Dr. Ólafur Mixa, fyrsti heimilislæknirinn – minningarorð

Dr. Ólafur Mixa, fyrsti heimilislæknirinn – minningarorð

Dr. Ólafur Franz Mixa lést að morgni laugardagsins 8. janúar, í kjölfar sjúkdómslegu. Banamein hans var hjartabilun. Útför hans fer fram í dag frá Fossvogskirkju.

Ólafur var fæddur 16. október árið 1939, í Graz í Austurríki, en bjó mestan hluta ævi sinnar í Reykjavík. Hann stundaði nám við læknadeild Háskóla Íslands og Ludwig-Maximilians-Universität í München, Þýskalandi. Ennfremur lauk hann sérnámi í heimilislækningum frá háskólanum í Calgary í Kanada.

Ólafur varð fyrsti Íslendingurinn til að fá sérfræðiviðurkenningu í heimilislækningum, en það var árið 1971. Stundaði hann lækningar um áratugaskeið við afar góðan orðstír. Ólafur var frumkvöðull við stofnun og uppbyggingu heilsugæslu á Íslandi.

Ólafur var listhneigður maður og gaf sig mikið að leiklist. Hann sat í ritstjórn Leikhúsmála 1964-65 og lék nokkur hlutverk í Þjóðleikhúsinu, hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar, Grímu og í Herranótt M.R.

Ólafur sat í aðalstjórn Rauða kross Íslands frá 1973 og var formaður Rauða krossins 1977-82. Ólafur var einn af stofnendum Félags íslenskra heimilislækna 1978, varaformaður félagsins 1978-82 og formaður 1983-87.

Ólafur var yfirlæknir heilsugæslunnar í Álftamýri 1986-94 og heilsugæslunnar í Lágmúla 1997-99 og yfirlæknir Skjóls frá stofnun 1987. Einnig var hann trúnaðarlæknir Leikfélags Reykjavíkur, þýska sendiráðsins og kanadíska konsúlatsins.

Ólafur var tvígiftur en báðar eiginkonur hans eru látnar. Fyrri eiginkona hans var Ásthildur Gísladóttir Köningseder sem lést árið 2008. Eftirlifandi börn þeirra eru Már og Halla Mixa.

Síðara hjónaband Ólafs var með Kristínu Þorsteinsdóttur sem lést árið 2017. Þau eignuðust eina dóttur, Katrínu Mixa.

Minningarorð í Morgunblaðinu 1. febrúar 2022

Ólafur Mixa læknir var hugsjónamaður. Kannski þess vegna sem hann gekk til liðs við framboð mitt til opinbers embættis 2012 og birti í því skyni grein í Morgunblaðinu á kjördegi sem ég stend í þakkarskuld fyrir. Hann vildi vekja athygli á málstaðnum um að fjármálaöfl ættu ekki að vera ráðandi í lýðræðislegum kosningum. Honum fannst gaman að „þessu bralli“ eins og hann orðaði það hnyttilega enda sýnt að hann brann fyrir réttlátu og minna spilltu þjóðfélagi. Ólafur var ritfær eins og hann átti kyn til. Hann helgaði líf sitt læknastarfinu en ekki stjórnmálum og ritstörfum eins og afi hans Ólafur og langafi Björn Jónsson ritstjóri – engu að síður ljóst að hann hafði í sér þann neista. Það mætti fara meira fyrir fólki með veglyndi, fas og þau heilindi sem einkenndu Ólaf Mixa. Eðli máls samkvæmt einkenna slíkir kostir oft ekki þá fyrirferðarmeiri á opinberum vettvangi. Dóttir hans Katrín lýsir honum m.a. með orðunum „femínískur karlmaður“. Hann var drengur góður og það stafaði frá honum birta. Það er missir fyrir samfélagið þegar slíkt valmenni hverfur á braut. Börnum og fjölskyldu Ólafs votta ég einlæga samúð.

– Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir

Grein sem Dr. Ólafur Mixa birti til stuðnings framboði Herdísar Þorgeirsdóttur 2012 sem vísað er í hér að ofan (birtist á kjördegi í Morgunblaðinu).

Óvissan

Óvissan

Staðsetning rússneskra hersveita – um 100 þúsund manns og vopnabúnaðar við landamæri Rússlands og Úkraínu sem og á landamærum Hvíta Rússlands og Úkraínu hefur vakið sterk viðbrögð innan Atlantshafsbandalagsins – auk þess er því haldið fram að Rússar séu í startholunum með skipaflota og flugsveitir komi til átaka. Ástandið veldur ótta. Rússar hafa mánuðum saman verið að byggja upp hernaðarmátt við landamæri Úkraínu sem Pútin, forseti Rússlands, segir að sé liður í að verja Rússa gegn ört vaxandi Atlantshafsbandalagi. Hann hefur lýst yfir vonbrigðum með þá afstöðu NATO að koma ekki til móts við kröfur Rússa um að meina Úkraínu þátttöku í bandalaginu.

Biden forseti Bandaríkjanna er óspar á yfirlýsingar um mögulega innrás Rússa í Úkraínu sem yrði með hans orðum ,,sú stærsta frá því í síðari heimsstyrjöldinni”. Komi til átaka er stigmögnun líkleg í tíma og rúmi. Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, hefur biðlað til alþjóða samfélagsins að halda aftur af hræðsluáróðri  því efnahagur Úkraínu sé í húfi.

En það kann einnig liggja fyrir lausn sem eru drögin að Minsk samkomulaginu frá 2015 á milli Frakka, Þjóðverja, Rússa og Úkraínu, stutt af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna – en því var ætlað að enda átökin í Donbas í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga 2014. Efnislega gæti Minsk-samkomulagið átt við núverandi stöðu. Á sínum tíma synjuðu Frakkar og Þjóðverjar tilboði Bandaríkjamanna um að fá Úkraínu til að ganga í NATO enda fyrirséð hver viðbrögð Rússa yrðu við því. Það boð kom upphaflega frá  George W. Bush 2008 og var síðar ítrekað af Barak Obama.  Minsk samkomulagið 2015 gekk út frá takmörkun vígbúnaðar í aðskilnaðarhluta Rússa í Donbas héraði og að hersveitir yrðu fjarlægðar um leið og fullveldi Úkraínu  yrði tryggt og stjórn yfir landamærum við Rússland sem og sjálfstjórn Donbas-héraðs. Minsk samkomulaginu hefur hins vegar ekki verið hrint í framkvæmd.

Emmanuel Macron forseti Frakklands sagði nýlega að mikilvægt væri að endurvekja fjórhliða viðræður Rússa, Þjóðverja, Frakka og Úkraínu til að finna lausn á stigmögnun átaka. Eins og samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna er nú háttað gætu ríki Evrópu stigið inn og reynt að miðla málum. Öryggi og friður í Evrópu er einnig í húfi.

Hvað varðar kröfu Rússa um að Úkraína gangi ekki í NATO má minna á  Svíþjóð og Finnland sem ekki eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu og lýstu áður yfir hlutleysi vegna nálægðar við Rússland. Því hlutleysi var hins vegar aflýst þegar þau gengu í Evrópusambandið þótt þau séu formlega ekki aðilar að NATO. Síðustu vikur og daga hefur verið ítrekað af hálfu forsvarsmanna NATO að dyrnar að bandalaginu stæðu þeim opnar. Bæði ríkin hafa aukið sveigjanleika í stuðningi við NATO með því að hleypa hersveitum Atlantshafsbandalagsins inn í lögsögu sína á krísutímum. Það hefði hins vegar bæði hernaðarlegar og pólitískar afleiðingar gengju Svíar og Finnar í NATO. Ólíklegt er annað en að Rússar myndu bregðast við því með einhverjum hætti. Að sama skapi er óþolandi fyrir fullvalda ríki annað en að hafa valkostinn og vera ekki múlbundin af skilyrðum nærliggjandi stórvelda.

Þrátt fyrir að Rússar virðist í startholunum að ráðast inn í Úkraínu með uppbyggingu á hernaðarmætti á landamærunum – og að til innrásar kæmi á næstu vikum er ólíklegt að NATO ríkin myndu blanda sér beint í slík átök en þau myndu hafa voveiglegar afleiðingar fyrir stöðuna á alþjóðavettvangi. Það er einnig ljóst að í því er fólgin mikil áhætta fyrir Rússa að ráðast inn í Úkraínu. Bandaríkin gætu brugðist hart við og Rússar væru komnir í ógöngur.

Pútin talar fyrir rússneskum hagsmunum og aðgerðir síðustu mánaða eru til að staðfesta alvöruna – því liggur beinast við að tala saman áður en stórslys verður. Það er ótækt annað en að finna lausn á þessari deilu.

Vladimir Pútin, Francoise Holland þáverandi Frakklandsforseti, Angela Merkel þáverandi kanslari Þýskalands og Petro Poroshenko þáverandi forseti Úkraínu við undiritun Minsk-samkomulagsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

Biðtíminn styttist

Biðtíminn styttist

Samkvæmt 15. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu styttist fresturinn, til að kæra mál til dómstólsins, úr 6 mánuðum í 4 mánuði frá því að réttarúrræði innanlands eru tæmd. Þessi nýja fjögurra mánaða regla gildir frá 1. febrúar 2022. Hún gildir þó aðeins í málum þar sem lokaákvörðun innanlands er tekin 1. febrúar 2022 eða síðar. Þessi breytti frestur var ákveðinn af öllum 47 aðildarríkjum Evrópuráðsins.

Táknmynd þess góða

Táknmynd þess góða

Þessi gamli bolur hangir saman, grunar mig,  á óskhyggju minni og tilfinningum fremur en efnisþráðum – hann er alveg að detta í sundur því set ég hann á þetta herðatré og tek mynd, þótt það standi alls ekki til að henda honum. Ég geymi þennan bol þar til yfir lýkur og þá sögu sem býr að baki. Við vorum fjölskyldan á leið til Lundar í Svíþjóð með fjögur ung börn.  Nokkuð langt ferðalag og millilent á Kastrup þaðan sem ferjan var tekin yfir til Malmö – þetta var áður en Eyrarsundsbrúin sem tengir Danmörku og Svíþjóð var komin til sögunnar. Það var hiti í lofti á þessu júníkvöldi og enn bjart þótt klukkan væri að ganga níu.  Börnin voru útkeyrð og enn nokkurra tíma ferð eftir.

 

Við vorum nýkomin um borð í ferjunni þegar næst yngsta barnið, þriggja ára sonur, datt og meiddi sig illa á höfði. Það fossblæddi þótt skurðurinn virtist ekki djúpur. Eina ráðið í stöðunni var að grípa það sem var hendi næst, bómullartrefil til að vefja um höfuð drengsins og halda honum þétt að sér. Um leið og við kæmum til Svíþjóðar myndum við geta látið lækni skoða hann.  Um borð voru margir farþegar en flestir fálátir þótt litli drengurinn gréti og reyndar yngri bróðir hans líka sem þá var aðeins nokkurra mánaða gamall. Við vorum öll þreytt. Ég man enn þá eftir svipnum á íslenskri konu sem var þarna um borð í ferjunni ásamt manni sínum og sneri sér önuglynd við og virti grátandi barnið fyrir sér. Aðrir nærstaddir voru fályndir. Hver mínúta var lengi að líða þar sem maður velti fyrir sér hvort barnið hefði fengið  slæmt höfuðhögg enda bómullartrefillinn sem ég hélt um höfuð hans orðinn blóðugur. Þegar ég leit snöggvast upp sá ég tvo unga menn í kringum tvítugt sem stóðu rétt hjá. Augsýnilega bandarískir, með bakpoka, derhúfur, í snjáðum gallabuxum og bómullarbolum. Annar þeirra virtist fylgjast grannt með okkur og það var samúð í svipnum. Allt í einu tók hann af sér bakpokann, fór úr bolnum sínum og rétti mér hann – til að setja utan um um höfuð barnsins í stað blóðugs trefilsins. Ég man að hann var með dökka liði í hárinu og  svo svipfallegur –  fannst mér á þeirri stundu svo hrærð sem ég varð við þetta einstaka tákn samkenndar. Minnug önuga svipsins á íslensku frúnni með burstaklippinguna og afskiptalausra farþega stendur þessi ungi maður, sem rétti mér bolinn sinn, mér enn fyrir hugskotssjónum sem táknmynd kærleikans – þess mikilvægasta í allri veröldinni. Ekki veit ég nafnið hans eða hvar hann er niðurkominn. En ég mun aldrei gleyma honum. Hann vinkaði glaðlega til okkar þegar við stigum frá borði í Malmö þar sem hann gekk í burtu ásamt félaga sínum ber að ofan með bakpokann sinn og derhúfuna. Þegar læknir hafði skoðað barnið gátum við farið heim – og allt var í lagi. Bolinn þvoði ég í fyrsta sinn daginn eftir og síðan hef ég örugglega þvegið hann hundrað sinnum – en nú ekki meir því hann þolir ekki fleiri þvotta. Hann er á góðum stað í fataskápnum mínum en árum saman svaf ég oft í honum ef ég þurfti að minna mig á mátt hins góða í heiminum

Fyrsta konan sem varð stórmeistari í skák stefnir Netflix

Fyrsta konan sem varð stórmeistari í skák stefnir Netflix

Fyrsta konan sem fékk titilinn stórmeistari í skák, Nona Gaprindashvili, hefur stefnt efnisveitunni Netflix fyrir meiðyrði og krefst 5 milljóna dala í miskabætur. Hún telur að hin vinsæla þáttaröð ,,The Queen’s Gambit” sé lítilsvirðandi fyrir hana sem ruddi brautina fyrir konur í skák og sýni fordóma í garð kvenna. Hún segir að söguþráðurinn af fyrsta kvenstórmeistaranum í þáttaröðinni sé fullur af meiðandi rangfærslum sem geri lítið úr afrekum hennar og sigrum í skákinni, frammi fyrir milljónum áhorfenda. Gaprindashvili er áttræð og býr í Tbilisi, höfuðborg Georgíu.

Netflix fór upphaflega fram á að meiðyrðamálinu yrði vísað frá dómi þar sem sjónvarpsserían sé skáldskapur og handritshöfundur njóti verndar tjáningarfrelsisákvæðis bandarísku stjórnarskrárinnar. Að sögn lögmanna Netflix reiddu framleiðendur þáttanna sig á tvo skáksérfræðinga við gerð þeirra og með skírskotun til Nonu Gaprindashvili hafi ætlunin verið að sýna henni heiður en ekki að lítillækka hana.

,,Skáldverk eru ekki undanþegin kröfum um miskabætur vegna meiðyrða þegar fyrirmyndir eru byggðar á raunverulegum persónum”

Dómarinn sem tók málið fyrir í Kaliforníu neitaði að verða við kröfu um frávísun frá dómi, sem þýðir að málið verður tekið fyrir efnislega. Dómarinn kvað kröfur Nonu Gaprindashvili ekki ósanngjarnar og sagði skáldverk ekki undanþegin kröfum um miskabætur vegna meiðyrða þegar fyrirmyndir væru byggðar á raunverulegum persónum.

Nona Gaprindashvili var fyrsta kona til að fá titilinn stórmeistari í skák. Hún stefndi efnisveitunni Netflix í september síðastliðnum og segir ranglega farið með framlag hennar í skákinni þar sem söguhetja þáttanna sé látin segja að hún hafi aldrei teflt við karlmenn og það sé þrungið af kynjafordómum og lítillækkandi fyrir stórmeistarann Nona Gaprindashvili sem hafði teflt við 59 karlkyns skákmeistara 1968, sem markar upphaf þeirrar sigurgöngu sem þáttaröðin tekur til.

Þáttaröðin „The Queen‘s Gambit“ vann til 11 Emmy verðlauna árið 2021 og byggir á bók Walter Tevis sem kom út 1983. Sagan segir frá afrekum Beth Harmon á skáksviðinu á sjöunda áratug síðustu aldar þegar Nona Gaprindashvili varð fyrst kvenna til að öðlast titilinn stórmeistari í skák.

Afrísk-amerísk kona í hæstarétt BNA?

Afrísk-amerísk kona í hæstarétt BNA?

Samkvæmt fréttum hyggst Joe Biden forseti Bandaríkjanna skipa afrísk ameríska konu í hæstarétt nú þegar Stephen Bryer lætur af störfum um mitt þetta ár. Fyrsta tilnefning forsetans verður kona af afrísk-amerískum uppruna og þá fyrsta blökkukonan sem tekur sæti í réttinunum. Verði sú skipan að veruleika eru Demókratar engu að síður enn í minnihluta með þrjár konur á móti  sex dómurum skipuðum af Repúblíkönum, þar af aðeins ein kona. Ekki er enn staðfest að Stephen Bryer muni láta af embætti en dómarar við hæstarétt Bandaríkjanna eru skipaðir ævilangt og hafa sumir gegnt störfum komnir hátt á níræðisaldur. Sá stórmerki dómari Oliver Wendell Holmes lét af störfum níræður, 1932. Sú sem þykir líklegust til að verða skipuð í stað Bryers dómara er Katanji Brown Jackson sem nú gegnir stöðu dómara við áfrýjunardómstólinn í Washington DC. Hún er menntuð á Harvard og var þá einnig ritstjóri Harvard Law Review.

Katanji Brown Jackson vakti athygli fyrir rökstuðning sinn  2019 fyrir úrskurði um að Trump forseti ætti að bera vitni í málinu varðandi meint afskipti Rússa af bandarískum kosningum. ,,Forsetar eru ekki kóngar. Þeir hafa ekki þegna sem ber að lúta þeim af lotningu og hverra örlögum þeir eiga heimtingu á að stjórna”.

Vill Biden bæta fyrir gamlar syndir?

Fram til þessa hafa aðeins tveir afrísk-amerískir dómarar setið í réttinum – báðir karlkyns, Thurgood Marshall frá 1967-1991 og arftaki hans Clarence Thomas sem er elsti dómarinn núna, 73 ára og varð frægur eða alræmdur þegar Anita Hill sakaði hann um kynferðislega áreitni löngu áður en byrjað var að taka mark á slíkum ásökunum.  Það var einmitt Joe Biden þá öldungadeildarþingmaður, sem var í forsæti á sínum tíma fyrir nefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings 1991 í vitnaleiðslum vegna ásakana Anitu Hill á Clarence Thomas sem þá hafði verið tilnefndur sem dómari við hæstarétt.

Panellinn sem sá um vitnaleiðslurnar í þinginu undir forsæti Bidens var eingöngu skipaður hvítum körlum og hefur Biden sætt gagrýni æ síðan fyrir það hvernig hann tók á málinu. Þingnefndin leyfði Clarence Thomas að bera vitnisburð á undan Anitu Hill þrátt fyrir að hafa áður gefið henni vilyrði um að hún mætti vitna fyrst. Þremur öðrum konum sem vildu vitna gegna dómaraefninu var ekki hleypt að.

Anita Hill er lögfræðingur (f. 1956). Hún starfaði sem lögfræðilegur ráðgjafi fyrir Clarence Thomas þegar hann var háttsettur á skrifstofu borgaralegra réttinda í menntamálaráðuneytinu. Þegar Clarence Thomas varð formaður stjórnskipaðrar nefndar um jöfn tækifæri á vinnumarkaði, sem sett var á laggirnar í kjölfar löggjafar um borgaraleg réttindi 1964, til að stemma stigu við mismunun á vinnustöðum, hélt Anita Hill áfram lögfræðilegur ráðgjafi hans.

Clarence Thomas hlaut skipun í réttinn þrátt fyrir ásakanir Anitu Hill en almenningur í Bandaríkjunum fylgdist grannt með vitnaleiðslunum sem vöktu athygli víða um heim. Í kjölfarið fjölgaði kærum um kynferðislega áreitni á vinnustöðum í Bandaríkjunum um helmng. Fleiri konur hlutu kosningu á þing árið eftir vitnaleiðslurnar, fjórar í öldungardeild og 24 í fulltrúadeild.

Í sjálfsævisögu sinni ,,Speaking Truth to Power” (Að segja sannleikann andspænis valdinu) gagnrýndi Anita Hill hvernig Joe Biden þá öldungadeildarþingmaður hafi staðið að vitnaleiðslunum þar eð hann hafi ekki efast um sakleysi Clarence Thomas og hafi með óviðeigandi hætt neytt hana til að fara út í ,,ógeðfelld” smáatriði um samskipti þeirra á vinnustað frammi fyrir þinginu og alþjóð.

Í kjölfar skipunar Clarence Thomas í hæstarétt sagði eiginkona hans í viðtali við People tímaritið að ásakanir Anitu Hill um kynferðislega áreitni hefðu verið af pólitískum toga og hún hefði líkast til verið ástfangin af Clarence Thomas en framkoma hennar hefði minnt á persónu úr kvikmyndinni Fatal Attraction sem ofsótti fyrrum elskhuga og fjölskyldu hans (ekki er vitað til þess að Anita Hill og Thomas hafi átt í ástarsambandi). Tæpum tveimur áratugum eftir vitnaleiðslurnar hafði Virginia Thomas samband við Anitu Hill þá prófessor við Brandeis háskólann í Boston og krafði hana um afsökunarbeiðni til mannsins síns.

Anita Hill olli straumhvörfum þegar hún sté fram í upphafi 10. áratugar síðustu aldar með ásakanir um kynferðsilega áreitni á hendur tilnefndum hæstaréttardóma. Slíkt krafðist mikils hugrekkis og hún var þá að synda gegn straumnum löngu áður en MeToo kom til sögunnar. Hún vildi ekki sætta sig við að vera á vinnustað þar karlar niðurlægðu konur í heyranda hljóði, töluðu opinskátt um brjóstastærðir kvenna og gerðu lítið úr þeim með einum eða öðrum hætti. Upptaka af vitnaleiðslum frá 1991 sýnist svo ekki verður um villst að körlunum sem yfirheyra Anitu Hill finnst lítið til málstaðs hennar koma. Einn þingmannanna spyr hana hvort hún sé full af heift í garð Thomas, gefandi til kynna að hann hafi hafnað henni en ekkert liggur fyrir um slíkt.

Joe Biden flýtur hins vegar með straumnum þegar hann hyggst skipa afrísk-ameríska konu í hæstarétt og í leiðinni ,,bæta fyrir” lélega frammistöðu í máli Anitu Hill fyrir rúmum þremur áratugum.

Anita Hill, Clarence Thomas og seinni eiginkona hans, Virgina Thomas sem krafði Hill um afsökunarbeiðni til mannsins síns 2010.