povertyTogstreita markaðar og réttarríkis II (úr greinarflokki sem birtist upphaflega í Morgunblaðinu í janúar / febrúar 2006).

Á mismunandi afstaða Hæstaréttar Bandaríkjanna og Mannréttindadómstóls Evrópu til athafnaskyldu ríkisins í því að verja grunnréttindi einstaklinga rætur í ólíkum pólitískum hefðum?

Úr þeim kræklótta viði sem mannkyn er gert verður aldrei smíðað neitt beint, sagði Kant og mætti álykta af því að lítið svigrúm væri fyrir “heimsrétt” eða alþjóðavæðingu réttarríkisins í þeim skilningi “að stuðla að stjórnmálalegu, félagslegu og efnahagslegu réttlæti”, eins og Alþjóðanefnd lögfræðinga vill skilgreina réttarríkið (í ofanálag við hina sígildu skilgreiningu, sem rætt var um hér á sama vettvangi síðasta sunnudag). Höfundar Sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna töldu þau sannindi augljós þegar árið 1776 að allir menn séu fæddir jafnir og gæddir af skapara sínum óafsalanlegum réttindum til lífs, frelsis og hamingjuleitar. Þessi stjórnmálayfirlýsing, full af fögrum fyrirheitum, virðist ekki endurspegla veruleikann nú tvö hundruð og þrjátíu árum síðar.

 

Í vikunni sem leið var haldin ráðstefna á vegum Evrópuráðsins í Strasbourg með þátttöku 32 Evrópuríkja og Bandaríkjanna (fulltrúa 123 borga) um barnæsku, uppvöxt og þarfir þeirra sem byggju í fátækrahverfum og hvort gæða mætti líf slíkra barna nýrri von og tækifærum. Í skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna fyrir síðasta ár eru birtar nokkrar hörmulegar staðreyndir um áhrif fátæktar á börn. Barnæskan er meira en tíminn sem líður og fólk bíður eftir að verða fullorðið. Fátækt og fylgifiskar hennar hafa ekki aðeins líkamleg áhrif á börn heldur er hún líka meginorsökin fyrir því að mannkynið er svona kræklótt.

Á ríkið að vernda börn gegn misþyrmingum?

Ég spurði einn af yfirmönnum fangelsismála í landinu hvort sýn hans á samfélagið hefði ekki breyst við að kynnast því ógæfufólki, sem væri stöðugt í fangelsum (og sumir virðast síbrotamenn af því að þeir eiga ekki í önnur hús að venda). Hann svaraði að hann hefði áttað sig á að krumlur ógæfunnar læstu klóm sínum í fólk strax á unga aldri þegar hann sem ungur fulltrúi bæjarfógeta hefði verið sendur til að gera lögtak hjá fólki og “vanrækt, hlandblaut börnin” hefðu horft á hann társtokknum augum. Þrátt fyrir góðan ásetning með lagasetningu – og sjálfan Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (1989) sem öll ríki heims hafa fullgilt (nema Bandaríkin og Sómalía) þarf ekki að líta langt yfir skammt til að átta sig á því að þeir sem fást við skýringu laga líta gjarnan svo á að þarna séu kræklóttir kvistir, sem eigi aldrei eftir að vaxa beint. Þessu bera sumir dómar og rökstuðningur fyrir þeim vitni.

Í máli Z og fleiri gegn Bretlandi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu árið 2001, voru málavextir þeir að fimm ung systkin höfðu verið vanrækt og þeim misþyrmt andlega og líkamlega af foreldrum sínum án þess að “kerfið” kæmi þeim til bjargar. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að yfirvöld í Bretlandi hefðu brugðist þessum börnum með því að vernda þau ekki gegn alvarlegri, langvarandi vanrækslu og misþyrmingum, þar sem engin virk úrræði hefðu verið til staðar. Bresk stjórnvöld voru dæmd til að greiða börnunum skaðabætur og miskabætur en þegar kom að rökstuðningi fyrir síðasta þættinum fær fólk á tilfinninguna að það sé komið inn í 19. aldar samfélag ójafnaðar, sem Charles Dickens lýsti í frægum skáldverkum sínum. Hrollvekjan verður raunveruleg þegar dómendur leggja kalt mat á skaða- og miskabætur til hinna “skemmdu” barna. Það er ljóst að líkur á því að þau verst förnu eigi nokkurt almennilegt líf fyrir höndum eru litlar sem engar. Ekki er talið að elsti drengurinn verði nokkru sinni vinnufær og honum voru því dæmdar skaðabætur upp á 50 þúsund pund fyrir atvinnulausa ævina sem hann á framundan. Ævi hans var metin á um sex milljónir ísl. króna (ein til tvenn mánaðarlaun íslensks stórforstjóra). Ekki góður starfslokasamningur það.

Ef þú, lesandi góður, heldur að verra geti það ekki orðið þá leyf mér að benda á dóm Hæstaréttar Bandaríkjanna í febrúar 1989 í máli DeShaney gegn Winnebago County. Árið 1984 fannst fjögurra ára drengur, Joshua DeShaney, í dauðadái með varanlegan heilaskaða af völdum höfuðáverka sem faðir hans olli með langvarandi barsmíðum. Félagsmálayfirvöld brugðust ekki við þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir vegna misþyrminganna og var barnið ekki tekið frá föðurnum, sem hafði fengið forsjá þess við skilnað. Hæstiréttur Bandaríkjanna þurfti í þessu máli að úrskurða hvort vanræksla ríkisins í að vernda litla drenginn gegn ofbeldi á heimilinu væri brot á því ákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar sem segir að ríki megi ekki taka líf, frelsi eða eignir án heimilda í lögum. Taldi rétturinn að fyrst ríkið sjálft hefði ekki staðið að misþyrmingunum nyti barn ekki verndar gegn ofbeldi á vettvangi einkalífsins. Í séráliti sagði William Brennan, sem sat í Hæstarétti Bandaríkjanna í næstum fjóra áratugi (1956-1990) að leggja mætti að jöfnu við stjórnarskrárbrot annars vegar vanrækslu í að vernda fólk gegn ofbeldi og hinu að yfirvöld stæðu fyrir slíku sjálf. Það er líka ofbeldi ef ríkið vanrækir skyldur sem það hefur, sagði hann. “Ég get ekki fallist á að stjórnarskráin okkar sé skeytingarlaus andspænis slíku aðgerðarleysi,” sagði hinn aldni og virti dómari.

Thelma Ásdísardóttir og systur hennar, sem nýlega vöktu alþjóð til vitundar um hvað slíkt sinnuleysi hefur í för með sér skilja örugglega hvað við er átt. Og það gera væntanlega fleiri.

Sérstaða Íslands varðandi réttarframkvæmd

Við lögleiðingu Mannréttindasáttmála Evrópu var tekin sú sérstaka ákvörðun að verjast ásælni hins erlenda valds með sérstöku ákvæði í 2. grein laganna, sem tekur fram að úrlausnir mannréttindanefndarinnar, mannréttindadómstólsins og ráðherranefndar Evrópuráðsins séu ekki bindandi að íslenskum rétti. Mun þetta ákvæði ekki eiga sér hliðstæðu við lögleiðingu sáttmálans í öðru aðildarríki. Engu að síður voru rökin fyrir lögfestingu þau að tryggja réttarstöðu einstaklinga hér á landi. Breyting á mannréttindakafla stjórnlaganna sjálfra ári síðar þjónaði sama tilgangi án þess að hægt sé að fullyrða að almenn afstaða til ríkisvaldsins hafi verið að breytast.

 

Í athugasemdum við frumvarp til laga um Mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 segir að til “að efna skuldbindingar sínar, sem fylgja aðild að Mannréttindasáttmálanum, verða ríkin, sem í hlut eiga, að haga löggjöf, stjórn- og dómsýslu sinni þannig að ofangreind réttindi séu virt. Í vel flestum atriðum eru þessi réttindi þess eðlis að þau beinast að ríkjunum sjálfum sem bera þá skyldurnar sem svara til réttindanna. Réttindin eru aðeins í undantekningartilvikum þess efnis að skyldur falli á einstaklinga eða samtök þeirra. Í raun má því segja að þegar rætt er um mannréttindi samkvæmt þessum sáttmála sé í meginatriðum átt við frelsisréttindi einstaklinganna til að haga lífi sínu, skoðunum og athöfnum að eigin vild án þess að eiga á hættu afskipti eða íhlutun ríkisins. Þessi afmörkun á hugtakinu mannréttindi eða eðli þeirra er í samræmi við viðtekinn skilning á því.”

Það er erfitt að fallast á þessa afmörkun á hugtakinu í ljósi 1. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem segir að ríkið verði að tryggja öllum innan sinnar lögsögu þau réttindi sem eru í Sáttmálanum. Þá hafa margir fræðimenn sýnt með óyggjandi hætti fram á athafnaskyldu ríkja í að tryggja efndir þeirra réttinda sem í sáttmálanum eru, ekki síst á grundvelli dómaframkvæmdar.

Staða mannréttinda í stjórnarskrám ríkja afhjúpar á vissan hátt ríkjandi pólitíska afstöðu þótt varast beri að draga of miklar ályktanir um réttarvitund þegnanna eða stjórnvalda of orðalagi ákvæðanna einna saman. Borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi áttu ekki upp á pallborðið í fyrrverandi ríkjum Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Þar var aftur á móti meiri áhersla á efnahagsleg og félagsleg réttindi sem stjórnvöld vestrænna ríkja vildu meina að kæmu sem afleiðing af hinu borgaralega frelsi. Þó fer víðsfjarri að um slíkt hafi ríkt einhugur og því til staðfestingar er svonefnd Vínaryfirlýsing 1993 þar sem 171 ríki á heimsráðstefnu um mannréttindi lýstu því yfir að “öll mannréttindi séu algild, óaðskiljanleg, hvert öðru háð og innbyrðis tengd”. Sú formlega samstaða sem birtist í þessari yfirlýsingu kann að vera dulið yfirvarp yfir langvarandi ágreining um raunverulega stöðu félagslegra og efnahagslegra réttinda. Eru þau mikilvægari hinum sígildu borgaralegu frelsisréttindum eða eru þau aðeins pólitískt viðmið (ekki raunveruleg réttindi í skilningi laga) um réttlátt/réttlátara samfélag sem kallar á íhlutun stjórnvalda með tilheyrandi skerðingu á frelsi einstaklinga?

Stríðið gegn fátækt?

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur svarað þessari spurningu með því að segja að engin vatnsheld skil séu á milli þessara réttinda í raun og veru af þeim sökum að þau eru innbyrðis tengd, óaðskiljanleg og hvert öðru háð. Í tímamótadómi í máli Airey gegn Írlandi árið 1979, snerist málið um það hvort bágstödd fjögurra barna móðir, Jóhanna Airey, sem sóttist eftir skilnaði frá ofbeldisfullum eiginmanni, ætti rétt á gjafsókn samkvæmt 6. gr. Mannréttindasáttmálans um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Dómstóllinn kvað upp úrskurð sinn og sagði að írska ríkið hefði brotið á rétti Jóhönnu Airey með því að veita henni ekki gjafsókn og rökstuddi niðurstöðu sína m.a. með því að mörg hinna pólitísku og borgaralegu réttinda fælu í sér efnahagslegar og félagslegar kröfur. Það eitt að túlkun ákvæðanna leiddi til slíkrar niðurstöðu ætti ekki að standa í vegi fyrir því að dómarar kvæðu upp þannig úrskurð enda ekki vatnshelt skilrúm á milli ákvæða samningsins og félagslegra og efnahagslegra réttinda.

Þór Vilhjálmsson, þá dómari við Mannréttindadómstólinn, skilaði séráliti í Airey sem er lýsandi fyrir “íhaldssama dómaframkvæmd” eða þrönga skilgreiningu á valdi dómstóla til að leysa úr ágreiningi um réttindi og skyldur manna að lögum. Þór sagði að hugmyndirnar að baki Mannréttindasáttmála Evrópu og orðalag ákvæðanna gæfi skýrt til kynna að hann tæki til annarra vandamála en þeirra sem við blöstu í þessu máli. Hann tók fram að sér þætti það miður, og urðu ummælin fleyg, en stríðið gegn fátækt myndi ekki vinnast með rúmri túlkun á Mannréttindasáttmála Evrópu.

Evrigenis dómari sem einnig skilaði séráliti var ekki sammála þeirri niðurstöðu dómsins að óþarfi væri að skoða hvort um brot á jafnræðisreglunni væri að ræða í samhengi við réttinn til réttlátrar málsmeðferðar en Jóhanna Airey hélt því fram að henni hefði verið mismunað á grundvelli bágs efnahags. Hann benti á að orðið að njóta réttinda í skilningi jafnréttisreglu Mannréttindasáttmálans tæki til allra aðstæðna sem kynnu að koma upp allt frá því að vera meinað að njóta réttinda til fullrar holdtekju réttindanna í réttarkerfinu.

Athafnaskylda stjórnvalda

Kenningin um athafnaskyldu stjórnvalda þykir nú staðfest með dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, sérstaklega hin síðari ár. Samanburðurinn á afstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu annars vegar og Hæstaréttar Bandaríkjanna hins vegar hvað varðar skyldur stjórnvalda til að vernda borgara gegn ofbeldi eða brotum af hálfu einkaaðila er liður í þeirri þróun sem nú á sér stað í alþjóðavæðingu réttarríkisins. Það er athyglisvert að velta fyrir sér hinni ólíku útkomu í máli vesalings bresku barnanna og bandaríska drengsins sem var í dauðadái eftir barsmíðar föður síns. Hvað veldur? Frank Michelman, lagaprófessor í Harvard, segir að svarið liggi í mismunandi pólitískum kúltúr, þ.e. samfélagshyggju annarsvegar eða einstaklingshyggju hinsvegar – fremur en mismunandi stjórnskipun. Og hugsanlega þeirri staðreynd að Evrópubúar séu ekki orðnir stjórnarskrárvanir með sama hætti og Bandaríkjamenn. Þeir sjái stjórnarskrána enn þá í rómantísku ljósi! Hvað sem því líður er hlutfall barna undir fátæktarmörkum, samkvæmt skýrslu Barnahjálpar SÞ frá 2005, yfir 20% í Bandaríkjunum og Mexíkó en undir 3% í Danmörku og Finnlandi. Noregur er eina landið þar sem barnafátækt er afar lág og næstum hverfandi. Hins vegar hefur fátækt meðal barna aukist í 17 af 24 OECD ríkjum undanfarin ár. Helstu ástæður eru áherslur í samfélaginu (Hamingjuleit samtímans – ólíkt sjálfstæðisyfirlýsingunni frá 1776: ofurforstjórar + ofurlaun = ofurfyrirsætur?), ástandið á vinnumarkaði og stefna stjórnvalda. Það eru því aðrar breytur sem ber að skoða en rómantíkin í þessu samhengi. Barnafátækt í auðugum ríkjum grefur undan jafnrétti, tækifærum og sameiginlegum gildum. Aðgerðir til að stemma stigu við þessu ástandi eru því prófsteinn á þessi ríki og íbúa þeirra, þ.e. hvort hugur fylgi máli í lögfestingu mannréttinda og óðinum til réttarríkis eða hvort þetta sé eins og draumur á Jónsmessunótt.

(Grein í Morgunblaðinu 5. febrúar 2006. Höfundur er prófessor við lagadeildina á Bifröst.)