Eftir Herdísi Þorgeirsdóttur

Í einkabréfi til vinar síns árið 1800 skrifaði Thomas Jefferson: Ég hef heitið guði að vera í eilífri baráttu gegn hvers konar harðstjórn yfir huga manna. Þessi orð hans veittu mér styrk og innblástur þegar ég hóf rannsóknir mínar á sviði tjáningarfrelsis og mannréttinda upp úr 1990.

Baráttan um embætti forseta Íslands er í mínum huga ekki vinsældakeppni um hver verði myndarlegasta húsfreyjan eða húsbóndinn á Bessastöðum? Hver þyrli upp minnstu ryki; verði alltaf til friðs og nái að sameina þjóðina með því að brosa til hennar og brýna fyrir henni á tyllidögum að spenna sætisbeltin og hlýða á tölu um mikilvægi þess að allir séu sammála.

Hvað þýðir það þegar fólk segir að forsetinn megi ekki vera pólitískur? Að hann megi ekki að segja hug sinn? Slíkt er  ágætt ef forsetinn hefur ekkert að segja. En sú manneskja sem skipar þetta embætti verður að hafa eitthvað að segja.

Lýðræðinu stafar ógn af ópólitísku fólki; þeim sem taka ekki afstöðu í mikilvægum lýðræðis- og mannréttindamálum en slík grundvallarréttindi eru lögfest í íslensku stjórnarskránni og alþjóðlegum samningum. Mannréttindi eru  í eðli sínu pólitísk af því flest sem varðar afdrif einstaklings er háð pólitísku, efnahagslegu og félagslegu umhverfi hans. Forseti sem ekki skeytir um þetta er lýðræðinu lítils virði.

Um réttarstöðu forsetans er fjallað í stjórnarskránni frá 1944 sem var hugsuð til bráðabirgða. Samkvæmt hefðbundinni túlkun er forseti Íslands valdalaus þótt ýmis ákvæði stjórnarskrár megi túlka í gagnstæða veru. Forseti Íslands má t.d. leggja frumvarp fyrir Alþingi. Ólafur Jóhannesson, höfundur ritsins um Stjórnskipun Íslands, var á þeirri skoðun að forsetinn ætti að vera virkari hluti af framkvæmdavaldinu; hann ætti að skipa ráðherrana án atbeina Alþingis, enda  bæru þeir ábyrgð gagnvart honum en ekki þinginu. Skoðun þessa byggði hann á því að nauðsynlegt væri að draga úr valdi hinna pólitísku flokka og ýmissa annarra hagsmunasamtaka.

Forseti sem í samræmi við stjórnarskrána vísar umdeildum málum til þjóðarinnar svo að hún megi eiga lokaorðið starfar í anda lýðræðisins. Þjóðin er ekki síður bær til að taka ákvarðanir um afdrif sín en þeir fulltrúar sem hún kýs á Alþingi. Þjóðin velur þingmennina og telji hún þá sýna sér yfirgang í lagasetningu á hún þann möguleika að spyrna við fótum. Rétturinn til að taka ákvörðun um afdrif sín og framtíð liggur hjá þjóðinni. Ef einhver telur að þjóðin sé ekki í stakk búin til að greiða atkvæði um umdeild mál af því að hana skorti þekkingu eða innsæi þá er lausnin ekki að taka réttinn frá henni heldur að upplýsa hana betur. Hlutverk forseta er að tala fyrir mannréttindum og lýðræði; halda þjóðinni við efnið. Forsetinn á að tala fyrir hagsmunum þjóðarinnar enda fulltrúi hennar en ekki valdsins. Sá sem sækist eftir því að verða forseti verður að vera tilbúinn að axla þá ábyrgð.

– Herdís Þorgeirsdóttir (16. apríl, 2012).