Kristinn Björnsson – minningarorð

Kristinn BjörnssonNærvera Kristins Björnssonar fór ekki fram hjá fólki. Hann var glæsimenni. Sé hann fyrir mér hávaxinn, ljóshærðan, með gleraugun og bros í augunum; umkringdan fólki. Hann var með skemmtilegri mönnum, fyndinn, fljótur til svars og glöggur á menn og málefni.

Í hugann kemur upp kvöld á Fjólugötu, æskuheimili þeirra systkina, hans, Emilíu vinkonu minnar, Sjafnar og Áslaugar. Það var veisla og þarna voru foreldrar þeirra, vinir og frændfólk. Þarna var Kristinn, nýútskrifaður lögfræðingur ásamt Sólveigu sinni og frumburði þeirra. Árum saman hitti maður ekki eingöngu vini Emilíu í boðum, heldur einnig vini systkina hennar, frændfólk og foreldrana Sjöfn og Björn. Það er stór hópur af fólki sem þekkist í gegnum tengsl við þessa skemmtilegu og góðu fjölskyldu.

Kristinn ólst upp með þremur glaðværum systrum og var augsýnilega náinn báðum foreldrum sínum. Hann var skírður eftir móðurafa sínum, Kristni, sem kenndur var við Geysi og Emilía sagði að hefði alltaf verið óaðfinnanlegur í klæðaburði. Þannig var Kristinn. En hann var einnig mjög líkur föður sínum Birni, eins og Emilía, sem var svo sjarmerandi, fyndinn og hlýr maður. Kristinn hitti oft naglann á höfuðið og með eftirminnilegum hætti. Um Emilíu systur sína sagði Kristinn að hún sameinaði marga eftirsóknarverðustu kosti sem eina manneskju prýða. Hann hafði  ýmsa þessa kosti sjálfur. Þar stendur upp úr trygglyndi.

Á fundi í Aðalstræti 4 á Heimsmyndarárunum. Myndin er tekin 1991. Frá vinstri Sigurður Gísli Pálmason, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, Pétur Björnsson, Herdís Þorgeirsdóttir, Hildur Grétarsdóttir og Kristinn Björnsson, sem gegndi stjórnarformennsku í Ófeigi hf., sem gaf út Heimsmynd frá 1986-1993.

Þegar ég stofnaði útgáfufyrirtæki í janúar 1986 til að gefa út tímaritið Heimsmynd fékk ég Kristinn til að koma í stjórn ásamt nokkrum öðrum einstaklingum í viðskiptalífinu. Taldi að það myndi styrkja stöðu blaðsins á auglýsingamarkaði. Tíminn leiddi í ljós að því gagnrýnni sem skrif í blaðinu urðu því erfiðar átti það uppdráttar.  Þrátt fyrir góðan hug stjórnarmanna var ekki auðvelt fyrir þá að sitja undir þrýstingi þegar greinar í tímaritinu voru farnar að ganga nærri jafnvel samstarfsaðilum þeirra í viðskiptalífi og pólitík. Leiðir hlutu að skilja en það var með þeim hætti að engan skugga bar á.

Það er sjónarsviptir af Kristni Björnssyni. Hann var góður maður. Oscar Wilde sagði beisklega að það væri fáránlegt að flokka fólk eftir því hvort það væri gott eða slæmt. Annað hvort væri fólk sjarmerandi eða leiðinlegt. Kristinn féll einnig þar í fyrri flokkinn.

Votta Sólveigu, börnum, tengdadóttur og barnabörnum innilega samúð sem og Emilíu vinkonu minni og fjölskyldunni allri.

(Minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu sama dag og útför Kristins Björnssonar fór fram í Dómkirkjunni, 10. nóvember 2015. Kristinn Björnsson lést 31. október 2015 í kjölfar erfiðra veikinda. Hann var fæddur 17. apríl 1950.)

Ferilskrá Herdísar

Ferilskrá Herdísar

Dr. Juris Herdís Þorgeirsdóttir er lögmaður í Reykjavík. Hún hefur víðtæka reynslu úr akademíu og atvinnulífi, starfar bæði hér og á alþjóðavettvangi. Hún var skipuð fyrsti prófessorinn við lagadeild háskólans á Bifröst 2004 og hefur einnig kennt við háskóla erlendis. Herdís lauk doktorsprófi í lögum með dr. juris gráðu (frá lagadeild Lundarháskóla 2003). Sérsvið hennar…

Curriculum vitae

Dr Herdís Thorgeirsdóttir is an attorney at law in Reykjavík. She was appointed professor of constitutional law and human rights at the Faculty of Law, Bifrost University in 2004. She is First Vice President of the Venice Commission (the Council of Europe Commission for Democracy through Law) since 2017. Since 2003 she has been a…