Frétt Stöðvar 2: viðtal við Herdísi Þorgeirsdóttur

Fréttamenn Ríkisútvarps ætla ekki að víkja

Bréf til Sigríðar Hagalín Björnsdóttur hjá Ríkisútvarpinu dagsett 9. maí, 2012

Í framhaldi af símtali þínu við Herdísi Þorgeirsdóttur forsetaframbjóðanda í dag hefur Herdís falið mér að koma eftirfarandi á framfæri vegna þeirrar staðreyndar að einn frambjóðenda til embættis forseta Íslands er einstaklingur sem fram til 4. apríl sl. var nánast daglegur gestur á heimilum landsmanna vegna starfa sinna hjá Ríkisútvarpinu sem aðstoðarritstjóri í fréttaþættinum Kastljósi og annar tveggja spyrla í spurningaþættinum Útsvari:
  1. Hinn 5. janúar 2012 birtist á pressan.is viðtal við umræddan forsetaframbjóðanda, sjá http://www.pressan.is/frettir/lesafrett/thora-arnors-heit-fyrir-forsetaframbodi—fjoldi-askorana—get-ekki-annad-en-brugdist-vid-af-fullri-virdingu þar sem fram kemur að hún útilokar ekki forsetaframboð og að hún geti ekki annað en brugðist við af fullri virðingu fyrir þeim sem skorað hafi á sig. Í viðtalinu kemur fram að á starfsmanninum sé að skilja að forsetaframboð sé meira en líklegt.
  2. Þrátt fyrir þessa frétt á víðlesnum netmiðli verður ekki séð að Ríkisútvarpið hafi gripið til ráðstafana gagnvart áframhaldandi störfum umrædds einstaklings á skjánum. Viðkomandi hélt áfram að koma fram í viku hverri í Kastljósi og Útsvari.
  3. Umræddur starfsmaður Ríkisútvarpsins lýsti yfir framboði til embættis forseta Íslans 4. apríl sl. Í frétt Ríkisútvarpsins um framboðið segir ekkert um hvenær hún lét af störfum hjá Ríkisútvarpinu en fram kemur að sambýlismaður hennar, sem einnig starfar hjá Ríkisútvarpinu, hafi fengið leyfi frá störfum frá og með þeim degi, sjá: http://www.ruv.is/frett/thora-bydur-sig-fram-til-forseta. Við gerð þessa tölvupósts skoðaði ég heimasíðu Ríkisútvarpsins. Bæði frambjóðandinn og sambýlismaðurinn eru enn á lista stofnunarinnar yfir starfsmenn og hvergi tilgreint að þau séu í leyfi.
  4. Það vekur furðu að Ríkisútvarpið virðist engar reglur hafa um það hvað gildir í tilvikum sem þessum. Í þrjá mánuði var umræddur starfsmaður áfram oft í viku gestur á skjám landsmanna þrátt fyrir yfirlýsinguna um að forsetaframboð væri líklegt. Starfsmaðurinn gaf þann möguleika aldrei frá sér eftir að frétt um efnið birtist hinn 5. janúar sl.
  5. Í byrjun maí sl., mánuði eftir að viðkomandi lýsti yfir forsetaframboði, sendi fréttastjóri Ríkisútvarpsins bréf til starfsmanna og hvatti þá til hlutleysis í umfjöllun í komandi forsetaframboði.
Ríkisútvarpið er útvarp allra landsmanna. Vegna þessarar stöðu á Ríkisútvarpið ekki eingöngu að vera hlutlaust heldur virðast hlutlaust. Framangreindar staðreyndir eru mikið umhugsunarefni og þær gera fátt til að vekja traust á því að Ríkisútvarpið sé eða geti verið hlutlaust í umfjöllun sinni um frambjóðendur í komandi forsetakosningum.
Sú skekkja sem framangreint hefur valdið hlýtur að kalla á að Ríkisútvarpið geri það sem í þess valdi stendur til að leiðrétta ójafna stöðu frambjóðenda. Þá hlýtur Ríkisútvarpið að þurfa að tryggja það að engir samstarfsmenn umrædds frambjóðanda komi nálægt þáttagerð vegna forsetakosninga. Til þess eru þeir vanhæfir. Aðrir forsetaframbjóðendur geta ekki treyst því að þeir njóti hlutleysis eða sanngjarnrar umfjöllunar í þeirri kosningaumfjöllun sem framundan er nema að þeirri vinnu komi af hálfu Ríkisútvarpsins aðrir en samstarfsmenn eins forsetaframbjóðandans.
Þess er óskað að Ríkisútvarpið upplýsi:
  • Hvernig Ríkisútvarpið hyggst kynna aðra forsetaframbjóðendur til að gera það sem hægt er að tryggja það að þeir sitji við sama borð og starfsmaður Ríkisútvarpsins, sem var að störfum á skjánum nánast fram að þeim degi sem framboði var lýst.
  • Hvernig Ríkisútvarpið hyggst tryggja hlutlausa kosningaumfjöllun og hvaða utanaðkomandi einstaklingar hafi verið fengnir til þess verks að annast hana af hálfu þess.

Um leið og óskað er staðfestingar á móttöku þessa tölvupósts er þess farið á leit að viðbrögð RÚV við ofangreindu berist svo fljótt sem auðið er.

Með virðingu,
f.h. framboðs Herdísar Þorgeirsdóttur til embættis forseta Íslands,
Dögg Pálsdóttir