Nú hefur Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, stigið fram og segist axla ábyrgð af lélegri öryggisgæslu í sendiráði Bandaríkjanna í Benghazi þar sem sendiherra Bandaríkjanna var myrtur í síðasta mánuði (sjá frétt BBC í morgun). Hún segir að öryggisgæsla sé á hennar ábyrgð ekki Hvíta Hússins og er þetta liður í því að létta ásökunum á hendur Barak Obama en nú standa fyrir dyrum aðrar kappræður hans og hins forsetaframbjóðandans, Mitt Romneys.

Ekkert nýtt að konur axli ábyrgð og alveg ljóst að Hillary Clinton er að styrkja sig mjög í sessi. Ýmsir sjá nú eftir því að hafa ekki veitt henni brautargengi þegar frambjóðandi demókrata til embættis forseta var valinn í aðdraganda forsetakosninganna 2008. Barak Obama hefur valdið vonbrigðum og hinar miklu breytingar, sem hann boðaði þykja ekki vera í sjónmáli.

Ég átti samtal við rússneska kaupsýslumenn sem eru nú búsettir í New York og eru yfir sig hrifnir af Romney – maður sem hefur unnið sig upp og er táknrænn fyrir bandaríska drauminn; segja þeir, þessir menn sem flúðu Sovétríki kommúnismans fyrir rúmum tveimur áratugum.  Á sama tíma segja  Bandaríkjamenn, sem ég hitti fyrir nokkrum dögum, að ameríski draumurinn sé dauður – forsetakosningarnar nú snúist um tvo kosti, hvorugan ákjósanlegan, enda snúist þetta allt um peninga þegar upp er staðið.  Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur nýverið úrskurðað að lögaðilar, fyrirtæki, hafi á grundvelli tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar rétt til að ráða  úrslitum í kosningum með fjárframlögum sínum; minnir kona á, sem varð á vegi mínum og er ekki spennt fyrir kosningunum. Hún segir Obama sjálfhverfan og þroskaleysi hans komi í ljós þegar hann þarf að tjá sig án „teleprompters“.

Forsetakosningar í Bandaríkjunum eru grafalvarlegt mál en þær varpa þær einnig ljósi á yfirborðsmennsku stjórnmálanna. Ummæli Rússana um ameríska drauminn segja sína sögu. Þessir menn, sem kannski fæddust á þeim tíma þegar Krúsjeff fór úr öðrum skónum og sló í ræðupúlt á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna með rússneska babúsku sér við hlið, sem hét Nina – á meðan Bandaríkjamenn horfðu með stjörnur í augum á sinn ameríska draum holdi klæddan í John F. Kennedy og hans glæstu eiginkonu, Jacqueline í Chaneldragt.

Munurinn sem Rússar og Bandaríkjamenn standa frammi fyrir nú er ekki eins sláandi. Vladimir Putin, Mitt Romney og Barak Obama eiga það allir sammerkt að stór og sterk fyrirtæki standa að baki þeim. Ameríski draumurinn er dauður – segja margir Bandaríkjamenn. Draumurinn um hin jöfnu tækfæri er að engu orðinn þegar 1 prósent þjóðarinnar á helming alls auðsins. Hvað eiga þá 2 prósent og hvað er þá eftir handa hinum?

En frambjóðendurnir eru eins og nýstignir út úr vaxmyndasafni Madame Tussaud; spengilegir, með broshrukkur og sumir segja með hæfilegan skammt af hláturgasi áður en þeir ganga inn á vígvöll sjónvarpskappræðna, sem heimsbyggðin fylgist með. Og Nota Bene: Allir karlkyns.

Michelle, elskan, leiðinlegt að geta ekki haldið upp á tuttugu ára brúðkaupsafmælið með þér . . . takk fyrir að vera gift mér . . .  lofa þér að halda upp á næsta brúðkaupsafmæli í  einrúmi . . . – eitthvað í þessa veru hófst ræða Barak Obama í fyrstu sjónvarpskappræðunum vegna forsetakosninganna. Eins og hundruð milljóna séu þrúguð af áhyggjum yfir því að þau hjón hafi þurft að eyða kvöldinu í sjónvarpssal.

Þessi frambjóðendur hafa ógrynni fjár (talið að kosningarnar í heild kosti um 700 milljarða Bandaríkjadala), þeir hafa ímyndarsmiði á vakt allan sólarhringinn og samt geta þeir/hann ekki gert betur en þetta. Er það af því að teleprompterar hugsa ekki sjálfstætt og af því að ímyndarsmiðir eru jú, bara auglýsingamenn en ekki endilega frumlegir hugsuðir, hvað þá hugsjónamenn?

Þegar grannt er hlustað er minni munur á málflutningi Obama og Romneys en Obama og Hillary Clinton, sem tapaði fyrir honum á sínum tíma. Hillary Clinton talar um peningaöflin. Ég vek athygli á því og bendi kjósendum, hvar sem þeir eru, að hlusta eftir því. Þeir sem ekki minnast á peningaöflin eru á valdi þeirra og það eru ekki þannig frambjóðendur sem koma til með að þjóna lýðræðishugsjóninni um jöfn tækifæri og grundvallarréttindi.

Obama og Romney? Tværi hliðar á sömu mynt?

(Stærstu styrktaraðilarnir í bandarísku forsetakosningunum skv. BBC)