Ég hef lengi varað við ítökum peningaafla í stjórnmálum. Ef þau ráða úrslitum um það hverjir eru kjörnir til áhrifa kunnum við að sitja uppi með handbendi þeirra.

Áttunda bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis ber heitið Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Í kafla II. 3 segir: „Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna“. Meðal lærdóma sem í skýrslunni er sagt að draga þurfi er að:

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.”

Ég hef opnað bókhald framboðs míns og skorað á aðra frambjóðendur að gera slíkt hið sama, enda hvatt til gagnsæis í bókhaldi í skýrslunni, en lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda eru frá því fyrir hrun.

Til að tryggja það að ég verði engum háð, hljóti ég kosningu í embætti forseta Íslands, hef ég ákveðið að framboð mitt taki ekki við styrkjum frá fyrirtækjum.

Ég skora á aðra frambjóðendur að opna bókhald sitt strax til þess að kjósendur geti séð hvaðan peningarnir að baki framboðinu koma – áður en þeir ganga að kjörborðinu.

Herdís Þorgeirsdóttir