Er að nálgast Skaftafell í glampandi kvöldsólinni og mistur yfir fjöllunum. Ferðin hringinn um landið hefur verið mjög áhugaverð. Á Akureyri hófst miðvikudagurinn í heita pottinum þar sem ég spjallaði við sundlaugargesti. Heimsótti ég nokkur fyrirtæki, m.a. Slippinn og Samherja, stofnanir í Gamla Alþýðuhúsinu og átti góðan fund með stuðningsmönnum.  Um kvöldið var ég boðin á Möðruvellil til að samfagna með nýkjörnum vígslubiskupi á Hólum, Solveigu Láru Guðmundsdóttur. Á Húsavík fór ég í sund í glampandi sól, hitti margt hresst fólk sem var að fá sér morgunmat í bakaríinu, átti sérlega skemmtilegt spjall við starfsmenn Víkurrafs, heimsótti ritstjóra Skerpis auk þess sem ég ávarpaði eldri borgara i Hvammi.

Á Seyðisfirði hitti ég starfsmenn Síldarvinnslunnar og átti gott spjall við þá á kaffistofunni. Skiptar skoðanir voru um ýmis mál í þeirra hópi. Kaffistofan þeirra er með gamaldags sniði en allt rusl vandlega flokkað sem gerir hana nútímalegri en mörg önnur fyrirtæki. Þeir leystu mig út með kaffi sem er kennt við Sólardaginn á Seyðisfirði,  18. febrúar. Kíkti við á bensínstöðinni, Samkaupum og hjá handverkstæði Láru. Á Eskifirði varð ég fyrir skemmtilegri reynslu þegar ég spurði ungling til vegar. Hann stökk af reiðhjólinu sínu og sagði strax: „Ég stend með þér!“ Pilturinn heitir Esjar og fljótlega bar að fleiri félaga hans, sem gaman var að spjalla við. Í Neskaupsstað heimsótti ég Síldarvinnsluna og var leidd um þetta myndarlega fyrirtæki af Hákoni og Margréti.

Á Egilstöðum átti ég fund með frændfólki og nokkrumn vinum á Gistihúsinu á Egilsstöðum. Hóf föstudaginn á ferð í sund eins og annars staðar, heimsótti síðan Kleinuna sem hýsir ýmsir stofnanir og skrifstofur, heimsótti fyrirtækið Brúnás sem framleiðir glæsilegar innréttingar og spjallaði við starfsmenn og fór í leiksskólann Skógarland þar sem eru 130 börn. Svo lá leiðin yfir Fagradal til Reyðarfjarðar þar sem ég heimsótti aðra af tveimur starfsstöðvum Vélsmiðju Hjalta Einarssonar (VHE) áður en ég átti fund með nokkur hundruð starfsmönnum Fjarðaráls og fékk nokkrar áhugaverðar fyrirspurnir þar. Fór síðan í Molann og heimsótti bæjarskrifstofur og Íslandsbanka.

Næst lá leiðin til Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar, Breiðdalsvíkur og Djúpavogs. Í einu plássi hitti ég mann sem var að mála niður við höfn. Sólin glampaði á spegilsléttan sjóinn og ég dáðist að fjallasýninni. „Þeir gátu ekki tekið fjöllin“, sagði þessi maður og var reiður þeim sem fóru með kvótann úr byggðalaginu.

Þegar ég kom til Hafnar í Hornafirði stóð þar yfir Humarhátíð og  var þar múgur og margmenni.  Á Kirkjubæjarklaustri ræddi ég við gesti og gangandi, m.a. lögregluþjóna staðarins.