Robert Morgenthau  ríkislögmaður/saksóknari New York ríkis lét af starfi sínu þegar hann var að verða níræður. Hann er nú látinn, 99 ára að aldri. Morgentahu gegndi starfi sínu í baráttunni við glæpi í meira en fjóra áratugi sem saksóknari í New York og ríkislögmaður á því sem svæði sem telst til Manhattan. Hann barðist gegn hvítflibba glæpamönnum á Wall Street og glæpagengjum á götum borgarinnar; spilltum stjórnmálamönnum og óbeislaðri græðgi í viðskiptalífi sem var komin út yfir lögleg mörk. Morgenthau hikaði ekki við að fara út fyrir lögsögu embættis síns þegar hann var að elta hvítflibba glæpamenn og peninga þeirra. Hann ákærði einnig Clark Clifford, lögfræðilegan ráðgjafa fjögurra forseta Bandaríkjanna (Trumans, Kennedys, Johnsons og Carters) og samverkamann hans, Robert Altman, fyrir að hafa þegið 40 milljónir dollara í mútur við að aðstoða banka að ná yfirráðum á fjármálasamsteypu.

Hér er áhugaverð grein í New York Times í morgun um líf og störf þessa manns, sem er fæddur inn í elítu bandarísks samfélags. Hann var í sjóhernum í seinni heimsstyrjöldinni þegar skip hans var skotið niður af þýskum sprengjuvélum. Svamlandi um í sjónum án björgunarvestis segist hann hafa ákallað guð almáttugan og lofað öllu fögru, þ.á m. að koma einhverju góðu til leiðar fengi hann að lifa.

Það var embætti hans sem sakfelldi fimm unga menn úr fátækrahverfi í Harlem (fjóra blökkumenn og einn frá Suður-Ameríku) sem áttu það sammerkt að tilheyra “hinu” réttarríkinu í Bandaríkjunum. Lögmál réttarríkisins voru brotin þvers og kruss á þessum fátæku unglingum sem sakfelldir voru fyrir morð á ungri konu sem var að hlaupa í Central Park seint um kvöld á níunda áratugnum. Þeir fengu harðan refsidóm og sátu inni árum saman. Einn hinna ungu manna, sem hafði náð 16 ára aldri, var settur í fullorðins fangelsi þar sem hann sætti hroðalegri meðferð og kaus fremur vist í einangrun en að þola hitt harðræðið (“When They See Us” þáttaröð á Netflix fjallar um þetta mál). Mörgum árum síðar kom hinn raunverulegi morðingi fram og sagði þá Morgenthau: “Bara að við hefðum haft DNA á þessum tíma”.

Nýleg frétt af handtöku þekkts auðkýfings og kynferðisglæpamanns sem m.a. á heimili á Manhattan sýnir svo ekki verður um villst að tvö réttarkerfi eru í gangi í Bandaríkjunum. Jeffrey Epstein fékk allt aðra meðferð í kerfinu en aðrir barnaníðingar og glæpamenn þegar hann slapp fyrir horn fyrir rúmum áratug með því að gerður var sérstakur samningur við hann. Hann fékk lúxus meðferð – þar sem hann gat verið utan fangelsis 12 stundir á dag sex daga vikunnar eftir að hafa játað á sig kynferðisglæpi. Fórnarlömb hans vissu ekkert um málið þegar það var tekið fyrir 2008. Epstein leiddi barnungar stúlkur undir aðra ríka og valdamikla karla í villum sem hann átti hér og þar og var flogið þangað á einkavél hans sem gekk undir nafninu Lolita Express. Epstein þessi hefur nýlega verið handtekinn aftur eftir að nokkur fórnarlömb hafa stigið fram og nú kannast hvorki Bill Clinton, sem flaug 26 sinnum í vélinni hans, né Donald Trump eða fleiri að hafa (lengur) náin kynni af honum eða barnungum stúlkum á hans vegum.