studentar MH

 

Kæru samstúdentar,

 

Fallegu unglingar sem genguð inn í steinsteypta gráa byggingu við rætur Öskjuhlíðar haustið 1970; nýja menntaskólann við Hamrahlíð.

Feimnu unglingar.

Bjartsýnu unglingar – ekki vissum við hvað lífið bæri í skauti sér.

Óöruggu unglingar – sumir farnir að reykja í steintröppunum eftir viku. Aðrir slógu um sig með frösum – Kommúnistaávarpið var ritið sem vitnað var í.

Kæru samstúdentar; þegar litið er til baka er það þetta sem við eigum sameiginlegt:

  • Væntingarnar sem við höfðum þetta haust þegar nútíma Ísland var enn fremur ungt, einfalt og saklaust eins og við sjálf.
  • Upplifun af kennurum, samverustundir í hléum í Norðurkjalla eða fyrir framan sjoppuna Sómalíu, skólaböllin, þar sem freistingarnar voru til að falla fyrir þeim og skólaferðalögin . . .
  • Og síðan þessi ferð í gegnum lífið. Tilveran er undarlegt ferðalag.

 

Þegar við spegluðum okkur í framtíðinni sáum við hana út frá þeim veruleika sem við þekktum haustið 1970 – það voru aðeins liðin 25 ár frá lokum síðari heimsstyraldar.

Reykjavík var engin fjölmenningarborg:

  • skóbúð á Laugaveginum auglýsti að skólaskór væru sendir í póstkröfu
  • Í Morgunblaðinu voru heilu síðurnar með myndum af brúðhjónum – sem var árnað heilla – normið var mjög skýrt – aðeins var vitað var um tvo homma í Reykjavík og eina fræga lesbían var Saffo sem uppi var 6 öldum fyrir Krist.
  • Lög unga fólksins voru spiluð einu sinni í viku í Ríkisútvarpinu – Elvis Presley var enn í fullu fjöri í Las Vegas og Bítlarnir komu þetta haust með lagið The Long and Winding Road
  • franskar og kokteilsósa voru gourmet fæði þessa tíma – og enginn var í heilsurækt!
  • Reykjavík var örugg borg á sama tíma og Baader Meinhoff-gengið var að ræna banka í Berlín

Það var engin leið að sjá fyrir tæknivædda framtíðina, tölvurnar, snjallsímana – samfélagsmiðlana – hjónabönd samkynhneigðra – fjölmenningarsamfélagið – hvað þá feminismann á tíma þar sem kynferðisleg áreitni í garð kvenna var einnig normið.

Á þessum tíma sem liðinn er höfum við skautað öfganna á milli . . . hugsa sér að unglingarnir sem margir héldu sig vera mikla byltingarmenn og marxista (lýsi eftir þeim nú) skuli vera orðin eldri kynslóðin í heimi þar sem ójöfnuður hefur aldrei verið meiri – ekki frá lokum 19. aldar – m.a. s. hægri flokkar í Evrópu og Bandaríkjunum tala um þörfina á að taka á spillingu og rjúfa tengsl peningavalds og pólítíkur.

Kæru olnbogabörn kerfisins: tilvist okkar í Hamrahlíðinni markaðist af því að við tilheyrðum aldrei raunverulega 68 kynslóðinni ( erum ekki það gömul) né fjöldaframleiðslunni í áfangakerfinu.

Við vorum hluti af þessu gamla og hluti af þessu nýja. Hippaímyndin var vinsælust og það var pottþétt að vitna í Marx. Pípureykjandi lið talaði um sögulega efnishyggju; og að hjónabandið væri ekkert annað en opinber skækjulifnaður . . .

Ungir feministar nútímans hefðu upplifað bullandi kvenfyrirlitningu í skólanum á köflum – en það er önnur saga.

Svo gengum við út í sumarið 1974, tókum þátt í fyrstu þingkosningunum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sögulegan sigur en Marx-Lenínistar fengu 121 atkvæði – öll úr Hamrahlíðinni. Lengra náðu ekki áhrif olnbogabarnanna.

Þau hafa ekki gert sig gildandi á hinum pólitíska vígvelli.

Veit ekki um marga frambjóðendur úr hópi olnbogabarna – veik útgáfa af Ástþóri stendur hér – olnbogabörnin hafa ekki farið á þing eða í ríkisstjórn. Þau hafa haslað sér völl á öðrum sviðum – og brillerað eins þeim einum er lagið – bæði leynt og ljóst –

Úr þessum hópi hafa komið bestu læknar þjóðarinnar, dómarar, fjölmiðlafólk, lögmenn, arkitektar, hagfræðingar, bókmenntafólk, músíkantar, fólk í viðskiptum og ferðaiðnaði, kennarar, embættismenn – og ég held vegna reynslu okkar sem olnbogabarna – þá séum við flest frábærir og skilningsríkir foreldrar . . .

Olnbogabörnin væru ekki það sem þau eru í dag hefðu þau ekki notið maka sinna –þeirra maka sem ekki gáfust upp í hjónaböndum með olnbogabörnum – því olnbogabörnin eru svolítið spes eins og ég hef áður vikið að. Þess vegna verður að hrósa sérstaklega þeim einstöku mökum sem hafa þraukað og sitja hér nú.

Við sem urðum flugfreyjur sumarið eftir stúdentspróf fengum smjörþef af hinum stóra heimi – minnist auglýsingar í glansriti með löngum, dömulegum sígarettum og slagorðið var:

You have come a long way baby!

Það er nákvæmlega málið. Þetta hefur verið löng ferð, kæru olnbogabörn. Eins og segir í ljóðinu Hótel Jörð eftir Tómas Guðmundsson – þar sem við erum gestir og hótel okkar jörðin:

En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl
þó deilt sé um hvort hótelið sjálft muni græða.
En við sem ferðumst eigum ei annars völ,
það ER ekki um fleiri gististaði að ræða.

Olnbogabörnin eru þrautseig. Seiglan hefur skilað þeim langt. Þau hafa upplifað eitt mesta efnahagshrun sögunnar sem var ekki síður hrun á siðferðilegum og pólitískum gildum. En þar voru olnbogabörnin engir sérstakir gerendur.

Ekkert olnbogabarn er mér vitanlega í kladda sérstaks saksóknara – eða blaðrandi frá sér allt vit í rannsóknarskýrslum Alþingis . . .

Og þegar ég lít yfir hópinn og farinn veg sé ég ekki einstaklinga í stöðugri keppni um að krækja sér í bestu bitana. Mörg hafa látið sér það lynda að vera utan hringiðu óáreitt og spök.

Hvað sem því líður stöndum við nú á tímamótum. Við getum ekki lengur verið í hlutverki olnbogabarnana. Við erum að eldast og verðum að gera okkur meira gildandi – svo ég grípi í orðfæri fyrrum prófessors sem er alltaf að vinna forsetakosningar!

Hvað dettur ykkur í hug? Einn af okkar kynslóð; frumkvöðullinn Steve Jobs sagði að maður ætti bara að gera það sem hugur manns stæði til.

Af því að ég þekki ykkur – veit ég hvað þið eruð að hugsa núna. Bendi bara á að það er búið að taka frá herbergi hér við hliðina ef einhver skyldi verða ofurölvi. Ég lendi ekki þar í kvöld af því að ég er á bakvakt fyrir fyrir Lögmannafélagið þennan sólarhring – ef eitthvert ykkar skyldi loks komast í kast við lögin.

Elsku samstúdentar: takk fyrir það liðna – góða skemmtun og bjarta framtíð!

(Ræða Herdísar Þorgeirsdóttur á stúdentsafmæli 1974 árgangsins frá Menntaskólanum í Hamrahlíð, 9. maí 2014). 

MH Herdís flytur ræðu

MH 4A

MH herdís vala o.co