Frétt á vef RUV vegna viðtals Óðins Jónssonar við Herdísi Kjerulf Þorgeirdóttur hinn 19. nóvember 2011 (hlusta hér) : Blaðamennska er oft vanþakklátt starf – jafnvel stórhættulegt. Það sem af er þessu ári hafa 45 blaðamenn í heiminum verið drepnir, sumir við skyldustörf á háskaslóð, aðrir hafa verið myrtir. Fyrir rúmu ári var Daphne Caruana Galizia, blaðamaður, myrt – sprengju komið fyrir undir bíl hennar. Þetta var 16.október 2017. Enn hefur réttlætinu ekki verið fullnægt og maltnesk yfirvöld sæta ámæli vegna seinagangs við rannsókn málsins. Staðan á Möltu er um margt lýsandi fyrir heiminn.

Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir, lögmaður, fyrsti varaforseti Feneyjanefndar Evrópuráðsins, er nýkomin frá Möltu og ræddi á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu blaðamanna gagnvart ógnum sem að þeim steðja. Herdís sagði að rannsóknin á Möltu stæði enn og hún hefði séð að íbúar í Valletta, höfuðborg Möltu, sýndu minningu hennar virðingu og segðu: „Þetta má ekki gleymast. Þetta má ekki fyrnast. Við verðum að halda vöku okkar.” Rithöfundurinn heimsþekkti Margaret Atwood ritaði á dögunum grein fyrir hönd PEN-samtakanna í The Guardian og spurði hvar réttlætið væri fyrir Daphne Caruana Galizia, sem barðist gegn spillingu í heimalandi sínu, litlu eyríki þar sem frændhygli og óheilbrigt samband stjórnmála og viðskipta hefur verið áberandi. Þetta er staðan víða um heim. „Það er spilling innan stjórnmálanna. Það er spilling í viðskiptalífinu. Alltof náin tengsl fjármálaafla og stjórnmála út um allan heim – í flestum ríkjum.”

„Ástandið núna er virkilega svart,” sagði Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir á Morgunvaktinni, ekki síst í Mexíkó og víða í S-Ameríku:  „Fólk er ofboðslega hrætt vegna þess að hættan við að tjá sig, andæfa og segja hluti, getur endað með lífláti – morði.”

http://www.ruv.is/frett/astandid-er-nuna-er-virkilega-svart?fbclid=IwAR1bxzoSHBhj4UebijBme2QSbli2eip_e4lIlVQnOrFXHmhAcKHKs_YAkAA