Landið okkar

Landið okkar

Mér finnst ég stundum eiga minna í þessu landi en mörg ykkar hinna – af því að ég ferðast sjaldnar um Ísland en ég vildi. Engu að síður er það landið mitt, land forfeðra minna og mæðra í meir en þúsund ár. Á þessari mynd finn ég svala dögunina; nálægðina við kyrrlátan fjörðinn, sólarupprásina, ilminn af ferskri náttúru, frið og fegurð. Það hefur enginn rétt til að rústa þessari dýrð. Hún er meira virði en öll manngerðu listaverkin í Louvre – því hún verður aldrei kópíeruð og aldrei endursköpuð. Þetta er sjálfur uppruninn, sjálft sköpunarverkið sem verið er að eyðileggja af skammsýnum mönnum.
(Skipulagsstofnun telur, í áliti sínu á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar, að Hvalárvirkjun hafi veruleg neikvæð áhrif á óbyggð víðerni. Framkvæmdirnar skerði víðáttumesta, samfellda óbyggða víðerni á Vestfjörðum um 226 km², sem eru um 14 prósent víðernanna.)

European Equality Law Review: Hefnd með einelti

European Equality Law Review: Hefnd með einelti

Ákvæði 27. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 leggur bann við uppsögn þess sem fer fram á leiðréttingu á kjörum eða öðru broti á jafnréttislögum. Þetta kallast á ensku “protection from victimisation”. Skrifaði grein að beiðni ESB í fyrstu útgáfu European Equality Law Review 2019 þar sem ég fer ofan í saumana á þessu máli – ekki síst með tilliti til þess að oft snýst hefnd gegn kröfu um leiðréttingu upp í einelti á vinnustað.

Bianca Jagger

Bianca Jagger

Á alþjóðlegri ráðstefnu um fjölmiðlafrelsi í London dagana 10. og 11. júlí sl. var einn gestana Bianca Jagger en hún er velgjörðarsendiherra Evrópuráðsins í baráttunni gegn dauðarefsingum. Bianca Jagger var á árum áður eitt “heitasta celeb” samtímans þegar hún var gift stórstjörnunni Mick Jagger í Rolling Stones. Þau gengu í hjónaband í St. Tropez á Ríveríunni árið 1974 og var brúðkaupið í heimsfréttunum þar eð Mick Jagger var þá þegar orðinn goðsögn. Eignuðust þau dótturina Jade en hjónabandið entist ekki nema í nokkur ár. Hér má sjá umfjöllun um feril Biöncu Jagger en hún er fyrir margra hluta sakir merkileg manneskja og ein af þeim fyrstu til að nota stjörnustatus sinn til að vinna að mannréttindamálum. Hún ólst upp í Managua, Nicaragua þar sem hún fæddist hinn 2. maí 1945. Faðir hennar yfirgaf fjölskylduna og bjó hún ásamt systkinum við lítil efni hjá einstæðri móður. Síðar fékk hún styrk til að fara í nám í stjórnmálafræði við Sorbonneháskólann í París.

Eftir að hjónabandi hennar og Mick Jagger lauk en þá var Bianca orðin víðfræg – fór hún ásamt nefnd frá Bandaríkjaþingi í flóttamannabúðir í Honduras. Í þeirri för varð hún vitni að því þegar 40 flóttamannamönnum var smalað saman til aftöku til El Salvador. Með ekkert annað að vopni en myndavélar eltu Bianca og hópurinn hennar dauðasveitina og þegar þau voru komin í návígi við hana gerðu þau hróp að skotmönnum sem vopnaðir vour M16 rifflum: Þið verðið að drepa okkur öll!  Hinir vopnuðu menn staðnæmdust, hugsuðu sinn gang, tóku myndavélarnar af Jagger og félögum og létu fórnarlömbin laus. — Þannig segir Bianca Jagger að hún hafi áttað sig á því hvernig hún gæti notað frægð sína öðrum til framdráttar. Þetta atvik markaði tímamót í hennar lífi og síðan þá, undanfarna fjóra áratugi hefur hún helgað sig baráttunni fyrir mannréttindum.

 

 

Áhugavert veggspjald

Áhugavert veggspjald

Þetta veggspjald vann listamaður á alþjóðlegri ráðstefnu um fjölmiðlafrelsi í London dagana 10. o0g 11. júlí. Listamaðurinn hefur setið út í sal þegar Herdís flutti framsögu sína um starf Feneyjanefndar í tengslum við öryggi blaðamanna, tjáningarfrelsi og réttinn til lífs. Listamaðurinn hefur hripað niður setningar úr framsögu Herdísar og í dagslok var veggspjaldið komið upp á vegg á fundarstaðnum sem var risastór fyrrum prentsmiðja Daily Mirror niður við Thames vestast í London, nálægt Canary Wharf fjármálahverfinu.

Alþjóðleg fjölmiðlaráðstefna í London

Alþjóðleg fjölmiðlaráðstefna í London

Talaði af hálfu Feneyjanefndar á alþjóðlegri fjölmiðlaráðstefnu í London 10. og 11. júlí sl. Fjallaði um öryggi blaðamanna; réttinn til lífs og tjáningar og sagði frá starfi Feneyjanefndar þ.á m. áliti sem ég og fleiri unnum. Þingmannasamkunda Evrópuráðsins fór þess á leit við Feneyjanefnd í október 2018 að nefndin ynni álit um ástand stjórnskipunar í landinu en fyrirspurnin kom í kjölfar skýrslu á vegum þingsins um hrottalegt morð á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia hinn 16. október 2017. Hún hafði verið að rannsaka spillingarmál nátengd stjórnvöldum, þ.á m. peningaþvætti, skattaskjól o.fl. Daphne Caruana Galizia var sprengd í loft upp nokkra metra frá heimili sínu í Valetta, höfuðborg Möltu. Skömmu eftir að beiðnin barst frá Evrópuráðsþinginu kom beiðni frá dómsmálaráðherra Möltu um að Feneyjanefnd skilaði áliti um stjórnskipun á Möltu, sjálfstæði dómstóla og stöðu réttarríkisins í hnotskurn. Rannsókn á morðinu hefur dregist á langinn og stjórnvöld á Möltu sætt harðri gagnrýni. Á undnafjörnum tveimur árum hafa nokkrir blaðamenn sem hafa verið að rannsaka spillingsrmál verið myrtir – í hjarta Evrópu, þ.á m. í Slóvakíku þar sem ungur blaðamaður og kærasta hans voru myrt í ársbyrjun 2018.  Fjallaði Herdís um skyldu stjórnvalda til að rannsaka morð af þessu tagi sérstaklega og þ.á m. í ljósi tengsla umfjöllunar blaðamannana og þeirra sem skipulagt hafi morðin því ekki sé nóg að benda á einhverja augljósa “leigumorðingja”.

 

Sjá ræðu Herdísar hér: https://www.venice.coe.int/webforms/events/?id=2792

Ráðstefnan var haldin að undirlagi utanríkisráðherra Bretlands  Jeremy Hunt og utanríkisráðherra Kanada, Chrystia Freeland. Jeremy Hunt skipaði mannréttindalögfræðinginn Amal Clooney sem sérlegan talsmenn fjölmiðlafrelsis fyrir Breta fyrr á þessu ári og var Clooney með framsögu á fundinum í London.

Sjá hér umfjöllun á vef Blaðamannafélags Íslands.

 

 

 

 

 

https://www.press.is/is/um-felagid/utgefid-efni/frettir/sterk-stofnanaumgjord-gegn-skadleysi-af-glaepum-gegn-bladamonnum?