Karen Blixen eða Isak Dinesen (höfundarnafn) lýsti sögunni sinni, Gestaboð Babette, sem léttmeti miðað við önnur skrif sín. Líkt og Margaret Mitchell sem skrifaði eina þekktustu skáldsögu allra tíma – Gone With the Wind og ég fjallaði um í fyrsta pistlinum um  eftirminnilegar kvikmyndir– eiga þessar konur það sammerkt að hafa gert lítið úr meistaraverkum sínum.

Sagan Gestaboð Babette birtist fyrst í blaði tileinkuðu húsmæðrum 1958. Þrjátíu árum síðar vann kvikmynd Gabriels Axels, sem byggð var á sögunn,i Óskarsverðalunin 1987.

Sagan segir frá hinni frönsku Babette sem flýr pólitískan óróa í Frakklandi í kjölfar fransk-prússneska stríðsins 1870. Íbúar Parísarborgar höfðu komið sinni eigin stjórn á laggirnar, svokallaðri Parísarkommúnunu (fjórða byltingin) vegna óánægju með vaxandi bil milli ríkra og fátækra. Babette finnur skjól í sjávarþorpi á vesturströnd Jótlands þar sem var strangur lúterskur söfnuður. Hún fær inni hjá prestdætrunum Martinu og Filippu. Faðir þeirra sem var látinn hafði stofnað söfnuðinn. Systurnar halda uppi starfinu í sókninni, lifa meinlætalífi og hafa gefið frá sér allar væntingar um lífsins lystisemdir. Dag einn birtist Babette á tröppunum hjá þeim með meðmælabréf frá frönskum manni sem eitt sinn dvaldi í þorpinu og þekkti Filippu en þar sagði að hún gæti eldað. Babette vinnur hjá þeim launalaust, sýður þorsk og býr til brauðsúpu. Vendipunktur í sögunni er þegar hún vinnur 10 þúsund franka í happadrætti og fær leyfi systranna til að halda veislu og matreiða ekta franskan málsverð í tilefni af 100 ára ártíð föður þeirra. Þorpsbúum er boðið til veislunnar og einn gestur kemur óvænt, hershöfðingi, en sá var vonbiðill annarrar systurinnar. Gestirnir hafa sammælst um það áður að segja ekki orð um mat eða drykk á meðan veislunni stendur. Loewenhielm hershöfðingi er bergnuminn yfir málsverðinum og segir hann minna sig á dýrinds máltíð sem hann fékk eitt sinn á hinu fína veitingahúsi Café Anglais í París. Að veislu lokinni segir Babette systrunum frá því að hún hafi áður verið yfirmatreiðslumeistari á Café Anglais og því notið þessa tækifæris sem listamaður að leggja sig alla fram að framreiða bestu máltíð lífs síns.

Þótt málsverðurinn leiki stórt hlutverk í myndinni er þemað dýpra og flóknara en matur, það er listin að gleðja aðra – og í því felst að gefa allt sem maður á.

Myndin er samfelldur óður til gleði og fegurðar – eins og sýning á röð af Skagen málverkum í tæpa tvo klukkutíma.

Nýlega lýsti Frans páfi því yfir að Gestaboð Babettu væri hans uppáhaldsbíómynd. Páfinn sagði að stærsta gleði lífsins væri að gleðja aðra, með því fengi maður smjörþefinn af himnaríki. Babette gladdi gestina í hinum strangtrúaða lúterska söfnuði því þeir umföðmuðu hana og þökkuðu henni með þeim orðum að hún ætti eftir að hrífa englana í himnaríki. Gleði Babette var eins og listamannsins sem sér fólk dást að nýafhjúpuðu verki. Máltíðin varð guðdómleg upplifun.

Ýmis atriði í sögunni benda til þess að Karen Blixen hafi sótt fyrirmynd í síðustu kvöldmáltíðina. Gestirnir eru tólf; veislan er haldin til minningar um stofnanda söfnuðarins og er haldin á sunnudegi í aðventu og vitnað er í sálm 85:10 í Biblíunni ,,. . . og vegsemdir munu búa í landi voru“.

Út frá feminískum sjónarhóli notar Babette féð sem henni áskotnaðist til að næra þorpið með dýrðlegum málsverði, listaverki sem lýsir hæfileikum hennar um leið og það þjónar þörfum annarra. Feminísk gildi birtast í matreiðslu og gjafmildi hinnar frönsku konu, sem trompar karlæg gildi norræns púrítanisma. Babette lætur verkin tala en hinir trúræknu púrítönsku gestir koma sér saman um það áður að ræða ekki réttina og drykkina sem Babette ber á borð á meðan máltíðinni stendur. Þetta er þröngsýnn varnarháttur gagnvart stórmennsku konunnar. Það að ræða ekki framlag kvenna, hvort sem er á fræðavettvangi, í listum eða almennt í samfélaginu, er mikilvægt feminískt ádeiluefni.

Það má lesa margt annað í söguna, þ.á m. að hún fjalli um stéttaátök þar sem systurnar notfæra sér aðstöðu Babette sem vinnur launalaust fyrir þær. Þann tíma sem hún dvaldi hjá þeim matreiddi hún ekki aðeins fábrotinn málsverð fyrir þær heldur einnig hina fátæku sem þær sáu aumur á. Systurnar vissu þó ekki að fyrrum yfirmatreiðslumeistarinn á Café Anglais beitti kunnáttu sinni í matreiðslu til að gera matinn sem fátæklingarnir fengu sérlega næringarríkan og bragðgóðan.

Hér í lokinn er matseðill úr gestaboði Babette:

Potage a la Tortue
Skjaldbökusúpa
Amantillado sherry
Blinis Demidotf
Pönnukökur, kavíar, sýrður rjómi
Veuve Cliquot kampavín
Cailles en Sarcophage
Lynghæna í búttudeigi, gæsalifur, trufflusveppasósa
Clos de Vougoet rauðvín
Endive Salad
Savarin au Rhum avec des figues et fruit glacée
Svampterta með rommi, fíkjum, sykurhúðuðum ávöxtum og kirsuberjum
Veuve Cliquot kampavín
Assiette de fruits et fromage
Ostar og ávextir
Sauternes / sætt hvítvín