russian oligarchsLengi hef ég bent á þær hættur sem lýðræði stafar af tengslum peningaafla og stjórnmála. Nú eru rússnesk stjórnvöld í sviðsljósinu vegna réttarhaldanna yfir Pussy Riot en þær tróðu upp í rétttrúnaðarkirkju til að mótmæla Pútin og pólitískri spillingu. Athygli heimsins beinist nú að Pussy Riot en mikilvægt er að setja í samhengi og gleyma ekki hverju þær eru að mótmæla – og að slík spilling og vaxandi ójöfnuður er ein helst ógn við lýðræði og mannréttindi í heiminum nú. Þeir sem eru að berjast fyrir mannréttindum í Rússlandi og fyrrum ríkjum Sovétríkjanna sæta margir miklu harðræði, andlegum og líkamlegum pyntingum.

Í dag ákallaði GRECO-hópur Evrópuráðsins Rússa um að skera upp herrör gegn mútum og  auka gagnsæi á tengsl peningaafla og stjórnmálamanna. Miklar áhyggjur eru innan Evrópuráðsins vegna stuðnings peningaafla við ákveðna stjórnmálamenn í í rússneska sambandslýðveldinu. Bent er á að núgildandi lög um fjárframlög til stjórnmálamanna séu flókin, stöðugt sé verið að breyta þeim til að skapa svigrúm til að túlka þau með ýmsum hætti sem og  framkvæmd þeirra. Sérstakar áhyggjur eru af meintri tilvist mikils fjárstreymis sem falli utan ramma laganna og víðtækri misbeitingu stjórnvalda í þágu ákveðinna stjórnmálamanna í kosningum.

Í einkavæðingarferlinu á tíunda áratug síðustu aldar, eftir hrun Sovétríkjanna, fór ómældur auður frá ríkinu til einkaðaðila. Einkavæðingarferlið í Rússlandi var gerspillt en auðurinn er víst óafturkræfur. Í aðdraganda kosninganna fyrr á þessu ári  lýsti Pútin því yfir að þeir sem hefðu hagnast á óheiðarlegu einkavæðingarferli ættu að greiða eignaskatt í eitt skipti en með þeim hætti gætu þær eignir og auður sem þessir aðilar fengu í einkavæðingarferlinu talist lögmæt.

Gagnrýnendur Pútins, þ.á.m. Boris Nemtsov fyrrverandi ráðherra, benda á að þeir sem eru nánir valdhöfum og náttúrulegum auðlindum séu að verða ríkari. Samkvæmt Alþjóðabankanum voru 13 prósent í Rússlandi undir fátækramörkum 2010.

Samkvæmt lista Forbes í mars 2012 eru 95 milljarðamæringar í Rússlandi. Kína sem er tíu sínnum fjölmennara á „aðeins“ 14 fleiri milljarðamæringa en Rússar. Rússnesku milljarðamæringarnir eru metnir á bilinu 18.1 milljarður bandaríkjadala niður í 6.5 samkvæmt Forbes listanum.

Réttarhöld í málaferlum tveggja rússneskra auðkýfinga í London fyrr á þessu ári vörpuðu ljósi á það með hve skuggalegum hætti þessir forríku olígarkar auðguðust með skjótum hætti á tíunda áratug síðustu aldar. Gögn sem komu fram í réttarhöldunum beindu sjónum að ótrúlegum auði og lífsstíl þessarar nýrríku rússnesku elítu, glæsihýsum um alla veröld, lúxussnekkjum, glæsibifreiðum, dvölum á lúxushótelum – sýn inn í heim, handan og ofan þess, sem flestir aðrir íbúar jarðarinnar geta  ímyndað sér.

Smávægilegar lagabreytingar virka sem siðvæðing spillingar í því ástandi sem hér er lýst að ofan.