Kristinn Björnsson – minningarorð

Kristinn Björnsson – minningarorð

Kristinn BjörnssonNærvera Kristins Björnssonar fór ekki fram hjá fólki. Hann var glæsimenni. Sé hann fyrir mér hávaxinn, ljóshærðan, með gleraugun og bros í augunum; umkringdan fólki. Hann var með skemmtilegri mönnum, fyndinn, fljótur til svars og glöggur á menn og málefni.

Í hugann kemur upp kvöld á Fjólugötu, æskuheimili þeirra systkina, hans, Emilíu vinkonu minnar, Sjafnar og Áslaugar. Það var veisla og þarna voru foreldrar þeirra, vinir og frændfólk. Þarna var Kristinn, nýútskrifaður lögfræðingur ásamt Sólveigu sinni og frumburði þeirra. Árum saman hitti maður ekki eingöngu vini Emilíu í boðum, heldur einnig vini systkina hennar, frændfólk og foreldrana Sjöfn og Björn. Það er stór hópur af fólki sem þekkist í gegnum tengsl við þessa skemmtilegu og góðu fjölskyldu.

Kristinn ólst upp með þremur glaðværum systrum og var augsýnilega náinn báðum foreldrum sínum. Hann var skírður eftir móðurafa sínum, Kristni, sem kenndur var við Geysi og Emilía sagði að hefði alltaf verið óaðfinnanlegur í klæðaburði. Þannig var Kristinn. En hann var einnig mjög líkur föður sínum Birni, eins og Emilía, sem var svo sjarmerandi, fyndinn og hlýr maður. Kristinn hitti oft naglann á höfuðið og með eftirminnilegum hætti. Um Emilíu systur sína sagði Kristinn að hún sameinaði marga eftirsóknarverðustu kosti sem eina manneskju prýða. Hann hafði  ýmsa þessa kosti sjálfur. Þar stendur upp úr trygglyndi.

Á fundi í Aðalstræti 4 á Heimsmyndarárunum. Myndin er tekin 1991. Frá vinstri Sigurður Gísli Pálmason, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, Pétur Björnsson, Herdís Þorgeirsdóttir, Hildur Grétarsdóttir og Kristinn Björnsson, sem gegndi stjórnarformennsku í Ófeigi hf., sem gaf út Heimsmynd frá 1986-1993.

Þegar ég stofnaði útgáfufyrirtæki í janúar 1986 til að gefa út tímaritið Heimsmynd fékk ég Kristinn til að koma í stjórn ásamt nokkrum öðrum einstaklingum í viðskiptalífinu. Taldi að það myndi styrkja stöðu blaðsins á auglýsingamarkaði. Tíminn leiddi í ljós að því gagnrýnni sem skrif í blaðinu urðu því erfiðar átti það uppdráttar.  Þrátt fyrir góðan hug stjórnarmanna var ekki auðvelt fyrir þá að sitja undir þrýstingi þegar greinar í tímaritinu voru farnar að ganga nærri jafnvel samstarfsaðilum þeirra í viðskiptalífi og pólitík. Leiðir hlutu að skilja en það var með þeim hætti að engan skugga bar á.

Það er sjónarsviptir af Kristni Björnssyni. Hann var góður maður. Oscar Wilde sagði beisklega að það væri fáránlegt að flokka fólk eftir því hvort það væri gott eða slæmt. Annað hvort væri fólk sjarmerandi eða leiðinlegt. Kristinn féll einnig þar í fyrri flokkinn.

Votta Sólveigu, börnum, tengdadóttur og barnabörnum innilega samúð sem og Emilíu vinkonu minni og fjölskyldunni allri.

(Minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu sama dag og útför Kristins Björnssonar fór fram í Dómkirkjunni, 10. nóvember 2015. Kristinn Björnsson lést 31. október 2015 í kjölfar erfiðra veikinda. Hann var fæddur 17. apríl 1950.)

Tala á fundi Evrópuráðsnefndar um lagalega samvinnu aðildarríkja

Tala á fundi Evrópuráðsnefndar um lagalega samvinnu aðildarríkja

herdís fundur strassborg 30 okt 2015Var beðin að vera með framsögu á fundi nefndar Evrópuráðsins um lögfræðilega samvinnu aðildarríkjanna 47. Fundurinn fór fram í Evrópuráðshöllinni í Strassborg hinn 30. október. Umfjöllunarefnið var kynjasamþætting í löggjöf og stefnumótun. Konur eru enn beittar misrétti þrátt fyrir jafnréttislöggjöf og alþjóðlega samninga. Það er full þörf á að hafa áhyggjur af því að konur hafa víðar lakari aðgang að dómskerfinu; þær eru almennt verr launaðar og verr staddar.

Sjá ræðu hér: Presentation Strasbourg 30 Oct 2015 PDF

 

Aðalfundur Feneyjanefndar 23. október 2015

Aðalfundur Feneyjanefndar 23. október 2015

herdís feneyjanefnd okt 2015Stýri hér á myndinni fundi Feneyjanefndar eftir hádegi föstudaginn 23. október þar sem tekin eru fyrir drög að álitum nefndarinnar varðandi lög sem eiga að stemma stigu við pólitískri spillingu í Úkraínu og fjárframlögum til stjórnmálamanna.

Chairing the Friday afternoon session of the 104th Plenary of the Venice Commission examining with a view to adoption draft opinions on legislative acts concerning prevention of and fight against political corruption in Ukraine.

Samhljómur: Helga Þórarins víóluleikari

Samhljómur: Helga Þórarins víóluleikari

NOIR BLANCHelga grunnur in process Tónlistarmenn og vinir Helgu Þórarinsdóttur víóluleikara halda tónleika henni til styrktar í Norðurljósasal Hörpu sunnudagskvöldið 11. október kl. 20.

Helga var leiðari víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í fjölda ára allt þar til að hún í nóvember 2012 lenti í slysi og varð fyrir mænuskaða. Einnig spilaði hún víða sóló, kammertónlist og fleira ásamt því að sinna kennslu. Helga getur ekki lengur leikið á víóluna en heldur áfram að kenna ungu fólki, sækja tónleika og aðra menningarviðburði eins og henni er unnt. Hjólastóllinn er hennar nýi ferðamáti og stjórnar því hvert hún kemst. Tónleikarnir, sem vinir Helgu með aðstoð starfsfólks Sinfóníunnar standa að, eru ætlaðir til að styrkja hana til að kaupa sérútbúna bifreið. Slík bifreið er afar dýr en myndi stórauka ferðafrelsi Helgu.

Boðið er upp á fjölbreytta efnisskrá með þekktum listamönnum:
Sigrún Eðvaldsdóttir mætir með strengjasveit úr S.Í., Ásgeir Steingrímsson og félagar með gyllta lúðra, Bryndís Halla Gylfadóttir með tangótríó, Laufey Sigurðardóttir, Einar Jóhannesson og fleiri með salonmúsík, Snorri Sigfús Birgisson með eigin tónsmíð. Einnig koma fram 8 selló og Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran, Voces Thules, Hundur í óskilum, Edda Þórarinsdóttir, Egill Ólafsson og að auki stýrir Helga Þórarinsdóttir tónlistaratriði. Kynnir verður Pétur Grétarsson.

Myndskreytingin er eftir listakonuna Helgu Björnsson.

http://harpa.is/dagskra/samhljomur-helga-thorarins-violuleikari

Ársþing Alþjóðasamtaka Lögmanna í Vín

Ársþing Alþjóðasamtaka Lögmanna í Vín

herdís International Bar AssociationVar með fyrirlestur á ársþingi alþjóðasamtaka lögmanna (International Bar Association) sem nú stendur yfir í Vín. Umræðum stjórnaði barónessa Helena Kennedy (yst til hægri) sem á sæti í bresku lávarðadeildinni. Á myndinni eru aðrir framsögumenn á fundinum í morgun, Lucy Scott-Moncrieff lögmaður í London og Nick Stanage en hann og barónessa Kennedy eru lögmenn á virtri stofu í London, Doughty Street Chambers, en þar starfar einnig mannréttindalögfræðingur, sem er stöðugt í sviðsljósinu ekki síst vegna að hún er gift heimsfrægum Hollywoodleikara. Á þinginu í Vín eru um 6 þúsund lögmenn alls staðar að en alþjóðasamtök lögmanna eru með mörg áhugaverð mál á dagskrá (t.d. spillingu) og fundurinn í morgun var bæði fróðlegur og skemmtilegur. Næsti fundur verður haldinn í Washington D.C. haustið 2016 (á sama tíma og bandarísku forsetakosningarnar verða).