskar Schindler, sem leikinn er af Liam Neeson, vaknar til vitundar um hryllinginn sem er að eiga sér stað, þótt hann hafi upphaflega haft hag af því að bjarga Gyðingunum inn í verksmiðjurnar til sín. Hann er sýndur sem sjarmerandi en ófyrirleitinn náungi sem vingast við SS-foringjann Amon Göth sem einnig er sannsöguleg persóna og stjórnaði Kraká-Płaszów útrýmingarbúðunum.

Ralph Fiennes leikur Göth af slíkri snilld að áhorfanda stendur raunveruleg ógn af þessum sadista, sem myrðir konur, börn og gamalmenni án þess að depla auga. Schindler borgar honum fyrir að afhenda sér gyðinga til vinnu í verksmiðjunni. Hann nær sérstöku sambandi við ófreskjuna Göth sem er þó öðrum þræði flókinn karakter.

Við réttarhöldin yfir Adolf Eichman, háttsettum SS-foringja, sem dæmdur var til dauða 1962 fyrir að hafa staðið fyrir morðum og pyntingum á milljónum Gyðinga hélt hann því fram að hann hefði aðeins verið smáskrúfa í stóru tannhjóli. Heimspekingurinn Hannah Arendt sem sat réttarhöldin í Jerúsalem skrifaði bók um þau og það sem hún kallaði ,,hversdagsleika illskunnar“ þar sem Eichman hafði komið henni fyrir sjónir sem lítill kall og hversdagslegur. Hún velti fyrir sér hvort venjulegt fólk væri fært um svona illsku út af heimsku í orðsins eiginlegustu merkingu. Arendt var gagnrýnd fyrir afstöðu sína til Eichman og réttarhaldanna. Í grein í New York Times 1965 skrifar dómari við hæstarétt í Philadelphiu að þótt Eichman hafi að sönnu ekki kálað mörgum milljónum með eigin hendi megi ekki horfa fram hjá lagalegri og siðferðilegri ábyrgð þess sem skipuleggur þann hrylling að hrúga milljónum einstaklinga saman, eins og síld í tunnu, í þrælkunarbúðir í þeim tilgangi að útrýma hluta mannkyns með köldu blóði.

Senurnar í Schindler-myndinni vekja til lífs hryllinginn í útrýmingarbúðunum, örvæntingu mæðra vegna barna sinna, barna vegna aldraðra foreldra, miskunnarlaus morð á ungu fólki, viðbjóðslega fyrirlitningu á lífinu en líka vonina sem deyr síðust þrátt fyrir pyntingar, kulda, hungur og ótta. Í miðjum hörmungunum virðist manneskjan búa yfir þeim eiginleika að geta glaðst smástund þegar lífi er þyrmt eða pynting umflúin.

Söguhetjan Oskar Schindler flúði til Argentíu eftir stríð ásamt eiginkonu sinni, Emilíu en þau voru barnlaus. Enginn rekstur sem hann tók sér fyrir hendur eftir stríð gekk upp, kannski af því að hann gat ekki lengur treyst á velvild vina sinna í nasistaflokknum. Hann yfirgaf Emilíu og hélt til Þýskalands þar sem hann dó 1974 bitur og fátækur þrátt fyrir að hafa verið opinberlega heiðraður af Ísraelsríki þar sem hann hvílir beinin og af þýsku ríkisstjórninni.

Hlutur Emilíu eiginkonu Oskars er gerður lítill í myndinni og gagnrýndi hún það síðar meir. Hún dó einnig í fátækt nokkrum árum eftir að myndin var gerð, þótt Spielberg haldi því fram að hún hafi fengið góðar greiðslur. Schindler-Gyðingarnir hafa sagt frá því að Emilía hafi ekki verið til staðar eins og Oskar enda hjónaband þeirra óhamingjusamt og þau bjuggu ekki alltaf saman. Þegar hún hafi verið á staðnum hafi hins vegar munað um hana, gæsku hennar og hjálpsemi. Oskari lýsti Emilía sem ófyrirleitnum framhjáhaldara eins og kemur fram í myndinni og drykkfelldum. Hún segir hins vegar að hún hefði alltaf staðið með honum hefði hann þurft. Ef að líkum lætur má gera ráð fyrir að mynd framleidd, leikstýrt og handrit skrifað af körlum geri minna úr hlut kvenna. Hvorugt þeirra uppskar þó í samræmi við það sem þau hefðu talið sig eiga skilið í ljósi beiskjunnar sem þeim báðum er borin á brýn á meðan Spielberg og aðrir græddu milljónir á sögunni um líf þessa fólks og helförina.

Kannski er sagan á bak við söguna (myndina) sú að réttlæti er ekki þessa heims. Helförin segir þá sögu best. Mannúðarverk eiga ekki að vera unnin til að uppskera hrós og lófaklapp.

Þegar ég sá Schindler-myndina fyrst fannst mér hún að sönnu átakanleg en fjarri veruleikanum, hluti af fortíðinni. Þegar ég horfði á hana í þriðja sinn nýlega grét ég og sneri mér undan í sumum senunum. Það gerði ég líka fyrr í vikunni þegar í fréttatíma birtist mynd af allslausri sýrlenski flóttakonu í búðum í Grikklandi með þvottalögsdreitil í baráttu við Covid-veiruna. Þegar við tölum um við séum öll á sama báti þýðir það að hvert okkar fyrir sig er ábyrgt – við þurfum ekki að vera smáskrúfur í stóru tannhjóli. Uppspretta hins góða er alltaf hjá einstaklingnum.

Eins og segir í Talmúd, helgiriti gyðingdómsins (áletrun sem var greypt inn í hring sem Gyðingarnir sem Schindler bjargaði gáfu honum):

Sá er eyðileggur eitt líf tortímir veröldinni og sá er bjargar einu lífi bjargar heiminum.

“Whoever destroys a single life is considered by Scripture to have destroyed the whole world, and whoever saves a single life is considered by Scripture to have saved the whole world”.

Itzhak Perlman leikur á fiðlu tónlist John Willliams í Schindler’s list: https://www.youtube.com/watch…

Evrópuráð varar við hliðarverkunum rakningar

Evrópuráð varar við hliðarverkunum rakningar

Evrópuráðið hefur varað við hliðarverkun af rakningar-öppunum svokölluðu fyrir vernd persónuupplýsinga. Rakningar-öppin sem hafa reynst vel á Íslandi við rakningu á smitum á Covid  19 eru talin hafa þá hættu í för með sér að ekki sé komið í veg fyrir misnotkun. Meir en þriðjungur íslensku þjóðarinnar hefur sótt smitrakningarappið í símann sinn.  Sjá hér

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið

Mynd kvikmyndaleikstjórans Stanley Kubrick um Barry Lyndon (1975) telst til stórvirkja kvikmyndasögunnar. Myndin kom Kubrick endanlega á kortið sem einum fremsta kvikmyndaleikstjóra 20. aldarinnar. Sagan um Barry Lyndon gerist á 18. öld og lýsir ferli manns, sem er að klífa metorðastigann í stéttskiptu bresku samfélagi. Hver einasta sena í þessari þriggja klukkustunda kvikmynd er úthugsuð, búningar, bakgrunnur, hýbýli, landslag og staðsetning persóna í því, þannig að hvert andartak er fagurfræðileg upplifun. Hver sena í þessari löngu mynd var tekin upp aftur og aftur, á Írlandi og Englandi, jafnvel 20-30 sinnum. Notuð var náttúruleg lýsing í bland við háþróaðar tæknilegar útfærslur til að ná þessari útkomu. Hugað var að sérhverju smáatriði þannig að augnablik frá löngu liðnum tíma renna upp á hvíta tjaldinu tveimur öldum síðar ljóslifandi eins og stórfengileg málverk, hvert á fætur öðru. Enda er kvikmyndin þeim sem hafa séð hana ógleymanlegt listaverk, hver og ein einasta sena.

Myndin um Barry Lyndon byggir á sögulegri satíru eftir William Thackeray (1811-1863) og fjallar um örlög Redmons Barry sem fæðist inn í lágstétt á Írlandi en nær fyrir hæfileika, sjarma og ýmsar tilviljanir að skapa sér nýtt líf og betri afkomu. Sagan birtist upphaflega sem framhaldssaga í vinsælu tímariti 1844 áður en hún kom út á bók í tveimur bindum. Thackeray var talinn í hópi fremstu rithöfunda Breta á 19. öld, jafnvel á pari við Charles Dickens. Þekktasta bók hans er skáldsagan Vanity Fair sem einnig hefur verið fest á filmu.

Í myndinni er hraðri atburðarrás í lífi Redmond Barry lýst af sögumanni en þemað er að varpa ljósi á það hvernig klifrið upp metorðastigann getur umbreytt manninum, hvernig í draumi sérhvers manns er fall hans falið, eins og Steinn Steinarr lýsir í ljóðinu Ferð án fyrirheits (1942). Fyrsta konan sem Redmond verður ástfangin af tekur annan mann fram yfir hann sem er bæði ríkur og úr æðri stétt. Þeir há einvígi þar sem hinn maðurinn fellur fyrir byssukúlu Barrys en á daginn kemur síðan að einvígið var sviðsett af konunni til að losna við Barry úr myndinni. Barry heldur stöðugt áfram; flýr land og verður málaliði í breska hernum. Hann berst í sjö ára stríðinu, strýkur úr hernum með því að stela hesti, einkennisbúningi og nafni látins hermanns.

Líf hans heldur áfram eins og ferð í gegnum ,,dimman kynjaskóg“. Örlög og tilviljanir takast á. Barry verður málaliði í prússneska hernum, gerist njósnari og gagnnjósnari, síðan fjárhættuspilari. Þannig kemst hann í álnir og nær að skapa sér ímynd sem maður „auðs og smekks“ eins og segir í Rolling Stones-laginu, „a man of wealth and taste“ (Sympathy for the Devil). Hann nær athygli auðugrar aðalskonu, Lyndon hertogaynju, sem gift er mun eldri manni sem orðinn er heilsuveill. Barry nær með samblandi af sinni grófu hegðun og sjarma að tæla hertogaynjuna sem loks fellst á að giftast honum þegar hún er orðin ekkja. Hann tekur upp nafn hennar og heitir þaðan í frá Barry Lyndon.

Óheflaður uppruni hans hjálpar Barry Lyndon á framabrautinni samtímis sem skorturinn á kunna að hegða sér innan um hástéttina stendur honum stöðugt fyrir þrifum. Hann grípur hvert tækifæri til að koma sér áfram en klúðrar öllu á sama tíma. Hann er óforbetranlegur kvennamaður, drekkur illa og hefur ekki stjórn á skapi sínu. Hann sólundar fé hertogaynjunnar og kemur illa fram við hana og son hennar af fyrra hjónabandi.

Kubrick valdi Ryan O‘Neal í hlutverk Barry Lyndon en hann var á þeim tíma ekki bara eftirsóttur leikari heldur eitt mesta kvennagull Hollywood og virtist sjálfur ekki ósvipaður karakter Barry Lyndon.

Hinni óvægnu þversögn lífsins sem Steinn Steinarr lýsir í ljóðinu Ferð án fyrirheits, þ.e. hvernig maður sem reynir að hafa stjórn á umhverfi sínu og framapoti með blekkingum verður fórnarlamb síns eigin draums:

Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.
Þinn draumur býr þeim mikla mætti
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.

Metnaður Barry Lyndon vex honum yfir höfuð og ýtir undir undirferli hans og stjórnsemi en hann þarf á hvoru tveggja að halda til að koma sér áfram og í því er fall hans falið. Hann er í grunninn þrjótur sem svífst einskis til að ná sínu fram, til að koma sér áfram hvað sem það kostar. Hann er glæsilegur, vel klæddur og auðugur en hann virðir ekki þá óskráðu reglu að vandi fylgi vegsemd hverri (noblesse oblige); að hann verður að hlíta því formskilyrði að haga sér eins og sjentilmaður. Hann vill svínbeygja reglur þess samfélags sem hann er kominn inn í um leið og hann vill njóta þess besta sem það hefur upp á að bjóða.

Til að setja þetta í samhengi við nútímann má benda á nýlegt dæmi úr bresku konungsfjölskyldunni. Meghan Markle sem giftist inn í þá fjölskyldu kemur eins og Barry Lyndon í hugum Breta úr þeim kima samfélagsins sem Windsorættin hefur aldrei umgengist. Hún er orðin þekkt Hollywood-leikkona þegar hún nær athygli Harrys prins (Lyndon hertogaynju) og stígur inn á svið breska aðalsins sem fullmótuð kona smekks og auðs. Hún sættir sig ekki við leiðinleg skyldustörf og finnst hún sæta fordómum vegna uppruna síns, alveg eins og Barry Lyndon verður stöðugt fyrir fordómum þar sem hann er ekki eðalborinn. Í samráði við eiginmann sinn ákveða Meghan og Harry að beygja kerfið undir sig en um leið að njóta ávaxta þess. Með bresku krúnuna að vopni banka þau upp á hjá bandarískum stórfyrirtækjum og bjóða upp á þjónustu sína. Það samræmist ekki grunnreglunni um Noblesse Oblige, að vandi fylgi vexsemd hverri. Ekki frekar en það samræmdist hlutverki Frans páfa að taka nú að sér dyravörslu í næturklúbbi en slíku starfi gegndi hann sem ungur maður. Ástæðan fyrir því að Meghan og Harry eru svipt titlum sínum er ekki hefnigirni heldur ískalt mat á því að fyrirhuguð notkun þeirra á krúnunni í viðskiptaskyni muni valda óbætanlegum skaða á breskri stjórnskipun.

Skálkasaga Thackeray um Barry Lyndon tekur á sig nýjar og nýjar myndir því hún er alltaf að eiga sér stað í raunveruleikanum. Eins og segir í Stones-laginu, Sympathy for the Devil:

Please allow me to introduce myself
I’m a man of wealth and taste
Been around for a long, long year
Stole many a man’s soul to waste

Harmsaga Barry Lyndons felst í því að hann selur sálu sína metnaði sem á endanum verður honum að fjörtjóni. Hann ætlaði sér hvoru tveggja að blóðmjólka kerfi sem hann fyrirleit og skaða það þar með um leið og hann nyti ávaxta þess. Önnur nútímaútgáfa af Barry Lyndon gæti verið í líki lögpersónu á borð við öflugt íslenskt fyrirtæki sem bent var á í fréttum að hafi greitt hluthöfum sínum rúmlega 12 milljarða í arð frá 2012 en sætir nú gagnrýni fyrir að ætla að leggjast upp á á venjulega skattborgara þegar harðnar á dalnum. „Wealth and taste“ fara ekki alltaf saman eins og segir í hinu fræga Stones-lagi.

Í stað þess að einblína á Covid-kúrfuna um páskana mætti leiða hugann að dvöl Jesú í óbyggðinni þar sem hann fastaði í fjörutíu daga. Hann var því glorhungraður þegar Djöfullinn kom til að freista hans – sýndi honum öll ríki veraldar með orðunum: Allt þetta skal verða þitt ef þú fellur fram og tilbiður mig . . .

Jesú benti honum á að maðurinn lifði ekki á brauði einu saman. Spurning hvort Covid kenni okkur þá lexíu.

Tónlistin í Barry Lyndon hér – hlustið og íhugið:

https://www.youtube.com/watch?v=Ozu-CVkHZx8

Hér eru Rolling Stones með sitt meistaraverk – daðrað við djöfulinn:

https://www.youtube.com/watch?v=GgnClrx8N2k

Að gefa og gleðja

Að gefa og gleðja

Karen Blixen eða Isak Dinesen (höfundarnafn) lýsti sögunni sinni, Gestaboð Babette, sem léttmeti miðað við önnur skrif sín. Líkt og Margaret Mitchell sem skrifaði eina þekktustu skáldsögu allra tíma – Gone With the Wind og ég fjallaði um í fyrsta pistlinum um  eftirminnilegar kvikmyndir– eiga þessar konur það sammerkt að hafa gert lítið úr meistaraverkum sínum.

Sagan Gestaboð Babette birtist fyrst í blaði tileinkuðu húsmæðrum 1958. Þrjátíu árum síðar vann kvikmynd Gabriels Axels, sem byggð var á sögunn,i Óskarsverðalunin 1987.

Sagan segir frá hinni frönsku Babette sem flýr pólitískan óróa í Frakklandi í kjölfar fransk-prússneska stríðsins 1870. Íbúar Parísarborgar höfðu komið sinni eigin stjórn á laggirnar, svokallaðri Parísarkommúnunu (fjórða byltingin) vegna óánægju með vaxandi bil milli ríkra og fátækra. Babette finnur skjól í sjávarþorpi á vesturströnd Jótlands þar sem var strangur lúterskur söfnuður. Hún fær inni hjá prestdætrunum Martinu og Filippu. Faðir þeirra sem var látinn hafði stofnað söfnuðinn. Systurnar halda uppi starfinu í sókninni, lifa meinlætalífi og hafa gefið frá sér allar væntingar um lífsins lystisemdir. Dag einn birtist Babette á tröppunum hjá þeim með meðmælabréf frá frönskum manni sem eitt sinn dvaldi í þorpinu og þekkti Filippu en þar sagði að hún gæti eldað. Babette vinnur hjá þeim launalaust, sýður þorsk og býr til brauðsúpu. Vendipunktur í sögunni er þegar hún vinnur 10 þúsund franka í happadrætti og fær leyfi systranna til að halda veislu og matreiða ekta franskan málsverð í tilefni af 100 ára ártíð föður þeirra. Þorpsbúum er boðið til veislunnar og einn gestur kemur óvænt, hershöfðingi, en sá var vonbiðill annarrar systurinnar. Gestirnir hafa sammælst um það áður að segja ekki orð um mat eða drykk á meðan veislunni stendur. Loewenhielm hershöfðingi er bergnuminn yfir málsverðinum og segir hann minna sig á dýrinds máltíð sem hann fékk eitt sinn á hinu fína veitingahúsi Café Anglais í París. Að veislu lokinni segir Babette systrunum frá því að hún hafi áður verið yfirmatreiðslumeistari á Café Anglais og því notið þessa tækifæris sem listamaður að leggja sig alla fram að framreiða bestu máltíð lífs síns.

Þótt málsverðurinn leiki stórt hlutverk í myndinni er þemað dýpra og flóknara en matur, það er listin að gleðja aðra – og í því felst að gefa allt sem maður á.

Myndin er samfelldur óður til gleði og fegurðar – eins og sýning á röð af Skagen málverkum í tæpa tvo klukkutíma.

Nýlega lýsti Frans páfi því yfir að Gestaboð Babettu væri hans uppáhaldsbíómynd. Páfinn sagði að stærsta gleði lífsins væri að gleðja aðra, með því fengi maður smjörþefinn af himnaríki. Babette gladdi gestina í hinum strangtrúaða lúterska söfnuði því þeir umföðmuðu hana og þökkuðu henni með þeim orðum að hún ætti eftir að hrífa englana í himnaríki. Gleði Babette var eins og listamannsins sem sér fólk dást að nýafhjúpuðu verki. Máltíðin varð guðdómleg upplifun.

Ýmis atriði í sögunni benda til þess að Karen Blixen hafi sótt fyrirmynd í síðustu kvöldmáltíðina. Gestirnir eru tólf; veislan er haldin til minningar um stofnanda söfnuðarins og er haldin á sunnudegi í aðventu og vitnað er í sálm 85:10 í Biblíunni ,,. . . og vegsemdir munu búa í landi voru“.

Út frá feminískum sjónarhóli notar Babette féð sem henni áskotnaðist til að næra þorpið með dýrðlegum málsverði, listaverki sem lýsir hæfileikum hennar um leið og það þjónar þörfum annarra. Feminísk gildi birtast í matreiðslu og gjafmildi hinnar frönsku konu, sem trompar karlæg gildi norræns púrítanisma. Babette lætur verkin tala en hinir trúræknu púrítönsku gestir koma sér saman um það áður að ræða ekki réttina og drykkina sem Babette ber á borð á meðan máltíðinni stendur. Þetta er þröngsýnn varnarháttur gagnvart stórmennsku konunnar. Það að ræða ekki framlag kvenna, hvort sem er á fræðavettvangi, í listum eða almennt í samfélaginu, er mikilvægt feminískt ádeiluefni.

Það má lesa margt annað í söguna, þ.á m. að hún fjalli um stéttaátök þar sem systurnar notfæra sér aðstöðu Babette sem vinnur launalaust fyrir þær. Þann tíma sem hún dvaldi hjá þeim matreiddi hún ekki aðeins fábrotinn málsverð fyrir þær heldur einnig hina fátæku sem þær sáu aumur á. Systurnar vissu þó ekki að fyrrum yfirmatreiðslumeistarinn á Café Anglais beitti kunnáttu sinni í matreiðslu til að gera matinn sem fátæklingarnir fengu sérlega næringarríkan og bragðgóðan.

Hér í lokinn er matseðill úr gestaboði Babette:

Potage a la Tortue
Skjaldbökusúpa
Amantillado sherry
Blinis Demidotf
Pönnukökur, kavíar, sýrður rjómi
Veuve Cliquot kampavín
Cailles en Sarcophage
Lynghæna í búttudeigi, gæsalifur, trufflusveppasósa
Clos de Vougoet rauðvín
Endive Salad
Savarin au Rhum avec des figues et fruit glacée
Svampterta með rommi, fíkjum, sykurhúðuðum ávöxtum og kirsuberjum
Veuve Cliquot kampavín
Assiette de fruits et fromage
Ostar og ávextir
Sauternes / sætt hvítvín

Að lifa af á hverfanda hveli

Að lifa af á hverfanda hveli

Nú á tímum hinnar undarlegu kórónaveiru grípur fólk til ýmislegrar dægrastyttingar á samfélagsmiðlum. Þar var skorað á mig að skrifa um tíu kvikmyndir sem hefðu hreyft við mér með einhverjum hætti. Hér kemur sú fyrsta:

Ég vel kvikmyndir sem höfðu áhrif á mig þegar ég horfði á þær fyrst. Gone with the Wind (Á hverfanda hveli), ein þekktasta bíómynd sögunnar, er slík mynd (1939), byggð á sögu Margaret Mitchell úr þrælastríðinu, borgarastríðinu milli norður- og suðurríkja Bandaríkjanna 1861-65. Allt leggst á eitt að gera þessa mynd að sígildri stórmynd; litríkar senur, glæsilegir búgarðar, búningar og stórleikarnir Clark Gable sem glæsimennið Rhett Butler og Vivienne Leigh í einu flottasta kvenhlutverki kvikmyndanna sem Scarlett O´Hara. Fyrir mér sem unglingi varð hún femínísk fyrirmynd, sjálfstæð, full af eldmóði, hugrökk.

Scarlett finnst óeðlilegt að fá ekki að fara sínu fram; að þurfa að þykjast ekki hafa matarlyst af því að það sé kvenlegt að borða eins fugl, að þurfa að taka lítil skref þegar hana langi til að hlaupa, að þurfa að þykjast þreytt eftir einn dans þegar hún gæti dansað dögum saman. Henni leiðist að þurfa að hrósa körlum fyrir vitsmuni þeirra þegar þeir komist ekki með tærnar þar sem hún hafi hælana – svo að þeir verði öruggari með sig.

Scarlett er marglaga persóna, skarpgreind og sjálfstæð en líka hégómleg og einþykk. Sagt er að Mitchell hafi ætlað hinni mildu og kvenlegu Melanie að verða aðalhetjan í þessari sögu úr þrælastríðinu en Scarlett hafi tekið yfir. Fordekruð „southern belle“ á búgarðinum Töru en í lok auðmýkjandi ósigurs suðurríkjanna í þrælastríðinu – kemur að vendipunkti í sögunni þar sem reynir á karakter hennar og styrk til að lifa af. Hún hefur misst allt.; búgarðurinn glæsti næstum rústir, móðir hennar dáinn, faðir hennar elliær og hungrið sverfur að. Atlanta er brunnin til grunna. Í dramatískri senu steytir hún hnefann til himins og sver þess eið að láta aldrei slíkt yfir sig eða sína fjölskyldu ganga aftur. Hún vinnur baki brotnu og gengur í öll verk á búgarðinum með sigg í lófum. Hún er fyrirvinnan sem aðrir reiða sig á. Hún ver sig gegn ágangi norðurríkjahermanns sem líklega ætlar að nauðga henni. Skýtur hann í andlitið og drepur. Scarlett óttast ekki átök, hvorki við menn né aðstæður. Hún geldur fyrir það að vera á skjön við aðra, fellur ekki að viðmiðum hópsins en hún sættir sig líka við þá útskúfun.

Að þessu leyti er hún fullkomin andstaða við flestar kvenímyndir á hvíta tjaldinu frá þessum tíma. Stríðið breytti Scarlett úr sjálfselskri dekurrófu í áræðna konu sem ætlar að lifa af. Þegar stríðinu er lokið og margir eru bugaðir eru viðbrögð Scarlett að nú hljóti verðið á baðmull að rjúka upp. Hún gefst aldrei upp þótt hún klúðri ýmsu og geri mistök sem hún þó reynir oft að bæta fyrir. Scarlett fór ekki aðeins gegn hefðum samtímas með framtakssemi sinni og djörfum ákvörðunum heldur einnig út fyrir lagarammann þar sem konum var sniðinn mun þrengri stakkur. Eiginmenn höfðu agavald yfir konum sínum. Höfundurinn Mitchell hundsar þær reglur og lætur Scarlett fara sínu fram.

Þegar Rhett Butler hefur gefist upp á henni og róstusömu sambandi þeirra og hún reynir að tala hann til, segir hann hina frægu setningu ,,frankly my dear I don‘t give a damn“. Bob Dylan notar þennan þekktasta frasa kvikmyndanna í nýrri 17 mínútna ballöðu, „Murder Most Foul“ sem eina af táknmyndum síðustu aldar. Endir myndarinnar þar sem Rhett gengur út frá grátbólginni Scarlett með þeim orðum að honum sé „skítsama“ þótti ekki æskilegur Hollywood-endir þegar myndin var gerð. Scarlett heitir sjálfri sér að finna leið til að ná Rhett aftur til sín. Höfundurinn, Margaret Mitchell,l sagði síðar aðspurð að það væri allsendis óljóst hvort Rhett og Scarlett myndu ná saman aftur. Allt eins líklegt að Rhett hafi fundið viðráðanlegri týpu en Scarlett O‘Hara.