Mynd kvikmyndaleikstjórans Stanley Kubrick um Barry Lyndon (1975) telst til stórvirkja kvikmyndasögunnar. Myndin kom Kubrick endanlega á kortið sem einum fremsta kvikmyndaleikstjóra 20. aldarinnar. Sagan um Barry Lyndon gerist á 18. öld og lýsir ferli manns, sem er að klífa metorðastigann í stéttskiptu bresku samfélagi. Hver einasta sena í þessari þriggja klukkustunda kvikmynd er úthugsuð, búningar, bakgrunnur, hýbýli, landslag og staðsetning persóna í því, þannig að hvert andartak er fagurfræðileg upplifun. Hver sena í þessari löngu mynd var tekin upp aftur og aftur, á Írlandi og Englandi, jafnvel 20-30 sinnum. Notuð var náttúruleg lýsing í bland við háþróaðar tæknilegar útfærslur til að ná þessari útkomu. Hugað var að sérhverju smáatriði þannig að augnablik frá löngu liðnum tíma renna upp á hvíta tjaldinu tveimur öldum síðar ljóslifandi eins og stórfengileg málverk, hvert á fætur öðru. Enda er kvikmyndin þeim sem hafa séð hana ógleymanlegt listaverk, hver og ein einasta sena.

Myndin um Barry Lyndon byggir á sögulegri satíru eftir William Thackeray (1811-1863) og fjallar um örlög Redmons Barry sem fæðist inn í lágstétt á Írlandi en nær fyrir hæfileika, sjarma og ýmsar tilviljanir að skapa sér nýtt líf og betri afkomu. Sagan birtist upphaflega sem framhaldssaga í vinsælu tímariti 1844 áður en hún kom út á bók í tveimur bindum. Thackeray var talinn í hópi fremstu rithöfunda Breta á 19. öld, jafnvel á pari við Charles Dickens. Þekktasta bók hans er skáldsagan Vanity Fair sem einnig hefur verið fest á filmu.

Í myndinni er hraðri atburðarrás í lífi Redmond Barry lýst af sögumanni en þemað er að varpa ljósi á það hvernig klifrið upp metorðastigann getur umbreytt manninum, hvernig í draumi sérhvers manns er fall hans falið, eins og Steinn Steinarr lýsir í ljóðinu Ferð án fyrirheits (1942). Fyrsta konan sem Redmond verður ástfangin af tekur annan mann fram yfir hann sem er bæði ríkur og úr æðri stétt. Þeir há einvígi þar sem hinn maðurinn fellur fyrir byssukúlu Barrys en á daginn kemur síðan að einvígið var sviðsett af konunni til að losna við Barry úr myndinni. Barry heldur stöðugt áfram; flýr land og verður málaliði í breska hernum. Hann berst í sjö ára stríðinu, strýkur úr hernum með því að stela hesti, einkennisbúningi og nafni látins hermanns.

Líf hans heldur áfram eins og ferð í gegnum ,,dimman kynjaskóg“. Örlög og tilviljanir takast á. Barry verður málaliði í prússneska hernum, gerist njósnari og gagnnjósnari, síðan fjárhættuspilari. Þannig kemst hann í álnir og nær að skapa sér ímynd sem maður „auðs og smekks“ eins og segir í Rolling Stones-laginu, „a man of wealth and taste“ (Sympathy for the Devil). Hann nær athygli auðugrar aðalskonu, Lyndon hertogaynju, sem gift er mun eldri manni sem orðinn er heilsuveill. Barry nær með samblandi af sinni grófu hegðun og sjarma að tæla hertogaynjuna sem loks fellst á að giftast honum þegar hún er orðin ekkja. Hann tekur upp nafn hennar og heitir þaðan í frá Barry Lyndon.

Óheflaður uppruni hans hjálpar Barry Lyndon á framabrautinni samtímis sem skorturinn á kunna að hegða sér innan um hástéttina stendur honum stöðugt fyrir þrifum. Hann grípur hvert tækifæri til að koma sér áfram en klúðrar öllu á sama tíma. Hann er óforbetranlegur kvennamaður, drekkur illa og hefur ekki stjórn á skapi sínu. Hann sólundar fé hertogaynjunnar og kemur illa fram við hana og son hennar af fyrra hjónabandi.

Kubrick valdi Ryan O‘Neal í hlutverk Barry Lyndon en hann var á þeim tíma ekki bara eftirsóttur leikari heldur eitt mesta kvennagull Hollywood og virtist sjálfur ekki ósvipaður karakter Barry Lyndon.

Hinni óvægnu þversögn lífsins sem Steinn Steinarr lýsir í ljóðinu Ferð án fyrirheits, þ.e. hvernig maður sem reynir að hafa stjórn á umhverfi sínu og framapoti með blekkingum verður fórnarlamb síns eigin draums:

Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.
Þinn draumur býr þeim mikla mætti
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.

Metnaður Barry Lyndon vex honum yfir höfuð og ýtir undir undirferli hans og stjórnsemi en hann þarf á hvoru tveggja að halda til að koma sér áfram og í því er fall hans falið. Hann er í grunninn þrjótur sem svífst einskis til að ná sínu fram, til að koma sér áfram hvað sem það kostar. Hann er glæsilegur, vel klæddur og auðugur en hann virðir ekki þá óskráðu reglu að vandi fylgi vegsemd hverri (noblesse oblige); að hann verður að hlíta því formskilyrði að haga sér eins og sjentilmaður. Hann vill svínbeygja reglur þess samfélags sem hann er kominn inn í um leið og hann vill njóta þess besta sem það hefur upp á að bjóða.

Til að setja þetta í samhengi við nútímann má benda á nýlegt dæmi úr bresku konungsfjölskyldunni. Meghan Markle sem giftist inn í þá fjölskyldu kemur eins og Barry Lyndon í hugum Breta úr þeim kima samfélagsins sem Windsorættin hefur aldrei umgengist. Hún er orðin þekkt Hollywood-leikkona þegar hún nær athygli Harrys prins (Lyndon hertogaynju) og stígur inn á svið breska aðalsins sem fullmótuð kona smekks og auðs. Hún sættir sig ekki við leiðinleg skyldustörf og finnst hún sæta fordómum vegna uppruna síns, alveg eins og Barry Lyndon verður stöðugt fyrir fordómum þar sem hann er ekki eðalborinn. Í samráði við eiginmann sinn ákveða Meghan og Harry að beygja kerfið undir sig en um leið að njóta ávaxta þess. Með bresku krúnuna að vopni banka þau upp á hjá bandarískum stórfyrirtækjum og bjóða upp á þjónustu sína. Það samræmist ekki grunnreglunni um Noblesse Oblige, að vandi fylgi vexsemd hverri. Ekki frekar en það samræmdist hlutverki Frans páfa að taka nú að sér dyravörslu í næturklúbbi en slíku starfi gegndi hann sem ungur maður. Ástæðan fyrir því að Meghan og Harry eru svipt titlum sínum er ekki hefnigirni heldur ískalt mat á því að fyrirhuguð notkun þeirra á krúnunni í viðskiptaskyni muni valda óbætanlegum skaða á breskri stjórnskipun.

Skálkasaga Thackeray um Barry Lyndon tekur á sig nýjar og nýjar myndir því hún er alltaf að eiga sér stað í raunveruleikanum. Eins og segir í Stones-laginu, Sympathy for the Devil:

Please allow me to introduce myself
I’m a man of wealth and taste
Been around for a long, long year
Stole many a man’s soul to waste

Harmsaga Barry Lyndons felst í því að hann selur sálu sína metnaði sem á endanum verður honum að fjörtjóni. Hann ætlaði sér hvoru tveggja að blóðmjólka kerfi sem hann fyrirleit og skaða það þar með um leið og hann nyti ávaxta þess. Önnur nútímaútgáfa af Barry Lyndon gæti verið í líki lögpersónu á borð við öflugt íslenskt fyrirtæki sem bent var á í fréttum að hafi greitt hluthöfum sínum rúmlega 12 milljarða í arð frá 2012 en sætir nú gagnrýni fyrir að ætla að leggjast upp á á venjulega skattborgara þegar harðnar á dalnum. „Wealth and taste“ fara ekki alltaf saman eins og segir í hinu fræga Stones-lagi.

Í stað þess að einblína á Covid-kúrfuna um páskana mætti leiða hugann að dvöl Jesú í óbyggðinni þar sem hann fastaði í fjörutíu daga. Hann var því glorhungraður þegar Djöfullinn kom til að freista hans – sýndi honum öll ríki veraldar með orðunum: Allt þetta skal verða þitt ef þú fellur fram og tilbiður mig . . .

Jesú benti honum á að maðurinn lifði ekki á brauði einu saman. Spurning hvort Covid kenni okkur þá lexíu.

Tónlistin í Barry Lyndon hér – hlustið og íhugið:

https://www.youtube.com/watch?v=Ozu-CVkHZx8

Hér eru Rolling Stones með sitt meistaraverk – daðrað við djöfulinn:

https://www.youtube.com/watch?v=GgnClrx8N2k