María Elísabet um ímyndunaraflið á RÚV

María Elísabet um ímyndunaraflið á RÚV

Rithöfundurinn María Elísabet Bragadóttir hefur sent frá sér tvö smásagnasöfn og segir erfitt að útskýra hvaðan sögur hennar koma. „Ég myndi ekki segja að ég fái hugmyndir að sögunum heldur fæ ég tilfinningu sem ég vil koma til skila.“

Rætt var við Maríu Elísabetu Bragadóttur í Orðum um bækur á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Fyrir mánuði kom út annað smásagnasafn höfundarins Maríu Elísabetar Bragadóttur. Nýja bókin heitir Sápufuglinn og geymir þrjár smásögur en fyrir tæpum tveimur árum vakti höfundur athygli með frumraun sinni Herbergi í öðrum heimi. Í smásögum Maríu Elísabetar fær lesandi innsýn inn í hugar- og reynsluheim ungs fólks sem er að reyna að fóta sig í tilveru fullorðinna, í ástarsamböndum og fjölskyldusamböndum. Flestar sagnanna eru fyrstu persónu frásagnir sem gefa djúpa innsýn í þrá eftir raunverulegum tengslum og óöryggi – sem sögurnar fjalla allar um hver með sínum hætti. Rætt var við Maríu Elísabetu í Orðum um bækur á Rás 1 um bækur hennar.

Skrifar til að skilja heiminn

„Ég held að ég hafi bara byrjað að skrifa skáldskap þegar að ég lærði að skrifa og þegar að ég lærði að lesa,“ segir María Elísabet. Hún segir skrifin sína aðferð til að skilja heiminn og til að tengjast honum. „Ef að ég myndi ekki skrifa þá væri ég svolítið sambandslaus. Mér finnst ég oft vera að stinga mér í samband með því að skrifa.“

Heimur bókmennta hafur fylgt Maríu frá því að hún lærði að lesa, jafnt skrif sem lestur. „Ég les frekar mikið myndi ég segja og núna fæ ég samviskubit þegar að ég er ekki að skrifa nema ég sé að lesa, því þá finnst mér ég vera að sinna vinnu.“ Hún les á hverjum degi en sinnir skriftum í skorpum. „Ég er misjafnlega iðin og er enn sem komið er dálítið kaotísk. En að upplagi get ég verið öguð þegar mikið liggur við, þá er ég það.“

Hingað til hefur hún að mestu fengist við prósaformið og út hafa komið tvö smásagnasöfn. „Ég hef aldrei fundið hjá mér þörf fyrir að gefa út ljóð.“ María les mikið ljóð og hefur skrifað þau en finnst að eigin sögn ógnvekjandi tilhugsun að gefa þau út. „Ég er öruggari með mig sem prósahöfund en það gæti alveg breyst.“

Góð tilfinning að þekkja persónuna vel

Smásögur Maríu hafa getið sér gott orð fyrir beittan húmor og djúpt innsæi höfundar sem birtist í leiftrandi persónusköpun. Hún hefur skapað stórt persónugallerí og segir gott að kynnast persónunum vel í gegnum skrifin. „Það er rosalega góð tilfinning að vera að skrifa samtal og finna að þú átt ekki í neinum vandræðum með framvinduna í samtalinu af því að þér finnst eins og að þú sért farin að fá það góða tilfinningu fyrir karakternum að þú veist bara nákvæmlega hvað karakterinn myndi segja þarna.“

María segir misjafnt hvernig sögurnar komi til sín, hvort persónurnar eða atburðarásin séu fyrri til að láta á sér kræla. „Ég held að þetta sé svolítil hringrás.“ Það sem leitar yfirleitt fyrst til hennar er einhver tilfinning sem hún vill koma til skila. „Einhver samskiptadýnamík eða eitthvað þannig.“

Átakasamt ferli

Í titilsögu nýrrar bókar hennar, Sápufuglinn, segir frá sambandi tvítugs sögumanns og Jóhönnu sem er 13 árum eldri. „Það er þarna valda dýnamík í nánu sambandi.“ Hin unga ónefnda söguhetja er heilluð af eldri konu og aldursmunurinn spyr spurninga um hvernig okkur finnist rétt að elska aðra manneskju. „Mér fannst svolítið erfitt að skrifa þessa sögu, það var alveg svolítið átakasamt ferli.“

María segist hafa verið lengi að átta sig á hvernig væri best að koma sögunni sem hún vildi segja til skila. „Ég vildi forðast að vera með falskan tón og svo var ég alltaf að hugsa um strúktúrinn, það var erfitt að finna út hvernig ég vildi hafa strúktúrinn af þessari sögu.“ Fyrstu drög sögunnar voru talsvert styttri en endanleg útkoman og voru skrifuð hratt. „En svo fann ég hvað ég var óánægð með hana og ég þurfti að endurskrifa hana, taka mér dálítið langan tíma og þurfti að lengja hana.“

„En svo einhvern veginn endaði þetta á því að vera þannig að ég treysti svolítið mikið þessum aðalkarakter. Hún er, þrátt fyrir að vera dálítið rugluð, þá er hún líka sterk.“ Aðalpersónan er að stíga sín fyrstu skref í heimi fullorðinna og á í sínu fyrsta fullorðinsástarsambandi. „Hún er fylgin sér. Hún er í sambandi með eldri konu en samt stendur á sínu. Hún er að reyna að lifa í heilindum, að reyna að vera sönn manneskja.“

Leti tabú í íslensku samfélagi

Önnur saga í smásagnasafninu Sápufuglinn heitir Dvergurinn með eyrað og er örlítið frábrugðin öðrum sögum Maríu. „Það er nánast smá vísindaskáldskapur þar stundum. Hún er dálítið ljóðræn og furðuleg.“ Sjálf segist María heilluð af fjölbreyttum höfundum sem beita fyrir sig mismunandi stílum bókmennta. „Ég er sjálf mjög hrifin af höfundum sem skrifa dálítið fjölbreytilega og lesandinn veit ekki alltaf hvar hann hefur höfundinn.“

Dvergurinn með eyrað fjallar um ætt kvenna og sérstaklega þá yngstu sem er titilpersóna sögunnar. Fyrst fylgjast lesendur með henni sem lítilli stúlku sem vex úr grasi og verður ung kona. Hún er með sífellt eyrnasuð og ankannaleg eyru, sem þó er aldrei farið í nákvæmar lýsingar á. Sagan tekur einnig á tabúi í íslensku samfélagi því mæðgurnar eru allar latar. „Þar er amma mín að veifa. Amma mín sagði alltaf að hún væri löt og hún ætti eftir að verða fyrsta konan á Íslandi til að deyja úr leti. Þannig að amma var smá innblástur þar.“

„Mér fannst gott að skrifa einhverja sögu sem lét nánast ekkert uppi. Þetta er allt í höndum lesandans um hvað þetta raunverulega fjallar.“ Hún segir þó að óneitanlega sé sorglegur tónn í sögunni og ef til vill sé leti kvennanna harmræn. „Kannski er það eitthvað slæmt í þessari sögu. Það er allavega eitthvað að. Allar þessar konur eru á skjön. Þær finna sig ekki í tímanum.“

Börn líka með flókið tilfinningalíf

Það mætti segja að síðasta sagan í smásagnasafninu Herbergi í öðrum heimi sé titilsaga bókarinnar þó hún beri annað nafn því sagan vísar til nafns bókarinnar með afgerandi hætti. Sagan heitir Ég er ekki kona, ég er sjö ára og segir frá systrunum Rúnu og Bergljótu. Rúna er um það bil að verða kynþroska en Bergljót er sjö ára. Móðir þeirra hefur beðið þær að halda sig til hlés því hún er að halda kvennaboð og sú eldri reynir að passa þá yngri. „Barnungu karakterarnir eru með flókið tilfinningalíf líka,“ segir María.

Persónur Maríu eru gjarnan ungar konur eða jafnvel börn. Rúna í sögunni Ég er ekki kona, ég er sjö ára er á mörkum þess að vera barn og vera ung kona. „Hún Rúna, hana langar til að vera fullorðin, en þetta er samt tvíbent. Hún þolir ekki hvað systir hennar fær mikla athygli og hún er svolítið afbrýðisöm en hún vill líka vernda systur sína frá fullorðinsheiminum, sem hún er líka hrædd við.“

Einn góður lesandi ótrúlegur

Íslenska málsvæðið er nokkuð lítið og því segir María ómetanlegt að eiga góða þýðendur. „Það er skrítið að skrifa á íslensku, maður er að skrifa á leynitungumáli.“ Sögur hennar hafa verið þýddar á nokkur tungumál og hún hefur ferðast utan til að taka þátt í málþingum og fleiru. Nýlega var hún í Tékklandi og Slóvakíu að taka þátt í Authors Reading Month. „Það var ævintýralegt, ótrúlega mögnuð upplifun og eitthvað sem að ég hafði aldrei leitt hugann að.“

Eitt kvöldið á hátíðinni spurði kona hana hvort það freistaði Maríu ekki að skrifa einfaldlega á ensku. „Mér fannst það alveg fáránleg spurning. Bara, nei.“ Þó að hún eigi sér þann draum að bækur hennar nái til víðari hóps en þeirra sem kunna íslensku þá hugnast henni ekki að skrifa á öðru tungumáli en móðurmáli sínu. Fyrir vikið þurfum við að treysta á góða þýðendur. „Við eigum reyndar ótrúlega góða þýðendur.“

Lesendafjöldi Maríu veldur henni þó ekki þungum áhyggjum. „Áður en að ég byrjaði að skrifa þá var ég ekki að hugsa oh þetta er eitthvað þunglyndislegt að vera bara að skrifa fyrir 300 þúsund manns. Ég er enn þá á þeim stað að mér finnst magnað þegar að ein manneskja les og ég er ekki að vera með einhverja falska hógværð eða eitthvað svoleiðis. Ég er bara að meina það. Einn góður lesandi, það er ótrúlegt.“

María lagði stund á heimspeki í Háskóla Íslands og hefur ekki lært þar ritlist eins og margir höfundar af yngri kynslóðinni um þessar mundir. Hún segir dýrmætt að eiga vini sem sinna líka skrifum. „Það er gott að eiga gott tengslanet og sérstaklega að geta talað við fólk sem er að gera það sama og þú. Eignast góða yfirlesara. Ég held að tengslanet sé þó ekkert forsenda þess að verða góður rithöfundur.“

Rætt var við Maríu Elísabetu Bragadóttur í Orðum um bækur á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tónsmíðar við Essex Serpent

Tónsmíðar við Essex Serpent

Tónskáldin Herdís Stefánsdóttir og Dustin O’Halloran hafa samið tónlistina við nýja þáttaseríu á Apple TV – The Essex Serpent sem byggir á verðlaunaskáldsögu Sarah Perry en í aðalhlutverkum eru Tom Hiddleston og Claire Danes. Sagan gerist á síðari hluta Viktoríutímans í litlu sjávarplássi á Englandi þar sem fólk hefur orðið vart við ógnvænlegan orm (líkt og Lagarfljótsorminn) eftir að steingervingar komu í ljós við jarðskjálfta. Tom Hiddleston leikur þorpsprestinn en Claire Danes er steingervingafræðingur, ekkja sem kemur frá London til að rannsaka fyrirbærið. Herdís og Dustin hafa hlotið lof gagnrýnenda fyrir tónlistina.

Óvissan

Óvissan

Staðsetning rússneskra hersveita – um 100 þúsund manns og vopnabúnaðar við landamæri Rússlands og Úkraínu sem og á landamærum Hvíta Rússlands og Úkraínu hefur vakið sterk viðbrögð innan Atlantshafsbandalagsins – auk þess er því haldið fram að Rússar séu í startholunum með skipaflota og flugsveitir komi til átaka. Ástandið veldur ótta. Rússar hafa mánuðum saman verið að byggja upp hernaðarmátt við landamæri Úkraínu sem Pútin, forseti Rússlands, segir að sé liður í að verja Rússa gegn ört vaxandi Atlantshafsbandalagi. Hann hefur lýst yfir vonbrigðum með þá afstöðu NATO að koma ekki til móts við kröfur Rússa um að meina Úkraínu þátttöku í bandalaginu.

Biden forseti Bandaríkjanna er óspar á yfirlýsingar um mögulega innrás Rússa í Úkraínu sem yrði með hans orðum ,,sú stærsta frá því í síðari heimsstyrjöldinni”. Komi til átaka er stigmögnun líkleg í tíma og rúmi. Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, hefur biðlað til alþjóða samfélagsins að halda aftur af hræðsluáróðri  því efnahagur Úkraínu sé í húfi.

En það kann einnig liggja fyrir lausn sem eru drögin að Minsk samkomulaginu frá 2015 á milli Frakka, Þjóðverja, Rússa og Úkraínu, stutt af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna – en því var ætlað að enda átökin í Donbas í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga 2014. Efnislega gæti Minsk-samkomulagið átt við núverandi stöðu. Á sínum tíma synjuðu Frakkar og Þjóðverjar tilboði Bandaríkjamanna um að fá Úkraínu til að ganga í NATO enda fyrirséð hver viðbrögð Rússa yrðu við því. Það boð kom upphaflega frá  George W. Bush 2008 og var síðar ítrekað af Barak Obama.  Minsk samkomulagið 2015 gekk út frá takmörkun vígbúnaðar í aðskilnaðarhluta Rússa í Donbas héraði og að hersveitir yrðu fjarlægðar um leið og fullveldi Úkraínu  yrði tryggt og stjórn yfir landamærum við Rússland sem og sjálfstjórn Donbas-héraðs. Minsk samkomulaginu hefur hins vegar ekki verið hrint í framkvæmd.

Emmanuel Macron forseti Frakklands sagði nýlega að mikilvægt væri að endurvekja fjórhliða viðræður Rússa, Þjóðverja, Frakka og Úkraínu til að finna lausn á stigmögnun átaka. Eins og samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna er nú háttað gætu ríki Evrópu stigið inn og reynt að miðla málum. Öryggi og friður í Evrópu er einnig í húfi.

Hvað varðar kröfu Rússa um að Úkraína gangi ekki í NATO má minna á  Svíþjóð og Finnland sem ekki eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu og lýstu áður yfir hlutleysi vegna nálægðar við Rússland. Því hlutleysi var hins vegar aflýst þegar þau gengu í Evrópusambandið þótt þau séu formlega ekki aðilar að NATO. Síðustu vikur og daga hefur verið ítrekað af hálfu forsvarsmanna NATO að dyrnar að bandalaginu stæðu þeim opnar. Bæði ríkin hafa aukið sveigjanleika í stuðningi við NATO með því að hleypa hersveitum Atlantshafsbandalagsins inn í lögsögu sína á krísutímum. Það hefði hins vegar bæði hernaðarlegar og pólitískar afleiðingar gengju Svíar og Finnar í NATO. Ólíklegt er annað en að Rússar myndu bregðast við því með einhverjum hætti. Að sama skapi er óþolandi fyrir fullvalda ríki annað en að hafa valkostinn og vera ekki múlbundin af skilyrðum nærliggjandi stórvelda.

Þrátt fyrir að Rússar virðist í startholunum að ráðast inn í Úkraínu með uppbyggingu á hernaðarmætti á landamærunum – og að til innrásar kæmi á næstu vikum er ólíklegt að NATO ríkin myndu blanda sér beint í slík átök en þau myndu hafa voveiglegar afleiðingar fyrir stöðuna á alþjóðavettvangi. Það er einnig ljóst að í því er fólgin mikil áhætta fyrir Rússa að ráðast inn í Úkraínu. Bandaríkin gætu brugðist hart við og Rússar væru komnir í ógöngur.

Pútin talar fyrir rússneskum hagsmunum og aðgerðir síðustu mánaða eru til að staðfesta alvöruna – því liggur beinast við að tala saman áður en stórslys verður. Það er ótækt annað en að finna lausn á þessari deilu.

Vladimir Pútin, Francoise Holland þáverandi Frakklandsforseti, Angela Merkel þáverandi kanslari Þýskalands og Petro Poroshenko þáverandi forseti Úkraínu við undiritun Minsk-samkomulagsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

Afrísk-amerísk kona í hæstarétt BNA?

Afrísk-amerísk kona í hæstarétt BNA?

Samkvæmt fréttum hyggst Joe Biden forseti Bandaríkjanna skipa afrísk ameríska konu í hæstarétt nú þegar Stephen Bryer lætur af störfum um mitt þetta ár. Fyrsta tilnefning forsetans verður kona af afrísk-amerískum uppruna og þá fyrsta blökkukonan sem tekur sæti í réttinunum. Verði sú skipan að veruleika eru Demókratar engu að síður enn í minnihluta með þrjár konur á móti  sex dómurum skipuðum af Repúblíkönum, þar af aðeins ein kona. Ekki er enn staðfest að Stephen Bryer muni láta af embætti en dómarar við hæstarétt Bandaríkjanna eru skipaðir ævilangt og hafa sumir gegnt störfum komnir hátt á níræðisaldur. Sá stórmerki dómari Oliver Wendell Holmes lét af störfum níræður, 1932. Sú sem þykir líklegust til að verða skipuð í stað Bryers dómara er Katanji Brown Jackson sem nú gegnir stöðu dómara við áfrýjunardómstólinn í Washington DC. Hún er menntuð á Harvard og var þá einnig ritstjóri Harvard Law Review.

Katanji Brown Jackson vakti athygli fyrir rökstuðning sinn  2019 fyrir úrskurði um að Trump forseti ætti að bera vitni í málinu varðandi meint afskipti Rússa af bandarískum kosningum. ,,Forsetar eru ekki kóngar. Þeir hafa ekki þegna sem ber að lúta þeim af lotningu og hverra örlögum þeir eiga heimtingu á að stjórna”.

Vill Biden bæta fyrir gamlar syndir?

Fram til þessa hafa aðeins tveir afrísk-amerískir dómarar setið í réttinum – báðir karlkyns, Thurgood Marshall frá 1967-1991 og arftaki hans Clarence Thomas sem er elsti dómarinn núna, 73 ára og varð frægur eða alræmdur þegar Anita Hill sakaði hann um kynferðislega áreitni löngu áður en byrjað var að taka mark á slíkum ásökunum.  Það var einmitt Joe Biden þá öldungadeildarþingmaður, sem var í forsæti á sínum tíma fyrir nefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings 1991 í vitnaleiðslum vegna ásakana Anitu Hill á Clarence Thomas sem þá hafði verið tilnefndur sem dómari við hæstarétt.

Panellinn sem sá um vitnaleiðslurnar í þinginu undir forsæti Bidens var eingöngu skipaður hvítum körlum og hefur Biden sætt gagrýni æ síðan fyrir það hvernig hann tók á málinu. Þingnefndin leyfði Clarence Thomas að bera vitnisburð á undan Anitu Hill þrátt fyrir að hafa áður gefið henni vilyrði um að hún mætti vitna fyrst. Þremur öðrum konum sem vildu vitna gegna dómaraefninu var ekki hleypt að.

Anita Hill er lögfræðingur (f. 1956). Hún starfaði sem lögfræðilegur ráðgjafi fyrir Clarence Thomas þegar hann var háttsettur á skrifstofu borgaralegra réttinda í menntamálaráðuneytinu. Þegar Clarence Thomas varð formaður stjórnskipaðrar nefndar um jöfn tækifæri á vinnumarkaði, sem sett var á laggirnar í kjölfar löggjafar um borgaraleg réttindi 1964, til að stemma stigu við mismunun á vinnustöðum, hélt Anita Hill áfram lögfræðilegur ráðgjafi hans.

Clarence Thomas hlaut skipun í réttinn þrátt fyrir ásakanir Anitu Hill en almenningur í Bandaríkjunum fylgdist grannt með vitnaleiðslunum sem vöktu athygli víða um heim. Í kjölfarið fjölgaði kærum um kynferðislega áreitni á vinnustöðum í Bandaríkjunum um helmng. Fleiri konur hlutu kosningu á þing árið eftir vitnaleiðslurnar, fjórar í öldungardeild og 24 í fulltrúadeild.

Í sjálfsævisögu sinni ,,Speaking Truth to Power” (Að segja sannleikann andspænis valdinu) gagnrýndi Anita Hill hvernig Joe Biden þá öldungadeildarþingmaður hafi staðið að vitnaleiðslunum þar eð hann hafi ekki efast um sakleysi Clarence Thomas og hafi með óviðeigandi hætt neytt hana til að fara út í ,,ógeðfelld” smáatriði um samskipti þeirra á vinnustað frammi fyrir þinginu og alþjóð.

Í kjölfar skipunar Clarence Thomas í hæstarétt sagði eiginkona hans í viðtali við People tímaritið að ásakanir Anitu Hill um kynferðislega áreitni hefðu verið af pólitískum toga og hún hefði líkast til verið ástfangin af Clarence Thomas en framkoma hennar hefði minnt á persónu úr kvikmyndinni Fatal Attraction sem ofsótti fyrrum elskhuga og fjölskyldu hans (ekki er vitað til þess að Anita Hill og Thomas hafi átt í ástarsambandi). Tæpum tveimur áratugum eftir vitnaleiðslurnar hafði Virginia Thomas samband við Anitu Hill þá prófessor við Brandeis háskólann í Boston og krafði hana um afsökunarbeiðni til mannsins síns.

Anita Hill olli straumhvörfum þegar hún sté fram í upphafi 10. áratugar síðustu aldar með ásakanir um kynferðsilega áreitni á hendur tilnefndum hæstaréttardóma. Slíkt krafðist mikils hugrekkis og hún var þá að synda gegn straumnum löngu áður en MeToo kom til sögunnar. Hún vildi ekki sætta sig við að vera á vinnustað þar karlar niðurlægðu konur í heyranda hljóði, töluðu opinskátt um brjóstastærðir kvenna og gerðu lítið úr þeim með einum eða öðrum hætti. Upptaka af vitnaleiðslum frá 1991 sýnist svo ekki verður um villst að körlunum sem yfirheyra Anitu Hill finnst lítið til málstaðs hennar koma. Einn þingmannanna spyr hana hvort hún sé full af heift í garð Thomas, gefandi til kynna að hann hafi hafnað henni en ekkert liggur fyrir um slíkt.

Joe Biden flýtur hins vegar með straumnum þegar hann hyggst skipa afrísk-ameríska konu í hæstarétt og í leiðinni ,,bæta fyrir” lélega frammistöðu í máli Anitu Hill fyrir rúmum þremur áratugum.

Anita Hill, Clarence Thomas og seinni eiginkona hans, Virgina Thomas sem krafði Hill um afsökunarbeiðni til mannsins síns 2010.

 

Með eitt af 10 bestu verkum ársins 2021

Með eitt af 10 bestu verkum ársins 2021

Herdís Stefánsdóttir – með eitt af tíu bestu kvikmyndatónverkum ársins!
“Y: The Last Man” (Herdís Stefánsdóttir)
2021 was a year when TV storytelling became invested in what the end of the world looks like. For this ten-part look at an Earth without men, Stefánsdóttir offers up a corresponding sound that doesn’t fit into a neat, natural box. Part of it has the guitar-driven sound the Wild West, a new frontier without rules. There’s a strain of droning dread, a threat simmering underneath the surface even before we see society collapsing. Stefánsdóttir, much like Craig Wedren and Anna Waronker use in their equally unsettling work on “Yellowjackets,” also incorporates some haunting vocals, deployed like the lingering whispers and echoes of the past. In this warped present, facing an unknown future, Stefánsdóttir doesn’t just rely on dissonance to add to the show’s urgency. Instead she uses the sense of decay within the “Y: The Last Man” premise and shapes it into a tribute of sorts to everything that these characters have lost in a transformed world.